07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka hæstv. forsrh. fyrir það að hann las fyrir okkur hér upp- úr Morgunblaðinu, en annars má hann vita það, að stjórnarandstaðan hlýtur auðvitað að lesa Morgunblaðið, þegar á fyrstu síðu þess skartar viðtal við sjálfan forsrh. um svo óvenjulegt mál sem hér er um að ræða. Svo sinnulaus er stjórnarandstaðan ekki, að hæstv. forsrh. megi efast nm það.

En það, sem hæstv. forsrh. að öðru leyti hafði okkur að segja, var það, að hann og öll hans ríkisstj. hefði að undanförnu verið að berjast hinni góðu baráttu móti útgerðarmönnunum og hefði beðið ósigur, hefði ekki við neitt ráðið. Það var það, sem hann sagði okkur í viðbót við Morgunblaðið. Og ég álít, að það séu dapurleg örlög hæstv. ríkisstjórnar að hafa beðið slíkan ósigur. Hann hafði meira að segja brýnt útgerðarmennina, þegar hann var að verjast þeim, og sagt þeim: Það kemur ríkisstjórninni ykkar mjög illa, ef þið gerið þetta. — Og þeir gerðu það samt. Þeir virðast m.ö.o. vera búnir að segja sinni góðu ríkisstj. upp trú og hollustu, og mætti þá vænta, að fleiri væru farnir að hrynja af hæstv. ríkisstjórn.

Það er alveg áreiðanlegt, að stjórnarblaðið Vísir; sem skrifaði um þetta mál núna um helgina og sagði, að þetta væri bein gengislækkun, hefur alveg hitt naglann á höfuðið, og öll þjóðin viðurkennir, að þetta stjórnarblað hafi rétt fyrir sér. Og það er það, sem þjóðinni þykir það furðulegasta: Ef gengisskráning er ekki lengur í höndum íslenzku ríkisstjórnarinnar og hennar barátta gegn því, að genginu sé breytt af ákveðnum hagsmunahópum í þjóðfélaginn, endar á þann veg, að ríkisstj. beri lægri hlut, þá þykir þjóðinni það áreiðanlega alvarleg tíðindi.

Ég held nú, að mörgum sé svo farið, að þeir geti ekki tekið þetta sem góða og gilda vöru samt. En svo mikið er víst, að því verra er, að útgerðarmennirnir skuli hafa gert þetta, sem það er staðreynd, að um s.l. áramót ákváðu sjómannasamtökin í landinu að segja ekki upp samningum sínum við útgerðarmenn. Síðan, eftir að kaupgjaldsbreytingar höfðu átt sér stað, fóru þeir bónarveg að útgerðarmönnum og samtökum þeirra, Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, og vildu fá án samningsuppsagnar samkomulag um tilsvarandi kjarabót til handa sjómönnum og verkalýðurinn hefði fengið. Þessu neituðu útgerðarmenn. Þegar svona er í pottinn búið, þá er það alveg áreiðanlegt, að það mælist því verr fyrir af sjómannasamtökunum, að útgerðarmennirnir skuli hafa gert þetta og komizt áfram með þetta þrátt fyrir ríkisstjórnina, sem segist hafa beitt sér gegn því. Ég er alveg viss um, að það er alveg ómögulegt að hugsa sér, að sjómannasamtökin láti vera að segja upp samningum sínum eftir það, sem á undan er gengið, og eftir það, sem útgerðarmennirnir hafa nú gert, og það hlífir þeim ekkert, þó að það sé upplýst, að ríkisstj. hafi verið að berjast við þá og ekki ráðið við þá. Það gerir aðeins hlut ríkisstjórnarinnar verri.