07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það gerir hlut ríkisstj. hvorki betri né verri, þó að útgerðarmenn eins og aðrir borgarar í þessu þjóðfélagi reyni að vernda sína pyngju. Ég geri ráð fyrir, að hv. síðasti ræðumaður, sem er formaður Alþýðusambandsins, gangi þess ekki dulinn, að ýmsir aðrir þjóðfélagsþegnar hafa líka gert tilraunir til að auka sínar tekjur gegn ráðum ríkisstj. og þótzt jafngóðir borgarar fyrir því og jafnvel jafngóðir stuðningsmenn ríkisstj: sumir þeirra.

Annars vil ég benda mönnum á, að ég tel ekkert nýtt hafa komið fram í þessu máli, þó að útgerðarmenn eða gjaldeyriseigendur hækki álagið; því að þetta er réttur, sem þeir hafa áskilið sér frá öndverðu og stöðugt hefur verið að stinga upp höfðinu nær framkvæmdinni, eins og það mætti orðast, með hækkandi verðlagi á fiski, m.a., eins og ég áðan gat um, til sjómanna úr 75 aurum á þessu tímabili og upp í kr. 1.22 kg af slægðum þorski með haus.

Ég tel, að ríkisstj. hafi engan ósigur beðið, þó að menn, sem telja sig hafa rétt til að auka tekjur sínar, hagnýti þann rétt, enda þótt ríkisstj. áliti, að þeir hafi ekki nægjanlega skynsamleg rök fyrir því að gera það.

Ég vara menn við því að hafa of mikið á orði; að slík hækkun á bátagjaldeyrinum sé of skyld gengislækkun. Við skulum forðast í lengstu lög að rugla saman þessum fríðindum, sem útvegurinn nýtur á takmörkuðum hluta gjaldeyrisins, sem ekki nemur meiru en 12–15% af kaupaþörfum okkar frá útlöndum og í meginefnum hefur verið miðaður við vörur, sem menn að vísu vilja kaupa, en ekki er talið með öllu ókleift fyrir almenning að vera án, — við skulum gjalda varhuga við að rugla þessu um of saman við gengisfellinguna.

Bátagjaldeyririnn er böl, en hann er þó gersamlega smávægilegt böl eða óþægindi samanhorið við gengisfallið. Ég tel, að við eigum allir, hvar sem við stöndum í fylkingu, að reyna að forðast nýtt gengisfall. Hér varð nýtt gengisfall, Ég sá, að nokkrir góðir stjórnarandstæðingar voru að stinga saman nefjum, þ. á m. einn samstarfsmaður minn, sem sat í stjórn, ef ég man rétt, þegar gengið féll 1949, af því að pundið féll og íslenzka krónan var látin falla með því. Svo féll gengið aftur 1950 undir forustu þeirrar stjórnar, sem síðar sat og var skipuð þeim sömu flokkum og nú bera ábyrgð á stjórninni. Ég segi:

Við eigum allir að reyna að sameinast um að forða því böli, að gengið þurfi að falla að nýju.

Ég viðurkenni, að ég hef ævinlega borið kvíðboga fyrir því, að kauphækkanir í landinu leiddu til gengisfalls, og ég viðurkenni, að þarna eru viss lögmál að verki, sem enginn okkar ræður við. En við skulum þó ekki telja okkur trú um, að sá voði sé kominn inn fyrir dyrnar, meðan hann getur enn ekki opnað þann lás, sem við nú höfum lyklavöldin að að nokkru leyti eða í vissum skilningi þó.

Ég vil leiða athygli hv. 2. þm. Reykv. að því, að þær vörur, sem bátagjaldeyririnn nær til, eru ekki seldar í neinni einokunarverzlun, það geta allir flutt þær inn, sem bátagjaldeyrinn kaupa. Eigi hann hins vegar við, að það sé bátagjaldeyririnn sjálfur, sem einokunin sé á og samkeppnislaus með öllu, eins og hann segir, þá skýzt honum yfir mjög veigamikinn þátt í því máli, en hann er sá, að ef vörurnar, sem eru keyptar fyrir bátagjaldeyrinn, eru óhóflega dýrar, þ.e.a.s. ef álagið á bátagjaldeyrinn verður óhóflegt, þá seljast þessar vörur ekki; þá kaupa menn heldur aðrar vörur í staðinn fyrir vörurnar, sem bátagjaldeyririnn nær til, svo að þar er einnig visst aðhald að verki. Loks vil ég, að menn séu minnugir þess, að ríkisstj. skerti réttindi útvegsins um síðustu áramót um 10%, af því að hún ætlaði sér þá að reyna að hindra verðhækkanir í landinu og vildi byrja með því að lækka tekjufríðindi útvegsins, og sú skerðing hefur ekki verið afnumin.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að sú tilkynning, sem gjaldeyriseigendur hafa gefið ríkisstj. um það, að þeir ætli ekki að hækka gjaldeyrisálagið, meðan stendur á sölu gjaldeyris fyrir framleiðsluna 1955, er það bindandi, að ef ætti að rifta þeirri tilkynningu, þá mundi ég a.m.k. hiklaust standa gegn því með nýjum lögum, ef með þyrfti. Ég tel hins vegar, að sá siðferðislegi réttur, sem þeir fengu og hafa talið sig byggja á, sé þess eðlis, að ég mundi ekki treysta mér á þessu stigi málsins að rísa gegn þeirri framkvæmd, sem nú var viðhöfð um hækkunina. En eftir tilkynninguna, sem nú hefur verið gefin, mundi ég — og það endurtek ég — alveg hiklaust telja, að þeir hefðu misst þann siðferðislega rétt, sem þeir kunna að hafa haft til þeirrar hækkunar, sem nú var framkvæmd.