18.11.1955
Sameinað þing: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Við útvarpshlustendur á Íslandi erum ýmsu vanir af hinu svonefnda hlutlausa ríkisútvarpi. Það hefur verið áberandi, a.m.k. hin síðari ár, hvernig vissir hátíðisdagar, eins og 1. maí og 17. júní, hafa stundum verið misnotaðir í áróðursskyni af stjórnarvöldum landsins og öðrum háttsettum aðilum, sem hafa haft aðstöðu til þess og látið sér sæma að nota slíka daga til áróðurs fyrir sínum málum og hugmyndum. Þó held ég, að flest met hafi verið slegin í gærkvöld, þegar undir því yfirskini, að verið væri að flytja fréttaauka, var lesinn útdráttur úr ræðu, sem hæstv. forsrh. hafði haldið í gærdag á fundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Sá útdráttur, sem lesinn var í ríkisútvarpið í gærkvöld undir því yfirskini, að hér væri um fréttir eða fréttaauka að ræða, sýnist mér prentaður orðrétt í Morgunblaðinu í dag. Maður hlaut að búast við því, að þegar tilkynnt var um slíkan fréttaauka frá hæstv. forsrh., mundi þar vera um að ræða einhver tíðindi varðandi ný úrræði hæstv. ríkisstj. að því er varðaði sjávarútveginn, en eins og allir, sem á hlýddu, hafa gert sér ljósa grein fyrir, var ekki um slíkt að ræða, heldur mjög ómengaðan áróður fyrir stefnu hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega stefnu hæstv. ráðherra sjálfs í sjávarútvegsmálum og hatrammar ádeilur á stjórnarandstöðuna. Ég vil aðeins, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér örfáar setningar úr þessum „fréttaauka“, eins og hann birtist í Morgunblaðinu í dag, en ég hygg, að hann hafi verið lesinn svo orðrétt í ríkisútvarpinu í gærkvöld. Þegar hæstv. forsrh. hefur minnzt á gengisfellinguna 1950, kemst hann svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„...að þetta hefði sætt mikilli gagnrýni stjórnarandstöðunnar, sem þó engin önnur úrræði hefði borið fram og allra sízt bent á, hvernig skyldi innheimta þá skatta, sem ella hefði þurft að leggja á þjóðina. Rétt væri, að vonirnar, sem tengdar væru við gengislækkunina, hefðu ekki að fullu rætzt“ o.s.frv.

Og síðar segir í þessum útdrætti úr ræðu ráðh.: „Allar hefðu þessar ráðstafanir ríkisvaldsins sætt gagnrýni stjórnarandstöðunnar, fyrst gengislækkunin, síðan bátagjaldeyririnn. Þegar svo bátagjaldeyrisfríðindin voru skert um síðustu áramót, var deilt á stjórnina fyrir, að hún væri að ráðast á útvegsmenn og sjómenn, og þegar útvegsmenn hækkuðu álagið nýverið, var deilt á stjórnina fyrir að þola slíka hækkun á notaþörfum almennings.“

Svona er haldið áfram alla ræðuna út í gegn að heita má, að deila mjög eindregið og einhliða á stjórnarandstöðuna og bregða henni um margvíslegar vammir og skammir.

Mér þykir það mjög leitt, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér, en ég taldi þrátt fyrir það fulla ástæðu til þess að hreyfa þessu máli, og ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., ef einhver þeirra ráðherra, sem við eru staddir, gæti upplýst það, hvaða aðili hafi samþykkt, að svona einhliða áróðursræða væri flutt í ríkisútvarpið undir því yfirskini, að verið sé að segja landsmönnum hlutlausar fréttir.