05.01.1956
Sameinað þing: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. En það gengur eiginlega alveg fram af mér, hvernig menn, sem eru í sjálfu sér mestu heiðursmenn og vitibornir menn eins og þeir, sem hér hafa talað, geta verið að leika á Alþingi eins og þeir væru á kjósendafundum og væru 20 árum yngri en þeir eru eða 30, þegar æskan hleypur með mann í gönur. Hér standa menn upp, látast ekkert skilja í þessu, alveg dolfallnir, þeir vita ekki, hvaðan á þá stendur veðrið, að það skuli ekki vera búið að leysa þessa deilu með togaraflotann, með bátaflotann. Öllum er kunnugt um, að þessi útvegur verður vegna þeirra kvaða, sem á hann hafa veríð lagðar, að fá miklu meiri opinberan styrk í einu formi eða öðru en hann hefur haft. Menn eru að furða sig á, að ekki skuli hafa tekizt að leysa þá hluti fyrir ákveðinn dag. Og menn þurfa að hlusta á það á Alþingi, að ríkisstj. eigi að segja af sér, vegna þess að hún hefur ekki fallizt á kröfur, sem slíkir menn gera, því að það eru fleiri kröfuhafar til en verkalýðurinn í landinu. Það heldur hver á sínu máli, svo lengi sem hann treystir sér og þangað sem hann kemst. Og því er haldið fram, að ríkisstj. eigi helzt að fara frá völdum, af því að hún sé ekki á nýársdag eða þegar klukkan slær sex á gamlaársdag búin að leysa þessa deilu, og helzt líka vegna þess, að það hefur komizt upp núna, að hagskýrslurnar á Íslandi séu heldur seinvirkar. Það má tala um margt í þessu og það má spyrja um þetta: Hvað er ríkisstj. komin langt í sínum athugunum á þessum efnum? En maður eiginlega tapar lönguninni til að ræða við menn, þegar engin alvara sýnist vera í umr. Þetta er of stórt alvörumál, of stórt vandamál, sem við er að etja, til þess að menn geti búizt við því, að Alþingi sé vettvangur til að tala um það eins og ungum stjórnmálamönnum hættir við að gera í hita dagsins á kosningafundum.

Ég hef áður sagt frá því hér á Alþingi, að það var víst í þingbyrjun eða um það bil, sem ríkisstj. fól sínum embættismönnum að byrja að vinna að málinu. Ég vil ekki þurfa að margtaka það fram, að um marga þá liði eða þætti þessa máls, sem mikið veltur á um ákvarðanir á hverjum tíma, er ákaflega örðugt að byggja á gömlum hagskýrslum og jafnvel ekki þótt nýjar væru. Það er svo breytilegt um allt okkar atvinnuárferði og í langtum ríkari mæli um okkar atvinnurekstur en flestra okkar nágrannaþjóða, að það verður eiginlega allt að miðast við horfur frá degi til dags. Það hefði ekki verið nokkur vandi fyrir ríkisstj. að ýta flotanum úr vör, ef hún hefði viljað þóknast kröfum útgerðarmanna í nægjanlega ríkum mæli til þess, í ríkari mæli, skulum við segja, en henni hefur sjálfri þótt sanngjarnt að gera. En ætli það hefði þá ekki komið hljóð úr horni? Annan daginn er ríkisstj. ekkert annað en handbendi atvinnurekendanna í landinu. Ég sé það stundum í blöðum, sem hinir svokölluðu verkalýðsflokkar gefa út, að ríkisstj. sé með ofstjórn og það sé það, sem þjái þjóðina. Ég veit ekki, hvaðan þessi ofstjórnaralda er runnin, ef hún er ekki frá þessum flokkum sjálfum. En ég segi það, að ef stjórnin á að ganga lengra en hún telur nauðsynlegt og þá með því að leggja þyngri kvaðir á almenning en hún telur eðlilegt í því skyni að hindra stöðvun atvinnurekstrarins, þá hygg ég, að hún fengi að heyra hljóð úr horni. Ætli yrði þá ekki sagt, að þessir þjónar auðvaldsins væru ekki að hika við að troða enn í þanda pyngju auðmannanna á kostnað alþýðunnar, þó að hitt hljóðið komi jafnan úr strokknum, ef einhver stöðvun verður, af því að ríkisstj. vill ekki þjóna einni stétt fremur en annarri, þá sé það ekki annað en dugleysi?

Ég býst ekki við, að menn ætlist til, að ég verji löngum tíma af starfstíma þingsins til þess að svara, meðan svona er á mig yrt. Hitt er rétt að menn viti, og enda hefur verið frá því skýrt á opinberum vettvangi, að ríkisstjórnin hefur sleitulaust unnið að þessum málum, frá því að frestað var fundum þings hinn 20. des. og fram á þennan dag, þó að enn hafi ekki auðnazt að ná samkomulagi, og ég treysti mér ekki að fullyrða um, hvað slíkt samkomulag kann að vera langt undan. Okkar vonir hljóta að standa til, að það sé skammt undan, a.m.k. allra þeirra, sem setja þjóðarhag umfram það að hafa aðstöðu til þess að deila á einhvern eða rífast.

Ég tel þetta mál þess eðlis, að menn verði að skilja, að hér er úr vöndu að ráða og auk þess mikið í húfi, svo mikið, að öllum ber frekar að reyna að leggja gott til sjálfs málsins en að nota þá aðstöðu, meðan þetta ástand stendur yfir, til þess að skapa úlfúð og illdeilur um það. Það er nógur tíminn að ráðast á aðgerðirnar, þegar þær liggja fyrir.