05.01.1956
Sameinað þing: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forsrh. talaði hér um, að það væri nú eiginlega varla við því að búast og væri nú undarlegt, að menn væru að vonast eftir því, að hann gæti gefið hér yfirlýsingar um að vera búinn að leysa vandamál bátaútvegsins strax eftir 1. jan. Má ég spyrja: Rangminnir mig, að hæstv. forsrh. hafi fyrir nokkrum vikum, þegar ég utan dagskrár kom fram með fyrirspurn viðvíkjandi því, hvort það væri rétt, að sala bátagjaldeyrisskírteina hefði verið stöðvuð, og tveim dögum seinna upplýstist, að bátagjaldeyrisskírteinin hefðu verið hækkuð í verði, að hæstv. forsrh. hafi sagt, að ríkisstj. gæti eða vildi ekkert við þessu gera, en að þetta mundi þá þýða um leið, að þarna væri fengin sú hækkun handa bátunum, sem ætti að duga þeim líka eftir nýárið? Endilega minnir mig, að svörin hafi fallið eitthvað í þessa áttina, að hæstv. forsrh. hafi fyrir nokkrum vikum gengið út frá því, þegar Landssambandið tók sér rétt til þess að hækka þessi skírteini, að þar með væri líka öruggt, að bátagjaldeyririnn á grundvelli þess gæti haldið áfram eftir nýár. Það má vera, að mig rangminni um þetta, þá bið ég afsökunar á því, en einhvern veginn stóð það í mér, að hæstv. forsrh. hefði þá gengið út frá því, að þetta mál væri raunverulega leyst. Nú er hann sá, sem af öllum þm. hefur einna mest samband við einmitt þessa menn sjávarútvegsins, ekki sízt sem þm. G-K., þar sem allir áhrifaríkustu bátaútvegsmennirnir og hraðfrystihúsaeigendurnir eru, þannig að það er þá ekki að undra, þó að þm. væru kannske illa að sér í þessum málum, ef hæstv. forsrh. veit þessa hluti ekki betur.

Ég er hræddur um, að það sé ekki svo öruggt, sem hæstv. forsrh. segir í þessum hlutum frá degi til dags, að hann mætti ekki fyllilega í öllum rólegheitum og án alls yfirlætis ræða þessi mál við okkur þm. Hann fór að tala eins og hann væri á kosningafundi og að því mundi vera skellt á sig, ef hann væri nú með einhverjar álögur á landsfólkið til þess að leysa þessi vandamál, að hann væri að láta auðvaldið rifa til sín frá alþýðu manna. Ég vil minna hæstv. forsrh. á, að vandamál bátaútvegsins og togaraútvegsins verða ekki leyst, svo að vel sé, nema rifa af auðmannastétt landsins það, sem hún hefur hrifsað til sín af þessum útvegi, sem er burðarásinn í atvinnulífi landsmanna. Það eru álögur auðmannastéttarinnar og ríkisbáknsins, sem hún veldur, sem þarna eiga sök á því, hvernig komið er, það er sjálft hringavaldið, heildsalavaldið, bankavaldið hér, sem búið er að leggja slíkar byrðar á útveginn, að hann er að kikna undan honum. Það er það hóflausa brask, sem innleitt hefur verið á þessum síðustu árum hér, sem er að íþyngja útveginum, þannig að hann er að brotna saman undir því, þannig að það er þetta farg auðvaldsins, sem þarf að létta af honum, svo að ég fari, fyrst hann fór að tala í kosningafundatón, að taka þá undir eitthvað dálítið svipað. En ég sé það hins vegar, og það var alveg greinilegt af þessari stuttu ræðu hæstv. forsrh., að hann vill ekki ræða þessi mál, áður en þau eru leyst. Hann vill ekki gefa Alþingi tækifæri til þess að koma fram með sínar till. um að leysa þessi mál, áður en lausnin er fundin á málunum. Hann vill ekki gefa þingmönnum tækifæri til þess að koma fram með sínar till. um að leysa þessi mál. Hann talar hér um, að hann vilji ekki eyða starfstíma þingsins í að halda ræður um þetta.

Má ég spyrja hann: Til hvers er þingið hér? Til hvers er það kallað saman? Er það eins og stundum hefur verið áður, að það á að láta það sitja vikurnar og jafnvel mánuðina, á meðan allt er stöðvað í þjóðfélaginu í kringum það, og það eigi að kalla það starfstíma þingsins. Ég hélt, að þingið væri einmitt komið saman til þess að starfa, til þess að starfa að lausn þessara mála, til þess að ræða þessi mál og til þess að finna sameiginlega lausn yfir þessi mál. En hæstv. forsrh. virðist hafa allt aðrar hugmyndir um þessa hluti. Hann endar sína ræðu með því að segja: Ja, þið í stjórnarandstöðunni getið látið ykkur nægja að ráðast á þetta, þegar lausnirnar liggja fyrir. — M.ö.o.: Bak við þingið á fyrst að leysa þessi mál, eins og kallað er. Ég þykist jafnvel vita, að forsrh. hefði helzt viljað, að þingið hefði alls ekki komið saman og að ríkisstj. hefði bara í friði fengið að vinna að lausninni, án þess að þingið ónáðaði hana nokkurn skapaðan hlut. Það er hans hugmynd um lausn á þessum málum að semja um þetta að tjaldabaki, þannig að áhrif fólksins í landinu og Alþ. komi hvergi þar nærri. En það er bara ekki sú lausn, sem þingið og þjóðin vill í þessum málum. Til þess er þingið komið saman, að það eigi að starfa að því að reyna að finna lausn í þessum málum, og það á að ræða þessi mál, áður en lausnin er fundin, því að það hefur sýnt sig, að þegar þessi mál hafa verið leyst á undanförnum árum, þá hefur það verið tóm endileysa, sem leiðir af sér nýja baráttu í þjóðfélaginu og tómt öngþveiti, af þeirri einföldu ástæðu, að þessi ríkisstj. hefur ekki vald í þjóðfélaginu til þess að stjórna því, og því fyrr sem hún tekur tillit til þeirra staðreynda, því betra. Þess vegna held ég, að það sé rétt fyrir hæstv. ríkisstj. og sérstaklega fyrir hæstv. forsrh. að gera sér ljóst, að það er ekki ætlun okkar þm. að bíða eftir því að ráðast á lausnirnar í þessum málum, þegar þær eru fundnar og eru knúðar í gegnum Alþingi á einum degi eða einni nóttu, en láta máske útgerðina stranda þangað til. Það eru ekki þau vinnubrögð, sem hæfa Alþingi, og reynslan af slíkum vinnubrögðum á undanförnum árum er ekki svo góð, að Alþingi álíti, að slíkt eigi að halda áfram. Ég held þess vegna, að hæstv. forsrh. eigi nú að breyta til um þær aðferðir, sem hann hefur haft undanfarið, hann eigi ekki að láta sér detta í hug, að Alþingi sætti sig við að bíða, þangað til búið sé að tjaldabaki, einhvern tíma kannske í febrúar, þegar bátaútvegurinn væri búinn að liggja kyrr allan janúar, að fara að koma þá með lausnir, við skulum segja nýtt gengisfall eða eitthvað slíkt. Það má hæstv. forsrh. vera viss um, að það sættir þjóðin sig ekki við, og ég held, að það, sem gildi í þessum málum, sé að finna lausnir, sem þjóðin sættir sig við, lausnir, sem leiða ekki til sífellds nýs kapphlaups nýrra kauphækkana eða annars slíks. Þingið er komið saman til þess að starfa. Starfstíma þingsins á að verja til þess að ræða lausnirnar, áður en lausnirnar eru fundnar með baktjaldamakki ríkisstj. Það er Alþingi, sem á að hjálpa til þess að vinna að því að finna þessar lausnir, og mér sýnist ekki hafa gengið svo giftusamlega í hæstv. ríkisstj. hingað til að finna þær, að hún ætti að hafa á móti því, að Alþingi fengi tækifæri til þess að leggja sitt orð í belg.