19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

Tollgæslumál

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Af því að ég var annar þeirra þm., sem minntust á þetta mál í gær, vil ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið, og það, að nú verður hafizt handa um að taka fyrir ósóma, sem hér hefur allt of lengi gengið. Hæstv. ráðh. gat þess, að hann mundi bera fram frv. til þess að fá auknar og nægilegar heimildir til þess að geta skoðað þetta mál niður í kjölinn, og er þá kannske ekki ástæða til að fjölyrða um þetta, fyrr en það frv. kemur fram. En ég verð þó að láta undrun mína í ljós yfir því, að tollyfirvöldin eða þeir menn, sem með þessi mál fara og eiga að fjalla, telja sig ekki hafa aðstöðu til að fá upplýst nokkuð um þetta smygl. Þó er það á almannavitorði, að í verzlunum eru ákveðnar vörutegundir, sem allir vita að hefur verið smyglað og ekki hefur veríð hægt að flytja inn með löglegum hætti, a.m.k. síðustu 2 árin. Þessi vörutegund kemur jafnt og þétt í verzlanirnar, og hún er boðin alveg feimnislaust til sölu. Ég veit, að tollyfirvöldunum er kunnugt um þetta. Ég skal ekki fullyrða, að þeir hafi nægilegar heimildir til þess að skoða þetta ofan í kjölinn. En ef þeir hafa það ekki, þá vil ég fyrir mitt leyti segja, að ég álít nauðsynlegt, að þær heimildir séu gefnar, því að svona ástand eins og hér hefur verið nokkuð lengi undanfarið í þessu efni eru mjög niðurlægjandi fyrir alla aðila.