19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

Tollgæslumál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þar eð ég vakti máls á þessu máli á fundi Nd. Alþ. í gær, vil ég með örfáum orðum þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér áðan, og fyrirheit hans um, að ríkisstj. muni á næstunni gera gangskör að því að reyna að uppræta þann ósóma, sem hér hefur allt of lengi viðgengizt undanfarin ár, að boðnar væru til sölu í verzlunum vörur, sem auðsjáanlega eru tollsviknar. Hins vegar vil ég taka undir það með hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), að ég á dálítið bágt með að trúa því, að ekki væri unnt, ef af festu væri að gengið, að sanna tollsvikin í miklu fleiri tilfellum en hefur tekizt. Mér vitanlega hefur það mjög sjaldan tekizt. Mjög fá slík mál hafa komið fyrir sakadóm, að því er mér er tjáð, þó að jafnmikið hafi kveðið að slíkri verzlun og raun ber vitni. Ég vil því mjög eindregið hvetja hæstv. ríkisstj. til þess að láta einskis ófreistað í þeim efnum að útrýma þessum ósóma.

Talið er, að mest kveði að smyglinu hér í Reykjavík, þ.e. um Reykjavíkurhöfn, en hitt á sér án efa stað í stórum stíl, að vörum sé smyglað í land í höfnum utan Reykjavíkur, og það hefur áreiðanlega farið vaxandi á síðari árum, einkum eftir að fór að færast í vöxt á allra síðustu árum, að skip lönduðu vörum í höfnum utan Reykjavikur. Er skemmst að minnast frásagnar, sem flogið mun hafa um allt land nú fyrir skemmstu, að gripinn var á miðri einni af heiðum Vestfjarða bíll, sem hlaðinn var smygluðu áfengi, á leiðinni frá litlu þorpi, þar sem skip hafði komið við, til eins fjölmennasta kaupstaðarins á Vestfjörðum. Það tókst fyrir tilviljun að hafa hendur í hári þessara smyglara, en um það, hversu mörgum hefur tekizt að komast undan með svipuðum hætti, veit auðvitað enginn. Það er því ekki aðeins nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að efla tollgæzluna hér í Reykjavik, heldur einnig og kannske ekki síður utan Reykjavíkur.

Ég vil svo að síðustu endurtaka, að ég fagna því, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa í hyggju að gera ráðstafanir til þess að uppræta þetta ófremdarástand.