09.02.1956
Efri deild: 63. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. (PZ), formaður hv. allshn., er, sem við vitum, allra manna minnugastur, en þó hefur honum nokkuð skotizt í því, sem sjaldan verður, að hann hafi sagt mér frá því, að hv. þm. Seyðf. (LJóh) hefði einhver plögg frá lögfræðingum hér í bænum varðandi þetta mál. Það hef ég ekki heyrt fyrr. Hitt sagði þm. mér, að hv. þm. Seyðf. hefði athugasemdir að gera við frv., það játa ég fúslega. En ég vildi nú beina því til hv. þm., að ef hann hefur ríka löngun til þess að vinna að málinu og leysa sína þingmannsskyldu af hendi, eins og ég treysti honum allra manna bezt til, svo ötulum manni, þá mundi vera hægt að fá afrit af þessum skjölum frá lögfræðingunum, sem athugasemdirnar hafa samið, svo að n. gæti kynnt sér þær og þá ef til vill dómsmrn. og semjandi frv. En um þessar athugasemdir hef ég ekki heyrt fyrr. Ég er sízt á móti því, að þær séu skoðaðar og málið sé athugað til hlítar, en mér finnst ekki verjanlegt, eftir að þing er búið að sitja hér frá því snemma í október, að málið skuli enga efnisathugun hafa fengið hjá hv. n. Það finnst mér linlega á haldið,

Um ríkisborgararéttinn stendur öðruvísi á. Það frv. er tiltölulega nýkomið til hv. n. Ég er mér þess ekki meðvitandi, að ég hafi vanrækt að láta n. fá nokkur gögn. Ef svo er, þá er sjálfsagt að bæta úr því. En ég hef ekki heyrt það fyrr.

Varðandi hv. menntmn. er það þannig, að hún hefur af miklu meiri röskleika afgreitt þau mál, sem til hennar hafa komið, og ég veit, að hún hefur mikið athugað málið um sálfræðilega þjónustu, en mér finnst tími til þess kominn, að þeirri athugun ljúki.