10.02.1956
Neðri deild: 66. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef flutt á þskj. 69 frv. til l. um breyt. á l. nr. 40 23. maí 1949, um áburðarverksmiðju. Því var útbýtt í þessari hv. d. 25. okt., það var umr. um það 31. okt., og 1. nóv. var því vísað til hv. fjhn. Siðan eru nú liðnir rúmir þrír mánuðir. Ég vildi leyfa mér að óska eftir því, að hv. fjhn. færi nú að afgreiða þetta mál.

Mér er ekki grunlaust um, að ég eigi hér ekki einn hlut að máli um mál, sem hafi farið til n. í þessari hv. d. og ekki séu komin þaðan aftur. Ég vil láta þá skoðun í ljós, að sú þróun mála, sem er að verða hér í þinginu á síðustu tveim, þrem árum, að nefndir séu beinlínis notaðar til þess að svæfa mál og skila aldrei áliti um þau, er að verða alveg óþolandi. Þetta hefur farið hríðversnandi þessi síðustu tvö, þrjú ár. Það var stundum nokkurn tíma legið á málum hér áður fyrr, en venjulega var þó svo, að nefndir skiptust þá um þetta, og meiri hl., sem var á móti þeim, lagði þá til að vísa þeim frá, en nú virðist orðin alveg föst regla hjá stjórnarmeirihlutanum að afgreiða ekki mál stjórnarandstæðinga úr nefnd.

Ég vildi leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, að hann hlutaðist til um, að hér yrði gerð breyting á og að bæði hv. fjhn. og aðrar n. deildarinnar, sem ekki hafa enn þá skilað nál. um mál, sem eru búin að vera hjá þeim mánuðum saman, taki sig til og vinni eins og ætlazt er til af nefndunum. Það er síður en svo til þess að auka veg þingsins að taka upp þennan hátt, auk þess sem hann er ákaflega óviðfelldinn og lítt karlmannlegur af meiri hlutanum, að geta þá ekki einfaldlega lagt til að vísa málum frá, vísa þeim til stjórnar eða fella þau, í staðinn fyrir að liggja á þeim og þora aldrei að segja sitt álit um þau. Ég vildi eindregið óska eftir því, að hæstv. forseti bæði í fyrsta lagi hv. fjhn. og síðan aðrar þær nefndir d., sem hafa ekki skilað neinum álitum um mál, sem til þeirra hafa farið, að taka upp önnur vinnubrögð.