21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Í byrjun þessa þings fluttum við þm. Þjóðvarnarflokksins till. til þál. um endurskoðun herstöðvasamningsins frá 1951 og uppsögn hans að lögákveðnum endurskoðunartíma loknum og brottför hers úr landi. Snemma á þinginu var þessari till. vísað til hv. utanrmn. Þá hafa og hv. þm. Alþfl. flutt þáltill. snemma á þinginu um endurskoðun sama samnings, og var þeirri till. einnig vísað til hv. utanrmn. Nú hefur það gerzt á nýafstöðnu flokksþingi Framsfl., að sá flokkur hefur í stefnuyfirlýsingu sinni eða stjórnmálasamþykkt samþykkt að vinna að því, að samningur þessi verði endurskoðaður og herinn fari úr landi. Það hefur frá upphafi legið fyrir, að þm. Þjóðvfl. og þm. Sósfl. hafa verið andvígir þessum samningi, og það hefur einnig legið fyrir, frá þingbyrjun a.m.k., að þm. Alþfl. hafa viljað fá a.m.k. fram mjög verulegar breytingar á þeim samningi. Það virðist því augljóst, að nú sé öruggur þingmeirihluti fyrir því að æskja endurskoðunar á samningi þessum, og ég vildi því beina þeirri fyrirspurn til utanrmn., hvort hún muni ekki hafa senn lokið athugun á þeim þáltill., sem fyrir liggja um þetta efni, og nál. muni ekki vera að vænta bráðlega, þar sem senn líður væntanlega að þinglokum. Ég vildi jafnframt beina því til hæstv. forseta, ef einhver doði væri á n. og ekki alveg víst um, hvort hún væri vakandi í störfum, að athuga, hvort ekki muni vera hægt að fá hana til þess að hefjast handa um að afgreiða þessi mál; þau eru ekki mörg málin, að ég hygg, sem til hennar hefur verið vísað, og því störfin ekki ýkja mikil. Það virðist ekki með öllu eðlilegt, ef þingnefndir liggja á málum, sem öruggur framgangur virðist vís á Alþingi.