27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

Lausnarbeiðni ráðuneytisins

forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Í morgun kl. 10 gekk ég á fund forseta Íslands og lagði fram lausnarbeiðni fyrir mig og ráðuneyti mitt. Ég afhenti þá forsetanum svo hljóðandi greinargerð:

„Í sáttmála þeim, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gerðu með sér, þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, segir m.a.:

„Það er samkomulag, að forsætisráðherra beiti ekki þingrofsvaldi nema með samþykki beggja stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar eða ráðherra þeirra. Ákveði annar hvor stuðningsflokkurinn að hætta stjórnarsamstarfi, skal stjórnin segja af sér.“

Nú hefur mér borizt tilkynning frá ráðherrum Framsóknarflokksins, þar sem segir m.a.: „Lokið er stuðningi Framsóknarflokksins við núverandi ríkisstjórn.“

Með tilvísun til þessarar ákvörðunar Framsóknarflokksins og ofangreindra ákvæða í stjórnarsáttmálanum leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja til, að þér, herra forseti, fallizt á að veita núverandi ráðuneyti lausn.“

Forseti samþykkti lausnarbeiðnina síðdegis í dag og mæltist jafnframt til þess, að ríkisstjórnin starfaði áfram fram yfir kosningar, og féllst ríkisstjórnin á það.

Í dag hefur forseti Íslands átt tal við formenn allra þingflokka, og að þeim viðræðum loknum var haldinn fundur í ríkisráði kl. 6 siðdegis. Var á fundinum getið út forsetabréf um þingrof frá 24. júní n.k. að telja og fari almennar kosningar til Alþingis fram þann dag.

Þetta vildi ég leyfa mér að tilkynna hæstv. Alþingi.