26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (2989)

32. mál, húsnæðismálastjórn

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Mér fannst hv. fyrirspyrjandi ekki vera alveg hlutlaus í þeim orðum, sem hann sagði. Hann vildi láta skína út úr sinni umsögn, að hér væri um svík að ræða að hálfu ríkisstj. Þetta er alls ekki rétt. Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi hafi lesið þá grg., sem fylgdi frv. í fyrra, og um leið viti um þær umr., sem fóru fram í þinginu. Það er öllum vitanlegt, og því var lýst skilmerkilega yfir, bæði af mér og fleirum hér, að frv. væri fyrst og fremst byggt á samkomulagi við Landsbankann, þar sem viss upphæð er algerlega tryggð. Svo tók aðalbanki landsins, Landsbankinn, að sér að öðru leyti að vinna að því, að fé fengist til viðbótar þessu frá öðrum stofnunum á ýmsan hátt, og er skýrsla yfir það í grg. fyrir frv., þar sem reiknað er með, að þetta gæti orðið eftir þeirri sundurliðun, sem þar er gerð, í kringum 100 millj. kr. að ári. Og ég vænti þess fastlega, að þegar hægt verður að skýra frá þessu fyllilega að loknu ári, einhvern tíma snemma á næsta ári, þá verði einmitt hægt að fullvissa hv. Alþ. um, að það verði a. m. k. ekki lægri upphæð en það, sem hefur farið til húsbygginga á þennan hátt.

Það er aðallega þetta, sem ég vil leyfa mér að benda hinu háa Alþ. á. Það vissu allir, um leið og þetta frv. var gert að lögum, að það var bundið við það, að Landsbanki Íslands tæki að sér framkvæmdina, og auðvitað þurfti hann nokkurn tíma til þess að koma þessu fyrir, og það finnst mér í sannleika sagt mjög eðlilegt. Að þessu er unnið og verður unnið. Það er síður en svo, að ég hafi á móti því, að fsp. eins og þessar komi fram, þær eru góðar. Það veitir sjálfsagt aldrei af að reka á eftir okkur, sem eigum að vera einhvers konar framkvæmdastjórar í málum eins og þessum, og ég tek því þess vegna mjög vel. En ég vil alls ekki sætta mig við, að það sé sagt, að enn sé búið að svíkja nokkuð í þessum málum. Þeir, sem kynna sér grg. frv., eins og hún var á síðasta Alþ., og þeir, sem kynna sér þær umr., sem þar fóru fram, vita, að það er langt frá, að svo sé. Það er ekki hægt að dæma um þetta, fyrr en árið er liðið og fyrr en skýrsla liggur fyrir um það, fyrst og fremst frá Landsbankanum og húsnæðismálastjórn, hvernig staðið hafi verið við það, sem frv. gerði ráð fyrir og ætlazt var til að gert yrði á árinu.

Ég sé í raun og veru ekki ástæðu til að taka fleira fram um þetta nú á þessu stigi málsins, vegna þess að það er að mínum dómi ekki hægt að ætlast til þess, að gefnar séu frekari upplýsingar nú, fyrr en þetta ár er liðið.