27.01.1956
Neðri deild: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

144. mál, tollafgreiðsla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þó að það gangi stundum fullilla fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að fá svör hjá hæstv. ráðherrum við einföldum spurningum, sem við leggjum hér fyrir, upplýsingar í sjálfsögðum málum, þó að það gangi svo illa, að til skammar er, að fá afgreidd úr nefndum þau mál, sem nú eru búin að liggja þar í 3 mánuði, og stjórnarliðið setjist á þau, þá er það þannig, að þegar ríkisstj. liggur mikið á og veit, að hún getur ekki komið málum hér fram, ef stjórnarandstaðan notar sinn rétt, þá kemur hún til stjórnarandstöðunnar og biður hana um, hvort hún vilji ekki vera góð og þingræðisleg og elskuleg við stjórnina og hleypa málinu í gegn, sem stjórnarandstaðan hefur á sínu valdi að stöðva. Og eins hefur farið í þetta skiptið.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, hefði jafnvel gjarnan mátt koma fyrr fram og mætti að mínu áliti jafnvel ganga lengra. Og það er enginn efi, að það er þegar búið að gera mörgum mönnum mikið misrétti í sambandi við þessa hluti, þegar það fór strax að kvisast, hvað í aðsigi væri. Hins vegar er það alveg rétt, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, að nokkuð getur þetta bjargað enn þá að afstýra þeirri „panik“, sem annars mundi verða. Þess vegna höfum við formenn stjórnarandstöðuflokkanna sagt það við hæstv. ráðherra, að við mundum ekki tefja neitt fyrir framgangi þessa máls hér á þinginu. En það væri gott, að hæstv. ríkisstj. myndi það oftar en þegar hún þarf á að halda, að hér á að vera þing og hér á ekki bara að afgreiða mál í lokuðum þingflokksherbergjum og að hér eiga að vera nefndir, sem starfa og afgreiða mál, en eru ekki bara kirkjugarður fyrir þau. Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri til þess að minna hæstv. ríkisstj. á þetta, að eins og hún ætlast til þess, að stjórnarandstaðan sé fullkomlega ábyrg gerða sinna í þessum efnum, eins þarf ríkisstj. að sýna sig gagnvart stjórnarandstöðunni í þeim málum, sem eiga að hljóta afgreiðslu hér á þingi, hvort þau eru samþykkt, felld eða afgreidd á annan hátt, — bara ekki svæfð.