27.01.1956
Neðri deild: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

144. mál, tollafgreiðsla

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd Alþfl. taka það fram, að Alþfl. mun stuðla að því, að þetta frv. nái afgreiðslu hér á hinu háa Alþ. í kvöld. Í frv. er tekið fram það, sem raunar hefur verið vitað nokkra undanfarna daga, að á næstunni muni verða borin fram og þá væntanlega samþ. af stjórnarflokkunum hér á hinu háa Alþ. frumvörp um ýmsar hækkanir á aðflutningsgjöldum. Þetta hefur legið í loftinu undanfarna daga og er nú berlega tekið fram í grg. þessa frv.

Þótt við í stjórnarandstöðuflokkunum stuðlum að því, að þetta frv. nái fram að ganga, felst í því að sjálfsögðu engin afstaða til þeirra frv., sem munu væntanlega sjá dagsins ljós á næstunni. Við munum taka afstöðu til þeirra eftir því, sem efni málsins gefur tilefni til. En fyrst hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún muni leggja fram slík frumvörp, teljum við sjálfsagt, að allar færar ráðstafanir séu gerðar til þess að koma í veg fyrir, að það ástand, sem skapazt getur, ef slíkt liggur í loftinu, verði ekki einstaklingum að féþúfu. Þess vegna munum við stuðla að því, að þetta frv. nái afgreiðslu sem skjótast þegar í kvöld.