28.01.1956
Efri deild: 52. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér virðist hv. talsmenn stjórnarandstæðinga í deildinni hafa eina höfuðmótbáru gegn þessu frv. báðir sameiginlega og mun því ræða hana sérstaklega. Hún er sú, að það sé ófyrirsynju lagt til að leggja á þessa skatta og tollaviðauka, þar sem telja megi tryggt, að ríkisbúskapurinn mundi verða greiðsluhallalaus á þessu ári, þótt það væri látið undir höfuð leggjast. Þeir halda því sem sé fram, að tekjur ríkissjóðs af þeim skattalögum og tollalögum, sem nú eru í gildi, muni duga til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem þingmeirihlutinn fyrirhugar samkv. þeim till., sem nú eru fram komnar um afgreiðslu fjárlaga. Ég vil ræða þessa mótbáru nokkuð, vegna þess að þetta er auðvitað mjög þýðingarmikið atriði.

Þeir halda því fram báðir hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar, einkum ræddi hv. 4. þm. Reykv. það nokkuð ýtarlega, að tekjuáætlun hv. meiri hl. fjvn. og ríkisstjórnarinnar í sambandi við meðferð fjárlagafrv. væri of lág, það mætti hiklaust gera ráð fyrir, að tekjurnar yrðu mun meiri en þar væri gert ráð fyrir. Hv. 4. þm. Reykv., sem fór nánar út í þetta, rökstuddi þetta fyrst og fremst með því, að það væri engin ástæða til þess að álita annað en verðtollur verði a. m. k. jafnmikill á þessu ári og hann varð á s. l. ári, að söluskattur verði meiri vegna hækkandi verðlags í landinn sjálfu og benzínskattur og bifreiðaskattur meiri en í fyrra og meiri en gert væri ráð fyrir í fjárlagafrv.

Út af þessu vil ég fyrst benda hv. þingmönnum á, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að innflutningur til landsins verði jafnmikill á því ári, sem nú er að byrja, og hann var s. l. ár. Í fyrra hafði hver maður á Íslandi fulla atvinnu og vann yfirvinnu, og framleiðsla var hér óvenjulega mikil. Það er óhugsandi, að framleiðslan eða atvinnan geti aukizt á því ári, sem nú er að líða, að nokkru ráði a. m. k., frá því sem hún var í fyrra. Þrátt fyrir þessa gífurlega miklu framleiðslu og miklu tekjur var flutt inn á s. l. ári meira en hægt var að borga með þeim gjaldeyri, sem landsmenn fengu í aðra hönd fyrir vinnu sína. Það var gengið á gjaldeyrisbirgðir þjóðarinnar á s. l. ári þó nokkuð til þess að standa undir innflutningnum. Gjaldeyrisbirgðir landsmanna eru nú þrotnar, og það er ekki hægt að venda í það hús til þess að flytja inn á næsta ári meira en hægt er að borga með gjaldeyristekjum ársins. Þess vegna hlýtur að verða að gera ráð fyrir því, að innflutningur geti ekki orðið jafnmikill á þessu ári og hann varð s. l. ár. Hann verður að vera minni, ef það á að vera nokkur rökstudd von til þess, að við getum komizt hjá því að sökkva í botnlaust skuldafen út á við á þessu ári.

Til viðbótar þessu kemur svo, að á s. l. ári voru fluttar til landsins bifreiðar fyrir marga milljónatugi, margfalt á við það, sem áður hefur verið um fjölda ára, og margfalt á við það, sem getur orðið á þessu ári. En fáir hlutir eru þyngra skattaðir en bifreiðar, þegar þær flytjast til landsins, það er ekki ofsögum sagt, að ríkissjóður hefur haft milljónatugi í aukatekjur á s. l. ári af bifreiðainnflutningi, sem ekki getur endurtekið sig á því ári, sem nú er að byrja. Kemur þetta fram bæði á verðtollsliðnum og söluskattsliðnum.

Meginhluti söluskattsins er greiddur við innflutning, en aðeins lítill hluti söluskattsins er innheimtur af sölu innanlands eða þjónustu. Þar fellur sú röksemd hv. 4. þm. Reykv., að það megi vænta verulegrar hækkunar á söluskattinum, vegna þess að verðlag hækki í landinu á þessu ári. Það dregur sáralítið í söluskattinum um slíkar breytingar, en aftur á móti hefur bifreiðainnflutningurinn og hinn mikli innflutningur á síðasta ári haft stórfelld áhrif til hækkunar á söluskattinn.

Þeir hv. þingmenn, sem flytja málin á þessa lund, sem hv. stjórnarandstæðingar gera hér í d., hafa ekki kynnt sér þetta til fullrar hlítar.

Benzínskattur og bifreiðaskattur er sagður hækka af aukinni bifreiðaeign. Þar er um svo smáar fjárhæðir að ræða, þótt einhver hækkun yrði, 10–15% eða svo, að það er varla ástæða til þess að ræða það í þessu sambandi.

Á hinn bóginn er einn tekjuliður, sem verður vonandi mun hærri á þessu ári en á s. l. ári, þ. e. beinu skattarnir, vegna þess, hvað tekjur manna voru miklar árið 1955. En það er búið að hækka mjög tekjuáætlunina á þessum lið í fjárlögunum og enn gert ráð fyrir að hækka hann um 8 millj. við 3. umr. til þess að koma saman endunum. Það er því búið að teygja tekjuskattsáætlunina stórkostlega frá því, sem hún var, þegar frv. var lagt fram, og gera þar ráð fyrir þeirri hækkun, sem í vændum er á þeim lið.

Ef við litum á heildartölur, munu tekjur ríkissjóðs á s. l. ári verða einhvers staðar á milli 630 og 640 millj., en nú er búið að setja tekjuáætlun fjárlaganna upp fyrir 600 millj. með þeirri till., sem nú liggur fyrir um að hækka tekjuskattsáætlunina. Það munar því aðeins 30 millj. eða svo á áætluninni, eins og hún liggur fyrir núna, og tekjunum, eins og þær verða á s. l. ári.

Við vitum upp á hár, að óhugsandi er að komast hjá talsvert verulegum umframgreiðslum. 30 millj. eru því svo lítið borð fyrir báru, að tæpast má teljast forsvaranlegt að afgreiða fjárlögin á þá lund. Hér við bætist, að því miður verður að gera ráð fyrir því, að vísitala sú, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., reynist of lág fyrir þetta ár og komi umframgreiðslur því til greina í því sambandi.

Það er sannfæring mín, að það hafi aldrei á seinni árum verið farið óvarlegar um afgreiðslu fjárlaga en einmitt nú, þótt þessi tekjuauki verði samþykktur. Ég vil benda þeim mönnum, sem eru á móti frv., á, hversu háskalegt það væri, ef niðurstaðan yrði sú, að hallarekstur yrði á ríkisbúskapnum ofan á önnur vandkvæði, sem við eigum við að stríða í fjárhagsmálum. Það yrði sem olía í verðbólgueldinn, ef slíkt kæmi fyrir. Hingað til hefur það þó dregið úr verðbólguþróuninni, að ríkissjóður hefur fremur haft afgang en hið gagnstæða.

Þetta vildi ég segja um höfuðmótbáruna, en skal láta þetta nægja um það þýðingarmikla atriði.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væru engin ákvæði í frv., hvorki í þessu frv. né frv. um framleiðslusjóð, sem hann ræddi nokkuð í leiðinni, til þess að draga úr því, að hinar nýju álögur yrðu beinlínis gróðalind fyrir milliliðina. Ég vil benda hv. þm. á, að samkv. frv. um framleiðslusjóðinn, sem verið er að ræða nú í hv. Nd., er bönnuð álagning á framleiðslusjóðsgjöldin, á sama hátt og bönnuð er álagning á söluskattinn í söluskattslögunum. Það er gert með því að vísa til þeirra ákvæða í söluskattslögunum, sem svo mæla fyrir. Enn fremur eru ákvæði um, að birgðir megi ekki hækka, og mönnum gert að skyldu að senda alla verðreikninga til verðlagseftirlitsins í heilt ár, til þess að hægt sé að hafa meira eftirlit með þeim málum en verið hefur nú um sinn.

Í þessu sambandi ræddu báðir hv. frsm. stjórnarandstæðinga nokkuð um frv. til l. um framleiðslusjóð, sem lagt hefur verið fyrir hv. Nd., og bentu á, að með þessum frv. báðum væri gert ráð fyrir að leggja mjög miklar viðbótarálögur á þjóðina, sem er auðvitað alveg rétt.

Ég hef rætt um þörfina á því að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, en um frv. það, sem liggur fyrir Nd., vil ég aðeins fara örfáum orðum af tilefni frá þessum hv. þingmönnum.

Ég gat ekki fundið það af ummælum þeirra, hvort þeir töldu það ófyrirsynju, að gert væri ráð fyrir að afla þess fjár, sem fjallað er um í frv. til l. um framleiðslusjóð, en mér fannst það skína í gegn, að þeir viðurkenndu, að það mundi þurfa mjög mikla fjáröflun í sambandi við framleiðslumálin. Ég vil aðeins segja það út af því frv., að það hefur verið athugað mjög gaumgæfilega, hvað mundi þurfa að gera til þess að koma af stað framleiðslunni við sjóinn án þess að grípa til gengislækkunar eða allsherjar niðurfærslu. Var það mat manna eftir miklar rannsóknir, að þau framlög, sem greinir í frv. um framleiðslusjóðinn, væru alveg óhjákvæmileg og þess vegna yrði að afla tekna til þess að standa undir þeim greiðslum. Þar er ekki verið að tala um það í raun og veru að styrkja sérstaklega sjávarútveginn eða útflutningsframleiðsluna, heldur er með þeim ráðstöfunum eingöngu verið að leggja til, að skilað verði aftur til útflutningsframleiðslunnar þeim verðmætum, sem af henni hafa verið tekin með öðrum ráðstöfunum umfram það, sem hún getur af hendi látið. Það eru gerðar tillögur um að skila þessum fjármunum til baka, til þess að framleiðslan stöðvist ekki, með þeim geigvænlegu afleiðingum, sem af því hlytu að verða. Auðvitað er þar um stórfelldar álögur að ræða, en þeir, sem eru á móti þeim, verða þá að benda á aðrar leiðir til þess að leysa þann vanda, sem þar óneitanlega var orðinn.

Þetta læt ég nægja um frv. um framleiðslusjóð, enda kemur það til umr. síðar hér í hv. d., og þá verður sjálfsagt greint, hvaða úrræði hv. stjórnarandstæðingar hafa hugsað sér í því máli.

Hv. 2. landsk. þm. minntist aðeins á, að það væri nýstárleg kenning og dálítið einkennileg, að tollar skuli hækka í samræmi við framfærsluvísitölu. Þetta er, finnst mér, byggt á nokkrum misskilningi. Það er sem sé alls ekki haldið fram þeirri kenningu í grg. eða nokkurs staðar í sambandi við frv., að tollar skuli hækka í samræmi við framfærsluvísitölu. Hins vegar er bent á, að það er ekki gengið lengra í þessum till. en svo, að þeir tollar, sem þar er um að ræða, hækka í hlutfalli við hækkun framfærsluvísitölu, frá því að þeir voru settir, og eru þess vegna í raun og veru álíka þungir eftir þessa breytingu og þeir voru, þegar þeir voru upphaflega lögleiddir. Og varðandi benzínskattinn er gengið miklu skemmra. Því er ekki haldið fram, að þeir skuli hækka, heldur aðeins bent á, að svona er þetta, og óneitanlega er nokkuð fróðlegt að sjá, að þótt afla þurfi nú talsvert mikilla tekna handa ríkissjóði, þá þarf þó ekki að ganga lengra í þessum atriðum en svo, að það nægir að færa þessi gjöld til samræmis við þær verðlagsbreytingar, sem orðið hafa.

Ég vil minnast þess að lokum, að ástæðan til þess, að ríkisstj. og þingmeirihl. hafa ekki lagt til að hækka tekjuskattinn, þótt aflað sé nýrra tekna, er sú, að það er alveg augljóst, að svo að segja öll bæjarfélögin og sveitarfélögin þurfa að hækka mikið útsvörin, og beinu skattarnir eru eini skattstofninn, sem bæjar- og sveitarfélögin hafa. Þótti mönnum þess vegna alls ekki skynsamlegt að raska neitt tekjuskattinum, þegar svona stóð á. Þetta er ástæðan til þess, að þótt hér sé stungið upp á að lögleiða viðauka á nokkra tekjuliði ríkissjóðs, þá er ekki stungið upp á því að lögleiða viðauka á tekjuskatt. Enn fremur kemur til, að tekjuskattsstiginn er mjög hár, þótt lækkaður væri í hittiðfyrra frá því, sem áður hafði verið.