28.01.1956
Efri deild: 52. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það leggst í mig, að þetta verði aðalumræðan um þetta frv., ef það er ætlun stjórnarinnar að fá það fram, svo að mér þykir rétt strax nú við þessa umr. að víkja nokkuð að svörum hæstv. fjmrh.

Hann fullyrðir enn, að áætlun fjárlaganna um tekjur á næsta ári sé svo óvarleg, að ekki sé með nokkru móti gerandi að hækka áætlunina um tekjurnar. Ég má kannske minna hæstv. ráðh. á, að þetta sama hefur hann sagt, með sama þunga og sömu áherzlu, ég held a. m. k. 3–4 seinustu þing. (Fjmrh.: Það hefur ekkert minna gildi núna fyrir því.) Hæstv. ráðh. getur þó ekki komið í veg fyrir það, að eftir þær fullyrðingar, sem hann hefur borið fram í þessu efni og stutt með rökum undanfarin ár, sömu rökum og nú, leggi menn ekki trúnað á þessar fullyrðingar, þegar reynslan æ og ávallt sýnir, að stórfelldur afgangur verður á fjárlögunum, stórfelldar tekjur umfram það, sem hann hefur áætlað, þó að hann hafi fullyrt hverju sinni, að svo langt væri gengið í áætluninni sem með nokkru móti væri gerlegt og aldrei jafnóvarlega og í það skiptið, sem hann talar um.

Ég skal aðeins minna á, að þegar fjárlögin voru afgreidd fyrir 1955, flutti hæstv. ráðh. nákvæmlega sömu ræðuna og með sömu áherzlum og sama þunga. Hvað sýnir reynslan fyrir þetta ár? Hún sýnir, að tekjurnar, sem voru áætlaðar 514 millj. kr. á árinu öllu, voru orðnar 626 millj. innborgaðar þann 31. des., og sjálfur segir ráðherrann, að þær muni alltaf verða eitthvað á milli 630 og 640 millj. Ég hygg, að nær sanni sé að segja nær 650 milljónir. Sama saga var 1955 um útkomu ársins 1954, og svo mætti lengi telja.

Hæstv. ráðh. segir, að nú sé gjaldeyrisaðstaðan verri en hún var um síðustu áramót. Það ber nú ekki saman um þetta. Ég man ekki betur en að viðskmrh. sé alltaf að sanna okkur, að í raun og veru stöndum við okkur jafnvel, við eigum svo miklar birgðir nú, að þær jafna nokkurn veginn upp það, sem gjaldeyrisaðstaðan hefur versnað. Ég ætla þó ekki að leggja dóm á það, hvað verða kann í þessu efni.

Hæstv. ráðh. fullyrðir, að útflutningur og innflutningsmöguleikar á liðnu ári hafi verið meiri en nokkurt vit sé í að áætla næsta ár. Má ég minna hæstv. ráðh. á það, að Vestmannaeyjar höfðust ekki að næstum tvo mánuði í byrjun ársins 1955 vegna stöðvunar á atvinnurekstrinum þar? Má ég minna hann á sex vikna verkfall hér í Reykjavík? Heldur hann ekki, að þetta hafi dregið eitthvað úr innflutnings- og útflutningsmöguleikum landsmanna? Heldur hann ekki, að þetta hafi skert eitthvað tekjur bæði fyrirtækja og einstaklinga? Ég held, að svo horfi nú, að ekki megi gera ráð fyrir slíku á þessu ári, ef deilan um fiskverðið leysist, svo sem menn gera sér vonir um að hún muni gera nú næstu daga. Ég man ekki betur en þá væri af honum sjálfum og stjórnarliðinu yfirleitt því lýst með mörgum orðum og að vissu leyti með nokkrum rétti, hversu stórfellt tap og áfall væri fyrir þjóðina sú langa vinnustöðvun, sem var hér á s. l. vetri, og hversu gífurleg skerðing það væri á tekjum einstaklinga og þjóðarinnar í heild. Ég endurtek það, sem ég áðan sagði, að nú horfir svo, að ekki komi til slíks að þessu sinni. Um aflabrögð getum við engu spáð, við erum þar báðir jafnóvitandi, hvað framtíðin geymir í skauti sínu. Ég verð því að álíta, að það þurfi ekki nema meðalár og laklega það 1956 til þess að jafnast á við árið 1955 hvað snertir innkaup og innflutningsmöguleika, ef ekki verða einhverjar stórfelldar breytingar, sem hvorki ég né hæstv. ráðh. getum séð fyrir. Ég vil líka mega skjóta því að hæstv. ráðh., að hafi hann raunverulega verið svo hræddur um útkomu ársins 1956 sem hann nú lætur í veðri vaka, þá var óréttlætanlegt af honum að ráðstafa öllum 100 millj. kr. tekjuafgangi ársins 1955 og nota ekki eitthvað af því til þess að mæta erfiðleikunum, sem hann sá fyrir árið 1956, því að það er að sjálfsögðu ætlunin, að ef tekjur fara fram úr áætlun eitt ár, þá sé hægt með því að komast hjá því að leggja á nýja skatta á næsta ári.

Ég skal svo víkja að einstökum liðum, eins og t. d. verðtollinum. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að ætla, ef ekki verður stöðvun hér á framleiðslu og annað slíkt, að verðtollurinn verði lægri á næsta ári en hann hefur reynzt innborgaður til ársloka 1955. Mér er ekki kunnugt um neinar verðlækkanir erlendis, sem hafa áhrif á þetta, sem neinu nemi.

Hæstv. ráðh. segir um söluskattinn, að hann breytist lítið með breytilegu verðlagi hér í landinu. Ég veit að vísu, að 6%, sem lögð eru á innflutning, breytast ekki eftir innlendu verðlagi. Þó fer það eftir því, hverjir skattarnir eru, sem búið er að leggja á áður, því að hann er lagður ofan á skattana og 10% fyrir væntanlegri álagningu, ef ég man rétt, og sama er gert ráð fyrir að verði gert samkv. frv. um framleiðslusjóð. En sá hlutinn, — ég hef ekki tölur um það, hversu mikill hann er, — en sá hlutinn, sem leggst á smásölu hér innanlands, ýmiss konar þjónustu og þess háttar, hlýtur að hækka með breytilegu verðlagi, breytilegu kaupi innanlands, og það er enginn vafi á því, að þær verðhækkanir, sem þegar eru komnar og fyrirsjáanlegar eru, hljóta að valda mjög verulegri hækkun á þessum liðum. Sama gildir að sjálfsögðu um benzínskattinn og bifreiðaskattinn, sem hækka með vaxandi fjölgun bifreiða o. s. frv.

Ég hygg því, að það sé fullkomlega réttmætt, bæði með tilliti til þess, hversu horfir nú og hver reynslan hefur orðið undanfarin ár, fólkinn fjölgar í landinu um 3000 á hverju ári, eins og hæstv. ráðh. veit, — að gera ráð fyrir, að þessir tekjuliðir gefi ekki minna en ég gerði ráð fyrir hér í minni fyrri ræðu. Og ég veit, að hæstv. ráðh. játar þetta. Hann segir: Það verður alltaf að gera ráð fyrir, að einhver útgjöld falli á umfram það, sem fjárlögin segja. — Það er kappsmál fyrir fjvn. að ganga svo frá fjárlögunum, að það verði sem minnst. Hann spáir einnig vísitöluhækkun, og það kann vel að vera, að vísitalan hækki, en þar sem hæstv. ríkisstj. eða fjvn. hefur ekki talið ástæðu til að taka tillit til þess í sínum áætlunum, þá getur hann varla búizt við því, að stjórnarandstaðan fari að fara að hlaupa í skrápana og hjálpa upp á.

Hæstv. ráðh. vék að því, að ég hefði sagt, að þessir nýju skattar, þessar nýju álögur, 200 millj. kr., mundu verða, ef ekki væru gerðar sérstakar ráðstafanir, nýr álagningarliður fyrir milliliðina og þá, sem fjármunir og vörur fara í gegnum hendurnar á. Mér virtist hann játa það, að tilhneiging mundi verða í þá átt að nota sér þetta til gróðabralls, en hæstv, ríkisstj. hefði sett þarna skörulega undir þennan leka, svo að maður þyrfti ekki að vera hræddur um, að úr þessum fyrirætlunum gæti nokkuð orðið. Hann skýrði frá því, að það verði bönnuð álagning á framleiðslusjóðsgjaldið í lögunum, það verði líka bannað að hækka þær vörubirgðir, sem væru til í landinu, þegar lögin öðluðust gildi, og enn fremur verði skylt að gefa skýrslur um álagninguna. Ég leyfi mér nú að spyrja hæstv. ráðh.: Hefur hann trú á því, að þessi ákvæði, sem öll eru nú í gildi, verði til þess að hindra álagningu milliliða á þessa nýju skatta? Eina ráðið til þess og sú eina viðleitni, sem ég sé að hægt væri að hafa í frammi, væri beinlínis að ákveða hámarksverðlag og hámarksálagningu á vörurnar. Það er að sjálfsögðu það eina, sem dugir, það eina, sem nokkurs árangurs er að vænta af. En að einhverjir tveir menn sitji uppi í innflutningsstofnun og safni skýrslum um álagningu, sem svo eru lagðar í bunka og geymdar og rifizt um, hvort séu réttar eða rangar og hvað þýði, og banna kaupmönnum að hækka vöru án þess að hafa nokkurt eftirlit, að þeir ekki geri það, eða banna þeim að leggja á þennan hlut af verðinu, en ekki hinn, hefur enga þýðingu, þegar þeir mega leggja á innkaupsverðið þeim mun hærra og leggja svo ekkert á innflutningsgjaldið. Þetta er ekkert annað en argasti hókus pókus, sem hefur enga minnstu þýðingu sem verðlagseftirlit, sem miði að því að halda verðinu niðri. Þetta veit hæstv. ráðh. mætavel sjálfur. Sé nokkur viðleitni eða vilji hjá hæstv. ríkisstj. til þess að fyrirbyggja, að þessir nýju skattar verði gróðalind fyrir milliliðina og þyngi enn meira á almenningi, þá ættu þeir að taka upp röggsamlegt eftirlit með verðlaginu, ákveða hámarksverð eða hámarksálagningu, eftir því sem við á, og setja röggsamlegt eftirlit með því, að þessum ákvæðum verði fylgt.

Í þessu sambandi langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hafi ekki séð ástæðu til þess að láta hagstofuna reikna út, hvaða áhrif þessar nýju álögur muni hafa á framfærsluvísitöluna og þar með kaupgjaldsvísitöluna í landinu. Þegar rætt er um breytingar á kaupi verkamanna, er jafnan leitað til fróðra manna til þess að reikna út, hversu mikil áhrif þetta hafi á vísitöluna til hækkunar. Það er ekkert óeðlilegt. Ég skal ekki andmæla því, að það sé gert, síður en svo. En er ekki alveg sama ástæða — og ekki minni — til þess að láta reikna út og upplýsa Alþingi um, hversu mikið fer í súginn aftur af tekjum ríkissjóðs vegna hækkandi vísitölu, sem stafar af hækkuðum álögðum sköttum og tollum? Og ég vildi mælast til þess við hæstv. ráðh., áður en meðferð þessara mála lýkur hér í þinginu, — og meina ég þá ekki endilega þetta frv., heldur einnig það, sem er í Nd., — að hann léti liggja fyrir þinginu greinargott álit frá hagstofustjóra um það, hversu mikillar hækkunar mætti vænta á vísitölunni, sem stafi af þessum nýju tollaálögum.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann vænti þess, að stjórnarandstaðan, ef hún væri ekki ánægð með þetta frv, hér og frv. í Nd., mundi gera sínar till. og bera þær fram hér um það, hvernig ætti að leysa vanda útgerðarinnar, því að vanda ríkissjóðs er að minni hyggju ekki erfitt að leysa, eins og ég hef drepið á. Við hefðum gjarnan viljað fá aðstoð til þess að kynna okkur þessi mál betur en við höfum átt kost á, eða ég fyrir mitt leyti. Ég hef óskað eftir að sjá skýrslur sérfræðinga og starfsmanna ríkisstj. um ástand útvegsins og afkomu hans og þeirra fyrirtækja, sem skipta við útveginn, sem kaupa af honum afurðirnar, sem selja honum nauðsynjar hans, hvernig afkoma þessara fyrirtækja hefur verið, hver gróðinn er, hvað tapið er. Á því mætti væntanlega sjá, hvaða leiðir væru líklegastar til úrbóta. En okkur hefur verið neitað um þessar skýrslur. Hæstv. ríkisstj. eða forsrh. fyrir hennar hönd hefur sagt, að þar væru einkamál ríkisstj., fyrir hana eina gerðar, hún léti þær ekki öðrum í té, og látið það nægja sem ástæður fyrir neitun sinni. Mér finnst furðu langt gengið að krefjast till. til úrbóta af þeim sömu aðilum sem neitað er um þær upplýsingar, sem nauðsynlegt er að hafa til að mynda sér rökstudda skoðun um, hvaða leiðir séu líklegastar til að bæta úr. Ríkisstj. hefur kosið að gera að sínu einkamáli þær upplýsingar, sem hún hefur fengið um hag þessara fyrirtækja, og birta þær ekki, og þar með hefur hún tekið sér einkarétt á því að undirbyggja till. um framkvæmdir og aðgerðir í málinu.

Ég skal svo aftur víkja að þessu frv., sem hér liggur fyrir þessari hv. deild. Ég er jafnsannfærður um það eftir ræðu hæstv. ráðh., að fari gjöld fjárlaganna ekki verulega fram úr því, sem þau verða samkvæmt till. meiri hl. fjvn., þá er óþarft að leggja á nýja skatta til þess að mæta þeim útgjöldum. Þeir skattstofnar, sem fyrir hendi eru, eru nægilegir, ef ríkisstj. fylgir ákvæðum fjárlaganna og ekki verður stöðvun í atvinnulífi landsmanna, sem ég vil ekki gera ráð fyrir að verði á þessu ári. Ráðherrann hefur sjálfur upplýst og staðfest hér, að þess megi vænta, að tekjurnar á árinu 1955 verði 630–640 millj. kr., eða yfir 120 millj. umfram það, sem þær voru áætlaðar á s. l. ári, og hann hefur sjálfur litið svo bjart á horfur og ástand á þessu yfirstandandi ári, að hann, auk þess að eyða 60–70 millj. kr. af þessum 120 millj. kr., leitar nú heimildar Alþingis til þess að ráðstafa til annarra hluta þeim 50–60 millj. kr., sem enn er óráðstafað af greiðsluafganginum. Þetta er rösklega sú upphæð, sem hann ætlar að fá með þessu frv., og ég sé ekki, að þar þurfi öllu gleggri sönnun fyrir því, að það sé óþarft að leggja þessi gjöld á.