28.01.1956
Neðri deild: 55. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Meiri hl. fjvn. og ríkisstj. er sammála um, að ekki sé mögulegt að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög nema með því að afla nýrra tekna. Þetta er algert nýmæli nú um sinn að því leyti, að undanfarin ár hefur ætíð verið hægt að lækka nokkuð skatta og tolla á hverju ári.

Ég ætla ekki að flytja hér langan inngang eða útskýra þessa þörf miklu nánar, vegna þess að það hefur verið gerð glögg grein fyrir henni í sambandi við brtt. hv. meiri hl. fjvn. og nál. hv. meiri hl. fjvn.

Þó vil ég aðeins víkja að því, að hv. stjórnarandstæðingar hafa dregið í efa, að þörf væri á því að samþykkja nýja tekjustofna fyrir ríkissjóð. Kom þetta fram í hv. Ed. við meðferð þessa máls. Út af því vil ég aðeins benda á, að samkvæmt því, sem nú liggur fyrir, er tekjuáætlun fjárlaga komin upp fyrir 600 millj. kr., og þá vantar hátt í 50 millj. kr., til þess að greiðslujöfnuður náist.

Á s. l. ári verða tekjurnar ekki hærri en 630–640 millj. kr. Þó hefur verið flutt svo mikið inn á því ári, að notaður hefur verið meiri gjaldeyrir en sá, sem tilfallið hefur á árinu, og á því ári hefur verið alveg óvenjulegur bifreiðainnflutningur, sem hefur fært ríkissjóði milljónatugi í tekjur, bæði verðtoll, aukinn söluskatt og leyfisgjöld af bifreiðainnflutningi. Bifreiðainnflutningur á þessu ári verður aðeins brot af því, sem hann var á s. l. ári, og það er ómögulegt að hugsa sér, að innflutningur í heild geti orðið eins mikill á þessu ári og s. l. ár.

Samt sem áður eru fjárlögin orðin þannig, að ef tekjurnar yrðu jafnmiklar í ár og þær hafa orðið s. l. ár, ekki meiri, þá væri gefinn greiðsluhalli. Það er óhugsandi, að umframgreiðslur verði ekki meiri en 30 millj. kr. Fyrir utan óvenjulegar greiðslur, sem á falla ætíð, hversu vandlega sem áætlað er, kemur svo, að vísitalan er of lágt sett í fjárlagafrv. Það, sem treyst er á, er, að tekjuskatturinn verði hærri nú en hann varð á s. l. ári, og er þó áætlun hans teygð orðin.

Ég held, að tekjuáætlun fjárlaganna hafi aldrei á síðari árum verið jafnteygð og hún er nú, og þess vegna tel ég, að röksemdafærslur hv. stjórnarandstæðinga um það, að ekki sé þörf á því að afla nýrra tekna, séu á misskilningi byggðar.

Ég mun þá minnast fáum orðum, hvernig gert er ráð fyrir að afla teknanna.

Fyrst er ráðgert að hækka álag á vörutoll upp í 340%, en athugað hefur verið, að verði álagið hækkað á þessa lund, verður vörumagnstollurinn jafnhár hlutfallslega, samanborið við verðlag í landinu, þ. e. a. s. framfærsluvísitölu, og hann var, þegar grunnur tollsins var settur árið 1951. Hann er þess vegna færður til samræmis við hækkun á verðlagi í landinu, en í raun og veru hefur tollurinn lækkað tiltölulega ár frá ári undanfarið vegna verðlagsþróunarinnar.

Þá er gert ráð fyrir því að hækka innflutningsgjald af benzíni um 20 aura. Innflutningsgjald af benzíni er nú 31 eyrir og vörumagnstollur 15 aurar. Þannig hafa þessi gjöld staðið síðan 1949. Ef þau væru færð til samræmis við þróun verðlagsmála í landinu síðan, ætti að hækka aðflutningsgjöldin á benzínlítrann um 47 aura. Þá mundi benzínskatturinn verða jafnhár tiltölulega, miðað við framfærsluvísitölu, og hann var, þegar hann var ákveðinn. En í stað þess að leggja til, að hann verði hækkaður um 47 aura, er lagt til, að hann verði hækkaður um 20 aura á lítra.

Þá er ráðgert, að af þessum 20 aurum renni 10 aurar til ríkissjóðs sjálfs, en 5 aurar í brúasjóð til þess að standa undir byggingu stórra brúa, en með 5 aurum verði stofnaður sérstakur sjóður til þess að greiða kostnað við að leggja vegi á milli byggðarlaga. Er þá ráðgert, að Austurvegur fái væna fúlgu af því fé.

Þá er lagt til, að bifreiðaskattur og gjald af hjólbörðum og slöngum verði tvöfaldað. Þessi gjöld hafa staðið óbreytt frá því 1949, og með þessari uppástungu er lagt til, að þau verði færð til samræmis við verðlagsbreytingar, sem orðið hafa síðan, miðað við framfærsluvísitölu. Með þessu móti verða þau jafnhá raunverulega, samanborið við verðlag landinu, og þau voru, þegar þau voru sett. Hafa þau í raun og veru farið sílækkandi ár frá ári, þar sem þau hafa staðið óbreytt í krónutölu þrátt fyrir mjög breytt gildi peninga. Þessi gjöld eru nú mjög lág hér, og er rétt að benda á, að bifreiðaskattur af venjulegri sex manna fólksbifreið, tegund, sem mikið er notuð, er nú 504 kr., en verður eftir hækkunina 1008 kr., en í Noregi t. d. er gjald af slíkri bifreið 1256 ísl. kr., eða 25% hærra en verður hér eftir breytinguna.

Bifreiðagjald nær til fólksbifreiða og vörubifreiða, sem nota dieselorku og brenna olíu, en ekki til vörubifreiða, sem nota benzín. Til þess að fara varlega í því að hækka gjöld á vörubifreiðum er lagt til, að bifreiðaskattur á vöru- og sérleyfisbílum hækki aðeins um 50% frá því, sem hann er nú, og verður hann þá hvergi nærri færður til samræmis við verðlagsbreytingarnar, sem orðið hafa, síðan hann var settur, og sannast að segja eru þá dieselbifreiðar, sem vörur flytja, mjög vel settar eftir sem áður, samanborið við þær bifreiðar, sem benzín nota, þar sem dieselbifreiðarnar verða ekkert fyrir þeirri hækkun, sem gerð er á benzínskattinum, eins og gefur að skilja. Samt hefur ekki þótt rétt að hækka gjöldin á þessum bifreiðum um meira en 50%.

Ég skal taka það fram, að bifreiðaskatturinn er ekki heldur greiddur af skólabifreiðum, ekki vörubifreiðum, sem nota benzín, eins og ég sagði áðan, og eigendur jeppabifreiða eiga rétt á endurgreiðslu bifreiðaskatts, ef þeir sanna með vottorðum skattanefndar, að þeir hafi notað bifreiðarnar að mestu eða öllu leyti við framleiðslu- og jarðyrkjustörf.

Loks er svo stærsti liður frv., hækkunin á verðtollsálaginu. Það er gert ráð fyrir, að það hækki úr 45% í 80%, en það hefur verið 45% frá 1. jan. 1951, en var áður 65%. Var það lækkað, um leið og genginu var breytt, niður í 45%.

Að sjálfsögðu hefur verðtollurinn ekki hækkað eins mikið undanfarið og verðlag innanlands, því að verðlag á erlendum vörum hefur hækkað minna undanfarið en verðlag hefur hækkað í landinu, og þar af leiðandi hefur verðtollurinn hækkað minna en nemur hækkun á opinberum útgjöldum. Þess vegna má segja, að einnig frá þessu sjónarmiði sé ekki óeðlilegt, að til þess þurfi að grípa að hækka verðtollsprósentuna nokkuð.

Æskilegt hefði þó vitaskuld verið að komast hjá því að þurfa nokkuð að breyta skattabyrðinni, en því er ekki að heilsa, eins og ég gerði grein fyrir í upphafi þessa máls.

Þá er að geta þess, hvað gert er ráð fyrir, að ákvæðin færi ríkissjóði í tekjur. Ráðgert er, að vörumagnstollsviðaukinn gefi um 6 millj. kr. á heilu ári, benzínskatturinn til ríkissjóðs 5 millj. kr. á heilu ári og bifreiðaskatturinn um 6 millj. kr. og gúmmígjaldið og verðtollsviðaukinn 8536 millj. kr. eða svo. Samtals er þetta á heilu ári um 53 millj. kr. En nú er janúarmánuður liðinn og aðeins um 11 mánaða tekjur að ræða á þessu ári, og mundi þá láta nærri, að gera mætti ráð fyrir um 49 millj. kr. tekjum af þessum nýju tekjuliðum á þessu ári, og það er það, sem þarf til þess að afgreiða fjárlögin greiðsluhallalaus.

Ég skal geta þess mönnum til fróðleiks, að ég hef reynt að bera saman þær hækkanir á gjöldum, sem hér eru ráðgerðar, þ. e. a. s. þann tekjuauka í heild, sem hér er ráðgerður fyrir ríkissjóð, og þær lækkanir, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum fyrir atbeina núverandi ríkisstj. og þingmeirihluta, og telst mér svo til, að sá tekjuauki, sem hér er ráðgerður, sé sáralítið meiri en þær lækkanir, sem á þessum árum hafa verið lögleiddar.

Ég kemst helzt að þeirri niðurstöðu, að skattabyrðin á þjóðinni til ríkissjóðs, eftir að þessi löggjöf hefur verið sett, verði sem allra næst hin sama og hún var 1950. Það er að vísu mjög leiðinlegt að þurfa þannig að taka aftur til baka það, sem lækkað hefur verið, en hjá því verður ekki komizt vegna þeirrar stefnu, sem málin hafa tekið nú upp á síðkastið.

Loks vil ég fara örfáum orðum um meðferð málsins. Í þessu frv. eru m. a. ákvæði um það, að greiða skuli innflutningsgjaldið af benzíni af benzínbirgðum, eins og venja er, þegar breytt er benzínskatti, og einnig skuli greiða af verzlunarbirgðum af hjólbörðum og slöngum. Þetta leiðir af sér, að frv. þyrfti endilega að fá afgreiðslu nú á þessu kvöldi frá hv. Alþ., til þess að ekki sé hægt að viðhafa spákaupmennskusölu á þessum vörum umfram það, sem vitanlega er að einhverju leyti orðið í dag um benzínið, þó í mjög smáum stíl.

Um þetta frv. hef ég rætt allýtarlega við hv. leiðtoga stjórnarandstæðinga í gær og í fyrradag og m. a. um málsmeðferðina og þennan þátt í málinu, sem ég var nú að minnast á. Hv. talsmenn stjórnarandstæðinga í Ed. greiddu fyrir því, að málið gæti fengið þar afgreiðslu síðari hluta dagsins í dag. Vona ég, að hv. leiðtogar stjórnarandstæðinga í þessari deild hafi sama háttinn á, enda hef ég gert mér far um, að þeir hefðu nægilegan tíma til þess að setja sig inn í málið. Ég afhenti þeim frv. sem trúnaðarmál í gær, til þess að þeir gætu athugað það og búið sig undir að taka afstöðu um málið í heild eða einstök atriði þess, og var það allt miðað við, að það gæti fengið skjóta afgreiðslu.

Ég vil beina því til hv. fjhn., sem fær málið til meðferðar, að hún afgr. málið fljótt, eins og fjhn. í Ed. gerði, og hef ég líka undirbúið það nokkuð með því að hafa samband við fjhn.menn utan fundar í dag, og hef ég góða von um, að n. muni vilja hafa þann háttinn á að taka afstöðu fljótt og skörulega um málið og án þess að það þurfi að tefjast.

Ég vil óska þess, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.