28.01.1956
Neðri deild: 55. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gat þess réttilega í framsögu sinni fyrir þessu frv., að leitað hefði verið til stjórnarandstöðunnar um tilmæli þess efnis, að frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði ekki tafið með löngum umr. Enda þótt við fulltrúar stjórnarandstöðunnar þættumst vita, að frv. væri þess eðlis, að við mundum ekki geta fylgt því, drógumst við á það varðandi þetta frv., að það yrði ekki tafið, en svo var um talað, a. m. k. af minni hálfu, að hitt frv. hæstv. ríkisstj., það sem þá var einnig á döfinni og var hér til 1. umr. í dag, frv. um framleiðslusjóð, yrði ekki knúið fram með afbrigðum og ekki afgreitt fyrir þriðjudag héðan úr deildinni. Ég vænti þess, að við þetta verði staðið, svo að ekki þurfi að gera neinar sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að það frv. verði knúið fram svo fljótt.

Hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt hér fram á sama degi tvö allveigamikil frv. Þessi frv. hafa verið lengi á döfinni, og menn hafa um skeið vitað, að slíkra frv. væri von. Annað þessara frv. á að bjarga útgerðinni, hitt á að bjarga ríkissjóði. Samtals nema þessi frv. 200 millj. kr. álögum á þjóðina til viðbótar við allar þær byrðar, sem þegar eru á hana lagðar af opinberri hálfu. Þetta er þó aðeins samkv. áætlun hæstv. ríkisstj. sjálfrar, en eftir því sem næst verður komizt, verður hér varla um öllu minna en 240 millj. kr. að ræða, og er það vissulega ekki smátt skammtað. Það mætti því ætla, þegar slíkar byrðar eru lagðar á þjóðina til viðbótar öllum þeim, sem fyrir eru, að þá hefði verið leitað á hina líklegustu staði til þess að taka alla þá fjármuni, sem hér er um að ræða, nú ætti að fara rækilega inn í rottuholurnar, sem mig minnir að hæstv. forsrh. hafi einu sinni nefnt svo, og þaðan tekið, sem auðsöfnunin er mest. Þjóðin á eftir að dæma um það og margur einstaklingur að finna á sjálfum sér, hvort svo er eða ekki.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram í því skyni að afla ríkissjóði viðbótartekna, sem hæstv. ríkisstj. og meiri hl. telur að nú muni þurfa, svo að greiðslujöfnuður náist á fjárlögum fyrir þetta ár. Telur stjórnin, að þessar nýju álögur, sem lagðar eru til með þessu frv., muni nema tæpum 50 millj. kr., en þegar hefur verið sýnt fram á það með veigamiklum rökum, að þessi áætlun er of lág. Skattahækkunin, sem lögð er til með þessu frv., mun, ef að líkum lætur, nema allmiklu hærri upphæð, ef ekkert sérstakt kemur fyrir, sem gerbreytir öllum hlutföllum varðandi tekjuöflun og þjóðartekjur. Þetta sést bezt á því, að 25% hækkun á verðtolli einum nemur 44–45 millj., miðað við innkominn verðtoll 1955, eins og hv. 1. landsk. þm. sýndi fram á hér áðan. Verði ekki um stórkostlega minnkaðan innflutning að ræða á þessu ári frá því, sem var í fyrra, þá mun þessi skattahækkun, sem hér er lagt til að gerð verði með þessu frv., nema einum 60 millj. kr. og líklega fremur yfir það en undir. Hér er því greinilega haldið hinni gömlu stefnu, sem mjög hefur tíðkazt hjá þessari hæstv. ríkisstj. og fyrirrennurum hennar, að áætla tekjuliði ríkissjóðs of lágt, að því er virðist algerlega vísvitandi, til þess að hæstv. stjórn geti svo ráðskazt með umframtekjurnar eftir sinni vild.

Afstaðan til þessa frv. hlýtur að mótast af tvennu: annars vegar þörfinni fyrir auknar tekjur ríkissjóðs, ef sú þörf væri fyrir hendi, og hins vegar hversu réttlátar þær tekjuöflunarleiðir eru, sem á að fara samkv. þessu frv. Við 2. umr. fjárlaga héldum við þjóðvarnarþingmenn og aðrir stjórnarandstæðingar því fram, að fjölmargir tekjuliðir fjárlaga væru eins og oft áður of lágt áætlaðir, beinlínis að því er virtist í því skyni, að hæstv. ríkisstj. hefði sem rýmstar hendur til þess að ráðskast með umframtekjur og ráðstafa þeim að verulegu leyti án aðildar Alþ. Slík hefur reynslan orðið mörg undanfarin ár og þá ekki sízt nú á nýliðnu ári. Tekjurnar árið 1955 voru áætlaðar 514 millj., en reynast að líkindum, þegar allt er inn komið, 640, jafnvel 650 millj., að því er líkur benda til, eða um 130 millj. kr. fram yfir áætlun. Nú áætlar meiri hl. hv. fjvn. tekjur ríkissjóðs á þessu ári 606 millj. kr. Telur meiri hl. og hæstv. ríkisstj., að 46 millj. vanti þá, til þess að hægt sé að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Við þjóðvarnarmenn héldum því fram við 2. umr. fjárlaga, að óhætt væri að hækka ýmsa tekjuliði, og hv. 8. landsk. þm. sýndi fram á, að ríkissjóður mundi ekki þurfa öllu meiri tekjur til þess að standa undir áætluðum útgjöldum. Í samræmi við þessa afstöðu bárum við þá fram brtt. til leiðréttingar á tekjuliðum frv. Þær till. voru allar felldar, þær sem ekki bíða enn 3. umr. Við sáum ekki ástæðu til að bera fram nýjar till. um þetta efni nú við 3. umr. frv., þar sem minni hl. hv. fjvn., þeir hv. 3. landsk. þm. og hv. 11. landsk., hafa flutt till. varðandi leiðréttingar á tekjuáætlun, till., sem við getum fallizt á og munum styðja. Við erum þeirrar skoðunar, að ekki sé þörf á auknum tekjum til handa ríkissjóði, eins og nú standa sakir, og erum algerlega andvígir því, að ríkisstj. fái árlega mjög verulegar umframtekjur, sem hún ráðstafar síðan að miklu leyti án þess, að Alþ. fái þar um að fjalla, fyrr en þá eftir að öllu fénu er eytt.

Það er engin ástæða til þess að sjálfsögðu að leggja þyngri byrðar á þjóðina en nauðsyn krefur. Ríkissjóður tekur nú til sín svo gífurlega mikið af þjóðartekjunum, að þar er vissulega ekki á bætandi að nauðsynjalausu. Ef miðað er við útflutning, virðast hlutföllin vera 3 á móti 4, þ. e. a. s. ríkissjóður tekur 600 millj. eða meira, en allur útflutningur þjóðarinnar er um 800 millj. Það, sem ríkissjóður tekur þannig til sín, nemur sennilega allt að fjórðungi þjóðarteknanna allra. Enn fremur lítum við þannig á, að margt hefði mátt spara af þeim útgjöldum, sem nú eru á fjárlögum, ýmsar upphæðir séu þar, sem ekki hefði verið knýjandi þörf að hafa þar nú. Öllum till. til sparnaðar á rekstri hins opinbera hefur bæði nú og áður verið tekið af hinu mesta tómlæti af hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkunum og látið í það skína, að hvergi sé hægt að bæta rekstur, hvergi sé hægt að spara, svo að nokkru nemi.

Meiri hl. hv. fjvn. hefur að þessu sinni verið óspar á að flytja hækkunartill. Margar þeirra eru, það skal ég viðurkenna, um þarfa hluti, en sumar þeirra eru um miður þarfa hluti. Mér telst svo til við lauslega athugun, að hv. fjvn. eða meiri hl. hennar hafi við 2. og 3. umr. fjárlaga flutt samtals rúmar 300 hækkunartill., og hæstv. fjmrh. hefur staðið upp hér við báðar umr. og fært n. kærar þakkir. Hann hefur þakkað henni fyrir góð störf, og ég ætla ekkert að fara að draga úr því, að hún hafi starfað rösklega, en hann hefur jafnframt þakkað fyrir allar hækkunartill., eins og þær lögðu sig. Öðruvísi mér áður brá, má segja um það, því að mig minnir, að einstaka sinnum hafi hæstv. fjmrh. að því vikið, að ekki væri bætandi miklu meiri byrðum á ríkissjóðinn. Nú þakkar hann bara fyrir.

Hins vegar hef ég ekki heyrt enn þá neitt þakklæti frá hæstv. fjmrh. fyrir þær lækkunar till., sem komið hafa frá minni hl., og verð ég þó að segja, að flestar þeirra eru til þarflegri hluta en einar og aðrar þær till., sem hann hefur þegar þakkað meiri hl. fyrir.

Það hefði ef til vill verið ástæða til að ræða nokkuð um það út af fyrir sig, hvort þeir skattar, sem frv. fer fram á að enn séu lagðir á þjóðina, komi réttlátlega niður, eða svo réttlátlega sem orðið gat, væri það á annað borð viðurkennt, að teknanna sé þörf. Ég lít svo á og er sammála þeim ræðumönnum úr stjórnarandstöðunni, sem hér hafa bent á það með rökum á undan mér, að mjög skorti á, að svo sé. En þar sem við þjóðvarnarmenn erum þeirrar skoðunar, að þetta frv. sé óþarft og eigi ekki að samþykkjast í einn eða neinu formi, mun ég ekki fara frekar út í þá sálma.