30.01.1956
Neðri deild: 58. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

146. mál, framleiðslusjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Nál. hafa nú víst ekki komið enn þá, en ég mun nú lýsa hér afstöðu minni til málsins í von um það, að brtt. þær, sem við sósíalistar flytjum við frv., verði komnar fram, áður en ég hef lokið máli mínu.

Þetta frv. um stofnun framleiðslusjóðs er í rauninni aðeins hluti af þeim heildartillögum, sem hugsaðar eru sem lausn á vandamálum útflutningsframleiðslunnar. Annar hlutinn af þessari allsherjarlausn er ekki lagður hér fram í frv.formi á Alþ., þ. e. sá hlutinn, sem leysa á með bátagjaldeyriskerfinu, en sá háttur hefur verið hafður á á undanförnum árum af hæstv. ríkisstj. að halda öllum ákvörðunum um bátagjaldeyriskerfið fyrir utan verksvið Alþ., og hafa því alþm. ekki átt kost á því að koma fram brtt. í sambandi við það kerfi. Það er hugsað að haga þessu eins nú, að um það bil helmingurinn eða reyndar stærri hlutinn af lausn þessara vandamála sé enn þá hafður gersamlega fyrir utan valdsvið Alþ.

En nokkur hluti kemur nú fram hér í þessu frv. Ríkisstj. leggur til, að stofnaður verði sérstakur framleiðslusjóður, og gerir ráð fyrir, að heildarútgjöld úr framleiðslusjóði verði á þessu ári um 152 millj. kr.

Það er nú alveg augljóst, að þessi heildarútgjöld úr framleiðslusjóði eru ranglega áætluð. Það er ekki þörf á því samkvæmt þeim gögnum, sem hér liggja fyrir, að áætla útgjöldin svona há og skal ég nú víkja að því sérstaklega.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að greiddur verði úr framleiðslusjóði ákveðinn styrkur til síldarsaltenda hér við Faxaflóa, og samkvæmt grg. frv. er talið, að greiðslur þessar muni nema um 10 millj. kr. Þessar greiðslur eiga ekki heima í framleiðslusjóði, vegna þess að það var búið að semja um þessar greiðslur áður. Það var búið að leggja á sérstakan skatt til þess að standa undir þessum greiðslum. Verð á tóbaki var hækkað á sínum tíma í þessu skyni, og vitanlega kemur ekki til nokkurra mála að fara að leggja skatta á aftur í sama skyni og áður er búið að leggja á skatt fyrir.

Hér er vitanlega um það að ræða, að ríkisstj. virðist hafa tilhneigingu til þess að gera útgjöld þessa framleiðslusjóðs sem allra hæst til þess að skapa sér aðstöðu til þess að hafa álögurnar aftur á móti sem allra hæstar. Ég fer alveg sérstaklega fram á það, að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir því, hvernig stendur á þess háttar vinnubrögðum, að semja um það við útvegsmenn, að þeir skuli fá tiltekinn styrk til þess að salta síld hér við Faxaflóa, og að leggja á sérstakan tóbaksskatt í því skyni að standa undir þessu, en hlaupa svo frá öllu saman, ætla að hirða þennan tóbaksskatt í ríkissjóð, en koma nú þessum skatti öðru sinni í álögur á fólkið með því að reikna með honum sem útgjöldum hjá framleiðslusjóði.

Það ber því að lækka heildarútgjöld framleiðslusjóðs sem þessum 10 millj. nemur. Það er alveg tvímælalaust.

Þá er gert ráð fyrir í 7. gr. frv., að varið verði úr framleiðslusjóði 26 millj. kr. til þess að kaupa upp svonefnd B-skírteini. Þessi ráðstöfun er með öllu óeðlileg, og hún er ekki heldur í samræmi við það, sem útgerðarmenn fóru fram á í þessum efnum. Það vandamál, sem þarna var um að ræða, var fólgið og er fólgið í því, að útvegsmönnum þykir, að heldur gangi seint að innheimta og koma til réttra eigenda bátagjaldeyrisálaginu, og þeir hafa óskað eftir því, að ríkisstj. hlutaðist til um að greiða fyrir þessu uppgjöri. Útgerðarmenn bentu á það, að það væri innan handar fyrir gjaldeyrisbankana að veita n. þeirri, sem sér um sölu og uppgjör á innflutningsréttindum bátaútvegsins, bráðabirgðalán sem þessari upphæð næmi, 26 millj., svo að hún gæti flýtt uppgjörinu. Bankar landsins gætu sér alveg að meinalausu veitt þessa fyrirgreiðslu, veitt bráðabirgðalán og tekið, eins og útvegsmenn lögðu til, veð í innflutningsréttindunum. Ef horfið hefði verið að þessari leið, hefði ekki þurft að leggja á landsfólkið 26 millj. kr. í nýjum sköttum sem þessari upphæð nemur.

Hér er því algerlega um tilefnislausa álagningu að ræða, sem sjálfsagt er að fella niður, en fallast hins vegar á till. útvegsmanna um að skylda gjaldeyrisbankana til þess að veita þeim þetta umbeðna lán með veði í réttindum útvegsmanna.

Í þessu efni má benda á það, að bankarnir hafa jafnan stórar fjárfúlgur liggjandi hjá sér, sem eru fyrirframgreiðslur innflytjenda vegna vörukaupa. Ég hygg, að iðulega sé þessi fjárfúlga um og yfir 100 millj. kr. Bankarnir greiða ekki einn eyri í vexti af allri þessari fjárfúlgu, sem hjá þeim liggur sem fyrirframgreiðsla upp í vörukaup. Það hefði því verið alveg vandræðalaust að taka lítinn hluta af þessari upphæð og lána útvegsmönnum til fyrirgreiðslu í þessu efni.

Þegar tillit hefur verið tekið til þessa, þá er sem sagt sýnilegt, að það má áætla heildarútgjöld framleiðslusjóðs 26 millj. lægra en frv. gerir ráð fyrir og 10 millj. vegna Faxasíldarinnar lægra en frv. gerir ráð fyrir, eða samtals 36 millj. lægra, en verða þó við öllum óskum útvegsmanna, skerða ekki þau hlunnindi, sem þeir hafa farið fram úr eða þeir óska eftir, á neinn hátt.

En þá eru eftir útgjöld um 116 millj. kr. Nú er upplýst, að í bílasjóði togaranna eða styrktarsjóði þeim, sem aflað var tekna með aukatolli á innflutta bíla, eru fyrir 15 millj. kr. Auðvitað þarf ekki að leggja á sérstök gjöld fyrir þeim, og er þá óhætt að lækka þessi útgjöld sem því nemur, og erum við þá komin í 101 millj. kr.

Þá er einnig meiningin að halda áfram þessum aukatolli á innfluttar bifreiðar á þessu ári. Ríkisstj. áætlar, að sá tekjuliður muni gefa 8 millj. nú á þessu ári. Það er auðvitað öllum, sem nokkuð hafa komið nærri því máli, augljóst, að hér er um alranga áætlun að ræða. Miklu nær sanni er að áætla, að þessi liður muni verða a. m. k. 16 millj. kr. Ég vil benda á, að á 15 mánuðum eða svo, sem gjald þetta var innheimt, hljóp gjaldið upp á 53 millj. kr. Að vísu má reikna með því, að innflutningur á bifreiðum á þessu ári verði miklu minni en áður, en fyrr má nú muna heldur en öllu þessu. Það er t. d. kunnugt, að ríkisstj. hefur þegar gert milliríkjasamning um ákveðin bílakaup. Það er gert ráð fyrir því í samningi, sem gerður var við Ítalíu, að keyptir verði a. m. k. 100 bílar, og það er gert ráð fyrir talsvert verulegum kaupum á bílum frá Rússlandi og fleiri vöruskiptalöndum. Ég tel því rétt að áætla tekjur samkvæmt þessum lið 16 millj., en ekki 8, eins og ríkisstj. gerir. Þegar þetta allt hefur verið tekið til greina, erum við komin þannig, að útgjöld, sem vantar tekjur fyrir úr framleiðslusjóði, eru raunverulega 85 millj. kr.

Ég hygg, að um þessa áætlun verði í rauninni ekki deilt. Það er aðeins hægt að deila um þennan eina lið, sem er áætlunarliður, að bílatollur, aukatollur af bílum á yfirstandandi ári, verði aðeins 3 millj., í staðinn fyrir að ég áætla hann 16 millj.

Hér er gert ráð fyrir því, að þau útgjöld séu nauðsynleg, sem þetta frv. gerir ráð fyrir til hinna ýmsu greina útgerðarinnar og til landbúnaðarins, sem ég skal ekki á neinn hátt vefengja. Ég tek að vísu undir þær aths., sem hér hafa komið fram, að ég tel með öllu óviðeigandi, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki leggja hér fram, bæði fyrir þingnefnd og eins fyrir Alþ. sem heild, þær upplýsingar, sem hún hefur aflað sér um ástæður hinna einstöku greina útvegsins. Ég fyrir mitt leyti efast ekki um það, eins og ég mun víkja nánar að síðar, að eins og í pottinn er búið hér á landi með rekstur útvegsins, þarf togaraútgerðin t. d. fyllilega á þeim stuðningi að halda, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Því er ég vel kunnugur. Ég býst líka við því, að þegar litið er á bátaútveginn í heild, muni honum varla veita af því, sem hér er gert ráð fyrir, þó að þar sé að vísu allmikill skilsmunur á hinum ýmsu fleytum og þeirri aðstöðu, sem þær búa við.

Aðstöðumunur frystihúsanna er auðvitað líka feiknalega mikill. Það sjá allir, að það er vitanlega mikill aðstöðumunur við rekstur, hvort stórt og afkastamikið frystihús býr við stofnkostnað upp á ½ millj. kr. eða hvort jafnstórt frystihús býr við stofnkostnað upp á 10 millj. kr., eins og dæmi eru til um. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að þegar það húsið, sem býr við hinn háa stofnkostnað, á heldur í fjárþröng, hefur hitt frystihúsið sæmilega rúmar hendur í fjármálum. Enn fremur er vitanlega geysilega mikill mismunur á rekstri frystihúsa eftir því, hvar á landinu er.

En sem sagt, ég hef ekki haft aðstöðu til þess eða við hér í minni hl. að gegnumskoða þau gögn, sem ríkisstj. hefur aflað sér frá sínum sérfræðingum, sem þetta hafa rannsakað, og ég átel það, að ríkisstj. skuli ekki treysta sér að leggja þessi gögn hér fram. Ég vil þó miða við það, að Alþ. haldi sér við þær greiðslur til stuðnings framleiðslunni, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og þær óbreyttar, þeim verði skipt á þá lund, sem hér er lagt til, en vitanlega verður sú skipting að skrifast á reikning ríkisstj. á allan hátt, því að hún ein hefur gögn í höndum um það, hvort þessi skipting sé í eðli sínu réttlát á milli hinna einstöku þátta útgerðarinnar.

En þá er svo aftur spurningin um það, hvernig eigi að afla þeirra tekna, sem ég hef hér gert grein fyrir, eða um 85 millj. kr., sem virðist þurfa að afla, til þess að hægt sé að tryggja framleiðslunni það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ríkisstj. hefur hnigið að því ráði að vilja afla allra þessara tekna í formi hækkaðs vöruverðs, með því að leggja sérstakt gjald á allar innfluttar vörur eða flestar innfluttar vörur, sem ég get ekki annað betur séð en að hljóti að leiða til þess, að verðlag allt í landinu hljóti, þegar líður fram á árið, að hafa hækkað um varla minna en 15–20%. Ég get varla séð, að það fari svo, að verðlagið hækki ekki alltaf um það.

Ég tel því, að í eðli sínu sé þessi leið, sem ríkisstj. velur til tekjuöflunar, alveg forkastanleg frá sjónarmiði framleiðslunnar sjálfrar. Það, sem raunverulega er veitt með annarri hendinni í styrkjum, verður tekið að mjög verulegu leyti aftur, a. m. k. þegar líður fram á árið í hækkuðum framleiðslukostnaði, því að hækkað vöruverð þýðir hækkaða vísitölu, hækkuð vísitala þýðir hækkað kaup, og þá fer að verða skertur hluturinn, sem þetta frv. á að færa framleiðsluatvinnuvegunum í landinu. Og það kæmi mér ekki ókunnuglega fyrir sjónir þó að við stæðum frammi fyrir því, þegar komið er fram á seinni hluta ársins, svona fram í septembermánuð, að þá segðu stórar greinar framleiðslunnar, og á ég þar m. a. við frystihúsin: Ja, nú hefur verðlag hækkað það mikið — auðvitað sem afleiðing af þessu — að við höfum ekki lengur hag af rekstrinum. Við ætlum ekki að frysta meira, við ætlum að hætta. — Ef þau gera það ekki, þá er það bara sönnun þess, að þau búa nú við þannig afkomu, að þau hljóta að hafa verulegan hagnað á fyrri hluta ársins, það er ómögulegt annað.

Í eðli sínu er því sú leið, sem ríkisstj. velur, í rauninni engin leið. Hún er aðeins skammgóður vermir, hægt að nota hana örstuttan tíma, á meðan sveiflan er að ganga yfir, annars étur hún sig upp sjálf.

En þá er aftur hitt: Eru þá ekki til neinar aðrar leiðir til þess að afla tekna í þessu skyni? Við sósíalistar teljum, að það sé fyllilega hægt, og ég skal fara um það nokkrum orðum, af því að við flytjum hér brtt. um það. Það er að vísu ekki búið að útbýta till., en til þess að hraða fyrir umr. mun ég samt ræða þessar till., eins og þær væru fram komnar, og reyna að skýra efni þeirra jafnóðum.

Við leggjum til, að í staðinn fyrir þær tekjuöflunarleiðir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., verði á árinu 1956 gjaldeyrisbankarnir tveir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, skattlagðir með aukaskatti um 25 millj. kr. Ja, þetta er ekkert lítill skattur, segja sumir, a. m. k. þeir, sem finna alltaf til með bönkunum. En er þetta óréttmætt? Í tiltölulega nýútkominni skýrslu frá Framkvæmdabanka Íslands segir Framkvæmdabankinn, þegar hann er að gera grein fyrir þjóðarbúskapnum, að gróði banka og sparisjóða í landinu hafi árið 1953 verið 55 millj. kr., en þess er svo jafnframt getið, enda kunnugt af öllum, að hagnaður sparisjóða í landinu er hverfandi lítill. Gróðinn er næstum allur hjá gjaldeyrisbönkunum tveimur. Auðvitað er þetta gefið mál, að þessi gróði bankanna er að mjög verulegu leyti tekinn af útgerðinni í landinu, að vísu ekki allur. Nokkur hluti af gróðanum er t. d. tekinn með því, að bankarnir lána verzluninni í landinu allmikið. En hvað gerir verzlunin við þá vexti, sem bankarnir láta hana greiða? Verzlunin hækkar verðlagið sem vöxtunum nemur. Verðlagið hækkar vísitöluna, verðlagið hækkar kaupgjaldið. Margir geta velt af sér kaupgjaldinu, nema útflutningsframleiðslan, hún getur það ekki. Hún hefur því fengið þennan hluta líka í hausinn. Og nokkurn hluta taka bankarnir af því, að þeir veita mönnum lán til þess að byggja hús eða til að kaupa hús og taka sína háu vexti af því. Og hvert fara þeir vextir? Þeir fara í það, að húsverð í landinu hækkar, að húsaleigan hækkar og að þeir, sem borga háa húsaleigu, vilja fá hærra kaup. Og þetta háa kaup bitnar á útflutningsframleiðslunni. Það er því sannleikur málsins, að öll sú stóra upphæð, sem bankarnir rífa til sín á hverju ári, hvílir öll í heilu lagi á útflutningsframleiðslunni, þegar málið er skoðað ofan í kjölinn. Ég segi, að þegar þarf að grípa til slíkra ráðstafana sem þessara, þá er það sannarlega ekki of mikið þó að bankarnir láti svo sem hálfs árs gróða í þennan sjóð.

Þá leggjum við til í öðru lagi, að aflað verði tekna á þann hátt, að olíufélögin í landinu verði nú skattlögð sérstökum aukaskatti, sem nemur 20 millj. kr., til þessa sjóðs. Ja, það eru sumir menn, sem álíta það og hafa aldrei viljað hlusta á það, að olíufélögin hafi meira en bara til hnífs og skeiðar. Ég veit það. Ég þekki þetta vel, því að ég er oft búinn að minnast á þetta áður. En ég vildi gjarnan, að þeir menn, sem vilja taka að sér að verja olíufélögin og verðlagið hjá þeim, gæfu skýringu á því atriði, sem ég skal nú nefna. Þegar ég tek upp olíuverð í þýzkum útgerðarbæ núna um miðjan desembermánuð, bæ, sem er helmingi minni en Reykjavík, og ég tek því ekki lægsta verðið, sem þar er fáanlegt, og tek verð á nákvæmlega sömu olíu, þeirri olíu, sem bátarnir nota hér um sama leyti, hver var þá verðmismunurinn? Verðið hér var 376 kr. hærra á tonn, eða rétt um 70% hærra. Verðið á togaraolíunni var á sama tíma 66 kr. hærra á tonn hér en þar úti. Verðmunurinn á þeirri olíu hefur alltaf verið miklu minni en á bátaolíunni. Verðið hér var rétt um 20% hærra. Þegar ég tek svo samkvæmt opinberri skýrslu heildarolíumagnið, sem selt er hér í landinu á ári, og hlutfalla það niður á þennan verðmismun, þá kemur út, að ársnotkun okkar af olíu er seld hér á rétt um það bil 50 millj. kr. hærra verði en í þessum útgerðarbæ í Þýzkalandi. Hvað er það, sem veldur því, að olíufélögin verða að selja olíuna á svona miklu hærra verði hér? Þau viðurkenna, að þau borgi ekki hærri farmgjöld hingað en þessi markaðslönd borga. Þau hafa meira að segja viðurkennt fyrir mér, að flutningsgjaldið hingað, á meðan olían var flutt frá Mexíkóflóa, eins og flestir þessir aðilar verða að flytja hana og því höfum lengst af flutt hana, hafi verið hefur lægra en bæði til Danmerkur, Noregs og Þýzkalands. En þessi verðmismunur á olíu, sem ég tilgreindi, er mjög sambærilegur eða samsvarandi mismuninum við öll þessi lönd, sem ég nefndi. Það er því ekki til að dreifa flutningsgjaldinu. Sé það rétt gefið upp, er ekki því til að dreifa. Nú, það eru auðvitað vinnulaun, — ýmsir benda á þau. En það er þó vitað mál að vinnulaun eru í þessum efnum alveg hverfandi liður. Á það má t. d. minna, að það kom fram í síðasta verkfalli, að olíufélögin héldu því fram, að einn einasti maður hjá þeim gæti dælt í land allri olíu, og þyrftu engir fleiri að koma nærri, ef hann bara fengi að vera í friði við kranann. Það þurfti ekki meira vinnuafl, sögðu þeir, því að sannleikurinn er sá, að skipin hér úti á legu eru tengd með slöngum við tankana í landinu. Og mikill meiri hlutinn af olíunni er afgreiddur þannig, að olíunni er dælt beint úr birgðageymum félaganna og út í bátana og skipin. Vinnulaun eru ekki ýkjamikill liður, en þó skal ég játa, að þar er einhver munur. Sá munurinn, sem maður hins vegar viðurkennir að er á kostnaði olíufélaganna hér og erlendis, er vaxtamismunur. Þeir segja: Við verðum að borga 7–8% vexti hér, en þeir úti þurfa ekki að borga nema 2–3%, og berast þá böndin enn að þeim hérna í Austurstræti. Ég veit, að þau þurfa að borga meiri vexti, en það eru bara óhófsvextir, sem engu tali tekur. En svo er þó langstærsti liðurinn, sem ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um að þetta skýrist með. Það skýrist með því, að olíufélögin hér hafa verið að heimta af rekstrartekjum sínum óeðlilega mikið í stofnkostnað, sem þau hafa átt við að glíma.

Fyrir örfáum árum treður sér inn í olíusöluna nýtt olíufélag, alveg nýtt. Til þess að það geti verið með, þarf að byggja fyrir nokkra tugi milljóna. Það þarf að kaupa bíla, byggja tankstöðvar og afgreiðslustöðvar úti um allt land og byggja stórar birgðastöðvar hér. Það gat ekki verið með öðruvísi. Það hefur komizt yfir þetta blessunarlega. Og hin olíufélögin hafa ráðizt í tugmilljónaframkvæmdir. Ég hygg, að olíufélögin hagi þessu eins og títt er reyndar um þá, sem í fjárfestingu standa hér á landi, að þau segi: Ja, stofnkostnaðinn verðum við að fá til baka á 10 árum. Það verður að reikna með því, að þessi stofnkostnaður sé borgaður upp á 10 árum, og vextir af þessu verða að borgast 7–8%. — Og þegar þau eru búin að dreifa á olíusöluna í landinu öllum þessum gífurlega kostnaði á stuttum tíma, þá er vitanlega skýringin fengin.

Ég eyði svo ekki frekari orðum að þessu til þess að lengja mál mitt ekki um of, að olíufélögin eru að okkar dómi sjálfsögð til þess að bera ekki minna en 20 millj. kr. Ég gæti trúað því, að það væri svona um það bil hálfs árs gróði þeirra.

Þá leggjum við í þriðja lagi til, að flutningaskipafélög þau, sem flytja afurðir útgerðarinnar á erlendan markað og flytja aftur til landsins þær vörur, sem keyptar eru fyrir þessa framleiðslu, verði látin borga nú með sérstökum aukaskatti 15 millj. kr. Þá er spurningin: Hvernig hefur hagur þessara skipafélaga verið? Efast nokkur maður um það, að Eimskipafélagið og sambandsskipin og frystiskipin hafi haft góðan rekstur á undanförnum árum? Er það ekki öllum ljóst, að eitt af þessum félögum hefur byggt sig hreinlega upp, þ. e. skipafélag Sambandsins, eignazt 6 stór og vönduð skip á örfáum árum? Og ég veit ekki betur en að Sambandið hafi eignazt þessi skip án þess að leggja einn einasta eyri á meðlimi sína í stofngjald fyrir þessum skipum. Það, sem þarna er um að ræða, er það, að skipin hafa ágætan hagnað árlega. Og Eimskipafélagið, það er kunnugt um það líka, hvernig það hefur byggt upp sinn skipastól. Allir sjá svo, að þessi gróði þessara félaga er fenginn af því, að þau flytja á erlendan markað framleiðslu útgerðarinnar og flytja heim aftur vörurnar fyrir andvirðið. Þau eru rétt komin til þess að borga 15 millj. kr. í þennan sjóð eitt ár, og það er ábyggilega ekki nema hluti af ársgróða þeirra.

Þá leggjum við einnig til, að tekna verði aflað í þennan sjóð með því, að vátryggingarfélög í landinu verði látin borga 10 millj. kr. Ég hef líka nokkrum sinnum haldið því fram, að vátryggingarfélög í landinu hefðu aðstöðu til þess að raka til sín allálitlegum gróða. En það er almenn tilhneiging, a. m. k. hjá stjórnarvöldunum í landinu, að halda, að þetta sé allt saman ofsagnir, raunverulega græði olíufélögin ekki, því er nú ekki neitað með bankana, þeir bara þurfa þess, — raunverulega græði skipafélögin ekki, a. m. k. ekki meira en þau þurfa, og raunverulega græði vátryggingarfélögin ekki heldur neinn obba.

Ég tók eftir því í nýjustu skýrslu, sem Landsbankinn gefur út um fjármál, Fjármálatíðindunum, að þar er skýrt frá því, að vátryggingarfélög í landinu, önnur en Brunabótafélag Íslands og önnur en Tryggingastofnun ríkisins, eigi þá í árslok 1954 í skráðum skuldabréfalánum röskar 60 millj. Einhverjir kunna nú að halda, og það datt mér í hug fyrst, að út af fyrir sig, þó að þetta bæri vott um allgóðan efnahag hjá þeim, að þau hafi getað lánað þetta, væri þetta kannske margra ára samsafn og því ekki gerandi allt of mikið úr því. En það var þá önnur skýrsla þarna við hliðina í þessum Fjármálatíðindum, þar sem gerð var grein fyrir því, hvað hinir ýmsu aðilar hefðu veitt mikil skuldabréfalán, sem skráð eru, bara á árinu 1954, og þá kemur í ljós, að vátryggingarfélög, önnur en Brunabótafélagið og Tryggingastofnun ríkisins, veittu í skuldabréfalán rúmlega 17 millj. kr. Ég fyrir mitt leyti efast ekkert um það, að þeir aðilar, sem veita svona 17 millj. kr. í lán á einu ári, hafa ekki verið með hallarekstur. Þau veita þetta af því, að þau hafa getu til þess. Og fleiri tölur mætti sýna um það. Ég hef t. d. minnzt á það áður, að það kom fram í bréfi frá einu af þessum vátryggingarfélögum, þegar rætt var um útboð á brunatryggingum fyrir Reykjavík núna fyrir stuttu, þetta vátryggingarfélag gerði það að talsverðu kappsmáli að fá þessar tryggingar, og það rökstuddi beiðni sína um að fá tryggingarnar í fyrsta lagi með því, að það hefði gert hagstætt tilboð, og í öðru lagi með því, að félagið væri orðið svo vel efnum búið, að það ætti nú orðið rúmlega 20 millj. í sjóði. En rétt um sama leyti fékk ég smábók frá þessu félagi, og þar var verið að skýra frá því, að félagið væri núna á sjöunda aldursári. Það var ekki nema rúmlega 6 ára gamalt. Þarna gat ekki farið á milli mála, að félagið hafði grætt. Og það er hægt að rökstyðja það með miklu fleiri dæmum, að vátryggingarfélögin í landinu hafa aðstöðu til þess að hagnast vel. Við leggjum því til, að þau verði látin greiða í þennan sjóð með sérstökum aukaskatti 10 millj. kr., en þó verði undanþegin þau vátryggingarfélög, sem eru hrein bátaábyrgðafélög, svo og Tryggingastofnun ríkisins og Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.

Þá leggjum við enn til, að lagður verði sérstakur aukaskattur, sem nemi 15 millj. kr., á alla þá verktaka og verktakafélög, sem hafa tekið að sér stórframkvæmdir á vegum hersins, bæði á s. l. ári, 1955, og vegna samninga, sem þau gera á árinu 1956. — Það vitanlega blandast engum manni hugur um það, að þessir aðilar, sem þarna hafa hreiðrað um sig, hafa aðstöðu til þess að raka að sér miklu fé, sem sleppur allt undan sköttum. Ég nefni í þessu sambandi, að fram undan er mjög dýr hafnargerð í Njarðvík. Ég hef heyrt sagt, að áætlanir væru um það, að hún kostaði ekki undir 150 millj. kr. Það hefur verið upplýst hér, að það væru allar líkur til þess, að íslenzk félög mundu fá þetta verk. Það er mín skoðun, að það eigi að leggja þessar 15 millj. kr. á þessa verktaka og þessi verktakafélög, sem m. a. vinna nú framleiðslunni stórógagn með því að keppa um vinnuafl við framleiðsluna, yfirbjóða í vinnuaflið og gera útgerðina oft og tíðum svo til óstarfhæfa. Þeir væru vel að því komnir að borga, þótt ekki væri nema 15 millj. kr. í eitt ár.

Þá hef ég gert grein fyrir till. okkar um 85 millj. til þessa sjóðs, og álít ég, að hér sé auðvitað fyrst og fremst um það að ræða, hvort eigi að fara þá leið, sem ríkisstj. leggur til, að hækka álögurnar á almenningi í landinu, hækka allt vöruverð í landinu með þeim afleiðingum, sem allir sjá, að það hlýtur að hafa, eða eigi að láta þá borga þetta, sem sannanlega hafa gróða og eiga ekki að fá að velta því af sér yfir á verðlagið, og þannig gæti þó framleiðslan fengið að búa að fullu við þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil svo víkja með örfáum orðum að því, hvernig raunverulega háttar til og gengur til með þessar ráðstafanir, sem alltaf er verið að gera fyrir útveginn og nú á að gera, og ég skal taka dæmi af því, þar sem ég er kunnugastur, í sambandi við togara. Það er sagt af ýmsum núna, að hlutur togaranna úr þessum ráðstöfunum sé sá bezti, þeir fái mesta hækkun og þeir ættu að mega una við sitt. Já, hækkunin hjá þeim er talsvert mikil. Það er rétt. En við skulum bara líta á með örfáum dæmum, hvernig þetta gengur fyrir sig. Hækkunin hjá togurunum er úr 2000 kr. dagsstyrk upp í 5000 kr. dagsstyrk, eða 3000 kr. á dag, auk 5 aura vinnslugjalds, sem ég skal koma að síðar. Hver togari fær 3000 kr. meiri dagsstyrk en áður hefur verið. Það jafngildir, miðað við 300 úthaldsdaga, en það er það, sem almennt er reiknað með, um það bil 900 þús. í hækkun. Og það er eðlilegt að menn segi: Þetta er nú bara talsvert. — Og það er mikið. En ég fullyrði, að raunverulega verður það svo, að það kemur ekki einn einasti eyrir af þessu í venjulegan sjóð togara. Það er þegar, áður en útborgun byrjar, búið að ráðstafa allri þessari upphæð til annarra aðila og þó líklega heldur meiru. Olíuverð hefur nýlega verið hækkað um 115 kr. tonn til togara. Olíufélögin létu sem sagt ekki standa á sér að ná í sinn hluta af þessu, og þau tilkynna það og hafa þrítekið það við mig, þegar ég hef talað við þau, að enn væri von á hækkun á þessari olíu innan skamms, sem nemur 2 dollurum á tonn eða um það bil 35 kr., vegna þess að grunnverð á olíunni eigi að hækka um þetta erlendis, segja þeir. Þá er olíuverðshækkunin frá því í fyrra 150 kr. á tonn, en það er samkvæmt þeim áætlunum og útreikningum, sem allir viðurkenna, rétt um það bil 1000 kr. á dag, en 1000 kr. á dag eru 300 þús. á ári miðað við 300 úthaldsdaga. Borið saman við úthaldið í fyrra, fara af þessari upphæð 300 þús. í hækkaða olíu. Þar fór um þriðji hlutinn í olíufélögin.

Þá er gert ráð fyrir því samkv. þessu frv., illu heilli, að togararnir eigi að fá á næsta ári verð það, sem greitt var fyrir fisk þeirra í desembermánuði 1955, en þá voru frystihúsin nýbúin að lækka verð á karfa úr 90 aurum á kg í 75 aura á kg. Endurskoðandi ríkisstj., sá sem fór yfir reikninga togaranna, reiknaði það nákvæmlega út hverju þetta jafngilti fyrir togarana. Hann tók afla 31 togara s. l. ár, sem bann hafði skýrslur um, og deildi karfaaflanum nákvæmlega niður á þá og sagði: Ég geng út frá þessum karfaafla að meðaltali á skip, sem út úr þessu kom, og lækka síðan karfann úr 90 aurum í 75 aura, og þá nemur það, segir hann, 368 þús., sem skipin fá minna fyrir afla sinn, miðað við sama aflamagn, heldur en þau fengu árið á undan. Þar fór rösklega annar þriðji hlutinn.

Það er svo vitað mál, að um nokkurn tíma hafa verið opnir samningar á milli útgerðarmanna og togarasjómanna. Þeir samningar eru komnir allverulega langt, þó ekki alveg búnir. Eins og þeir samningar standa nú, og um leið geri ég þó fyrir mitt leyti ráð fyrir, að þeir eigi eftir að hækka talsvert á þessum dögum, sem enn eru eftir, þá eru þeir mjög nærri því að vera 200 þús. kr. aukin útgjöld á skip á ári. Ég held, að það sé mjög óvarlegt að reikna þarna með minni kauphækkun til togaraskipshafnar en 200 þús. kr. á ári. Hvað er 200 þús. kr. kauphækkun þarna? Hún er, miðað við meðalkaup skipshafnarinnar, rétt um 9% kauphækkun. Það er því alveg þýðingarlaust að segja við togaraeigendur, eins og stundum hefur verið sagt hér í Alþ. og ég gæti svo sem búizt við að yrði reynt að segja nú: Ja, ef togaraútgerðarmenn eru svo „blankir“, að þeir vilja endilega fara að samþykkja hækkaðar kaupkröfur sinna manna, þá verða þeir að eiga um það við sig. — Getur nokkur maður búizt við því, þegar kaup hefur hækkað í landinn, eins og það hefur gert að undanförnu og eins og sjálf ríkisstj. stóð fyrir í sambandi við launalögin, sem afgreidd voru hér rétt fyrir jólin, þegar fjöldamargir aðrir hækkuðu um 30–40% í kaupi, að togarasjómenn, sem eru með opna samninga, sætti sig við öllu lægra en 9%? Er við því að búast? Ég reikna því þarna með 200 þús. Sé svo reiknuð út sú vísitöluhækkun, sem orðið hefur frá því í desembermánuði og þangað til nú, og reiknað með því, að talsverður hluti af kaupgjaldi á togurum er fast kaup og fylgir vísitölu, þá gildir það um 70 þús. kr., miðað við úthald. Ef þetta er tekið saman, eru útgjöld togara fram yfir það, sem þau voru á s. l. ári, 938 þús.

Ég fyrir mitt leyti er því alveg sannfærður um það, að togaraútgerðin ber sig ekki betur á þessu ári, sem nú er að byrja, heldur en hún gerði á hinu; síður en svo. Þegar hún fær svo á sig eins og öll útflutningsframleiðslan almennt hækkað vöruverð og almennt hækkaða vísitölu og hækkað kaupgjald, þá hlýtur hagur hennar enn að versna. M. ö. o. er gangurinn þessi: Nú er borgað mikið til togaranna, og margir segja hér í landinu: Þetta er alveg óguðlegt, hvað mikið er borgað með útgerðinni, og það verður að fara að rannsaka þetta, hvernig á þessu getur staðið. — En það, sem um er að ræða og menn hafa aldrei fengizt til þess að hlusta á, er það, að rannsaka þarf, hvað ýmsir aðilar taka mikið af útgerðinni. Það þarf að rannsaka það. Þó að sé verið að veita togurunum á einu ári 66 millj. kr., þá eru ákveðnir aðilar búnir að deila því á milli sín, áður en það kemur til skipta. Það er þetta, sem er aðalatriði málsins. Ég veit, að þetta fer á sömu leið hjá bátunum. Það er t. d. vitað mál, að það er talsvert síðan búið var að reikna út verðhækkunina á bátaolíum, en þessi verðhækkun hefur ekki verið tilkynnt, og ég veit alveg upp á hár, að það mun í mesta lagi liða ein vika, frá því að hér verður endanlega gengið frá bjargráðum vegna bátanna, þar til sú olíuverðhækkun verður tilkynnt, sem búið er að reikna út. Olíufélögin koma þar líka og taka sinn hluta, og þau segja, alveg eins og þau hafa sagt áður: Fragtirnar hafa hækkað mikið, okkar útgjöld hafa hækkað, og við verðum því að fá þetta. — En það má aldrei rannsaka það, hvort þau hafa haft of mikið. Og svo komast þau venjulega upp með það, þegar fragtirnar einn tíma ná hámarki, því að það gerist venjulega einu sinni á ári, að þær fara upp, að fá olíuverð fest eftir þeirri fragt. En það er hins vegar alveg óþekkt fyrirbæri, að það sé verið að slaka eitthvað til á olíuverðinu, þegar lækkunin kemur á fragtirnar.

Ég geri nú ráð fyrir því, að þær brtt., sem við flytjum hér, séu um það bil að koma fram eða komnar fram, en ég held, að ég hafi gert grein fyrir þeim flestum. Það eru hér smærri brtt., eins og um skipun sjóðsstjórnarinnar samkvæmt 10. gr. En allar þær brtt., sem hér skipta höfuðmáli, held ég, að ég hafi gert að umtalsefni og þurfi í rauninni ekki að hafa mitt mál lengra.