30.01.1956
Neðri deild: 58. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

146. mál, framleiðslusjóður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef nú kannske ekki fyllilega aðstöðu til að átta mig á þeim till., sem hv. frsm. minni hl. hafa gert hér að umræðuefni, því að þær liggja ekki enn fyrir prentaðar. Ég tel mig þó hafa fengið um þær nægar upplýsingar til að geta lýst því yfir, að ég get ekki á þær fallizt, og ég býst við, að það sé sameiginlegt álit þeirra, sem að því frv. standa, sem hér er til umr.

Hv. 1. landsk., sem hér var að enda við að tala, vitnaði mjög í hagfræðingaskýrsluna svonefndu, sem hann taldi að ríkisstj. hefði borið skylda til að leggja fram fyrir alla þá alþm., sem þess óskuðu, en taldi að öðru leyti vera leyndarmál. Ríkisstj. ber náttúrlega ekki skylda til þess að sýna öðrum en þeim, sem hún sjálf óskar, þau gögn, sem hún hefur aflað sér, hvort sem það er á þessu sviði eða öðru. Auk þess liggur það mál svo sérstaklega fyrir, að þegar ríkisstj. fékk þessa ágætu hagfræðinga til að starfa fyrir sig, gaf hún þeim um það fyrirheit, að þeirra umsagnir, rannsóknir og till. yrðu ekki birtar, og um það hefur ríkisstj. borizt skrifleg áskorun að gefnu tilefni frá öllum þessum hagfræðingum, að við það loforð sé staðið. Ég leiði svo aðeins athygli að því, að það er ekki hægt að leggja neitt verulegt upp úr því, sem hv. 1. landsk. segir um þessa skýrslu, vegna þess að hún hefur verið afhent þm. sem trúnaðarmál og ekki honum, og hann getur þar af leiðandi ekkert um það vitað, hvað í henni stendur. Mér dettur ekki í hug að gera neinum þeim, sem þessa skýrslu hefur fengið í hendur sem einkamál og trúnaðarmál, neinar getsakir um, að þeir hafi sagt honum né öðrum frá því, sem þar stendur.

Þessi hv. þm. vildi, ef ég skil rétt, gera tvær veigamiklar brtt. við þetta frv. Önnur hné að því, að allir útgerðarmenn og öll frystihús skyldu skoðast sem ein heild. Ef eitthvert frystihús einhvers staðar einhvern tíma græddi, skyldi það greiða tap einhvers annars frystihúss, sem einhvers staðar annars staðar tapaði. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé í fyrsta skipti, sem slík till. kemur fram á Alþingi, og mér er hún svo fjarstæð, að ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Ég get ekki sætt mig við, að þó að framleiðslustarfsemi landsmanna hafi verið stefnt í voða vegna aukinna og of mikilla krafna eða byrða, sem hafa verið lagðar henni á herðar, skuli af því leiða, að enginn maður megi reka þessa atvinnu nema með þeirri kvöð, að hann skuli, ef honum gengur vel eða sæmilega, nota það, sem honum kann að áskotnast, til að greiða tap fyrir einhvern mann, sem hann hefur aldrei séð né getur nein áhrif haft á hvernig kann að stjórna sínu fyrirtæki. Þetta veit ég að a. m. k. flestum hv. alþm. finnst eðlileg skoðun af minni hendi, því mun ég trúa, þar til annað reynist.

Hin aðaltill. hv. þm. var sú, að tekna í framleiðslusjóð skyldi afla með þeim hætti, ef ég skildi rétt, að það ætti að skipa þingnefnd, sem innan 15. febr. ætti að finna út, með hverjum hætti skyldi taka 85 millj. kr. af þeim gróða, sem orðið hefði í þjóðfélaginu frá 1940. Var þetta ekki rétt skilið? Ja, ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur átt við 15. febr. n. k. eða t. d. 1966. (Gripið fram í.) Stendur í tillögunni, já. En ég teldi það rösklega af sér vikið, ef menn gætu setzt niður núna og leitað að þessum 85 millj., — segjum, að það væri einhvers staðar á milli 70 og 100 millj. kr., sem ætti að finna, svo að maður léti þá ekki hafa allt of næman mælikvarða, og þeir ættu að greiða þetta, sem hefðu efnazt um meira en 300 þús. á þessu tímabili, — og þeir hefðu lokið því fyrir 15. febr. n. k.

Auk þess er ég andstæður þessum eilífa eltingarleik við þá, sem til einhverra bjargálna hafa komizt, eins og það væri pest og mein í þjóðfélaginu, maður, t. d. eins og ungur prófessor, hefði með elju og dugnaði getað eignazt íbúð yfir höfuðið á sér. Við skulum segja, að þessi maður hefði verið vinnuforkur á árunum frá 1940 til 1945 eða 1950, hefði með því að fella dag við nótt getað aflað sér einhverra þeirra tekna, að hann á þeim árum hefði getað komið sér upp smávægilegri íbúð fyrir sig, konu sína og börn, sem kannske í dag væri 500 þús. kr. virði, hefði þá kostað 140–150 þús. kr. Slíkan mann ætti að fara að elta og skattleggja af því, sem hann hefur hagnazt umfram 300 þús. kr. Mér er þetta ákaflega ógeðfelld tilfinning. Auk þess álít ég, að þetta yrði svo vandunnið verk, að þegar af þeirri ástæðu væri ekki leggjandi út í það.

Ég skil hins vegar vel, að menn leiti allra úrræða og þá þessara eins og annarra, láti sér detta það í hug, þegar þarf á svo miklum tekjum að halda. En þá vænti ég einnig, að menn skilji, að eins og hv. stjórnarandstæðingar vilja ekki sætta sig við þær till., sem ríkisstj. hefur leyft sér fram að flytja, er ríkisstj: ekki heldur ginnkeypt, — og get ég þó ekki talað í hennar nafni á þessari stundu, því að við höfum ekki borið okkur saman, — en ég hygg, að ég megi segja f. h. míns flokks: ekki ginnkeypt fyrir uppástungum eins og þessum.

Ég vil svo aðeins leiðrétta það að gefnu tilefni, sem hv. þm. sagði, að þessi 9.9% tollur eða skattur, sem á að leggjast á innfluttar vörur, er náttúrlega ekki á nærri öllum vörum. Það eru ýmsar vörur þar undanþegnar, þ. á m. ýmsar helztu framleiðsluvörurnar svokölluðu. Ég nefni þar til olíu, benzín, salt, kol, fóðurbæti, áburð, veiðarfæri og ýmislegt fleira, sem ég man nú ekki upp að telja, en ekki er meiningin að skatturinn falli á.

Hv. 11. landsk. (LJós) hafði að sumu leyti svipaðar till. að gera og að nokkru leyti ólíkar þó. Hann gerði mjög að umræðuefni, hvað olíuverðið væri miklu hærra á Íslandi en annars staðar, og ef hans tölur eru réttar, viðurkenni ég, að mér þykir það nokkuð undarleg skýrsla, sem hann flutti, og get ekki gert mér grein fyrir, hvernig á þessu stendur. Ég get að sönnu gert mér grein fyrir því, að það er ekki sambærilegt að taka einn útgerðarbæ í Þýzkalandi annars vegar og Ísland, sem hefur meðaltalsverð, hins vegar. Það er enginn dreifingarkostnaður, sem lendir á olíuna frá þessum hafnarbæ, en það eigum við aftur við að búa hér á landi. Hins vegar bendi ég honum og öðrum þeim, sem hér hafa mjög haft í frammi óskir um almennt verðlagseftirlit, á það, að einmitt olían er undir verðlagseftirliti, einmitt hún, og í því hefði ég viljað mega telja að lægi nokkur trygging fyrir hóflegu verðlagi á þessari vöru, a. m. k. í augum þeirra manna, sem svo mjög treysta á verðlagseftirlit sem þessi hv. þm. hefur gert.

Ég skal ekkert deila við hv. þm. um það, hvort rétt er, að mikill hluti þeirra bóta, sem togararnir fá með þessu frv., sé nokkurn veginn fyrirsjáanlega af þeim tekinn með hækkun á olíu, sem við náttúrlega ráðum ekki við hér, og með lækkun á karfaverði, sem við ráðum ekki heldur við, og með væntanlegri kauphækkun. Ég geri ráð fyrir, að það sé nokkuð til í því, sem hann sagði, þó að ég vildi mega vona, að það væri ekki með öllu rétt. Ég skal þó benda honum á um þann veigamikla lið, sem hann nefndi, karfann, en hann taldi, að lækkað verðlag á karfa, sem nú á að miða við, frá því, sem það raunverulega var á árinu 1955, mundi lækka hlut togarans um hér um bil 1200–1300 kr. á dag, ef ég man rétt, að það er náttúrlega enginn togari neyddur til að vera endilega á karfaveiðum. Ef útkoman hvað karfa áhrærir er svona miklu verri en áður var, þá geta þeir stundað saltfisksveiðar eða ísfisksveiðar í ríkari mæli, sérstaklega ef takast mætti að ná samkomulagi við Breta um afléttingu löndunarbannsins þar. (Gripið fram í.) Það á auðvitað að knýja Breta til að aflétta löndunarbanninu, ef það er hægt. (Gripið fram í.) Ég veit nú ekki, hvort menn ganga almennt kaupum og sölum, en ég veit, að það eru til lubbar, sem hægt er að kaupa.

Hv. þm. sagði varðandi tekjuhliðina, að hann teldi réttara að áætla 16 millj. kr. tekjur af bílaskatti. Ég hef ekki og við í stjórninni talið óhætt að áætla þetta nema 8 millj. og höfum þá gert ráð fyrir, að bílainnflutningurinn miðaðist við það.

Hv. þm. taldi ekki ástæðu til að reikna þarna með Faxasíldinni og kostnaði af henni. Það er a. m. k. hyggilegt að gera ráð fyrir, að á þessu ári, sem nú er byrjað, þurfi að grípa til einhverra svipaðra ráðstafana og gert var á síðasta ári, og þegar þess er gætt, að tóbaksskatturinn gefur ekki nema nokkurn hluta af þeim tilkostnaði, sem hefur verið við stuðning við þessa framleiðslustarfsemi, þá tel ég hyggilegt að ætla 10 millj. í þessa síld með hliðsjón af að endurgreiða ríkissjóði það, sem hann hafði greitt á árinu 1955 umfram tekjurnar af tóbakshækkuninni, og höfum við þá með því eitthvað upp í kostnað á árinu 1956.

Varðandi till. bæði hv. 11. landsk. og hv. 1. landsk. um að fella niður tekjuöflun til uppkaupa á B-skírteinum vil ég aðeins segja það, að ég dreg í efa, að þeir hafi skoðað það mál niður í kjölinn. Fyrir okkur vakir að reyna með þessu að girða fyrir, að þessi svokallaði hali B-skírteina, þ. e. a. s. magnupphæð B-skírteinanna, fari vaxandi, og helzt að hann geti farið minnkandi. Ég ætla að ganga út frá og veit, að mér er það óhætt, að þessir tveir hv. þm. þekki alveg það kerfi, sem hér er um að ræða. Ég hygg, að það sé rétt mynd af kerfinu að segja, að í byrjun þessa árs hafi legið óseld B-skírteini, sem séu að upphæð 55 millj. kr. Nú er það svo, að á þessu ári er vitað, að bátaflotinn stækkar og það allverulega, og ef menn leyfa sér að vona, að aflabrögð verði ekki verri og verðlag svipað og var í fyrra, þá vex upphæð B-skírteina. Af því mundi leiða, úr því að bátagjaldeyrislistinn er óbreyttur, að þessar 55 millj. mundu hækka, en ekki lækka. Það gefur hins vegar auga leið, að það getur verið hættulegt að hafa mjög risavaxna upphæð þessara skírteina óselda á markaðnum, og skal ég ekki rökstyðja það frekar. Auðvitað þarf ég ekki að benda þessum hv. þm. á, að engin ríkisstj. gerir það að gamni sinu að fara að hækka álögur á þjóðina um 26 millj. til að kaupa upp þessi skírteini og rífa þau svo eða brenna. Ríkisstj. hlýtur þess vegna að álíta, að þetta sé mikil nauðsyn.

Ég skal svo aðeins út af till. hv. 11. landsk. um tekjustofnana segja, að það lítur náttúrlega vel út að taka þetta af vátryggingarfélögum, mér er nú ekkert kunnugt um þeirra hag, af olíugróðanum, sem hann kallar, af bankagróðanum, af verktökunum og skipafélögunum. Það er sjálfsagt hyggilegt til vinsælda að benda á einhverja svona stóra aðila og segja: Látum þá bara borga brúsann, þá erum við hinir lausir. — Og ég væri mjög ánægður, ef einhver vildi borga það, sem mér er ætlað í þessum sköttum. Það er nú kannske ekkert mjög mikið, en ánægður væri ég þó. Ég veit hins vegar ekki nægilega um þessar tekjur, sem hér er verið að ræða um, til þess að segja:

Úr því að við þurfum á svona fúlgu að halda, þá nefnum við þarna nokkra menn og segjum, að þeir borgi eða nokkur fyrirtæki borgi. Til þess þurfa auðvitað að liggja fyrir allt aðrar og miklu meiri skýrslur um þeirra efnahag en ég hef handbærar í bili. En aðalatriðið er, og því vil ég að menn veiti athygli, að ef hér er um að ræða svona stórkostlegan gráða hjá þessum félögum, þá hlýtur að vera hægt að ná honum í gegnum tekjuskattslögin, a. m. k. að verulegu leyti. Það hlýtur að vera hægt. Og ef þessir aðilar hafa þessa gífurlegu gjaldgetu og þó þannig, miðað við allar aðstæður, að það sé óhætt að taka þetta af þeim, þá trúi ég ekki, að svo hugkvæmir menn sem hér eiga hlut að máli hafi aldrei komið auga á fyrr en nú, að það væri rétt að gera þetta, en till. man ég ekki eftir að hafa séð um það. Ég veit að vísu, að ég hef sjálfur mjög haldið verndarhendi yfir Eimskipafélagi Íslands, að það hefði skattfrelsi. Það er hæpið, hvað lengi þarf að gera það. Félaginu hefur vaxið vel fiskur um hrygg, og það getur verið, að það komi nú að því, að það geti greitt skatt eins og önnur hliðstæð félög, og skal ég þá sízt hafa á móti því.

Ég hef oft talað um það, að þó að megi benda á háa vexti og annað slíkt, þá er það staðreynd, að bankarnir á Íslandi eru ekki of ríkir, heldur of fátækir. Það er staðreynd, og það er ákaflega hæpið fyrir þjóðfélagið að setja það fram sem óskalista, að bankarnir verði sem verst stæðir, auk þess sem það er náttúrlega ákaflega hæpin leið, að löggjafinn grípi snögglega inn í slíka starfsemi og segi með einu pennastriki, svo að við notum gott og gamalt orð: Viljið þið gera svo vel að skila hálfum arðinum, sem þið hafið haft á undanförnu ári eða árum, til vissra þarfa? — Ég hygg, að það mundi ekki verða til að styrkja lánstraust Íslands út á við. Ég er ósköp hræddur um, að vátryggingarfélögin og olíufélögin, ef þau ættu að borga slíka skatta, hefðu kannske einhver ráð með að koma því aftur yfir á útgerðina, svo að það væri þá svipað og það, sem hér er verið að tala um og gagnrýna að eigi að gera.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, herra forseti, að þessu sinni og vona, að auðnast megi að ljúka 2. umr., svo að málið geti náð sem fyrst afgreiðslu gegnum þingið, vegna þess, sem mönnum nú einnig er ljóst, að það liggur viss hætta í því að tefja úr hófi afgreiðslu málsins, því að með því eru skapaðir möguleikar fyrir einstaka aðila til óeðlilegs gróða.