30.01.1956
Neðri deild: 58. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

146. mál, framleiðslusjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er gott að fá í eitt skipti eina rödd úr hópi þeirra þm., sem fylgja stjórnarflokkunum. Ég hef undanfarið skorað allmikið á þm. Framsfl. að láta í ljós afstöðu sína til þeirra tveggja mála, sem hérna liggja fyrir, annarra en ráðherranna, og þeir hafa þagað. En einn af elztu þm. Sjálfstfl., fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis og fyrrverandi ráðherra þess flokks, dregur ekkert úr því, hvernig hugurinn sé hjá þeim heiðarlegu mönnum í því liði, sem geta ekki á sér setið að segja sinn hug um þessar till., sem hér liggja fyrir, og hann segist neyðast til þess og dragnast til að fylgja ríkisstjórninni. Svona eru þessi bjargráð, sem hæstv. ríkisstj. leggur fram, að ef nokkur hennar þm. opnar sinn munn, þá gefur hann þá yfirlýsingu, að hann neyðist til að fylgja þessu og hann dragnist til þess að fylgja því.

Spurningin er, hvernig þm. stjórnarliðsins líta á málin, sem stjórnin leggur hér fyrir. Svo skulum við hins vegar athuga, hvað hægt væri að gera til þess að koma þeim stjórnarþingmönnum, sem á annað borð færu nú loksins að rumska, inn á einhverjar skynsamlegar leiðir.

Mér þykir verst, ef hæstv. forsrh. er hvergi nærri. Hann lét svo lítið að fara að koma fram með nokkur rök í þessum málum, og það hefur fram að þessu verið mjög erfitt að fá hann inn á það að ræða málin, þannig að ég vildi gjarnan víkja nokkrum orðum að þeirri ræðu, sem hann flutti hérna áðan. Ef hæstv. forsrh. er í húsinu, þætti mér vænt um, að hæstv. forseti léti hann vita af því.

Hæstv. forsrh. sagðist vera á móti till. á þskj. 315, till. Sósfl. viðvíkjandi því að jafna þessum álögum niður á einokunarauðvaldið í landinu. Mig furðaði satt að segja ekkert á því, en mig furðaði dálítið á röksemdaleiðslunni hjá hæstv. forsrh. í þessu sambandi. Hann byrjaði með því að segja, að hann þyrfti nú meiri skýrslur, hann meinti skýrslur um gróða bankanna og olíuhringanna, flutningaskipafélaganna, vátryggingarfélaganna og annarra slíkra, — hann þyrfti meiri skýrslur. Jæja, hefur þá sérfræðinganefnd ríkisstj. ekki rannsakað neitt afkomu þessara aðila? Hefur hagfræðinganefndin svikizt um að rannsaka það, þegar hún átti að athuga hag útgerðarinnar, hvort einhverjir aðilar væru í landinu, sem stælu af útgerðinni í svo ríkum mæli, að henni væri ekki nóg eftirskilið, til þess að hún gæti borið sig? Hefur hagfræðinganefndin álitið það utan við sitt verkefni að rannsaka þetta, eða hefur hæstv. ríkisstj. bannað hagfræðingunum að rannsaka þetta? Kannske ég mætti fá upplýsingar um þetta, hvort heldur er? Hefur hæstv. ríkisstj. svikizt um að gefa fyrirmæli til sinnar sérfræðinganefndar um að rannsaka þennan hlut? Hefur hæstv. ríkisstj. svikizt um það? Kannske hæstv. ríkisstj. sæi ástæðu til að leggja hérna fyrir okkur skipunarbréf hennar til sérfræðinganefndarinnar, þannig að við fengjum einu sinni að vita, hvað þeim mönnum var falið að rannsaka, sem ríkisstj. lætur vinna í því mánuðum saman og vafalaust borgar of fjár fyrir að rannsaka ástandið í landinn, áður en 200 millj. kr. skattur er lagður á þjóðina. Ég vonast til þess, að hæstv. ráðherrar, sem hér eru inni, ef forsrh. mætir ekki, gefi okkur upp, hverjum er um að kenna. Hafa hagfræðingarnir svikizt um að gera þetta, eða hefur ríkisstj. svikizt um að segja þeim að gera þetta?

Nú segir hæstv. ráðh. við okkur: Það vantar meiri skýrslur. — Hér erum við búnir að biðja um skýrslur í marga mánuði. Við erum búnir að leggja til að fá að rannsaka þessa hluti. Við erum búnir að biðja um að fá að vita, hvers konar skýrslur það eru, sem þarna liggja fyrir, og í fyrsta skipti, sem hæstv. forsrh. fæst til þess að svara einni athugasemd eða einni till. um, hvernig eigi að útvega fé, þá segir hann: Mig vantar meiri skýrslur. — Ja, það verður þokkalegt, ef hann á að vera lengi forsrh. og sjá oft um að undirbúa hluti eins og þetta. En ég verð að segja, að mér er ekki alveg grunlaust um, að forsrh. hafi vitað betur en hann vildi láta. Hann talaði um, að þessir aðilar, sem þarna eigi hlut að máli og eigi nú að fara að borga allt í einu, hafi ekki mikil efni á því, bankarnir meira að segja séu ekki of ríkir. En fólkið, verkamennirnir, bændurna, millistéttarfólkið, það er nógu ríkt, það getur borgað. Mennirnir, sem í átta ár eru búnir að búa við lægri laun en þeir höfðu 1997, þeir geta borgað, þar á má hlaða, en þeir aðilar, sem hafa grætt, eins og einn einasti banki í landinu, svo að skiptir hundruðum millj. kr. á þessum tíma, mega ekki borga. Og nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh.: Er hann svona ókunnugur öllum þessum fyrirtækjum, að hann viti ekki neitt um afkomu þeirra? Við skulum taka bankana fyrst: Hverjir eru í stjórn Landsbankans, hverjir eru í bankaráði Landsbankans? Er ekki hæstv. forsrh. sjálfur í bankaráði Landsbankans? Og hefur hann ekki hvað bankastjórnina snertir það þægilegan aðgang að bankastjórum Landsbankans, fyrir utan það að vera bankaráðsmaður, að hann ætti að geta fengið upplýsingar um, hvernig Landsbankinn ber sig? Vill hæstv. forsrh. ræða hérna við mig um reikninga Landsbankans? Ég hef séð heildarreikningana eins og hann. Vill hann staðhæfa, að þó að reikningarnir séu t. d. síðasta árið afgreiddir með um 26–27 millj. kr. gróða, þá sé ekki sá raunverulegi gróði nær því að vera 40 milljónir? Hæstv. forsrh. er sjálfur í stjórn Landsbankans og veit ósköp vel, hvernig þessi banki stendur, og hann veit ósköp vel, hvað hann á í skuldlausum eignum fyrir utan allar fasteignir: á þriðja hundrað milljónir króna bara í sjóðunum, og samt búinn að skrifa niður meginið af öllum skuldabréfum stórkostlega. Nei, hæstv. forsrh. veit ósköp vel, að þessir bankar eru nógu ríkir til þess að bera þetta. Eða þá olíufélögin, skyldi hæstv. forsrh. ekki hafa neina aðstöðu til þess að spyrja t. d. í stjórn Shell, hvernig það gengi? Er það svo fjarskylt honum? Eða hvað snertir Eimskipafélag Íslands, er ekki varaformaður Sjálfstfl. einn aðalstjórnandi Eimskipafélags Íslands? Er ekki bróðir hæstv. forsrh. annar í stjórn Eimskipafélags Íslands? Er ekki mágur hæstv. forsrh. forstjóri Eimskipafélags Íslands? Ætlar hann að reyna að telja okkur trú um, að hann hafi ekki aðstöðu til þess að vita, hvernig þessi félög græða? Nei, það þýðir ekki að koma hér fram og segja neitt slíkt.

Viðvíkjandi verktökunum fer ekki á milli mála, hvað þeir hafa grætt á undanförnum árum og hvað búizt er við að þeir græði nú og hvernig ríkisstj. sjálf sem slík er fléttuð inn í allan þann „svindilbusiness“, svo að maður noti orð verzlunarmannanna hér í Reykjavík. Það þýðir ekkert að koma hér og segja, að þeir þurfi meiri skýrslur og þeir þekki þetta ekki nógu vel. Sannleikurinn er, að hæstv. ríkisstj. þekkir þetta of vel. Bankarnir, sem þarna getur um, eru nú meira og meira að verða eins konar einkafyrirtæki Sjálfstfl. Olíufélögin eru helmingaskiptafélög ríkisstjórnarinnar. Flutningaskipafélögin til samans eru eins og helmingaskiptafélög ríkisstjórnarflokkanna. Verktakafélögin, sem annast framkvæmdirnar á Suðurnesjum, eru helmingaskiptafélög ríkisstjórnarflokkanna. Þeim er þess vegna fullvel kunnugt um, hvað þessir aðilar græða, en stjórnarflokkarnir eru sjálfir svo fléttaðir inn í þetta, að það kemur við aðalgróðamenn þessara flokka, ef þessir aðilar eiga að borga.

Ég skora á hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. eða hvaða ráðh. sem vera skal að koma hér fram og bera á móti því, að þessi félög, sem þarna er lagt til að beri þetta, geti staðið undir því. Eina viðbáran, sem hæstv. forsrh. kom með, var, að bankarnir væru ekki of ríkir, þeir þyrftu að verða enn ríkari. Bankar, sem eru búnir að græða, eins og einn banki hér, á sjö árum hátt á þriðja hundrað millj. króna, eru ekki of ríkir. Þarna höfum við það. Þessir aðilar mega halda áfram að safna auði, þó að það sé farið svo kynduglega að um leið, að þetta fé, sem þeir eiga, eins og eign Landsbankans, sé bókstaflega fellt í verði með þeim ráðstöfunum, sem er verið að gera. Það er þeim alveg sama um, bara ef hægt er að halda áfram að telja fjárhæðina meiri en hún var. Þar veit maður, hvernig stendur á. Þá veit maður nefnilega, að þó að það, sem Landsbankinn á, falli í verði, þá græða þeir, sem hafa séraðstöðu til þess að fá lánin út úr Landsbankanum. Krónan, sem þeir hafa fengið að láni og var allmikils virði, verður lítils virði, þegar þessir skuldunautar eiga að borga hana til baka. Og þar kemur að því, að einkafélög stjórnarflokkanna hafa hagnaðinn af, þegar stjórnarherrarnir eru búnir að lána sjálfum sér út úr bönkunum, fella síðan krónuna í verði og borga svo til baka með lægri krónu.

En það eru aðrir, sem hæstv. ríkisstj. finnst að geti borið byrðarnar. Það eru þeir, sem eiga féð í bönkunum. Það eru þeir, sem eiga spariféð. Það er það vinnandi fólk, sem hefur lagt eitthvað inn í bankana í trú á margföld loforð ríkisstj. um að vernda gengi krónunnar. Það eru meira að segja börnin, sem af hálfu þess opinbera hafa verið hvött til þess að reyna að spara. Þessir aðilar mega borga. Á þessa aðila má leggja tvöfalda skatta, annars vegar að gera allar vörur, sem þeir eiga að kaupa, dýrari og hins vegar að minnka spariféð, sem þeir eiga, í verði. M. ö. o.: Fólkið í landinu má borga. Það má rýja það, ef það hefur eitthvað átt, í það endalausa. En stórgróðafélögin, helmingaskiptafélögin, hræfuglarnir, gammarnir, sem hafa hrifsað til sín gróðann, mega ekki borga, þeir eru ekki of ríkir, segir hæstv. forsrh.

Svo kemur hæstv. forsrh. með þá röksemd, að það mundi ekki batna lánstraust t. d. Landsbankans og Útvegsbankans við það að verða að borga svona skatt. Veit hæstv. forsrh., að t. d. bankarnir í Danmörku, einkabankar þar, þó að þeir séu margfalt stærri, hafa ekki nema hluta af þeim gróða, sem bankarnir taka hér á ári, en eru samt skattlagðir? Heldur hæstv. forsrh., að lánstraust Landsbankans og Útvegsbankans batni við þær ráðstafanir, sem verið er að gera með þessu frv., um að fella raunverulega íslenzka krónu í verði? Ætlar hann að fara að reyna að telja okkur trú um það, að hann sé að bæta lánstraustið með þessu? Ég gæti trúað, að lánstraustið batnaði meira með því, að t. d. Landsbankinn snaraði út 10–15 millj. kr. af sínum gróða, og að verðlagið héldi ekki áfram að hækka í landinu, heldur en með þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. leggur til að gera. Og ég skora á hæstv. forsrh. að ræða það mál við okkur. Ef þetta eiga að vera aðgerðir til þess að bæta lánstraustið út á við, þá eru það undarlegar aðferðir, og mér þætti vænt um að sjá álit hagfræðinganna um lánstraustsþáttinn í þessum aðgerðum.

Hæstv. forsrh. vill enn ekki gefa upplýsingar um skýrslu sérfræðinganna. Af hverju? Er það af því, að þessi skýrsla þoli ekki dagsins ljós? Þá væri honum bezt að segja það. Eða er það af hinu, að þetta eru bara fyrstu ráðstafanirnar, sem lagðar eru til í þeirri skýrslu, og aðrar og verri eiga að fara á eftir ?

Þá minntist hæstv. forsrh. á, að olían væri nú undir verðlagseftirliti, svo að þar sæi maður, hvaða gagn væri að verðlagseftirliti. Jú, undir verðlagseftirliti hverra? Stjórnarflokkanna sjálfra, stjórnarflokkanna, sem sjálfir eru beint eða óbeint aðalhluthafarnir í olíufélögunum. Ég spurði hæstv. fjmrh. að því við umræðurnar á laugardaginn, hvort hann treysti sér til þess að láta olíuhringana bera benzínskattinn, 20 aurana, sem þá voru lagðir á, og hann virtist hálfpartinn taka vei í það. En í gær var tafarlaust auglýst, að auðvitað hækkaði benzínið um 20 aura. Það kom ekki til mála að láta olíuhringana bera það. Og það er vitanlegt, að það er ríkisstj. sjálf, sem fyrirskipar þetta.

Það er rétt, að verðlagseftirlit þessarar ríkisstjórnar væri ekki mikils virði í þessum efnum. Það er öllu harðvítugra verðlagseftirlit, sem alþýðan sjálf getur haft áhrif á, sem þarf. Ríkisstjórnarflokkarnir álíta sjálfsagt að velta öllu, sem þeir geta, yfir á fólkið.

Svo sagði hæstv. forsrh., — og það var táknrænt fyrir hans afstöðu, þegar hann kom inn á að reyna að svara röksemdum hv. 11. landsk. um, hvað verið væri að taka af útgerðinni í sambandi við verðið á karfanum, — þá sagði hæstv. forsrh.: Ja, togararnir þurfa ekki að fara á karfa. — M. ö. o.: Togararnir þurfa ekkert að vera að því að fara á karfa, veiða karfa hér fyrir hraðfrystihúsin, skapa með því stórkostlega atvinnu í landinu, margfalda útflutningsverðmæti fisksins. Þeir þurfa ekkert að vera að því. En hvað áttu þeir að gera að áliti hæstv. forsrh.? Jú, það á bara að ná samkomulagi við Breta um að aflétta löndunarbanninu. Og við vitum, hvað það þýðir: hætta við alla útvíkkun landhelginnar, ná samkomulagi við Breta og taka upp á því að fara að flytja fiskinn út óunninn. Hvað mundi það þýða? Það mundi þýða atvinnuleysi um allt land og stórkostlega minnkun á gjaldeyrisframleiðslu þjóðarinnar. Atvinnuleysi, minnkun gjaldeyrisframleiðslunnar, það er ráðið, sem hæstv. forsrh. bendir á. Þeir þurfa ekki að vera á karfa, við getum bara náð samkomulagi við Breta um að aflétta löndunarbanninu. Það er svarið.

Það er fróðlegt að fá þessa yfirlýsingu frá hæstv. forsrh. Það er ekki nóg að leggja þessar álögur á þjóðina, sem hann nú býr sig undir, hann ætlar að koma atvinnuleysi yfir á hana líka.

Hæstv. forsrh. kom ekki inn á mál, sem ég hins vegar hafði í ræðu minni hér við 1. umr. þessa máls skorað á hann að ræða, og það voru ósannindin, sem allt þetta frv. er byggt á, ósannindin um það, að þessar álögur stöfuðu af kauphækkun verkamanna s. l. vor. Hæstv. forsrh. reyndi ekki einn sinni að endurtaka þessi ósannindi núna, því síður að fara út í einhverjar röksemdaleiðslur um þetta. Það er búið að leggja fyrir hann svart á hvítu, að það væri hægt að láta þá menn borga og þau félög, sem grætt hafa á tapi útgerðarinnar, sem grætt hafa á vinnu sjómanna og verkamanna, og að það er rétt, að þeir borgi. Hann ber sig illa upp undan því, en hann reynir ekki lengur, hann gefst alveg upp við að reyna að færa rök að því, að þessar hækkanir séu verkamönnum að kenna, enda getur hann það ekki. Hann veit, að kaupgjald er í dag lægra hvað kaupmáttinn snertir en það var 1947. Hann veit, að húsaleigan, sem ríkisstj. hefur séð um að hækka, er í dag tíföld hér í Reykjavík, þegar kaupið er tvöfalt hjá verkamönnum. Ríkisstj. hefur séð um fimmfalt meiri hækkun en þá, sem verkamenn hafa knúið fram, enda er þeirra hækkun það lítil, að hún heldur ekki í við dýrtíðina.

Ég hef sýnt hér fram á, hvernig þær ráðstafanir, sem ríkisstj. leggur til, séu einokunarauðvaldinu í hag. Það var þess vegna ekkert undarlegt, þó að hæstv. forsrh. kæmi hér og segði, að hann væri alveg á móti því, að einokunarauðvaldið væri látið borga. En mér er spurn: Hver er afstaða Framsfl. í þessum efnum? Við höfum nú heyrt afstöðu eins af þm. Sjálfstfl., við höfum heyrt andann þaðan, að hann neyddist til að fylgja þessu frv., að hann dragnaðist til að fylgja því, en hver er afstaða Framsfl.? Vill ekki hæstv. fjmrh. láta okkur heyra, hverjum það er í hag að knýja þetta frv. í gegnum Alþingi? Ég lýsi eftir afstöðu Framsfl. Ef hæstv. fjmrh. þorir ekki að taka til máls um þetta, þá langar mig til að leiða eitt vitni um þetta mál. Af því að hv. þm. A-Húnv. kom fram hér áðan sem einn þm. úr hópi Sjálfstfl., þá langar mig nú til að leiða fram einn þm. úr hópi Framsfl. og hann ekki af óæðri endanum. Hann á ekki sæti í þessari deild, svo að hann getur ekki talað hérna. Fyrst hv. framsóknarþingmenn eru svo tregir á að taka til máls og ráðherrar þeirra, skal ég lofa þm. að heyra ofur lítið af skoðun hans á aðferðum eins og þeim, sem hér er stungið upp á, og því, sem gerzt hefur undanfarið. Hæstv. form. Framsfl., Hermann Jónasson, hv. þm. Str., segir í sínum nýárshugleiðingum eftirfarandi m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Rómverjar hinir fornu töldu, að ef eitthvert afbrot hefði verið framið eða skaðleg framkvæmd gerð, væri hyggilegt að spyrja, hverjum það hefði verið í hag, til þess að finna hinn seka. Þessi regla ætti einnig að vera nothæf hér á landi til þess að gera sér grein fyrir raunverulegri afstöðu manna til dýrtíðarmálanna. Ekki græða verkamenn á dýrtíð og krónufalli, alveg þvert á móti. Ekki græða framleiðendur til lands og sjávar, sannanir fyrir því eru kunnari en um þurfi að ræða. Ekki græða embættismenn. Ekki græða þeir fátæku. Hverjir græða? 1) Þeir, sem eiga miklar vörubirgðir, græða á beinu og óbeinu gengisfalli tugi milljóna. 2) Þeir, sem eiga úreltar vörubirgðir og lítt eða ekki seljanlegar, geta orðið auðugir menn við gengisfall og innflutningshöft. Vörubirgðir, sem voru að gera þá gjaldþrota, fljúga út. 3) Þeir, sem naumast eða alls ekki eiga fyrir skuldum fyrir verðbólguna og gengisfallið, eiga víst að verða efnamenn eftir gengisfall, ef þeir hafa varið lánum til fjárfestingar. 4) Þeir, sem hafa vald yfir fjármagni bankanna og geta hrifsað það til sín til þess að byggja og selja jafnóðum eða til þess að leigja með síhækkandi húsaleigu, meðan skuldirnar afskrifast af sjálfu sér með lækkandi peningagildi, eiga víst að verða auðugir menn. 5) Verðbólga með síyfirvofandi gengisfalli, beinn eða óbeinu, er sú paradís, sem alls konar spákaupmenn þrá mest. Það er því alltaf líklegt, að ekki sé sagt víst, að þeir stjórnmálamenn, sem eru fyrst og fremst fulltrúar þessara fjáraflamanna, vinni í samræmi við hagsmuni þeirra, einmitt þegar þessir sömu stjórnmálamenn tala fjálglega um brennandi áhuga sinn á því að vinna gegn dýrtíð og gengisfalli.“

Þetta eru orð formanns Framsfl., hv. þm. Str., núna um áramótin, birt í Tímanum. Að vísu hefur það vantað, sem vant er annars að koma í sambandi við umr. um svona mál, t. d. frá hálfu hæstv. fjmrh., þ. e., að allar svona ráðstafanir séu gerðar til þess að forða mönnum frá dýrtíð og forða mönnum frá gengisfalli. Það virðist sem stjórnarflokkunum finnist ekki einu sinni þörf á því að hræsna þannig lengur, bezt sé að ganga beint framan að, lækka bara gengið, auka bara dýrtíðina. En hitt er alveg skýrt, að þessum þm. Framsfl., form. hans, fyrrverandi forsrh. landsins hvað eftir annað, er alveg ljóst, í hverra þágu er verið að gera þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera.

Ég minntist hér áðan á, hvernig hefði verið með húsaleiguna, sem stjórnarflokkarnir slepptu lausri, og hvað hún hefði þýtt, líka í samanburði við kaupgjaldið, og það er máske rétt, að ég lofi hv. þm. að heyra, hvað form. Framsfl. álítur í þeim efnum og hvað hann álítur haldgóðar þær ráðstafanir, sem Framsfl. og Sjálfstfl. núna leggja til að gerðar verði. Hann segir í þessum sömu hugleiðingum eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við athugun á húsaleigu í nokkrum löndum virðist mér húsaleiga vera um það bil 1/5 af kaupi manna, þar sem hún er hæst. Hér hefur þessi mesta lífsnauðsyn hvers manns og sú, sem mest áhrif hefur á alla dýrtíð, verið gerð að aðalgróðalind verðbólgubraskaranna. Íbúð, sem er þrjú herbergi og eldhús, mun nú ekki kosta minna en 250 þús. kr., húsaleigan er því um 24–25 þús. á ári. Menn geta svo reiknað það sjálfir, hvað sá maður, sem býr í þessu húsnæði, þarf að hafa í kaup. Menn geta einnig hugleitt, hvaða útflutningsframleiðsla muni fá staðizt að greiða slíkt kaup. Við erum nú að komast inn í útjaðar á dýrtíðarröst, sem erfitt er að sjá, hvert ber.“

Og nú kemur hæstv. form. Framsfl. að þessum till. ríkisstj.:

„Eftir áramótin mun ríkisstj. bera fram till., og í umr. um þær mun margt skýrast.“ — Ég skýt hér inn í, að hann hefur auðsjáanlega gengið út frá, að þeir mundu taka þátt í umræðunum, ráðherrarnir. — „Það blasir við öllum, að stórauknar nýjar álögur verði nú enn einn sinni að leggja á landsmenn vegna vaxandi dýrtíðar til þess að geta afgreitt fjárlög og bjargað framleiðslunni í bráð. Hve mikið þessar viðbótarálögur eru á annað hundrað millj. kr. fyrir árið 1956, veit ég ekki. Ljóst er, að þessar álögur verður nú að leggja á ýmsar nauðsynlegar vörur, og mun þetta því enn auka dýrtíðina. Svo kemur kauphækkun í kjölfarið. Allt þetta hleður utan á sig í vaxandi mæli eftir sama lögmáli og þegar krakkar velta snjóbolta á undan sér í blotaveðri. Afkoma ríkissjóðs og framleiðslunnar verður næsta haust komin í sama farið aftur eða verra. Ráðstafanirnar eftir áramótin verða því skyndiráðstafanir til að afstýra stöðvun til bráðabirgða, nema gerðar verði gerbreytingar á rekstrar- og efnahagskerfinu.“

Svo mörg eru þau orð hv. form. Framsfl. Væri nú alveg óhugsandi, að hæstv. fjmrh. Framsfl. vildi nú segja nokkur orð hér í deildinni í sambandi við þessa skoðun formanns Framsfl., svo að maður gæti vitað, hvaða skoðun hv. Framsfl. hefur í þessum málum?

Ég veit ekki, hvort ég þreyti hv. þm. með því að lofa þeim að heyra fleira af því, sem form. Framsfl. skrifaði, en ég held þó, að þeim sé það hollt. Ég held, að stjórnarandstaðan komist ekki heldur öllu betur að orði um afleiðingarnar af þeim ráðstöfunum, sem verið er að gera, og ætla þess vegna að leyfa mér, með leyfi hæstv.

forseta, að lesa upp ofur lítið meira úr áramótahugleiðingum hv. þm. Str. Það hljóðar svo:

„Það ættu flestir að sjá, að þetta stjórnarfar fær ekki staðist. Að halda því áfram er háskaleikur með fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta stafar af ástæðum, sem ég hef áður margrakið. Verkamenn standa utan við ríkisstj. og haft gert það um langan tíma. Þeir hafa því ekki tök á því að hafa áhrif á það fyrir milligöngu fulltrúa, er þeir ættu í ríkisstj., hvernig þjóðartekjunum er skipt milli þegnanna, svo sem með því að halda niðri húsaleigu, vöruverði og öðrum nauðsynjum. Ef verkalýðssamtökin álita, að ríkisstj. afskipti verkalýðinn, hafa þau aðeins eitt úrræði til þess að freista að bæta kjör sín, laga misskiptinguna, og það er að knýja fram kauphækkun með verkfalli:“ — Ég vil vekja athygli hv. þm. á, að þetta eru orð hv. þm. Str., formanns Framsfl., ekki mín, þó að ég geti undirstrikað þau. — „En í skjóli þess valds, sem milliliðirnir og spákaupmennirnir eiga í ríkisstj., hækka þeir samstundis alla álagningu, milliliðakostnaðinn í óteljandi myndum, oft miklu meira en kauphækkuninni nemur.“

Það er ekkert undarlegt, þó að þeir hv. þm. Framsfl., sem í deildinni sitja, aðrir en hæstv. forseti, sem getur ekki vikið úr stólnum, fari út, þegar þeir heyra þetta. Þeir finna til þess, að það er ekkert þokkalegt, sem verið er að láta þeirra flokk samþykkja nú, og kemur heldur illa saman við þær skynsamlegu hugleiðingar, sem þeirra form. hafði í frammi um áramótin. — Hann heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Með þessu er komin á alveg ný tegund borgarastyrjaldar á Íslandi í fjármálalífi þjóðarinnar. Þjóðinni blæðir, en spákaupmennirnir græða. Landsmönnum þeim, sem vilja skilja, er nú ljóst orðið, að þjóðinni verður ekki stjórnað, svo að þolanlegt sé, að þessari leið. Valdið til þess að marka stefnuna og ábyrgðin á stefnunni verður að vera á einni og sömu hendi. Með öðru móti er ekki hægt að stjórna neinu þjóðfélagi án stórslysa. Í mánum huga er engin spurning um það, að samstarf milli bænda, verkamanna og annarra, er vinna þjóðfélaginu nauðsynleg störf, verður að koma og kemur. Spurningin er nú aðeins um það, með hverjum hætti þessu samstarfi verður fyrir komið og hvaða tíma það tekur að koma því á. Verk þessara samtaka verður fyrst og fremst, eins og ég hef oft áður rakið, að stöðva dýrtíðina, koma á jafnvægi í fjárhagskerfi þjóðarinnar, gerbreyta rekstrarkerfinu við sjávarsiðuna. Með þessu móti einu er unnt að koma í veg fyrir þá stöðnun, sem nú vofir yfir, og hefja nýtt og eðlilegt framfaratímabil.“

Þetta voru orð form. Framsfl., hv. þm. Str. Ég hef nú lokið upplestri úr hans áramótahugleiðingum, en menn geta nokkurn veginn séð af þessu, hvernig þeir menn, sem einhverja reynslu hafa í stjórnmálum og eitthvert vit á efnahagsmálum þjóðarinnar og einhvern skilning á því, hvers konar ráðstafanir það eru, sem ríkisstj. nú er að leggja til, hugsa um þessi mál.

Ég skil ákaflega vel, að hæstv. fjmrh. kjósi að vera fjarri, þegar verið er að ræða þessi mál. Ég skil ákaflega vel, að meginið af þingmönnum stjórnarliðsins og ekki sízt framsóknarþingmenn kjósi að vera helzt ekki nærri, þegar verið er að tala um þetta. Ég veit, að það kemur ekki til með að vanta hendurnar, sem verða réttar upp til þess að samþykkja þessar álögur. En það getur líka farið svo, að það vanti ekki heldur hendurnar í þjóðfélaginu, sem koma til með að velta þeim af sér, þær vinnandi hendur. Það þýðir lítið hér í þessum sölum að samþykkja álögur eins og þessar, sízt af öllu þegar það er gert með því algera sannfæringarleysi, sem samþykktinni fylgir hjá fylgismönnum stjórnarinnar, eins og nú er auðséð. Það er gefið, að af samþykkt tillagna ríkisstj. mundi leiða nýja gífurlega verðbólgu, sem aldrei verður aftur tekin. Þær till., sem þm. Sósfl. hafa borið fram, mundu afstýra slíkri verðbólgu, mundu koma í veg fyrir hana og gefa þjóðfélaginu heilt ár til þess að gera sínar ráðstafanir í þessu efni. Og það eru fleiri till., sem hægt væri að gera, heldur en þær, sem þar er lagt til, ef menn vildu yfirleitt ljá máls á því að ræða það að láta þá auðugu borga. Það er hægt líka að taka dálítið af verðbólgugróðanum. Það er hægt líka að taka þó nokkuð af stórtekjum heildsalanna. Það væri eðlilegt líka í sambandi við svona mál að setja bann við verðhækkunum, strangt eftirlit og takmörkun á verðhækkunargróða og annað slíkt. Um þetta er allt saman hægt að koma fram till. með, ef það er hér í þinginu yfirleitt nokkur vilji á því að stöðva verðbólgu í þjóðfélaginu, stöðva dýrtíðina, ef meiri hl. þessarar hv. deildar, eins og form. Framsfl. lýsti, er ekki bara sem stjórnmálamenn fulltrúar fjáraflamannanna og verðbólgubraskaranna, þar með taldir þm. Framsfl. Það er eftirtektarvert, að í till. ríkisstj. er ekkert um verðlagseftirlit eða neitt slíkt, enda upplýsti hæstv. forsrh. við 1. umr. þessa máls, að slíkt væru sérfræðingarnir ekki heldur með. Þar átti sannarlega ekki að vera nokkur takmörkun. Húsaleigan, vöruverðið, gróði allra, sem í slíku braska, má vera skefjalaus, þar má vera skefjalaust frelsi. Einu mennirnir í landinu, sem ekki mega hafa frelsi að áliti Sjálfstfl., eru verkamennirnir til þess að hækka sitt kaup, þó að það hafi farið lækkandi. Þeir eru aldrei nógu fátækir að áliti hæstv. forsrh., en bankarnir aldrei of ríkir. Það er gefið mál, að þeir, sem samþykkja þessar till. ríkisstj. hér, vilja verðbólgu í landinu, og tvímælalaust eru þeir að undirbúa gengislækkun. Það sýnir sig líka, að þeir eru það fléttaðir inn í fyrirtæki einokunarauðvaldsins, stjórnarflokkarnir sjálfir, að þeir geta ekki hugsað sér að láta þá, sem græða tugi milljóna á ári, borga lítinn hluta af sínum gróða. En ég vil spyrja þessa hv. stjórnarflokka: Dettur ykkur í hug, að verkalýðurinn í landinu sætti sig við þetta? Dettur ykkur annað í hug en að sjómenn og verkamenn komi til með að svara þessu og það undireins? Þið segizt vera að bjarga útgerðinni. En er ykkur ekki ljóst, að það þarf sjómenn á flota, til þess að flotinn gangi? Haldið þið, að það séu bankarnir og olíufélögin, sem reka togarana og bátana? Haldið þið, að það séu þeir, sem draga fiskinn úr sjónum? Það var talað um í gærkvöld, að það mundi líklega vera samkomulag um fiskverð til sjómanna, kr. 1.30. Hvað haldið þið að sé fyrsta afleiðingin af þessu frv. ríkisstjórnarflokkanna? Fyrsta afleiðingin var sú, að hér uppi á Akranesi fella sjómennirnir, kolfella að sætta sig við kr. 1.30 fiskverð, menn, sem sjá fram undan, að það á að hækka alla dýrtíð í landinu um 15–20%. Án þessara sjómanna aflið þið ekki þessa fisks, sem bankarnir og olíuhringarnir og allir gammarnir hér í Reykjavik græða á. Hvernig haldið þið, að þið getið stjórnað landinu? Viljið þið ekki reyna að sýna okkur fram á það? Það er óstjórn og stjórnleysi, sem þið hafið í frammi hér. Það er háskalegur leikur, sem hérna er verið að leika með alla afkomu þjóðarinnar. Það vil ég, að þeim mönnum sé ljóst, sem nú ætla að ganga til þess að fella allar till. um, að þeir auðugu í þessu landi, þeir, sem reytt hafa af útgerðinni, svo að skiptir hundruðum millj. króna, verði látnir borga. Einokunarauðvaldið og þess flokkar á Alþingi geta kúskað þetta í gegn, en áður en þeir gera það, er rétt, að þeir geri sér afleiðingarnar ljósar. Það er ekki til neins fyrir þá að koma á eftir og segja, að þetta hafi þeir ekki séð fyrir. Ég hef gert þeim þessar afleiðingar ljósar, líka gert þeim þær ljósar með orðum formanns Framsfl. (Gripið fram í: Lastu alla greinina?) Las úr henni það, sem þurfti að lesa yfir hausamótunum á hv. þm., þeim sem yfirleitt hlustuðu á, og gæti lesið hana aftur, ef það kæmu einhverjir fleiri inn í salinn af þeim, því að ekki mundi þeim nú veita af að heyra hana. En þeim þeirra, sem komu of seint til þess að heyra blessunarorðin, mundi ég hins vegar vísa á að lesa hana nú yfir, áður en þeir greiða atkvæði, því að það verða ef til vill greidd atkvæði víðar en í þingsölunum í sumar, og þá munu ekki duga neinar afsakanir fyrir því að hafa lagt þessar álögur á í einhverri blindni.