30.01.1956
Neðri deild: 58. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

146. mál, framleiðslusjóður

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Samkvæmt frv., sem hér liggur fyrir, á að stofna svonefndan framleiðslusjóð og safna til hans allmiklu fé á þessu ári. Fé sjóðsins á að nota til stuðnings útflutningsframleiðslunni og þá fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir, að útgerð fiskiskipa stöðvist á árinu.

Í sambandi við þetta mál er vissulega ástæða til að íhuga, hvað það er, sem einkum veldur því, að afkoma sjávarútvegsins er þannig, að þörf er fyrir þær ráðstafanir, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Það er fleira en eitt, sem veldur tapi á útgerðarrekstrinum, m. a. er það óheppilegt fyrirkomulag á afurðasölunni hjá mörgum útgerðarfyrirtækjum. Hér á landi hafa risið upp mörg fyrirtæki, sem stofnuð eru í þeim tilgangi að kaupa óverkaðan afla fiskiskipa til vinnslu og sölu. Mörg af þessum fyrirtækjum hafa byggt fiskfrystihús. Önnur hafa komið upp verkunarstöðvum fyrir saltfisk og harðfisk. Enn önnur hafa sett upp verksmiðjur, þar sem fiskúrgangur er gerður að söluhæfri vöru. Eins og skiljanlegt er, vilja eigendur þessara fyrirtækja reka þau þannig, að þeir hafi ágóða af rekstrinum. Það er því hagsmunamál þeirra að fá fiskinn hjá útgerðarmönnum og sjómönnum fyrir sem lægst verð. Margir útgerðarmenn selja afla sinn óverkaðan til fiskvinnslustöðvanna, vegna þess að þeir hafa ekki aðstöðu til að verka fiskinn sjálfir. Um hver áramót eiga þeir í samningum við eigendur vinnslustöðvanna um fiskverðið. Aðrir útgerðarmenn þurfa ekki að standa í slíkum samningum, vegna þess að þeir hafa komið upp fiskverkunarstöðvum og verka þar aflann af skipum sínum. Og það mun óhætt að fullyrða, að á undanfarandi árum hefur útkoman af rekstrinum yfirleitt verið hagstæðari hjá þeim útgerðarmönnum, sem hafa verkað aflann sjálfir, heldur en hjá hinum, sem hafa selt fiskinn óverkaðan upp úr skipunum. Ýmsir eigendur fiskvinnslustöðva á þeim stöðum, þar sem mikill afli berst á land á skömmum tíma, hafa áreiðanlega grætt á viðskiptunum við útgerðarmennina á undanfarandi árum.

Þegar rætt er um afurðasölumál sjávarútvegsins, virðist ekki óeðlilegt, að bent sé á til samanburðar, hvernig þeim málum er fyrir komið hjá landbúnaðinum, og vil ég fara um það nokkrum orðum.

Samvinnufélög bændanna eiga mjólkurbúin, slátrunar- og kjötfrystihúsin, þar sem afurðirnar eru gerðar að söluhæfum vörum, og félögin annast einnig sölu þeirra. Flestir bændur hér á landi afhenda samvinnufélögunum, sem þeir eru þátttakendur í, nú vöru sína til vinnslu og sölu, og með þessu fyrirkomulagi tryggja þeir sér það verð, sem þeim ber fyrir framleiðsluna, þ. e. a. s. söluverðið að frádregnum vinnslu- og sölukostnaði. Félögin eru ekki stofnuð til þess að græða á þessum viðskiptum, heldur til þess að veita framleiðendum þá þjónustu að taka vörur þeirra til vinnslu og sölu og skila öllu andvirðinu heim til þeirra að frádregnum óhjákvæmilegum kostnaði. Þetta fyrirkomulag hefur svo vel gefizt, að bændunum mun ekki koma til hugar að hverfa frá því. Að vísu er það svo, að nokkrir bændur selja kaupmannaverzlunum framleiðsluvörur sínar að einhverju eða öllu leyti, en þá oft með þeim skilmálum, að þeir fái þar sama verð og stéttarbræður þeirra fá frá samvinnufélögunum. En mikill meiri hluti bændanna felur eigin fyrirtækjum, samvinnufélögunum, að annast sölu á framleiðsluvörunum.

Það er áreiðanlegt, að þeir bændur eru fáir, ef þeir eru þá nokkrir, sem telja hyggilegt að hverfa frá samvinnunni og taka upp þá viðskiptahætti útgerðarmannanna að selja einstöku kaupsýslumönnum eða hlutafélögum fárra manna framleiðsluvörurnar fyrir ákveðið verð. Bændur ættu þó sennilega kost á þessu, ef þeir vildu, því að trúlegt er, að kaupmenn væru fáanlegir til að kaupa fé til slátrunar að haustinu og verzla með afurðirnar. Og menn, sem hafa áhuga fyrir kaupsýslu, gætu líka stofnað hlutafélög hér og þar um landið, sem hefðu það verkefni að kaupa landbúnaðarvörur frá bændum og verzla með þær. En það eru engar sjáanlegar líkur fyrir því, að slík kaupsýslustarfsemi aukist frá því, sem nú er. Það er vegna þess, að bændurnir vilja yfirleitt alls ekki skipta við slík einkafyrirtæki. Þeir hafa komizt að raun um, að samvinnuskipulagið á afurðasölumálunum, sem þeir hafa búið við í marga áratugi, hefur svo mikla kosti, að þeim kemur ekki til hugar að hverfa frá því. Þeim þætti áreiðanlega ekki fýsilegt að þurfa að eiga í samningum við óviðkomandi aðila um verð á búvörunum í byrjun hverrar kauptíðar, á svipaðan hátt og útvegsmenn eiga nú í samningaþófi við eigendur fiskvinnslustöðva um verð á fiskinum í byrjun hverrar vertíðar. Það fyrirkomulag á afurðasölumálum munu flestir bændur áreiðanlega telja mjög óviturlegt.

Hér þarf að verða breyting á hjá sjávarútveginum. Fiskverkunarstöðvarnar eiga að vera undir stjórn útgerðarmanna, reknar í þeim tilgangi einum að útvega þeim sem hæst verð fyrir aflann. Og þeir sjómenn, sem taka laun sín í hlut af afla, þurfa að eiga þess kost að vera þátttakendur í þeim félögum, sem reka fiskvinnslustöðvarnar, með fullum réttindum til þess að eiga hlut að stjórn þeirra og fylgjast með öllum rekstri, svo að þeir geti falið þeim að annast sölu á sínum aflahlut í stað þess að selja útgerðarmönnum hann fyrir ákveðið verð, eins og nú er gert. En eitt af nútímans fyrirbærum í þessum efnum er samningaþófið milli útgerðarmanna og sjómanna um verð á aflahlut sjómannanna, og oft liggur við borð, að útgerðin stöðvist vegna ósamkomulagsins þar. Hefur þá sáttasemjari ríkisins verið til kvaddur að reyna að koma á samkomulagi eins og í vinnudeilum. Þessi togstreita gæti horfið, ef sjómenn hefðu aðstöðu til að verka sinn aflahlut hjá eigin fyrirtækjum og tryggja sér á þann hátt sannvirði hans. Það ætti ekki að vera hættumeira fyrir bankana að velta félagsfyrirtækjum útgerðarmanna og sjómanna lán til þess að koma upp fiskvinnslustöðvum og reka þær heldur en þeim einkafyrirtækjum, sem nú fást við þann atvinnurekstur.

En hvaða möguleikar eru til þess að koma á nýju og hagkvæmara fyrirkomulagi í þessum efnum? Fyrst og fremst þarf vilja til þess hjá þeim, sem hafa hag af því, að breytt verði til, útgerðarmönnunum sjálfum. Ýmsir þeirra munu sjá þörfina fyrir breytta starfshætti í þessum efnum og vilja vinna að því, að þeir verði upp teknir, en aðrir vilja halda öllu í svipuðu horfi og nú er. En félagssamtök útvegsmanna munu vera þannig uppbyggð, að í þeim eru ekki aðeins útgerðarmennirnir, sem þurfa að fá sem hæst verð fyrir fiskinn, heldur einnig fiskkaupmenn eða forstöðumenn fiskkaupafyrirtækja, sem hafa hag af því að fá keyptan fisk fyrir sem lægst verð.

Sjálfstæðisflokksmenn hafa verið mestu ráðandi í Landssambandi ísl. útvegsmanna, og ráðherrar þess flokks hafa á undanfarandi árum farið með yfirstjórn sjávarútvegsmála í ríkisstj. Það eru því sjónarmið þess flokks, sem hafa verið mestu ráðandi í sjávarútvegsmálunum, þ. á m. í afurðasölumálum útgerðarinnar. En öllum er kunnugt, að um fyrirkomulag afurðasölunnar og viðskiptamálin yfirleitt er djúpstæður ágreiningur milli núverandi stjórnarflokka. Þess er ekki að vænta, að sjálfstæðismenn beiti sér fyrir þeim breytingum á vinnslu- og sölufyrirkomulagi sjávarafurða, að þar verði tekinn upp félagsrekstur á samvinnugrundvelli í stað þess kaupsýslufyrirkomulags, sem nú ríkir. Það er ekki hægt að búast við því, að Sjálfstfl. felli sínar ær og kýr með því að ganga inn á stefnu framsóknarmanna í viðskiptamálum. Hér fást því ekki verulegar breytingar, nema aðrir menn veljist til forustu í málunum, en það er mjög þýðingarmikið, að í þessum efnum verði breytt um til hins betra. Hitt er svo annað mál, að jafnvel þó að útvegsmenn og sjómenn hefðu verkun aflans í eigin höndum og sú þjónusta væri rekin á hagkvæmastan hátt og þó að þeir hefðu félagsinnkaup á öllum útgerðarnauðsynjum, þá mundi þetta ekki nægja, eins og nú er ástatt, að öðru óbreyttu, til þess að útgerðin gæti orðið rekin hallalaust. Það er vegna þess, að verðið, sem fæst fyrir útfluttar vörur í erlendum gjaldeyri, umreiknað í íslenzka peninga með núverandi gengisskráningu, er ekki nógu hátt til að vega á móti framleiðslukostnaðinum.

Stundum heyrist talað um það í nokkrum ásökunartón, að útvegsmenn séu stöðugt að gera kröfur á hendur því opinbera um stuðning við atvinnureksturinn. En ef að er gáð, þarf þetta ekki að vera neinum undrunarefni. Það er vegna þess, að útvegsmenn eins og aðrir búa við verzlunarhöft, sem sett eru af ríkisvaldinu. Þeir og aðrir, sem selja vörur úr landi, þurfa að afhenda erlenda gjaldeyrinn, sem fyrir þær fæst, fyrir verð, sem ákveðið er af yfirvöldunum. Auk þess eru önnur höft á útflutningsverzluninni og einokun á a. m. k. einni útflutningsvörutegund, sem ekki hefur fengizt samkomulag um að létta af. Þegar á þetta er litið, getur það ekki talizt undarlegt, þó að útvegsmenn og aðrir, sem selja vörur úr landi, kalli á ráðstafanir stjórnarvaldanna, þegar framleiðslan ber sig ekki. Allt öðru máli væri að gegna, ef hér væri viðskiptafrelsi, en því er ekki að heilsa, að svo sé. Það mun óhætt að segja, að hér hafi verið meiri og minni viðskiptahömlur síðan í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar, árið 1914, og enn sést alls ekki hilla undir verzlunarfrelsi hér á landi, þó að sumir menn séu oft að spjalla um slíkt.

Þjóðin má ekki við því, að útgerð fiskiskipa hætti og vörusala til annarra landa falli niður. Til þess að koma í veg fyrir, að svo fari á þessu ári, er frv. þetta lagt fyrir þingið. Samkomulag hefur orðið milli stjórnarflokkanna um frv., og því hef ég mælt með samþykkt þess, eins og fram kemur í nál. á þskj. 313.

Oft er það svo, þegar samið er um mál milli tveggja eða fleiri flokka, að niðurstaðan verður nokkuð önnur en hvor eða hver flokkur hefði helzt kosið. Þannig mun vera um þetta frv., að ýmsir þeir, sem stuðla að framgangi þess með atkvæði sínu, hefðu kosið að hafa einstök ákvæði þess nokkuð öðruvísi en samkomulag hefur náðst um milli flokkanna. Annar af meðnefndarmönnum mínum í meiri hl. fjhn., hv. þm. A-Húnv., hefur lýst því yfir, að hann væri mjög óánægður með frv., þó að hann greiði atkv. með því, og birtir hann andvarp frá sér á prenti í nál. meiri hluta fjhn. Hann minnir þar á frv. um verðtryggingarsjóð, sem hann hefur flutt á þessu þingi. Í sambandi við aths. hv. þm. A-Húnv. vil ég taka fram, að þess hefur ekki heyrzt getið, að Sjálfstfl. hafi bent á hans frv. sem úrræði, þegar var verið að undirbúa það frv. um framleiðslusjóð, sem hér liggur fyrir.