17.10.1955
Sameinað þing: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

1. mál, fjárlög 1956

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Samstjórn Íhaldsflokksins og Framsfl. hefur nú farið með völd í meira en fimm ár. Engin ríkisstjórn um langan tíma hefur haft jafnöflugan. þingmeirihluta sér að baki og þessi ríkisstj. Hún hefur átt og virðist eiga öruggt fylgi 37 þm. af 52. Ríkisstj. hefur því bókstaflega getað ráðið öllu, bæði um lagasetningu á Alþ. og um stjórnarframkvæmdir, enda hefur hún gert það. Hún hefur haft að engu till. andstöðuflokkanna og manna úr þeim. Hún hefur haldið sinni stefnu frá því fyrsta og allt til þessa, og mér virðist frv. það, sem hér liggur fyrir til fjárl. fyrir árið 1956, benda til þess, að enn sé stefnan óbreytt.

Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum árið 1950 og lækkaði gengi krónunnar til þess að bjarga atvinnuvegunum, eins og það þá var kallað, lýsti hún yfir því, að stefna hennar og markmið væri það, sem nú skal greina:

Í fyrsta lagi að fella niður styrki og uppbótagreiðslur og lækka skatta.

Í öðru lagi að koma útflutningsatvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll og að tryggja þeim hallalausan rekstur.

Í þriðja lagi að gera verzlunina frjálsa.

Í fjórða lagi að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum inn á við og út á við.

Og að lokum að tryggja stöðugt gengi, hið nýskráða gengi íslenzku krónunnar.

Þetta voru þau loforð og þær yfirlýsingar, sem hæstv. ríkisstj. gaf þjóðinni fyrir fimm árum. Hún hefur haft meira en fimm ár til þess að framkvæma þessa stefnu sína, og hún hefur, eins og ég áðan sagði, öllu getað ráðið, bæði á Alþ. og í stjórnarframkvæmdum.

Allir vita, hvernig nú er komið. Ég skal ekki rifja það upp að þessu sinni, geri það kannske siðar, en ég vil rétt til glöggvunar rifja upp fyrir mönnum, hv. alþm. og öðrum, sem mál mitt heyra, vitnisburði þá, sem ríkisstj. lagði fram til staðfestingar því, að henni hefur verið fært að gera það, sem hún lofaði í stefnuyfirlýsingu sinni, og vitna ég þar í hagfræðilegt álit þeirra Benjamíns Eiríkssonar og Ólafs Björnssonar, sem voru þá og hafa verið ráðunautar ríkisstj. í efnahagsmálum.

Í álitsgerð þessari segir svo, með leyfi forseta: „Ef atvinnulífið, fjármálin og peningamálin eru á heilbrigðum grundvelli, er engin ástæða til þess, að gjaldeyrisskort geti borið að höndum nema rétt í bili, og þá því aðeins, að snöggar breytingar verði á utanríkisverzluninni.“

Enn fremur segja þessir sömu ráðunautar í þessari álitsgerð sinni:

„Útlánastarfsemi bankanna er í raun og veru annar þátturinn í gjaldeyrisverzluninni, hinn er fjármálastefna ríkisins. Hvort tveggja þessu ræður ríkisstj. eða getur ráðið. Henni er því í lófa lagið, vilji hún framkvæma nauðsynlegar ráðstafanir, að sjá um, að jafnvægi haldist í þjóðarbúskapnum, að gjaldeyrisverzluninni sé haldið í jafnvægi.“

Á þessu ári hefur gjaldeyrisaðstaðan við útlönd versnað um 162 millj. kr.

Um uppbætur og styrki segja þessir sömu ráðunautar:

„Aðalókostur styrkjaleiðarinnar frá þjóðhagslegu sjónarmiði er sá, að hún leysir í raun og veru ekki vandamál útflutningsframleiðslunnar, sem berst í bökkum jafnt eftir sem áður, og hún er heldur ekki viðunandi bráðabirgðalausn.“

Uppbótagreiðslurnar vaxa og styrkjaleiðin magnast ár frá ári og uppbæturnar hækka og niðurgreiðslurnar einnig.

Um frjálsu verzlunina segja þessir ráðunautar einnig :

„Höfuðskilyrði frjálsrar verzlunar er, að greiðslurnar séu frjálsar, en það þýðir, að hægt sé að greiða erlendis, ef íslenzkir peningar eru fyrir hendi.“

Allir vita, að svo er ekki. Nú bíða menn eftir gjaldeyrinum í bönkunum, í staðinn fyrir áður að bíða eftir leyfunum frá gjaldeyris- og innflutningsnefnd.

Um bátagjaldeyrinn segja þeir:

„Ekki er hægt að mæla með þessari leið. Með því að fara þessa leið mundi raunverulega sett tvöfalt gengi á íslenzku krónuna og þá um leið tvenns konar verðlag á innfluttar vörur. Með því væri skapaður jarðvegur fyrir margs konar brask og óheilbrigða verzlunarhætti. Þessi leið mundi því kalla á aukin verzlunarhöft og opinbera íhlutun um verðlagsmál.“

Bátagjaldeyriskerfið gerir að þeirra dómi óhjákvæmilegt að taka upp strangt verðlagseftirlit. Það hefur ríkisstj. ekki gert af ástæðum, sem öllum eru kunnar.

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum ráðunautanna er í skemmstu máli sú, að í raun og veru sé það og hafi verið og eigi að vera á valdi þeirrar ríkisstj., sem hefur nægilegt þingfylgi, að skapa atvinnuvegunum heilbrigðan grundvöll og jafnvægi í fjármálum og efnahagsmálum út á við og inn á við.

Hvernig er þá ástandið í þessum efnum nú? Hvernig hefur ríkisstj. gengið að efna þessi loforð, sem hún gaf, þegar hún tók við völdum fyrir fimm árum, með þá einstöku aðstöðu, sem hún hefur haft til þess að framkvæma vilja sinn og stefnu?

Samkvæmt yfirliti Hagstofu Íslands um vöruinnflutning til landsins og frá því til ágústloka þessa árs er verzlunarhallinn þá orðinn 250 millj. kr., þ. e. a. s., hvern einasta dag frá ársbyrjun hafa Íslendingar til jafnaðar flutt inn fyrir einni milljón króna meira en þeir hafa getað greitt með útflutningnum, og ekki er sjáanlegt, að hér sé nein breyting fram undan. Að vísu er það rétt, að aðrar tekjur í erlendum gjaldeyri hafa borizt og berast en andvirði útflutningsvörunnar. Þar vega þyngst gjaldeyristekjurnar af framkvæmdum varnarliðsins í Keflavík og víðar. Þessar tekjur námu um 200 millj. kr. árið 1954, en hæstv. ríkisstj. hefur upplýst, að þær hafi minnkað á þessu ári. Kemur það einnig bert fram, þegar litið er á gjaldeyrisaðstöðu bankanna. Í ársbyrjun 1955 áttu bankarnir 102 millj. kr. inni erlendis. Í lok ágústmánaðar s. l. skulduðu þeir um 60 millj. Gjaldeyrisaðstaðan hefur versnað á þessum átta mánuðum um hvorki meira né minna en 160 millj. kr. Þetta er nú jafnvægið út á við, eins og ég áðan sagði.

Hvað er þá um jafnvægið inn á við?

Öll framleiðslustarfsemi í landinu svo að segja er nú styrkt af opinberu fé. Fiskframleiðsla vélbátaflotans nýtur gjaldeyrisfríðinda, fær bátagjaldeyrisálag á útfluttar vörur, sem nemur upp undir 60%, ofan á hið skráða gengi. Togaraútgerðinni eru greiddar 2000 kr. á dag í beinan útgerðarstyrk. Á hverja einustu tunnu síldar, sem veidd hefur verið í Faxaflóa í haust, eru greiddar útflutningsuppbætur. Framleiðsluvörur landbúnaðarins eru greiddar niður hér innanlands, það sem landsmenn kaupa sjálfir. Það, sem gert er ráð fyrir að verði flutt út, á að verðuppbæta, annaðhvort með bátagjaldeyrisálagi, allt að 60% á skráð gengi, eða með öðrum hætti. Gert er ráð fyrir, að lambakjöt, sem flutt verður til útlanda og selt þar, verði selt fyrir 9 kr. kg, og er því augljóst, að eigi slík sala að standa undir búrekstri bænda, þá er nauðsyn að bæta þar við. Verðið, sem við borgum hér innanlands, mun láta nærri að sé þrefalt hærra en útflutningsverðið.

Iðnaðurinn nýtur að vísu ekki beinna styrkja úr ríkissjóði, en hins vegar nýtur hann tollverndar, sem að ýmsu leyti kemur honum að sama haldi og hefur sömu afleiðingar að því er verðlag snertir og áhrif á dýrtíðina í landinu.

Framfærsluvísitalan er í dag 172 stig. Kaupgjaldið er miðað við 164 stig. Í maíbyrjun, fyrir röskum fimm mánuðum, var framfærsluvísitalan 161 stig og kaup greitt samkvæmt sömu vísitölu. Mismunurinn á framfærsluvísitölu og þeirri vísitölu, sem almennt kaupgjald er miðað við, er því nú þegar orðinn 8 stig, þ. e. a. s., þær 10–11% kauphækkanir, sem verkalýðurinn fékk á s. l. vori, er þegar búið að skerða um sem svarar 8 stigum. Hver vísitalan verður 1. desember, verður ekki sagt enn, heldur ekki hver munur þá verður á kaupgreiðsluvísitölunni og framfærsluvísitölunni, en ég verð að segja það, að mér finnst það æði mikil bjartsýni af hæstv. fjmrh., ef hann treystir því, að áætlunin um 173 stiga meðalvísitölu á árinu 1956 fái staðizt, þegar þess er gætt, að á þeim fimm mánuðum, sem liðnir eru frá 1. maí, hefur framfærsluvísitalan hækkað, eins og ég áðan sagði, um 11 stig.

Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, þó að sagt sé, að aldrei í sögu þjóðarinnar hafi loforð og yfirlýsingar verið jafnátakanlega brigðuð og loforð hæstv. ríkisstj., þegar hún tók við fyrir fimm árum.

Í stað þess að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll, tryggja þeim hallalausan rekstur og skapa jafnvægi í búskap þjóðarinnar út á við og inn á við, er nú svo komið sem komið er. Viðskiptahallinn við útlönd eykst stöðugt, ójafnvægið þar sívaxandi, og hið sama gildir einnig um verðlag innanlands og viðskipti öll. Allri framleiðslustarfsemi þjóðarinnar svo til og bókstaflega allri útflutningsframleiðslunni er fleytt fram með opinberum styrkjum, sem heimtir eru af landsmönnum með ýmiss konar sköttum og tollum. Tollarnir verða síðan aftur gróða- og álagningarliður fyrir milliliðina, sem auka byrðina stórkostlega með sinni álagningu.

Skattarnir hækka ár frá ári, eins og fjárlfrv., sem nú liggur fyrir, bezt sýnir.

Hæstv. ráðh. játaði þetta í ræðu sinni áðan. Ástandið er nú þannig, sagði hæstv. ráðh., að verðbólgubraskararnir einir græða á ástandinu. Tímarnir eru góðir fyrir verðbólgubraskarana, segir hæstv. ráðh., en erfiðir og horfurnar ískyggilegar fyrir landsmenn alla og atvinnuvegi þeirra. — Þetta er hans dómur um ástandið í dag.

Hæstv. ríkisstj. og blöð hennar leitast við að telja fólki trú um, að ástæðan til ástandsins í dag sé sú, að á s. l. vori var kaupgjald verkafólks í landinu almennt hækkað um 10–11%. Þessir atburðir telja þeir að hafi raskað því jafnvægi, sem búið var að ná á árunum 1953 og 1954, að þeir nú segja. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að öðruvísi söng í tálknum stjórnarliðsins, þegar fjármálin voru til umr. á síðasta hausti hér á Alþ. Þá var sami söngurinn eins og nú: Atvinnuvegirnir voru að stöðvast, togararnir gátu bókstaflega ekki haldið áfram, nema þeim væri tryggður a. m. k. 2000 kr. úthaldsstyrkur á dag. Gjaldeyrishrun, lækkun krónunnar, var þá talið yfirvofandi. Nú segja blöð ríkisstj. og hæstv. ráðh., að þá hefði í raun og veru verið mesta fyrirmyndarástand, þá hafi verið stöðugt verðlag og jafnvægi. Jafnvægið innanlands var þá þannig, að raunverulegt verðgildi kaups verkafólksins hafði verið skert stórlega á undanförnum árum, þó að þjóðartekjurnar hefðu aukizt.

Við Alþfl.-menn töldum, að líklegasta leiðin til þess að bæta úr þessu, til þess að bæta kjör verkalýðsins og tryggja honum réttmætan hluta af aukningu þjóðarteknanna, væri að reyna að skammta, takmarka gróða milliliðanna, lækka þann kostnað, annan en verkalaunin, sem fellur á framleiðslustarfsemina í landinu, vexti, tolla, milliliðagróða o. s. frv., o. s. frv. Þessi leið var reynd árið 1952 og gaf nokkurn árangur — mikinn, að því er hæstv. ríkisstj. nú segir.

Alþfl.-menn lögðu fram á þingi í fyrrahaust till. þess efnis, að ríkisstj. gerði þær ráðstafanir, sem í hennar valdi stæðu, til þess að reyna að koma fram verðlækkunum, stöðva vöxt dýrtíðarinnar og jafnvel að reyna að skrúfa örlítið til baka. Með því móti töldum við, að hægt væri að tryggja verkamönnum kjarabætur, sem þeir áttu rétt á, án þess að hækka kaupgjaldið eins mikið og raun varð á eftir deiluna s. l. vetur.

Ríkisstj. hafnaði till. okkar og ráðleggingum Alþfl.-manna í þessu efni. Hún þvertók fyrir það að reyna þessa leið. Með því móti gaf hún vind í seglin þeim öflum innan verkalýðshreyfingarinnar, sem fyrst og fremst vildu leggja áherzlu á beinar kauphækkanir án tillits til þeirra afleiðinga, sem þær kynnu að hafa. Þannig studdi ríkisstj. þau öfl innan verkalýðssamtakanna, sem stefndu að beinni kauphækkun, en ekki óskuðu að reyna verðlækkunarleiðina áfram.

Við Alþfl.-menn vöruðum við því að fara þessa leið, að krefjast svo mikilla beinna kauphækkana sem gert var. Við töldum, að fyrir alla, verkalýðinn sjálfan og þjóðina í heild sinni, væri ráðlegri, skynsamlegri, æskilegri sú leiðin að reyna að knýja dýrtíðina niður og lækka tollana og takmarka gróða milliliðanna, vexti, tryggingargjöld og annan slíkan kostnað.

Vegna neitunar ríkisstj. á því að vilja fara þessa leið varð ofan á í verkalýðssamtökunum að berjast fyrir beinum kauphækkunum. Kauphækkanirnar námu þó ekki nema nokkru broti af því, sem upphaflega var farið fram á, eða 10–11%, eins og áður segir. En síðan þetta gerðist hafa þessar kauphækkanir verið notaðar sem skálkaskjól og yfirvarp til þess að koma fram verðhækkunum, sem ekki á nokkurn hátt er hægt að réttlæta með þeim kauphækkunum, sem urðu á s. l. vori. Þetta er hverjum manni kunnugt. Verðhækkanir á mörgum liðum nema frá 20 til 60%. Ég man eftir þremur dæmum, sem þrír aðilar standa að, er sýna þetta ljóslega.

Eftir að verkfallinu í vor lauk, voru ýmis þjónustugjöld hjá olíufélögunum hækkuð um milli 30 og 40% og jafnvel meira. Það hæsta, sem kauphækkunin gat réttlætt í þessu efni, hefði verið um 8% hækkun.

Nú nýlega hefur bæjarstjórn Reykjavíkur, svo að ég taki opinberan aðila, hækkað sand og möl, byggingarefni, sem þeir verða að kaupa, sem eru að reyna að koma upp húskofa yfir síg, um 57%. Mér er óskiljanlegt, að nokkrum detti í hug, að slík hækkun standi í sambandi við kauphækkunina í vor.

Daggjöld á ríkisspítölunum voru í ársbyrjun 70 kr. á dag og voru þá hækkuð samkv. fjárlögum upp í 75 kr. Nú fyrir skömmu hefur ríkisstj. tilkynnt, að þessar 75 kr. eigi að hækka upp í 90 kr., þ. e. a. s. hækkunin frá áramótum verði um 30% á 9 mánuðum.

Því fer fjarri, að hæstv. ríkisstj. hafi sýnt nokkra viðleitni til þess að hafa hemil á þessum verðhækkunum. Þvert á móti, blöð hennar hafa reynt að réttlæta þessar verðhækkanir með kauphækkuninni, sem varð á s. l. vori, þó að bersýnilegt sé, að þær fara langt fram úr því, sem kauphækkunin gat gefið tilefni til. Verður því ekki annað séð en að hæstv. ríkisstj. hafi með mestu velþóknun horft á þessar aðgerðir til verðhækkunar.

Mér virðist augljóst, að sú stefna, sem nú er fylgt af hæstv. ríkisstj., geti ekki leitt til annars en fullkomins öngþveitis og að fyllsta nauðsyn sé á að stinga við fótum.

Hér hafa fulltrúar tveggja flokka, kommúnista og Þjóðvfl., haft orð á því, að Alþýðusamband Íslands hefði ritað fjórum flokkum, Framsóknarflokknum, Alþýðuflokknum, Sósíalistaflokknum og Þjóðvarnarflokknum, bréf þess efnis, að þeir óskuðu að ræða við þá um myndun vinstri stjórnar. Ég fæ ekki skilið, hvernig Alþýðusamband Íslands, sem er félagssamtök verkafólks úr öllum pólitískum flokkum, getur tekið að sér hlutverk pólitískra flokka og ætli að vinna að myndun ríkisstjórnar, þó að sjálfsagt sé, að flokkarnir hlýði á óskir þeirra um einstök áhugamál verkalýðsins.

Hv. þm. Þjóðvfl., Gils Guðmundsson, las hér upp bréf og ályktun frá Þjóðvfl. þess efnis, að Þjóðvfl. væri reiðubúinn til þess að mynda „þingmeirihluta“, eins og það var orðað, til þess að koma fram efni þeirrar ályktunar, sem hann las upp. Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort honum sé kunnugt um, að möguleiki sé nú á þingi til að mynda annan þingmeirihluta en þann, sem nú er og styður hæstv. ríkisstj. Alþfl. átti frumkvæði að því á s. l. vetri að gefnu tilefni í ræðum og ritum formanns Framsfl. að hefja óformlegar umr. við menn úr Framsfl. og Þjóðvfl. um möguleika á því að koma á samstarfi lýðræðissinnaðra andstæðinga íhaldsins um gerbreytta stjórnarstefnu og stjórnarhætti. Þær umr. eru ekki svo langt komnar enn, að neitt sé hægt frá þeim að segja. En mér er ekki kunnugt um, að sú afstaða, sem hér var á þingi, þegar hæstv. ríkisstj. var mynduð, hafi breytzt. Þá var ekki hægt að mynda meirihlutastjórn annan veg en þann, sem gert var. Afstaða Sósfl. var slík, að samvinna við hann var hvorki talin æskileg né möguleg. Mér er ekki kunnugt um, að á því hafi síðan orðið breytingar. Mér væri kært, ef hæstv. fjmrh. vildi upplýsa, áður en þessari umr. lýkur, hvort svo er.

Verði ekki breytingar á þingmeirihluta á þessu þingi, fæ ég ekki annað séð en að aðeins eitt sé fram undan. Stefnunni virðist ekki verða breytt með óbreyttri ríkisstj., þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið og veldur því, hvernig nú er ástatt, og beint leiðir til ófarnaðar. Verði ekki breytt til nú á þessu þingi, sé ég ekki, að önnur leið sé til en sú að leggja málið fyrir dóm kjósenda í landinu. Þeir hafa nú búið þrjú ár við hæstv. núverandi stjórn, fimm ár full við samstjórn íhaldsins og Framsfl. Ég held það sé kominn tími til þess, áður en lengra er haldið og meira sígur á ógæfuhliðina, að láta kjósendur landsins leggja sinn dóm á gerðir og stefnu hæstv. ríkisstjórnar.