17.10.1955
Sameinað þing: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

1. mál, fjárlög 1956

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þess er væntanlega mjög langt að bíða, að við Íslendingar getum komizt í tölu stórvelda hvað höfðatölu snertir. En þegar litið er á eyðslu einstaklinganna, þá erum við fyllilega orðnir jafnokar flestra, ef ekki allra þjóða, og útgjöld þjóðarbúsins vaxa svo stórkostlega ár frá ári, að með sama áframhaldi verður þess ekki langt að bíða, að niðurstöðutölur fjárlaga verði ekki aðeins taldar í milljónum, heldur nái þau milljarðamarkinu.

Það er ekki nema eðlilegt í vaxandi þjóðfélagi, að bæði tekjur og útgjöld ríkissjóðs vaxi nokkuð ár frá ári. Getur verið nokkuð erfitt að ákveða, hver sé eðlilegur hraði í þeim efnum, enda kemur þar margt til greina. Þessa markalínu verða menn þó jafnan að reyna að finna við samningu fjárlaga, því að sé farið langt yfir hana, geta slík víxlspor haft alvarleg áhrif á efnahags- og fjármálaþróunina í landinu.

Það er svo með fjárlög eins og aðrar skýrslur með löngum talnadálkum, að þau virðast ekki vera sérlega aðgengileg né skemmtileg aflestrar. Engu að síður eru þó fjárlögin mjög girnileg til fróðleiks, ef þau eru skoðuð niður í kjölinn. Fjárlög eru ekki aðeins tölulegar upplýsingar um tekjur og gjöld ríkissjóðs, heldur eru þau einnig merkilegur leiðarvísir um ástand og horfur í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Og fjárlögin eru raunar einnig máttugt tæki til þess að hafa áhrif á þróun þessara mála. Fjárlögin varða þannig beint og óbeint hvern einasta þjóðfélagsborgara, og því er nauðsynlegt, að fólk reyni eftir beztu getu að gera sér grein fyrir, hversu horfir í þessum mikilvægu málum.

Ég sé ekki ástæðu til að gera í einstökum atriðum að umtalsefni hvorki afkomu ríkissjóðs árið 1954 né heldur fjárlög ársins 1956, því að þær tölulegu upplýsingar um þetta efni hefur hæstv. fjármálaráðh. gefið í framsöguræðu sinni, og er ekki ástæða til að endurtaka hér orð hans.

Ég mun því fyrst og fremst verja tíma mínum til þess að ræða í stórum dráttum viðhorfið í efnahagsmálum þjóðarinnar og ræða einnig nokkuð þróun þá, sem verið hefur og er í fjármálalífi þjóðarinnar. Verður þó auðvitað ekki hægt að drepa á nema fá atriði og alls ekki gera þessum vandamálum nein viðhlítandi skil, enda ekki tímabært að gera nú á þessu stigi málsins neinar ákveðnar till. um lausn þess mikla vanda í efnahagsmálunum, sem nú er við að stríða, því að þau mál eru enn á umræðustigi og í athugun hjá hæstv. ríkisstj.

Í öllum umr. um fjárlög og afkomu ríkissjóðs er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd, að hallalaus ríkisbúskapur er óhjákvæmilegt skilyrði þess, að um heilbrigða þróun geti verið að ræða í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þetta atriði höfum við sjálfstæðismenn ætíð lagt ríka áherzlu á, og hefði farið betur, ef varnaðarorðum þeirra sjálfstæðismanna, sem á sínum tíma fóru með fjármálastjórnina, hefði verið hlýtt. En því miður nutu þeir ekki þess stuðnings samstarfsflokkanna í þessu efni sem nauðsynlegur var, ef hafa átti föst tök á fjármálastjórninni og afgreiðslu fjárlaga í þingi.

Þegar minnihlutastjórn Sjálfstfl. lagði fram till. sínar um viðreisn efnahagskerfisins árið 1950, var hallalaus ríkisbúskapur talinn ein mikilvægasta forsenda þess, að þær till. gætu orðið að gagni. Tókst þá samvinna við Framsfl. um framkvæmd þessarar fjármálastefnu, sem leitt hefur af sér mjög góða afkomu ríkissjóðs alla tíð síðan, þannig að sum árin hefur greiðsluafgangur ríkissjóðs numið tugmilljónum króna. Hefur þó á þessum árum reynzt auðið að framkvæma allverulegar skattalækkanir. Þessi góða afkoma ríkissjóðs er því fyrst og fremst að þakka stefnubreytingunni 1950, sem fjármálaráðherrar Sjálfstfl. höfðu árum saman lagt áherzlu á að nauðsynleg væri, en ekki tókst fyrr að ná samkomulagi um. Einnig er hin góða afkoma ríkissjóðs því að þakka, að stjórnarflokkarnir hafa staðið fast saman um það að leggja ekki þyngri byrðar á ríkissjóð en hann fékk undir risið. Tel ég vafasamt, að nokkur fjármálaráðherra í samsteypustjórn hér á landi hafi átt svo eindreginn stuðning samstarfsflokks síns um skynsamlega afgreiðslu fjárlaga.

Því er ekki að leyna, að þeirrar skoðunar gætir nokkuð hjá almenningi, að forráðamenn þjóðarinnar hafi á undanförnum árum að óþörfu málað skrattann á vegginn, þegar þeir lýstu ugg sínum vegna þróunarinnar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Má víða heyra þær raddir, að þótt talið hafi verið, að vaxandi dýrtíð og hækkun kaupgjalds og verðlags mundu lama atvinnuvegi þjóðarinnar og stórvaxandi fjárkröfur á hendur ríkissjóði stefna afkomu hans í bráða hættu, þá hafi allt gengið vel til þessa og þá ekki ástæða til annars en ætla, að svo verði einnig í framtíðinni.

Vissulega er það rétt, að tekizt hefur að bjarga atvinnuvegum þjóðarinnar og framleiðslunni frá stöðvun og koma þannig í veg fyrir skort og hörmungar í landinu. En það er sannarlega ekki stjórnarandstæðingum að þakka, heldur þrátt fyrir þeirra aðgerðir. Er vissulega fróðlegt fyrir þjóðina að hlýða á ræður hv. stjórnarandstæðinga hér í dag, sem allar ganga í þá átt að hneykslast á ráðstöfunum ríkisstj. til þess að koma í veg fyrir stöðvun atvinnuveganna vegna erfiðleika, sem kommúnistar og fylgifiskar þeirra hafa átt drjúgan þátt í að skapa.

Sama er að segja um afkomu ríkissjóðs. Enda þótt útgjöld hafi stórhækkað ár frá ári, þá hafa tekjurnar hækkað enn meira, en hinu er ekki að leyna, að hefðu þá stjórnarandstæðingar mátt ráða, hefði verið mikill greiðsluhalli hjá ríkissjóði á undanförnum árum. Þetta eru staðreyndir, sem nauðsynlegt er að þjóðin hafi í huga.

Um afkomu ríkissjóðs yfirstandandi ár er ekki auðvelt að segja enn sem komið er, þótt margt bendi til þess, að niðurstaðan verði mun hagstæðari en menn þorðu að vona við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Það liggur hins vegar endanlega fyrir nú, að 1954 hafa bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs farið mjög mikið fram úr áætlun. Hafa tekjurnar þannig orðið nær 108 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, umframgreiðslur á rekstrarreikningi orðið rúmar 47 millj. kr. og eignahreyfingar rúmar 44 millj. kr., þannig að útgjöld ríkissjóðs umfram fjárlagaáætlun hafa orðið rúmlega 91 millj. kr.

Fundið hefur verið að tvennu í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og fjármálastjórnina sjálfa: Annars vegar, að reynslan hefði sýnt, að hvorki fjmrh. né fjvn. væru nógu nákvæm í áætlunum sínum, þannig að fjárlögin væru of fjarri því að gefa rétta mynd af raunverulegri afkomu ríkissjóðs næsta fjárhagsár, og hins vegar því, að hin gætilega tekjuáætlun gæfi fjmrh. allt of frjálsar hendur um umframgreiðslur, þannig að fjárveitingavaldið væri að nokkru leyti tekið úr höndum Alþingis.

Um fyrra atriðið er það að segja, að á verðbólgutímum er mjög erfitt að gera sér nákvæma grein fyrir tekjuhorfum. Eru þau ein úrræði fyrir hendi að miða við síðasta fjárhagsár og reyna jafnframt að gera sér grein fyrir því, hvort horfur séu á auknum innflutningi eða vaxandi tekjum almennings í landinu á næsta ári. Hefur fjvn. hagað tekjuáætlun sinni jafnan í samræmi við þetta, þótt ekki hafi verið talið verjandi að ganga þar á fremstu nöf vegna óhjákvæmilegra umframgreiðslna, sem jafnan hljóta að verða. Auðvitað hefði mátt hafa tekjuáætlunina nokkru hærri og láta fjárlögin þannig sýna meiri greiðsluafgang, en því miður hefur reynslan sannað það, að illgerlegt er að halda í þann greiðsluafgang, ef hann er tekinn í fjárlagaáætlunina. Hygg ég, að fjvn. verði naumast sökuð með réttu fyrir sín vinnubrögð í þessu efni, þótt reynsla síðustu ára hafi leitt í ljós, að tekjurnar hafa orðið drýgri en með nokkurri skynsemi var hægt að hugsa sér, þegar fjárlögin voru afgreidd.

Hitt atriðið eru umframgreiðslurnar, sem snerta framkvæmd fjárlaga í höndum fjmrh. Allir, sem til þekkja, vita það gerla, að á hverju ári koma ýmis þau atvik fyrir, sem gera umframgreiðslur úr ríkissjóði óhjákvæmilegar, enda sýnir yfirlit, sem gert hefur verið allt til ársins 1924, að umframgreiðslur hafa jafnan verið miklar á ári hverju. Hafa umframgreiðslurnar á rekstrarreikningi orðið minnstar árið 1950, 1.16%, en mestar árið 1942, eða 216.49%. Verða fjármálaráðherrarnir oft ekki fremur öðrum sakaðir um þessar umframgreiðslur, en auðvitað er það höfuðnauðsyn og brýn skylda fjmrh. að gæta þess jafnan, að umframgreiðslur verði sem allra minnstar, því að hér er vitanlega verið að taka fjárveitingavaldið úr höndum Alþ. Og þegar umframgreiðslur eru orðnar föst venja, þá er hætt við því, að aðhaldið verði minna og fjmrh. freistist til, þegar afkoma ríkissjóðs er góð, að slaka hér á taumunum meira en góðu hófi gegnir. Er mjög mikilvægt, að endurskoðendur ríkisreikninganna rannsaki sem rækilegast nauðsynina fyrir umframgreiðslum og fjvn. einnig eftir föngum, en því miður er henni fenginn allt of skammur tími til starfa, til þess að hún geti kannað þessi mál eins og æskilegt væri.

Stjórnarandstæðingar hafa stundum fært ríkisstj. það til ámælis, að allmikill greiðsluafgangur hefur orðið hjá ríkissjóði undanfarin ár. Öllum þessum greiðsluafgangi hefur verið ráðstafað til mjög mikilvægra þarfa í þágu þjóðarheildarinnar, þarfa, sem ella hefði ekki verið hægt að sinna. Það hefur ekki heldur á það skort, að stjórnarandstæðingar vildu vera með í því að ráðstafa þessu fé. Stjórnarflokkarnir verða áreiðanlega ekki með réttu ásakaðir fyrir það, þótt þeir hafi verið gætnir við afgreiðslu fjárlaga, en hitt verða þeir ef til vill með meira rétti ásakaðir fyrir, að hafa ekki lagt allan þennan greiðsluafgang í sjóð, sem hægt væri að nota, ef harðnaði í ári. Slíkt eru raunar sjálfsögð búhyggindi, að spara í góðu árunum, en þarfirnar hafa verið svo margvíslegar og brýnar, að löngunin til að uppfylla þær hefur orðið gætninni að þessu leyti yfirsterkari. Geri ég naumast ráð fyrir því, að ríkisstj. og þingflokkar hennar muni fá þungan dóm hjá þjóðinni fyrir þá afstöðu.

Árið 1953 hækkuðu fjárlögin um 41 millj. kr., miðað við næsta ár á undan. Árið 1954 nam hækkunin 23 millj. og 1955 69 millj. Sýnilegt er, að nú verður hækkunin langmest, væntanlega töluvert á annað hundrað millj. króna. Er þegar vitað um hækkanir, sem nema munu um 96 millj. kr., og ef að vanda lætur, má gera ráð fyrir nokkrum milljónatugum til viðbótar. Fjárlögin bera þess því glöggt vitni, að nýtt verðbólguflóð hefur skollið yfir þjóðina. Hefur þessi þróun málanna vakið ugg og kvíða með þjóðinni og ekki að ástæðulausu, því að ekki mun auðvelt að finna nýja fótfestu til þess að spyrna gegn straumnum.

Vegna hinnar breyttu fjármálastefnu hafði tekizt að koma því jafnvægi á í efnahagsmálum þjóðarinnar, að dýrtíðarskrúfan hafði stöðvazt, kaupgjald og verðlag verið nokkurn veginn stöðugt á þriðja ár, eða allt þar til í ár, að verkföllin skullu á. Þessi stöðvun var farin að hafa augljós heillavænleg áhrif á efnahagsþróunina í landinu. Fólk var á ný farið að öðlast trú á gildi peninganna, og sparifjársöfnun óx stöðugt, en einmitt sparifjársöfnunin er einn af traustustu hyrningarsteinum efnahagskerfisins. Afkoma útflutningsframleiðslunnar var að vísu erfið, en stöðvun verðbólgunnar var þó fyrsta skrefið til þess, að auðið væri að rétta hennar hag. Fjárhagsafkoma ríkissjóðs var góð, og reynzt hafði auðið að draga allverulega úr skattaálögum. Í meginatriðum má því segja, að ástæða hafi verið til bjartsýni.

Því miður hafa á þessu ári gerzt atburðir, sem þegar hafa haft mjög óheillavænleg áhrif, og eru þó enn eigi öll kurl til grafar komin. Það er naumast vafi á því, að verðbólga og rýrnandi verðgildi peninga kemur þyngst niður á alþýðu manna, enda hafa verkalýðssamtök í flestum löndum verið fremst í fylkingu í baráttunni gegn vaxandi dýrtíð.

Hér á Íslandi hefur reyndin því miður verið allt önnur, enda hefur áhrifamesti flokkurinn í verkalýðssamtökum hér á landi fyrst og fremst lagt áherzlu á það að beita þessum áhrifamiklu samtökum fyrir pólitískan stríðsvagn sinn án hliðsjónar af hagsmunum verkamanna sjálfra. Hefur því verkalýðsbaráttan oftast verið háð sem einhliða kauphækkunarbarátta, án þess að reynt væri að gera sér grein fyrir, hverjar raunverulegar kjarabætur fylgdu kauphækkunum. Horfið var þó að heilbrigðari stefnu í kjarabaráttunni árið 1952, þegar samið var um lausn verkfalls með verðlækkunum. En með valdatöku kommúnista í Alþýðusambandinu var horfið frá þessari stefnu, þótt hag verkalýðsins væri með því teflt í mikla hættu.

Verðmæti framleiðslunnar ákveður kjör þjóðarinnar. Undirstaða bættra lífskjara er því annaðhvort aukin framleiðsla eða hækkað verð á framleiðsluvörum. Enginn dregur í efa, að æskilegt hafi verið að bæta launakjör almennra verkamanna. En því miður var hagur framleiðslunnar þannig, að ekki var um neinn arð að ræða, er nota mætti til greiðslu aukinna vinnulauna. Það var því ljóst, að kauphækkanir hlutu að torvelda enn mjög afkomu útflutningsframleiðslunnar, og var þó ekki á erfiðleika hennar bætandi, og enn fremur að hækka verð og þjónustu á innlendum markaði. Þar sem það var því a. m. k. fullkomið vafamál, hvort kauphækkanir hefðu ekki meira illt en gott í för með sér fyrir verkalýðinn og þjóðina í heild, var það tvímælalaus skylda verkalýðsforingjanna að kanna þetta atriði til hlítar, en svo sem kunnugt er var tilboðum ríkisstj. um það efni algerlega hafnað og kröfunum haldið til streitu. Var ráðizt með fúkyrðum að ríkisstj. fyrir aðvörunarorð hennar, en mér er nær að halda, að í dag óski flestir verkamenn eftir því, að meir hefði verið hlustað á þau aðvörunarorð og gætilegar í sakirnar farið.

Meginhluti hinna miklu hækkana á fjárlögum næsta árs stafar beint eða óbeint af launahækkunum, og hefði það áreiðanlega verið raunverulegri kjarabót, ef auðið hefði verið að nota það fé til þess að lækka álögur á almenningi. Kauphækkanirnar hafa nú þegar leitt af sér stórfellda hækkun á öllum landbúnaðarvörum. Kauphækkanirnar munu torvelda mjög hinar miklu framkvæmdir í húsnæðismálum og framkvæmd á raforkuáætlun ríkisstjórnarinnar, og þær munu enn fremur gera enn minni hlut verklegra framkvæmda í ríkisútgjöldum, og þó er það ef til vill verst af öllu, að þessi nýja verðbólguskriða hefur dregið stórkostlega úr söfnun sparifjár og skapað óeðlilega eftirspurn eftir vörum. Leiðir þetta af sér óeðlilega eyðslu, óheppilega fjárfestingu og ýmiss konar brask og torveldar jafnframt eðlilega starfsemi lánsstofnana þjóðarinnar.

Myndin, sem við oss blasir í dag, er því allt annað en glæsileg. Að vísu er atvinnuástandið í landinu mjög gott vegna mjög mikilla framkvæmda á ýmsum sviðum og afkoma almennings góð. Hins vegar hefur hvað eftir annað legið við, að lífsnauðsynleg útflutningsframleiðsla stöðvaðist, og hefur þurft í æ ríkari mæli að grípa til opinberrar aðstoðar í því sambandi. Hlýtur að síga æ meir á ógæfuhliðina í þessum efnum, enda mun fremur vera um lækkun en hækkun að ræða á framleiðsluvörum þjóðarinnar á erlendum markaði. Og það er tilgangslítið að segja öðrum þjóðum, að við verðum að fá hærra verð fyrir framleiðsluvörur okkar vegna hins háa kaupgjalds í landinu, ef aðrir seljendur bjóða vöruna við lægra verði.

Hv. 11. landsk. taldi það bót allra meina, ef Hannibal Valdimarsson og kommúnistar í alþýðusambandsstjórn tækju forustu um stjórn þjóðmálanna. Slíkt er fásinna. Lögmálum fjármála og viðskipta verður ekki haggað, hver sem með völdin fer.

Það er skylda sérhverrar ríkisstjórnar að miða stjórnarstefnu sína við það að tryggja öllum almenningi í landinu sem bezta lífsafkomu, og það er eigi síður skylda einstakra stéttasamtaka að styðja ríkisstj. í þeirri viðleitni. Afkoma ríkissjóðs er einnig nátengd hag framleiðslunnar. Það ber því allt að sama brunni, hvernig sem á málið er litið, að það er fyrst og fremst öflun framleiðsluverðmæta, sem þjóðin verður að einbeita sér að. Það er því ekki aðeins hagsmunaatriði fyrir vinnuveitandann, hvort framleiðslan gengur vel eða illa, og það er því kynleg leið til kjarabóta, þegar í verkföllum er reynt á stundum með öllum ráðum að lama framleiðsluna sem mest og stefna jafnvel í bráðan voða tugmilljónaverðmætum. Það var mikil ógæfa fyrir þjóðina, að ekki var fylgt varnaðarorðum þeim, sem forsrh. mælti í áramótaboðskap sínum við síðustu áramót, þar sem hann skoraði á þjóðina að slá skjaldborg um krónuna og varast allar aðgerðir, er leitt gætu af sér nýja verðbólguskriðu. Vegna vísitölukerfisins og bágborins hags framleiðslunnar hlutu kauphækkanir að leiða af sér nýja dýrtíðaröldu. Það var því hin brýnasta nauðsyn, eigi sízt fyrir verkalýðinn sjálfan, að rækilega væri kannað, hvaða leiðir væru líklegastar til raunverulegra kjarabóta. Hefur líka fljótt komið í ljós, að kauphækkanirnar í vor hafa ekki leitt til neinna kjarabóta, heldur leitt af sér vandræðaástand, sem ógnar hag allrar þjóðarinnar. Eina raunverulega kjarabótin var atvinnuleysistryggingarnar, sem vissulega eru mjög mikils virði fyrir verkalýðinn, en hefði verið hægt að fá án verkfalls.

Nú segja ýmsir: Ekki geta það eingöngu verið kauphækkanirnar, sem hleypt hafa af stað hinni nýju dýrtíðaröldu, því að verðhækkanir hafa á ýmsum sviðum orðið meiri en sem svarar kauphækkununum einum. — Um þetta atriði er erfitt að fullyrða. Landbúnaðarvörur hafa hækkað lögum samkvæmt, og taldi fulltrúi neytenda í verðlagsnefndinni þá hækkun eðlilega. Flestar aðrar vörur og þjónusta hafa hækkað, og getur vel verið, að eitthvað hafi það hækkað meira en góðu hófi gegndi, eins og oft vill verða, þegar dýrtíðarþróun er. Er að sjálfsögðu mjög mikilvægt, að stjórnarvöldin fylgist með öllum verðhækkunum.

Annars er hægt að fá glöggan og hlutlausan dóm um orsakir og afleiðingar ríkjandi ástands í Fjármálatíðindum Landsbankans, en þar ritar hagfræðingur bankans, dr. Jóhannes Nordal, grein í síðasta hefti, þar sem hann m. a. kemst svo að orði:

„Horfurnar í efnahagsmálum Íslendinga hafa stórversnað á undanförnum mánuðum. Síðan verkfallinu lauk í vor, hefur verðhækkunaraldan breiðzt óðfluga um hagkerfið, valdið hækkandi framleiðslukostnaði til lands og sjávar og versnandi afkomu útflutningsatvinnuveganna. Verðbólguhugsunarhátturinn er nú aftur að ná heljartökum á hugum manna, og hin sívaxandi þensla í efnahagslífinu hefur orðið til þess, að gjaldeyrisaðstaðan hefur versnað stórkostlega, það sem af er þessu ári.

Haldi þessi þróun áfram óhindrað, verður á skammri stund rifið niður allt, sem áunnizt hefur á undanförnum árum í þá átt að endurreisa trú manna á verðgildi peninganna og koma á frjálsara atvinnulífi. Nú er því þörf róttækra ráðstafana, ekki til þess eins að tryggja afkomu eins eða tveggja atvinnuvega um nokkurra mánaða skeið, heldur til þess að stöðva dýrtíðarflóðið og koma í veg fyrir áframhaldandi rýrnun á verðgildi peninganna.“

Er í þessari umsögn staðfest tvennt: annars vegar, að rétt hafi verið stefnt síðustu árin, og hins vegar, að verðhækkunaraldan hafi verið afleiðing verkfallsins í vor. Er síðar í greininni vikið að ýmsum leiðum til úrbóta, og skal hér aðeins minnzt á eina, en það er takmörkun fjárfestingarinnar.

Þegar um fjárfestingu er rætt, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að samdráttur í fjárfestingu þýðir minni framkvæmdir. Þarfirnar fyrir margvíslegar framkvæmdir í landi voru eru mjög miklar og knýjandi, og vel má vera, að of djarft hafi verið teflt í þessum efnum, einkum í sambandi við húsnæðismálin, en þar var einmitt nauðsynin sérstaklega brýn. Það er mikilvægt, að fjárfesting sé jafnan svo mikil, að auðið sé að veita öllum vinnufærum mönnum atvinnu. En fjárfestingin getur reynzt hættuleg, þegar eftirspurnin eftir vinnuaflinu verður of mikil, og getur þá fjárfestingin á vissum sviðum leitt af sér yfirboð á vinnumarkaðinum, sem skapar verðbólgu og erfiðleika fyrir ýmsar atvinnugreinar í landinn.

Fullkomnar skýrslur liggja ekki fyrir um fjárfestinguna nú, en án efa er hún of mikil, enda gerði ríkisstjórnin á þessu sumri ráðstafanir til þess að draga mjög úr opinberum byggingarframkvæmdum og veita ekki leyfi til nýbygginga, sem enn eru háð fjárfestingareftirliti. Fjárfestingin er atriði, sem auðið á að vera að ráða við, og verður í því sambandi að hafa tvö sjónarmið í huga: í fyrsta lagi, að fjárfestingarframkvæmdir séu eigi svo miklar, að vinnuafl sé dregið frá framleiðsluatvinnuvegunum, og í öðru lagi, að fjárfestingunni sé hagað þannig, að hún leiði til atvinnujöfnunar í landinu.

Þótt atvinnuárferði muni nú yfirleitt vera gott um allt land, þá er því ekki að leyna, að þenslan er langmest nú sem áður hér á suðvesturhluta landsins og því enn fyrir hendi sú hætta, að fólk leiti hingað meira en heppilegt er frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það er því mikilvægt, að fjármagni til opinberra framkvæmda sé fyrst og fremst beint til þeirra staða, þar sem a. m. k. er um tímabundið atvinnuleysi að ræða, og leyfum til fjárfestingar úthlutað einnig eftir þessu sama sjónarmiði. Er það vissulega alvörumál, að hlutur verklegra framkvæmda, þ. á m. brúa, hafna og vegagerða, skuli nú minnka verulega í ríkisútgjöldunum, því að hér er um hinar brýnustu framkvæmdir að ræða til tryggingar jafnvægi í byggð landsins, og má einna sízt draga úr þeirri fjárfestingu. Fjárfesting í þágu framleiðslunnar verður tvímælalaust að sitja í fyrirrúmi, enda getur ekki verið hættulegt fyrir efnahagskerfið að leyfa fjárfestingarframkvæmdir, sem stuðla að aukningu framleiðsluverðmæta.

Það eru, svo sem áður var sagt, miklir erfiðleikar í efnahagsmálum, sem blasa við augum, þegar Alþ. kemur saman í þetta sinn, og veltur á miklu, að nú sé með ábyrgðartilfinningu og festu á málum tekið. Vafalaust eru enn til ýmsir, sem hugsa sem svo: Þetta hefur allt gengið vel þrátt fyrir hrakspár undanfarin ár, og hví skyldi það ekki enn vera allt í lagi?

Auðvitað er enn mögulegt að halda áfram að afskrifa krónuna, framfleyta öllum atvinnurekstri í landinu með styrkjum, sem teknir eru svo aftur frá þjóðinni í sköttum, en reynsla allra þjóða sannar, að slíkri efnahagsþróun hlýtur á endanum að lykta með skelfingu.

Þegar litið er á orsakir þeirra vandræða, sem nú er við að stríða, þá þarf sannarlega mikið blygðunarleysi til þess að halda því fram, að allt þetta stafi af svokallaðri dýrtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar, eins og stjórnarandstæðingar hafa leyft sér að staðhæfa utan þings og innan. Það er álíka líkt sannleikanum og ef maður, sem slær stoðirnar undan húsi, svo að það hrynur, ber síðan þær sakir á þann, sem setti stoðirnar undir húsið, að hrun hússins sé honum að kenna. Af mikilli skammsýni hafa nú þær jafnvægisstoðir verið slegnar undan efnahagskerfi þjóðarinnar, sem smám saman hefur verið skotið þar undir með góðum árangri á undanförnum árum, og nú neita hinir seku algerlega að horfast í augu við afleiðingar sinna óhappaverka. En það þýðir ekki um að sakast, heldur að reyna að mynda nýja varnarlínu til þess að koma í veg fyrir fjármálalegt öngþveiti í landinu. Þjóðin hefur nú ekki þörf fyrir pólitíska ævintýraleiki, heldur samstillt átök allra þjóðhollra afla til þess að reyna að firra vandræðum, sem gætu leitt hinar mestu hörmungar yfir þjóðina.

Vegna umbótastefnu þeirrar í atvinnumálum, sem fylgt hefur verið síðasta áratug og mörkuð var árið 1944 af nýsköpunarstjórn Ólafs Thors, er þjóðin nú að framleiðslutækjum mjög vel undir lífsbaráttuna búin, og það er eingöngu sjálfskaparvíti, ef þjóðin getur ekki nú búið við góð kjör. En þeirri staðreynd megum við aldrei gleyma, að það er framleiðslan, sem ákvarðar lífskjörin, og undir henni er hagur allra stétta þjóðfélagsins kominn. Hver sem heggur á þessa lífæð er því að vinna gegn hagsmunum þjóðar sinnar.

Það er ekki hægt að segja um það nú í dag, hvaða leiðir séu líklegastar til þess að stemma stigu við hinni nýju verðbólguöldu, en afkoma ríkissjóðs og alls almennings í landinu er undir því komin, að það takist. Það verður að vera hægt að koma á þeirri skipan, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar geti borið sig styrkjalaust í meðalárferði, þannig að fýsilegt verði fyrir dugandi menn að leggja út í framleiðslustarfsemi. Það verður að glæða að nýju trú manna á gildi gjaldmiðilsins og viljann til sparnaðar.

Allar vestrænar ríkisstjórnir, einnig stjórnir jafnaðarmanna, hafa misst trúna á höft og bönn í viðskiptalífinu, og það væri vissulega mikil ógæfa, ef þyrfti að hverfa frá þeirri stefnu frjálsræðis, sem fylgt hefur verið hér á undanförnum árum og glætt mjög framtak og athafnaþrá þjóðarinnar. Það væri einnig mikil þjóðarógæfa, ef torvelduð væri af nýju dýrtíðarflóði rafvæðing landsins, hinar miklu ræktunarframkvæmdir og húsagerðir við sjó og í sveit, sem unnið er nú að og reynt hefur verið að tryggja lánsfé til af opinberri hálfu. Efling sjávarútvegsins verður að halda áfram, en þar er sannarlega ekki glæsilegt um að litast, þegar hver togari þarf nokkur þús. króna rekstrarstyrk á dag, og frystihúsin, sem lengi hafa verið talin miklar gróðalindir, berjast nú í bökkum. Það eru því sannarlega engar hrakspár, þótt sagt sé, að nú sé kominn tími til, að menn staldri við og athugi sinn gang.

Sjálfstfl. er nú sem fyrr reiðubúinn til þess að leggja fram sína krafta til lausnar á vandamálunum og vonar, að þjóðin beri gæfu til þess að láta ekki niðurrifs- og óheillaöfl villa sér sýn. Enn er tími til að forðast öngþveiti og atvinnuleysi, en þá verðum við öll að þora að horfast í augu við staðreyndirnar og setja þjóðarhagsmuni ofar flokkshagsmununum. Sjúklingi getur liðið vel í bili með því að taka sterk deyfilyf, en þau eru engin lækning. En sársaukafull skurðaðgerð getur gefið endanlegan og góðan bata. Hið sama gildir í efnahagsmálunum. Þar hættir oss til að vilja í lengstu lög forðast skurðaðgerðirnar, en nota heldur deyfilyfin, því að þau eru oft í bili vinsælli. En þau geta aldrei læknað sjúkdóminn. Forustumenn þjóðarinnar verða að hafa þor og samtakamátt til þess að framkvæma skurðaðgerðir, ef með þarf, þótt sársaukafullar kunni að vera í bili, og þjóðin verður að skilja nauðsyn þessara aðgerða. Og við verðum einnig öll að skilja nauðsyn þess að lifa heilbrigðu lífi, til þess að sjúkdómurinn taki sig ekki upp aftur. Það hefur þjóðin gert á undanförnum árum, þar til farið var út af sporinu á þessu ári, en með þreki og manndómi á að vera hægt að komast inn á rétta leið að nýju. Um það verða öll þjóðholl öfl að sameinast.