12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

1. mál, fjárlög 1956

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér skildist hér á hæstv. forseta áðan, að hann væri að mælast til þess, að ég talaði hér fyrir þeim brtt., sem við þm. Þjóðvfl. höfum lagt fram á þskj. 185 við fjárlagafrv., enda þótt svo fámennt væri nú á fundi, að ekki væri hægt að leita afbrigða með venjulegum hætti, og ég mun því verða við þessum vinsamlegu tilmælum hæstv. forseta.

Ég vil byrja mál mitt á því að mótmæla þeirri aðferð, sem hér er höfð við þessa umr. Í fyrsta lagi finnst mér ástæða til að mótmæla því, hve naumur tími er gefinn þeim, sem ekki eiga aðgang að fjvn. og ekki sæti þar, til þess að undirbúa till. og leggja þær fram. Þessi tími hefur nú reynzt svo naumur, að það eru ekki einu sinni tök á því að fá till. prentaðar og leita afbrigða með eðlilegum hætti, þannig að þær geti komið til umr. eins og þingsköp gera ráð fyrir.

Í öðru lagi hefur þm. ekki að þessu sinni gefizt nægilegt tóm til þess að athuga þær brtt., sem koma frá hv. fjvn. sjálfri, bæði meiri hl. og minni hl. Þaðan kemur fjöldi brtt., sem meginþorri þingheims hefur enga aðstöðu né tækifæri til þess að gera sér grein fyrir, til að gera upp við sig, hvort þær séu rökstuddar og þá á hvern hátt eða hvort þær séu algerlega órökstuddar. En hæstv. ríkisstj. tekur ekkert tillit til þessa. Hana varðar ekkert um það, hvort hægt er að gera skynsamlega grein fyrir þessum málum, þó að þetta sé aðalmál þingsins, sjálft fjárlagafrv., aðeins ef því er er hespað af eftir hennar eigin geðþótta og þegar henni sjálfri sýnist. Hún tekur ekkert tillit til þess, hvort það er eðlilegt eða ekki, að þm. stjórnarflokkanna sé bókstaflega ætlað að samþ. það, sem meiri hl. fjvn., þ. e. a. s. þm. stjórnarflokkanna í fjvn., hefur borið hér fram, án þess að þeim gefist nokkur kostur á að kynna sér málið og mynda sér sjálfir skoðun á því. Þessu vil ég algerlega mótmæla.

Enn vil ég svo mótmæla því, að fjárlagafrv. sé tekið hér til 2. umr. og atkvgr., af þeim sökum, að einn af megintekjuliðum þessa fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, á enga stoð í lögum enn þá fyrir árið 1956, þ. e. a. s. söluskatturinn. Um hann hefur aðeins verið borið fram frv. hér á þingi, var lagt fram í upphafi þings, og þessu frv. hefur verið vísað til 2. umr. og n. Það hafa verið bornar fram við það brtt., en síðan hefur ekkert af þessu frv. heyrzt. Ef á að fara að samþ. þennan tekjulið hér við 2. umr., án þess að hann eigi nokkra stoð í lögum og ekkert sé raunverulega vitað eða hægt að vita um það, hvernig honum reiðir af hér í þinginu, þá vil ég algerlega mótmæla þeirri málsmeðferð.

Að svo mæltu mun ég gera nokkra grein fyrir þeim brtt., sem við þm. Þjóðvfl. flytjum hér á þskj. 185.

Ég vil þá byrja með að minna á þá staðreynd, að allmörg undanfarin ár hafa tekjuáætlanir á fjárl. reynzt mjög verulega rangar. Þessar tekjuáætlanir hafa reynzt þannig á árunum 1951–54 sem ég skal nú greina frá:

Árið 1951 voru tekjur ríkissjóðs á fjárl. áætlaðar 297 millj., en urðu samkvæmt ríkisreikningi þess árs 413 millj., eða umframtekjur 116 millj. kr.

Árið 1952 voru tekjurnar áætlaðar 376 millj. kr., en urðu samkvæmt ríkisreikningi 420 millj. kr., eða fóru 44 millj. kr. fram úr áætlun.

Árið 1953 voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar á fjárl. 418 millj., en urðu 510 millj., eða fóru 92 millj. kr. fram úr áætlun.

Árið 1954 voru tekjurnar á fjárl. áætlaðar 443 millj. kr., urðu 551 millj. kr., eða fóru 108 millj. kr. fram úr áætlun.

Á þessum fjórum árum fóru ríkistekjurnar því samtals fram úr áætlun um 360 millj. kr.

Af því, sem ráðið verður af fjárhagsafkomunni 1954 og því bráðabirgðayfirliti, sem nú liggur fyrir um ríkistekjurnar til októberloka 1955, má gera ráð fyrir, að ríkistekjurnar fari fram úr áætlun á árinn 1955 um allt að 140 millj. kr. Á fimm árum færu því ríkistekjurnar fram úr áætlun um 500 millj. kr. samtals. Þessari gífurlegu upphæð hafa ríkisstj. þessara ára að verulegu leyti ráðstafað heimildarlaust og þannig framið mjög stórfellt lagabrot, vegna þess að fjárl. eru afgr. í lagaformi og ríkisstj. hefur að sjálfsögðu enga heimild til að ráðstafa tekjum ríkisins, almannasjóði, án heimildar frá Alþ. Þetta er komið upp í þann vana hjá hæstv. ríkisstj., að hún er farin að telja þetta sjálfsagðan hlut, og hæstv. fjmrh. gerði ráð fyrir því í ræðu sinni áðan, að þetta væri algerlega óhjákvæmilegt, og áætlaði lauslega, að á næsta ári yrði ríkisstj. að hafa 50–60 millj. kr. óráðstafaðar tekjur af hálfu Alþingis, sem hún gæti ráðstafað að eigin vild í umframgreiðslur og ýmislegt annað.

Þessari aðferð verður að sjálfsögðu aldrei nógsamlega mótmælt. Við þm. Þjóðvfl. höfum á þeim þingum, sem við höfum átt sæti, sífellt reynt að fá tekjuáætlun fjári. færða í rétt horf eða eins rétt horf og tök voru á að gera sér grein fyrir. Þó höfum við alltaf hagað okkar till. á þann veg, að það væri öruggt, að ekki væri um of háar áætlanir að ræða, og tekið það fram við umr. um þessi mál, að okkur væri ljóst, að við hefðum áætlað tekjurnar mjög varlega og gerðum það í því skyni, að það væri ekki hægt að andmæla þeim eða greiða atkv. gegn þeim á þeim forsendum, að þær væru vísvitandi of hátt áætlaðar, enda hefur enginn orðið til þess, að því er ég man, að halda því fram, að okkar áætlanir í þessu efni væru vísvitandi rangar.

Hins vegar hefur, eins og öllum er ljóst, aldrei tekizt að fá þessar till. samþ. Á þinginu 1953 bárum við þm. Þjóðvfl. fram till. um að hækka tekjuáætlun ríkissjóðs um samtals 37 millj. kr. Tekjurnar voru það ár áætlaðar, eins og ég las áðan, 443 millj. Við lögðum til, að þessi áætlun yrði hækkuð um 37 millj. eða í 480 millj., en þetta felldu stjórnarflokkarnir.

Hv. 2. þm. Eyf. (MJ) sagði við umr. um þessar till. okkar þjóðvarnarmanna, „að þær væru vægast sagt mjög hæpnar, og hefðu enda naumast verið fram settar, ef þessir hv. þm. hefðu búizt við, að þær yrðu samþ., eða a. m. k. ef þeir hefðu átt að bera ábyrgð á fjármálastjórninni næsta ár“. Síðan bætti hv. 2. þm. Eyf. við: „Þá eru líkur til, að það hefði nokkuð kveðið við annan tón varðandi þessa áætlun, og það verður auðvitað að meta áætlunina hjá þessum hv. þm. með hliðsjón af því, að hún er fyrst og fremst sett upp til þess að sýnast og til þess að geta með einhverju móti rökstutt stórfelldar útgjaldahækkanir, sem þessir hv. þm. leggja til að samþ. verði í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.“

Þessar voru þá röksemdirnar gegn þessum till. okkar á því þingi. En nú hafa verkin talað í þessu efni. Tekjurnar á árinu 1954 urðu ekki 480 millj., eins og við lögðum til að þær yrðu áætlaðar, heldur 551 millj., þ. e. a. s. 71 millj. kr. hærri en við fórum fram á að áætla þær. Þessar staðreyndir sýna náttúrlega ljóslega, hve hæpinn allur málflutningur stjórnarliðsins um fjárlagafrv. er og um fjárlagaafgreiðsluna hér á Alþ., og hversu fráleitt það er að byggja nokkuð á þeim málflutningi.

Nú gerum við enn þá tilraun til að fá tekjuáætlun fjárl. leiðrétta að nokkru leyti. Okkur er það enn ljóst eins og fyrr, að við förum mjög varlega í sakirnar og spennum bogann ekki of hátt, enda sjáum við ekki ástæðu til að gera það, á meðan verið er að fá fram fyrstu tilraun til leiðréttingar á þessum málum. Hitt er svo annað mál, að ef það hefði tekizt einu sinni að sannfæra þingheim um, að það væri ekki rétt og ekki skynsamlegt að áætla tekjuhlið fjárl. ranga um allt að ¼ hluta árlega, þá væri vitanlega meiri ástæða til þess á eftir að fara nákvæmar í sakirnar og reyna að fá eins rétta áætlun og nokkur tök væru á.

Á þskj. 185 berum við fram nokkrar brtt. um hækkun á tekjuliðum fjárlagafrv. Það er naumast ástæða til að fara að rökstyðja hverja till. fyrir sig. Þessar till. eru allar í fullu samræmi við það, sem reynzt hefur undanfarin ár, og sérstaklega með hliðsjón af tekjum ríkissjóðs til októberloka 1955. Ég vil þó aðeins taka það fram, að á sumum liðum höfum við farið varlegar í sakirnar en ástæða væri til, miðað við ríkistekjurnar 1955. T. d. er sýnilegt, að verðtollur muni verða nokkuð yfir 170 millj. á þessu ári. Við viljum hins vegar taka tillit til þeirrar röksemdafærslu, að það verði minna flutt inn af bílum á næsta ári en verið hefur núna og því sé ástæða til þess að áætla verðtollinn eitthvað lægri nú en verður á þessu ári, og leggjum því til, að hann verði áætlaður 165 millj., en það mun vera allt að 10 millj. lægri upphæð en hann verður í ár.

Sama er að segja um vörumagnstoll, sem er 1. brtt. okkar. Við leggjum til, að hann verði áætlaður á árinu 1956 aðeins 30 millj. Hann er í októberlok orðinn 23.4 millj. kr., og þá eru eftir tveir mestu innflutningsmánuðir ársins. Samkvæmt venju og langri reynslu mun væntanlega enginn mæla því í gegn. Það er því sýnilegt, að hér er mjög hóflega í sakirnar farið.

Innflutningsgjald af benzíni leggjum við til að verði hækkað úr 10 millj., eins og gert er ráð fyrir í fjárl., og í 13 millj. Þetta innflutningsgjald er nú orðið í októberlok nær 11 millj. Vitanlegt er, að vegna hins mikla bílainnflutnings í ár verður benzínþörfin á næsta ári mun meiri en verið hefur þetta ár, og því hlýtur þessi liður að hækka. Sennilegt er, að innflutningsgjald af benzíni verði á næsta ári um 15 millj., en við leggjum hins vegar til, að liðurinn verði áætlaður 13 millj.

Þar að auki leggjum við til, að aukatekjur og stimpilgjald hækki og leyfisgjöld hækki nokkuð, að sumu leyti þó ekki eins mikið og verið hefur á þessu ári, t. d. leyfisgjöldin, sem við leggjum til að verði áætluð 7.5 millj., en þau eru nú orðin í októberlok 10.3 millj. Þetta er aðeins dæmi upp á það, hvað vægt er í sakirnar farið hjá okkur, enda er þetta aðeins tilraun, eins og ég sagði áðan, til þess að fá fyrstu leiðréttingu á tekjuhlið fjárl., sem á undanförnum árum hefur verið þinginu til stórkostlegs vansa, svo að ekki sé meira sagt.

Þá höfum við í 6. brtt. okkar tekið upp áætlun fyrir söluskattinn. Að sjálfsögðu munum við taka þessa brtt. aftur til 3. umr., því að ég álít ekki, að það sé unnt að greiða atkv. um þennan lið í fjárl., fyrr en lögin um dýrtíðarráðstafanir hafa verið samþ. hér á Alþ., en þau eiga nú eftir fimm umræður.

Þessar hækkanir á tekjuhlið fjárl., sem við leggjum til að gerðar verði, nema samtals 47.2 millj. Ríkistekjurnar á árinu 1955 eru orðnar 31. okt. 67 millj. kr. meiri en á sama tíma 1954, en 1954 urðu tekjur ríkissjóðs alls 551 millj. kr., eins og ríkisreikningurinn fyrir það ár ber með sér. Þó að tekjur tveggja síðustu mánaða ársins 1955 yrðu ekkert meiri en tekjur sömu mánaða ársins 1954, yrðu ríkistekjurnar í ár þrátt fyrir það 617 millj. kr. Nú er þó vitað, að ríkistekjurnar munu á tveimur síðustu mánuðum ársins 1955, þ. e. a. s. yfirstandandi árs, verða verulega hærri en tvo síðustu mánuði ársins 1954. Ég vil aðeins benda á örfáa tekjuliði. Af tekjuskatti og tekjuskattsviðauka hafa í októberlok aðeins verið innheimtar 28.7 millj. Þessir skattar voru áætlaðir 62.8 millj. og urðu 1954 69 millj. Þarna mun því óhætt að gera ráð fyrir að séu a. m. k. 40 millj. ókomnar inn á þessu ári. Sama er að segja um tolla. Það munu verða um 50 millj., sem koma inn á tveimur síðustu mánuðunum. Af söluskatti er óinnheimt mikið til fyrir hálft árið 1955, söluskatturinn er, eins og menn vita, innheimtur eftir á ársfjórðungslega, og það er því mikil upphæð þar óinnheimt, sennilega um 40 millj. kr. Tekjur af ríkisstofnunum, þ. e. a. s. aðallega af áfengisverzlun og tóbakseinkasölu, eru sérstaklega miklar síðustu mánuði ársins, og mun ekki of í lagt, að þar séu eftir að koma inn 30–40 millj. Ýmsar tekjur aðrar, ef maður tekur mánaðargreiðslurnar í október og áætlar, að inn komi jafnmikið í hvorum mánuði, nóvember og desember, þá er þar um að ræða um 20 millj., sem munu koma í ríkissjóð á þessu ári. Þarna eru þá óinnheimtar tekjur um 180–190 millj. kr., og yrðu þá ríkistekjurnar alls á árinu 1955 um 640–650 millj. kr.

Með þeirri hækkun, sem við leggjum til að gerð verði á ríkistekjunum, yrði tekjuhlið fjárl. samkv. fjárlagafrv. að viðbættum okkar hækkunum á tekjuáætlunum aðeins 626.7 millj. kr., eða allmiklu lægri en sýnilegt er að ríkistekjurnar verða á árinu 1955.

Þá vil ég einnig geta þess, að við flytjum á þskj. 185 nokkrar till. til sparnaðar. Hins vegar vil ég taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá mörgum ræðumönnum, að verulegar till. í því efni er naumast unnt að gera nema fyrir flokka, sem hafa stjórnartaumana í sínum höndum og eru þessum málum þaulkunnugir, hafa um þessa hluti allar upplýsingar og hafa aðstöðu og möguleika til þess að breyta ýmiss konar löggjöf hér á Alþ., sem þarf að breyta til að framkvæma verulegan sparnað.

Við höfum að þessu sinni aðeins tekið upp örfáar till. í þessu efni. 11., 12. og 13. brtt. okkar fjalla um að fella niður sendiráð í Stokkhólmi, París og Osló og hafa aðeins eitt sendiráð á Norðurlöndum, en leggjum þá jafnframt til, að kostnaður við það sendiráð hækki nokkuð, þ. e. a. s., það verði veitt lítið eitt aukin fjárveiting til sendiráðsins í Kaupmannahöfn, sem yrði náttúrlega óhjákvæmilegt, ef sendiherrann í Kaupmannahöfn ætti að taka að sér það starf, sem sendiherrar í Stokkhólmi og Osló hafa haft með höndum að undanförnu. Mætti gera ráð fyrir, að það þyrfti að bæta við þar 1–2 starfsmönnum. Höfum við gert ráð fyrir því í þessari áætlun.

Þá leggjum við til, að kostnaður við þátttöku í alþjóðaráðstefnum á vegum utanrrn. lækki úr 600 þús. niður í 450 þús. Þykir okkur yfrið nóg fyrir utanrrn. að hafa þessa upphæð til ráðstöfunar, þar sem þar að auki er áætluð á fjárl. um ½ millj. í kostnað við samninganefndir, þ. e. a. s. nefndir, sem við sendum utan til að gera verzlunarsamninga.

Þá leggjum við enn til, að kostnaður við alþjóðaráðstefnur á vegum annarra en utanrrn. lækki úr 300 þús. niður í 250 þús. Þetta er lítilfjörleg till., ég játa það. Hún er aðeins gerð til að sýna fram á, að með góðum vilja mætti spara hvarvetna, og ef á hverjum lið væri reynt að spara eins og tök væru á, þá mundi safnast, þegar það kæmi saman. En eins og ég gat um áðan, hefur flokkur, sem ekki á aðgang að upplýsingum um ríkisbúskapinn, mjög takmarkaða möguleika á að gera raunhæfar till. í sparnaðarátt. Til þess þarf upplýsingar, sem ríkisstj. ein hefur aðgang að, og meirihlutaaðstöðu ríkisstj. á Alþ. til þess að lagfæra ýmsa þá löggjöf, sem hér að lýtur.

Þessar till., sem við flytjum hér til sparnaðar, nema samtals 1.6 millj. kr. Þá nema þær till., sem við gerum til leiðréttingar á tekjuhlið fjárlagafrv., þ. e. a. s. til hækkana á tekjuliðum og til sparnaðar á öðrum liðum, samtals um 48.9 millj. króna.

Þá berum við fram á þessu sama þskj. þrjár till. til útgjalda, aðeins þrjár till. til útgjalda. Þessar þrjár till. nema samtals 48.8 millj. kr. eða lítið eitt lægri upphæð en leiðréttingin á tekjuhliðinni.

Þessar þrjár till. eru í fyrsta lagi, að inn verði tekinn nýr liður og óhjákvæmilegur, sem enn þá hefur ekki sézt frá hæstv. ríkisstj., þ. e. a. s., að það verði áætluð útgjöld vegna þeirra nýju launalaga, sem við vorum að samþ. hér við 2. umr. í dag, samtals 22 millj. kr. Þessi tala er að sjálfsögðu áætluð, en hún er sú áætlun, er mér tjáð, sem hv. fjvn. hefur í höndum um þennan lið. Ég skal geta þess, að mér hefur verið tjáð, að þessi áætlun gæti reynzt e. t. v. 2 millj. kr. hærri en hér er lagt til að verði áætlað, en þess ber að gæta, að þessar áætlanir eru enn þá mjög ónákvæmar og mjög lauslegar og sennilega frekar of háar en of lágar.

Þá 1eggjum við til, að tekinn verði nýr liður inn á 19. gr. fjárl. vegna atvinnuleysistryggingasjóðs, 8 millj. kr., en þetta er til þess að fullnægja loforði, sem hæstv. núverandi ríkisstj. gaf á síðasta vori í verkföllunum um að stofna þennan sjóð og leggja honum ákveðið framlag á ári. Þá lofaði hún líka, bæði hér á Alþ. og í umr. um samningana í verkföllunum, að leggja fram löggjöf um þennan sjóð. Þetta loforð hefur ekki verið efnt enn þá, og skal ég engu um það spá, hvort á að efna það eða efna ekki. Einhver dráttur virðist þó vera þarna á og eitthvað illa ganga með fæðingu á þessu frv. Hins vegar lítum við svo á, að þar sem þetta er gefið loforð, þá verði að standa við það og gera einhverjar ráðstafanir í fjárl. til þess að inna þessa greiðslu af hendi. Þessi upphæð mun verða á ári 14 millj. kr. En hjá hv. fjvn. hef ég fengið þær upplýsingar, að inn á þessi fjárl. væri nægilegt að taka 8 millj. í þessu skyni, þar sem 6 millj. hefðu þegar verið lagðar til hliðar af tekjuafgangi ársins 1954.

Síðasti liður í brtt. okkar er svo sá, að við leggjum til, að á 20. gr. verði tekinn upp nýr liður til uppbyggingar atvinnulífsins samkvæmt löggjöf, er Alþ. setur um þau mál, 18.8 millj. Það er að sjálfsögðu öllum ljóst, að eitt þjóðfélag getur ekki haldið fjárhagslegu sjálfstæði né sæmilegum lífskjörum til langframa, nema það leggi sig í framkróka um og geri allt, sem unnt er, til að efla nýja atvinnuvegi og bæta við þá, sem fyrir eru. Það er einnig augljóst mál, að ríkistekjur geta ekki orðið öruggar í því þjóðfélagi, sem ekki gerir stór átök í því að auka atvinnulíf sitt og þar með breikka skattgrundvöll eða tekjugrundvöll ríkissjóðs.

Hér á landi hefur þessi hlið í starfsemi ríkisins verið mjög vanrækt á undanförnum árum. Það hefur verið lítið gert að því að athuga möguleika á að færa út atvinnulíf okkar Íslendinga. Það getur vel verið, að einhverjir móðgist af því, að ég segi þetta, með tilliti til þess, að síðasta þing kaus nefnd til að rannsaka nýjar atvinnugreinar. Sú nefnd hefur nú starfað af miklum dugnaði væntanlega í um það bil eitt ár, og það mætti segja mér, að þeir, sem í þessari n. sitja, hefðu miklar frægðarsögur að segja og jafnvel ástæðu til að segja, að ummæli mín væru allsendis ómakleg, þegar ég held því fram, að ríkið hafi lítið sinnt þessu hlutverki. Sé svo, þá skal ég taka þessi ummæli mín aftur. Geti þessi stóra, mikla nefnd sagt einhver tíðindi hér um afrek sín á þessu sviði, þá skal ég biðjast afsökunar á því að hafa haldið því fram, að ríkisvaldið hafi vanrækt þennan þátt í starfsemi heilbrigðs þjóðfélags.

Brtt. þær, sem við flytjum hér á þskj. 185, bera því ljóslega með sér, að þó að þær væru samþ., breytist tekjuafgangur og greiðsluafgangur fjárl. ekki annað en það, að hann batnar um 100 þús. kr. Ég vænti þess, að hv. talsmenn ríkisstj. fari ekki út á þá braut að reyna að mótmæla þessum till. okkar um leiðréttingar á tekjustofnum ríkissjóðs með því, að þær séu óraunhæfar, því að það er allt of leiðinlegt fyrir þá að láta ásannast ár eftir ár, að þessi ummæli þeirra hafi ekki við neitt að styðjast. Ég skil ekki, að þessir hv. þm. hafi ánægju af því sjálfir að standa hér uppi eins og glópar þing eftir þing og halda fram hlutum, sem þeir sjálfir vita og allir landsmenn vita að eru ekki réttir.

Ég skal játa það, að ef till. okkar um hækkanir á tekjuliðunum yrðu samþ., þá mundi það að sjálfsögðu binda hendur ríkisstj. meira en verið hefur. Ég trúi því ekki, ef þessar till. yrðu samþ., að þá mundi sú ríkisstj., sem situr árið 1956, hafa 100 millj. kr. umframtekjur til að ráðslaga með að eigin geðþótta. En ég sé ekki, að það sé neitt illt skeð, þó að það yrði breyting á þessum hlutum. Ég sé ekki annað en að með því móti yrði ríkisstj. aðeins forðað frá einhverjum hluta af þeim lögbrotum, sem framin hafa verið á undanförnum árum að því er snertir þessi mál. Ég held því, að hæstv. núverandi ríkisstj. ætti að fagna þessu. Sérstaklega ættu hv. talsmenn Sjálfstfl. að fagna því, að hér yrði nú svolítið naumar skorið við nögl en á undanförnum árum með tilliti til þeirra miklu umr. um vinstri stjórn, sem verið hafa að undanförnu, og með hliðsjón af þeim líkum, sem á því eru, að slíka stjórn takist að mynda og að hún hafi með framkvæmd fjárlaganna að gera á árinu 1956. Ég skil illa, að hv. þm. Sjálfstfl. langi beinlínis til þess, að sú ríkisstj. hafi jafnmikið af lausu fé til að ráðslaga með og þær ríkisstj., sem Sjálfstfl. hefur átt þátt í og aðild að.

Nú skal ég loks taka það fram, að mér er ljóst, að ýmsar útgjaldahækkanir á stjórnarliðið eftir að bera hér fram og koma með inn í þetta fjárlagafrv., þ. á m. þær 29 millj. kr., sem fjvn. hefur lagt til að útgjöld ríkissjóðs hækki um. Mér er einnig ljóst, að við þessa upphæð bætist eitt og annað. En það er okkar till., þm. Þjóðvfl., að þessari upphæð verði mætt með hluta af tekjuafgangi ársins 1955. Eins og ég sagði áðan, er allt útlit fyrir, að tekjur ársins 1955 fari um 140 millj. kr. fram úr áætlun. Mér er það vitanlega ljóst, að hæstv. núverandi ríkisstj. er þegar búin að eyða miklu af þessari upphæð. Ég hef þó engar tölur um það, hvað mikið það er, en trúi varla, að það geti veríð meira en um 70 millj. kr. Eftir af tekjuafgangi ársins ættu þá að vera í dag, miðað við áramót, um 60–70 millj. kr. Það er okkar till., að þessar umframtekjur verði fluttar fram á árið 1956 og notaðar til að mæta þeim útgjöldum, sem væntanlega bætast við fjárlagafrv., frá því að það var lagt fyrir. Við teljum þó ekki ástæðu til né eðlilegt að flytja um þetta skriflega till. nú, heldur teljum við eðlilegast og réttast að öllu leyti að bíða og sjá til, hvernig þessi tekjuafgangur verður, og gera síðan till. um ráðstafanir á honum, þegar hann liggur endanlega og uppgerður fyrir. Þess mætti að sjálfsögðu geta í fjárlögum, ef ástæða þætti til, að það væri von á þessum tekjum til að mæta útgjöldum fjárlagafrv. árið 1956, en það hefur vafalaust annað eins skeð, þó að það yrði ekki gert.

Með þessu móti er þá sýnilegt, að það þarf ekki að leggja á nýja skatta til þess að greiða þær hækkanir, sem stafa af hinum nýju launalögum og vegna atvinnuleysistryggingasjóðsins og ýmissa annarra hluta, sem eru smærri í sér. Það eitt, sem þarf að gera, er að afnema það, að hæstv. ríkisstj. hafi 100 millj. kr. á ári til þess að ráðstafa að eigin geðþótta í algeru heimildarleysi frá Alþ. Það á að binda þennan hluta af fjárlögunum við þessar útborganir, og þá sé ég ekki betur en að það náist jöfnuður á fjárlögunum á þessu ári.

Loks vildi ég svo spyrjast fyrir um það, hverju það sæti, að lögin um söluskattinn fyrir árið 1956 hafa ekki verið samþykkt hér eða afgreidd á Alþ., hverju það sæti, að þau hafa ekki verið tekin til 2. umr. Er það af því, að nú sé í undirbúningi að hækka þennan skatt verulega? Er það af því, að ríkisstj. sé að bíða eftir því að sjá, hvernig fjárlagafrv. komi út, að geta áætlað tekjurnar, sem hún hefur umfram fjárlög og hvergi koma í ljós, nógu ríflega handa sér til að eyða á næsta ári og ætlað sér jafnóbundnar hendur á árinu 1956 og hefur verið að undanförnu, en hækka söluskattinn, þennan óvinsælasta og ranglátasta skatt, sem nokkurn tíma hefur verið fundinn upp í þessu þjóðfélagi? Ég vænti þess, að forsvarsmenn ríkisstj. telji ekki eftir sér að gefa svör við þessum spurningum nú, enda þýðir ekki fyrir þá að fara undan í flæmingi. Þeir geta ekki dregið svo lengi að afgreiða þetta mál.