12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

1. mál, fjárlög 1956

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki mikla ástæðu til þess að lengja þessa umr. mjög og skal því ekki þreyta hv. þm. með langri ræðu. Mér þótti þó tilhlýðilegt að segja nokkur orð, eftir að mælt hefur verið hér fyrir bæði till. minni hl. n. og sömuleiðis till. hv. þjóðvarnarmanna og þannig fram komnar þær megintill., sem gera mátti ráð fyrir að kæmu fram frá einstökum flokkum innan þingsins í sambandi við fjárlagafrv. Eftir eru svo vitanlega ýmsar till. frá einstökum hv. þm., sem lagðar hafa verið síðar fram á sérstöku þingskjali.

Það er raunar ákaflega lítið, sem ég hef að svara fyrir hönd meiri hl. fjvn. Það hafa ekki verið gagnrýndar þær röksemdir eða skýringar, sem ég flutti fram í minni framsöguræða til stuðnings okkar till., og þarf ég því ekki sérstaklega af þeim sökum að rifja upp neitt af því, sem ég þar tók fram, en skal aðeins í örfáum orðum víkja að nokkrum þeim ræðum, sem fluttar hafa verið.

Ég hefði kannske ástæðu til þess að þakka hv. 8. landsk. þm. fyrir þá umhyggju, sem hann bar fyrir Sjálfstfl. út af því, hvort væri rétt fyrir sjálfstæðismenn að hafa nú ekki sérlega gætilega tekjuáætlun og reyna að setja hana í hámark, eins og hann sagði, vegna þess að ef fram undan væri nú myndun vinstri stjórnar í landinu, væri ekki sérstök ástæða fyrir okkur til þess að fá þeirri stjórn svo rúmar hendur sem núverandi ríkisstjórn hefði haft til þess að ráðstafa eftir á tugmilljóna greiðsluafgangi til ýmissa þarfa. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa vísbendingu. Mér fannst að vísu einnig hans till. hér benda til þess, að hann byggist ekki meir en svo við að eiga heldur aðild að þeirri ríkisstjórn, ef til kæmi, og skal ég engu um það spá. Því verður vitanlega reynslan að skera úr. Ég vil aðeins segja það, að hvort sem verður úr því, að það verði stjórnarskipti í landinu, eða ekki, þá breytir það ekki viðhorfi okkar sjálfstæðismanna til þess, að við álítum, að afgreiða beri fjárlögin á þann hátt, að afkoma ríkissjóðs á hverju ári verði greiðsluhallalaus. Það er meginstefna, og skiptir ekki máli, hver fer með ríkisstjórn.

Að öðru leyti vil ég geta þess í sambandi við það, sem hv. 8. landsk. þm. sagði um greiðsluafgang ríkissjóðs 1955, að það mundi sennilega ekki vera búið að ráðstafa af honum meira en um 70 millj. kr. og ættu þá að vera um 60 millj. eftir, að það færi vissulega betur, að það væri um 130 millj. kr. greiðsluafgangur. Það væri sannarlega full þörf á því til margvíslegra þarfa í þjóðfélaginu. Það hefur áður komið að góðu gagni, að slíkur greiðsluafgangur hefur verið til, og hv. þm., ekki síður stjórnarandstæðingar en stjórnarsinnar, hafa verið mjög fúsir til þess að bera fram sínar hugmyndir um, hvernig ætti að ráðstafa því fé. En ég er ákaflega hræddur um, að þessi greiðsluafgangur í ár verði töluvert innan við 130 millj. kr., þannig að erfitt verði að reikna með því, að hann verði til allra þeirra hluta, sem ýmsir tala um. En ég vil vegna þess, sem hv. þm. sagði um, að rétt væri að taka hluta af greiðsluafgangi og verja til að greiða halla af ríkisbúskapnum á þessu ári, taka það fram, að ég álít það, og ég hygg, að það muni meiri hl. hv. þm einnig vera mér sammála um, að það séu ekki skynsamlegir búskaparhættir að ætla að fara að framfleyta ríkisbúskapnum þannig að nota greiðsluafgang til þess. Þetta mætti auðvitað vera réttlætanlegt, ef gera mætti ráð fyrir, að um einhver sérstök áföll eða kostnað væri að ræða hjá ríkinu á einu tilteknu ári, sem síðar kynni aftur að draga úr. Þá gæti verið ástæða til að gera slíkar ráðstafanir. En í slíku tilfelli sem hér er um að ræða, þar sem ekki virðast nú sérstakar horfur á, að það muni létta á ríkissjóði um önnur áramót hér frá, eða á árinu 1957, þá er mjög óskynsamlegt að ætla sér að leysa þann vanda, sem nú er að afla viðbótartekna fyrir ríkið, með því að ætla að nota þennan greiðsluafgang ti1 eyðslueyris á næsta ári upp í rekstrarkostnað ríkissjóðs.

Það hefur verið vikið að því hér, bæði af hv. 8. landsk. og fleiri ræðumönnum, að það muni vera óhætt að hækka verulega tekjuáætlunina vegna þeirrar reynslu, sem hafi verið undanfarin ár. Og hv. 8. landsk. sagðist vænta þess, að þm. stjórnarflokkanna færu ekki að standa eins og glópar upp til þess að reyna að mótmæla því, að hægt væri að gera ráð fyrir, að alveg sama þróun yrði á næsta ári. Ég tók það fram í minni framsöguræðu, og ég held, að allir hljóti að geta, ef þeir hugsa í alvöru um málið, orðið mér sammála um það, að þegar verið er að afgreiða fárlög, megi ekki reikna með ákveðnum hlutfallareikningi um það, hvernig tekjur ríkissjóðs hafi vaxið ár frá ári, nema að mjög litlu leyti a. m. k., heldur verði að gera sér raunverulega grein fyrir, hvernig aðstaðan og ástandið er á hverjum tíma, því að tekjuhorfur geta auðvitað breytzt mjög frá ári til árs. Þó að þær hafi hækkað á 2–3–4 árum mikið, þá er ekki þar með sagt, að þær þurfi endilega að hækka á sama hátt á fimmta árinn. Það verður auðvitað við samningu fjárlaga að meta allar aðstæður eins og þær eru. Ég tók það einnig fram þá, að af hálfu fjvn. væru ekki endanlegar hennar till., vegna þess að við höfum ekki haft fyrir okkur nú nema afkomu 10 mánaða ársins, og vel kynni að vera, að einhverjar þær breytingar kæmu fram síðar, áður en afgreiðslu fjárlaga yrði lokið endanlega, að ástæða þætti til eða fært að gera breytingar til hækkunar á tekjuáætluninni. Vitanlega verður það þá gert. Ég get ítrekað það, sem ég sagði þá, — a. m. k. er það mín skoðun og ég hygg margra fleiri, — að sjálfsagt sé, þegar svo háttar, að nú þarf að fara að leggja álögur á landsmenn til þess að brúa bilið milli tekna og gjalda, að þá verði vitanlega að rannsaka það fullkomlega til hlítar, hversu hátt sé hægt að fara með hina áætluðu upphæð þeirra tekjustofna, sem í gildi eru, og beri að fara þar svo hátt sem framast þykir fært, án þess þó að með því sé afkomu ríkissjóðs stefnt í hættu. Ég held, að þetta sjónarmið sé ekki með neinn móti hægt að segja að sé glópska, heldur mundu jafnvel þeir hv. þm., sem halda öðru fram, vafalaust vera sömu skoðunar, ef þeir ættu að bera ábyrgð á afgreiðslu fjárlaga. En það vill nú stundum kveða nokkuð öðruvísi við hjá mönnum, — ég er ekki að segja sérstaklega þeim fremur en öðrum, sem þurfa ekki að bera ábyrgðina, heldur en þeim, sem ábyrgð eiga að hafa á því, hversu til tekst.

Hv. 8. landsk. taldi óhæfu að reikna hér með söluskattinum, þar sem hann hefði ekki enn verið samþ. á þinginu. Það skal auðvitað játað, að verði söluskatturinn ekki samþ. á þinginu, kemur ekki til, að ríkissjóður hafi af honum tekjur. En ég held ekki, að nein sérstök ástæða sé til að óttast, að hann verði ekki samþ., þannig að það megi gera ráð fyrir, að hægt sé að ætla með honum sem tekjustofni, enda fengi ég ekki skilið, eins og ástatt er nú, hversu það mætti verða, að þessi stóri tekjustofn yrði ekki framlengdur.

Hv. 11. landsk. ræddi nokkuð almennt um fjárlagafrv. hér áðan, og m. a. ræddi hann — eins og hann hefur raunar áður gert — um embættismannabáknið og að vöxturinn í útgjöldum ríkissjóðs væri aðallega á því sviði og nefndi um það nokkur dæmi. Ég vil vekja athygli á því, að ég hygg, að ekki sé með nokkru móti hægt að segja, að embættismannabáknið eða embættiskerfi ríkisins vaxi í þessum fjárlögum meira en efni standa til, miðað við þær launahækkanir og kostnaðarhækkanir, sem eru á öllum sviðum. Og ég vil jafnframt vekja athygli á því, að samkv. till. fjvn. er gert ráð fyrir að hækka verklegar framkvæmdir um 25% eða í kringum það, þannig að ég hygg, að það sé ekki minni hækkun, heldur jafnvel meiri en er á hinum almennu kostnaðarliðum. 9ð öðru leyti gefur ræða hv. 11. landsk. ekki tilefni til athugasemda.

Ég vil þá leyfa mér að víkja örfáum orðum að hv. frsm. minni hl. fjvn., hv. 3. landsk. Hann vildi draga nokkuð í efa þau orð mín, að mikill hluti af hækkun fjárlagafrv. stafaði af afleiðingum verkfallanna og kauphækkunum þeim, sem orðið hafa af þeim sökum. Ég held, að allir þeir, sem athuga fjárlagafrv. til hlítar, geri sér ljóst, að þessi orð mín hafa fullkomlega við rök að styðjast. Ég hélt því ekki fram, að það væri öll sú hækkun, það er auðvitað töluvert mikið af henni, sem stafar af öðrum ástæðum og er enda tekið fram, eins og hann las upp úr grg. með fjárlagafrv., en það er áreiðanlegt, að mjög stór hluti af þessari miklu hækkun á fjárlögunum nú stafar einmitt af þessum sökum. Er það vitanlega eðlilegt, þegar þess er gætt m. a., að vísitala mun hækka um 14–15 stig, miðað við fjárlögin, sem nú gilda.

Hann fann nokkuð að því einnig, að ekki hefði verið farið fram á það við stjórnarandstöðuna að benda á leiðir til sparnaðar. Ég sé nú ekki beinlínis, að það hafi verið þörf á að fara fram á það við stjórnarandstöðuna, vegna þess að ef hún hefði séð ástæðu til þess að gera till. um sparnað, hefði það að sjálfsögðu verið eðlilegt og skylda þeirra manna, sem töldu það fært, að gera það og ekki ástæða til þess, að þeir þyrftu að bíða eftir því, að aðrir bæðu þá um það. Vitanlega er það ekki sízt hlutverk stjórnarandstöðu að vera til nokkurs aðhalds fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma um það, hvernig hennar fjárútlátum er háttað.

Ég skal hins vegar játa það fúslega, sem hv. 8. landsk. minntist á, að það er að ýmsu leyti erfiðari aðstaða fyrir þá, sem ekki halda um stjórnvölinn, að kanna, hvernig ástatt er um einstakar stofnanir. Þetta gildir þó ekki raunar um þá, sem hafa aðstöðu til þess að starfa í fjvn., því að þar er hægt að krefjast allra þeirra upplýsinga, sem viðkomandi aðilar óska, og hægt að fylgjast með þessu, eftir því sem menn leggja sig eftir því. Auk þess er það vitanlega svo um marga liði í fjárlögum, að menn geta myndað sér sínar skoðanir um, hvort þar sé óhæfilega eytt peningum eða ekki, án þess að þurfa beinlínis að hafa þá aðstöðu, sem ráðuneytið hefur, að geta kannað það allt niður í kjölinn í einstökum atriðum.

Ég vil enn fremur leiðrétta eitt smávægilegt atriði, sem hv. 3. landsk. minntist á, og það var, að ég hefði átt að segja, að aflabrögð mundu fremur minnka á næsta ári. Þetta held ég að hafi verið misheyrn eða misskilningur hjá hv. þm. Ég sagði, að það mundu bætast í bátaflota okkar töluvert margir bátar á næsta ári, en hins vegar, þar sem hefði verið mjög gott aflaár í ár, væri ekki hægt að vænta þess, að um mikla aukningu á útflutningsverðmætum yrði að ræða á næsta ári, þó að það kynni að verða, ef sérstök höpp kæmu fyrir, eins og t. d. síldveiði, sem maður aldrei veit um, en blæs nú ekki byrlega með, eftir að hún hefur brugðizt í heilan áratug.

Þá mætti auðvitað ræða margt um ýmsar bollaleggingar hv. minni hl. fjvn. og orðalag í nál., þar sem virðist vera nokkuð einkennilega sums staðar til orða tekið um útskýringar á útgjaldaliðum, eins og þar sem sagt er, að fjárlagafrv. sé af meiri hl. n. lagt fram í aðalatriðum eins og það var lagt fyrir þingið í haust, að viðbættum allt að 20 millj. kr. útgjöldum samkv. tillögum ráðuneyta og nokkurra milljóna útgjöldum frá Pétri og Páll. Jafnframt er svo talað um, að það sé heldur meiri kosningasvipur á afgreiðslunni en hafi verið að undanförnu. Ég fæ ekki skilið sérstaklega, hvar það kemur fram, að það sé neinn sérstakur kosningabragur á afgreiðslu frv. Auðvitað skiptir svona orðalag ekki miklu máli, en má kannske segja, að það sé einkennilegt í nál.

En það er annað í þessu nál. hv. minni hl., sem mér kemur ákaflega einkennilega fyrir sjónir, og ég verð að segja, að þeim virðist ekki hafa farið mjög mikið fram í reikningi frá síðasta þingi, en þá henti það þessa ágætu og annars mjög glöggu menn, að þeir höfðu misreiknað sig um nokkra milljónatugi, þegar þeir voru að leggja saman sínar tillögur til útgjalda á fjárlagafrv. Nú hefur sem sagt hent þá sú einkennilega villa, að þeir ræða um í sínu nál., að ef farið væri eftir þeirra till., mundi vera hægt að afgr. fjárl. hallalaust, enda þótt reiknað væri með öllum þeim útgjöldum, sem bíða nú 3. umr. og þeir reikna með að séu um 55 millj. kr.

Það kann vel að vera, að það sé einhver alveg sérstök reikningsaðferð, sem þessir hv. þm. hafa fundið upp til þess að fá þessa niðurstöðu, a. m. k. mjög hagkvæm reikningsaðferð fyrir þá. En ég fæ nú ekki betur séð en að miðað við þær till., sem þeir hafa gert, og miðað við það, að þeir standa með okkur að öllum þeim till., sem meiri hl. gerir til útgjaldaauka, muni halli á fjárlagafrv. verða nærfellt 70 millj. kr., þótt reiknað sé með þeim tekjustofnum, sem þeir benda á, en ef reiknað er með öllum þeim útgjöldum, sem þeir leggja til, þannig að ég get a. m. k. ekki skilið annað en að eftir almennri málvenju og skilningi á, hvað sé halli á frv., muni þetta verða að teljast það. Ég held þetta stafi einfaldlega af því, eftir því sem ég hef bezt getað fundið, að þeir hafi gleymt algerlega að reikna með eignahreyfingunum eða sleppt þeim, nema þar sem það passaði að telja þær með. Þetta er náttúrlega ákaflega hæpinn útreikningur og mjög miður farið, að jafnglöggir og skilmerkilegir menn og þessir hv. tveir þm. skuli láta frá sér fara nál., sem byggt er upp á jafnótraustum grundvelli vægast sagt. Þetta tel ég ekki vera hægt annað en að benda hv. þm. á. Ég skal alveg láta það liggja milli hluta að meta, að hve miklu leyti kunni að vera réttar ýmsar till., sem þeir gera um hækkun á tekjubálki frv. Það virðist svo, að það geti hugsanlega orðið þær tekjur ríkissjóðs í ár, sem þeir reikna með í sinni tekjuáætlun, og má að því leyti ef til vill segja, að það fengi staðizt, sem þeir gera till. um, ef mætti gera ráð fyrir, að hagur ríkissjóðs yrði sá sami á næsta ári. En þeir eiga þó algerlega eftir að gera grein fyrir því, gera það kannske við síðari umr., eftir að þeir hafa reiknað þetta betur út og komizt að réttri niðurstöðu, hvernig þeir ætla að finna mismuninn, sem á að fara í allar þær upphæðir, þessar 50 millj., sem eftir eru og mér skilst ákveðið að þeir séu meiri hl. sammála um að beri að taka upp í þetta frv., — hvernig þeir ætla að gera það án þess að þurfa að leita að einhverjum nýjum tekjustofnum.

Hv. 3. landsk. sagði, að það hefði kennt nokkurra sárinda hjá mér yfir því, þegar ég hefði verið að tala um, að það væru vissulega margar góðar till., sem kæmu fram frá minni hl. og hefði verið ánægjulegt að geta stutt, og var eitthvað að gefa í skyn um, að við mundum ekki hafa fengið leyfi til þess að styðja slíkar till. Hér er vitanlega um hinn mesta misskilning að ræða. Það, sem veldur, er ekki annað en það, sem öllum mönnum má augljóst vera, að hér er á svo mörgum sviðum um svo margvíslegar þarfir að ræða, sem við allir þekkjum, að við getum aldrei og hefur aldrei verið hægt við afgreiðslu neinna fjárl. að taka þetta til greina nema að nokkru leyti. Það eru vissulega margar hugmyndir og till., sem fram hafa komið á hverju einasta þingi í sambandi við fjárl., sem hefði verið ánægjulegt að geta samþ. og veitt fé til, en ekki hefur verið möguleiki til að gera. Það verður hér sem áður að velja og hafna og meta, og það er auðvitað ótalmargt, sem hver einstakur þm. og kannske þm. allir saman hefðu gjarnan viljað að hefði verið hægt að veita fé til, en ekki er hægt. Þetta er ósköp einföld skýring á þeim orðum, sem ég sagði.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að vera að gefa neinar yfirlýsingar varðandi þær einstöku till., sem hér liggja fyrir. Ég tók það fram í minni frumræðu, að meiri hl. n. mælti með því, að frv. yrði samþ. með þeim brtt., sem n. sameiginlega hefur öll borið fram, en n. telur að öðru leyti ekki fært að styðja aðrar till.

Ég vil út af þeim till., sem fram eru settar á þskj. 185 frá hv. þm. Þjóðvfl., taka fram, að það hefur þegar verið upplýst um tvær af þeim þremur till., sem þar eru, að þær munu koma inn í frv. við 3. umr. þess, og það er þess vegna þarflaust að vera að bera slíkar till. fram nú.

Varðandi heimild þá til ráðstöfunar á greiðsluafgangi, sem vikið er að í till. minni hl. fjvn., hefur hæstv. fjmrh. gefið þá yfirlýsingu, að það muni koma til kasta þingsins á sínum tíma að ráðstafa þeim greiðsluafgangi, og geri ég því ekki ráð fyrir, að þeir hv. þm. muni láta þá till. koma til atkv., því að mér skildist, að það væri fyrst og fremst áhugi þeirra með því að bera till. fram að fá úr þessu skorið.

Að öðru leyti skal ég ekki þreyta hv. þm. með lengra máli, þar sem ég sé ekki, að þær ræður, sem fluttar hafa verið, gefi tilefni til þess, en ítreka aðeins þá till. mína um afgreiðslu málsins, sem ég flutti við frumræðu mína.