12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

1. mál, fjárlög 1956

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Á þskj. 187 hef ég flutt tvær brtt. við fjárlagafrv. Fyrri brtt. er merkt IV og er um það, að á fjárlagafrv. skuli taka upp nýjan lið, aukaframlag til hafnargerðar á Þórshöfn vegna tjóns, sem orðið hefur, og yfirvofandi tjóns á hafnarmannvirkjum, 1 millj. kr. Þessi till. er flutt vegna þess, að þarna er um algert neyðarástand að ræða. Það var fyrir nokkrum árum byggður hafnargarður á Þórshöfn til að skýla höfninni þar og þ. á m. bryggju, sem nú þegar er komið nokkuð á veg með að gera. Í fyrravetur eða vetur sem leið brotnaði þessi hafnargarður algerlega í tvennt, og lagðist fremri hluti hans á hliðina, en efri hluti garðsins er nú þegar orðinn algerlega ónýtur, og má fyllilega gera ráð fyrir því, að hann falli einnig um á þessum vetri. Það er því fyrirsjáanlegt, að fyrir utan það, að höfnin er mjög óvarin og verður allerfið í slæmum veðrum og vont fyrir báta að athafna sig þar, þá er yfirvofandi, að bryggjan, sá hluti hennar, sem nú þegar hefur verið gerður, eyðileggist, ef ekki eru gerðar einhverjar ráðstafanir mjög skjótlega til úrbóta.

Hafnargarðurinn, sem gerður var á Þórshöfn fyrir nokkrum árum, var í upphafi mjög illa staðsettur. Hann var byggður of nærri bryggjunni, þannig að hann þrengdi höfnina til mikilla muna, svo að skip önnur en smábátar áttu erfitt með að athafna sig við bryggjuna. Hann var einnig byggður á skökkum stað, að því er fróðir menn telja, með tilliti til þess, að hann tók á sig mikinn sjó, sem kemur fram í því, að sjór hefur nú brotið hann niður.

Í brtt. frá hv. fjvn. er gert ráð fyrir að veita 100 þús. kr. framlag til hafnargerðar á Þórshöfn á næsta ári, og er þá að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að sveitarfélagið leggi fram 100 þús. kr. á móti. Ég býst við því, að þetta framlag, sem þarna er ákveðið, sé miðað við getu þessa fátæka sveitarfélags, en alls ekki þarfirnar, sem þarna eru fyrir hendi. Mér er það vel ljóst, að þarna er um tiltölulega lítið sveitarfélag að ræða, sveitarfélag, sem hefur ekki ráð á því að leggja fram stórar fjárfúlgur, allra sízt á einu ári, enda þótt það sé alger nauðsyn og væri algerlega óhjákvæmilegt að gera það, ef þess væri kostur. Þess vegna sé ég ekki betur en að ríkið verði að hlaupa hér undir bagga, ekki aðeins til þess að tryggja atvinnuskilyrði í þessu sjávarþorpi yfir sumarmánuðina, þarna er um þó nokkrar fiskveiðar að ræða og síldarsöltun á sumrin, heldur einnig til þess að reyna að forða meira tjóni, sem þá að sjálfsögðu mundi leggjast síðar meir á ríkissjóð og þetta fátæka sveitarfélag. Ég vil því vænta þess, að þessi till. fái góðar undirtektir.

Ég hef ekki lagt það í vana minn hingað til að bera fram till. vegna þess, að það gæti talizt vinsælt af kjósendum eða einhverjum mönnum í landinu að sjá þannig till. bornar fram, og í þetta skipti er því ekki heldur til að dreifa. Ég hefði ekki borið fram þessa till. nema vegna þess, að þarna er um algera nauðsyn að ræða, og sömuleiðis vegna þess, að ég sé ekki, að frá hv. stjórnarliði muni koma fram neinar till., sem geti bætt úr því ástandi, sem þarna er um að ræða. Mér hefði ekki dottið í hug að ganga hér fram fyrir skjöldu og grípa fram fyrir hendur á hv. þm. kjördæmisins, ef ég hefði ekki talið alveg örvænt um, að það mundu nokkrar raunhæfar till. koma fram í þessu efni.

Nú hef ég haft þann hátt á að flytja aðra brtt., sem ég tengi saman við þessa. Sú brtt. er merkt með XVII á þskj. 187, og hún er flutt til þess, að hér skuli ekki vera eingöngu um hækkun á útgjöldum að ræða hjá ríkissjóði, því að seinni brtt. er þess eðlis að fella niður úr gjaldabálki fjárlagafrv. einn lið, sem nemur 1 millj. kr. í fjárlagafrv. Þessi liður er á 17. gr. nr. 35 og heitir ráðstafanir vegna ófriðarhættu. Nú fæ ég ekki skilið, að ófriður sé svo yfirvofandi, að það sé nauðsyn á því að verja ár eftir ár 1 millj. kr. af ríkisfé til að gera einhverjar ráðstafanir vegna hans. Hingað til hafa ráðstafanirnar ekki heldur verið neitt stórvægilegar, skilst mér. Þær hafa verið í því fólgnar, eftir því sem mér er tjáð, að inn hefur verið flutt eitthvað af sjúkragögnum, sem sjálfsagt er góðra gjalda vert og vafalaust hafa að einhverju leyti komið í góðar þarfir nú þegar og eiga sennilega eftir að einhverju leyti að koma í góðar þarfir seinna. Þó þykir mér ekki alveg örgrannt um það, að ef þessir hlutir, sem hafa verið fluttir inn, liggja lengi í pakkhúsum hér og geymslum, þá geti það tvennt gerzt, að þeir bæði úreldist og verði ekki taldir neitt sérlega hæfir til notkunar, þegar til á að grípa, og einnig hitt, að þeir geti blátt áfram skemmzt, því að mér er ekki kunnugt um, að vörugeymslur hér séu yfirleitt þannig úr garði gerðar, að hlutir geymist þar vel og tryggilega til langframa. Ég hef því lagt til, að þessi liður verði felldur niður og að þeirri milljón, sem átti að verja til ráðstafana vegna ófriðarhættu, verði varið til hafnarframkvæmda á Þórshöfn á næsta sumri.

Mér er að sjálfsögðu ljóst, að þessi till. um eina milljón til hafnarframkvæmda á Þórshöfn er ekki nema lítið brot af því, sem þarf til að fullgera þá höfn. En með því að fullgera þá höfn á ég að sjálfsögðu við að lengja bryggjuna til mikilla muna, dýpka höfnina og annað þess háttar. Ég sé ekki ástæðu til þess, eins og málum nú háttar, að gera till. um meiri framtíðarframkvæmdir í þessari höfn, heldur um það eitt að reyna að koma þarna upp á næsta sumri hafnargarði, sem geti búið bátum viðunandi skilyrði í höfninni og jafnframt komið í veg fyrir, að bryggjan eyðileggist í vetrarveðrum. En eins og nú standa sakir, þá liggur hún opin við og óvarin öllum vetrarveðrum af norðvestanátt, en þau eru erfiðust í þessari höfn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessar litlu till., en vænti þess, að þeim verði vel tekið.

Að lokum vil ég svo aðeins minnast á ræðu hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem hann flutti hér áðan. Ég vil óska honum til hamingju með þá ræðu. Hann játaði í henni, að flestöll eða öll þau rök, sem ég flutti hér fram í minni fyrri ræðu, hefðu verið rétt og sanngjörn, og gerði ekki tilraun til þess að hnekkja þeim á neinn veg. Hann sagði að vísu, að við þjóðvarnarmenn mundum sennilega ekki flytja till. um hækkanir á tekjuhlið fjárlagafrv., ef við ættum að bera ábyrgð á fjárlagaafgreiðslunni. Við þetta vildi ég mega gera þá athugasemd, að mig langar til að fullvissa þennan hv. þm. um það, að þegar við þjóðvarnarmenn förum að hafa áhrif á ríkisstj. landsins, sem sennilega verður nú innan skamms, þá munum við ábyggilega gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að tryggja það, að fjárlögin verði afgreidd eins rétt og tök eru á, að sú stjórn, sem við komum væntanlega til með að styðja, geri sér ekki leik að því að leggja fyrir Alþingi Íslendinga rangar till. til fjárlagaafgreiðslu.

Loks vil ég minna hv. 2. þm. Eyf. á það, að hann svaraði ekki fsp., sem ég beindi til hans og stjórnarliðsins í ræðu minni áðan. Ég spurðist fyrir um, hvort það stæði til að hækka nú söluskattinn, hvort frestunin á afgreiðslunni á því máli stafaði af því, að ríkisstj. hefði á prjónunum till. um að hækka þennan skatt. Hv. 2. þm. Eyf. þagði við þessari fsp. Hann kaus þá vandræðaleið að þegja við henni. En sú þögn kemur honum ekki að neinu haldi, vegna þess að ríkisstj. getur ekki frestað því lengi enn þá að leggja þetta mál hreint fyrir. Þess vegna er alveg eins gott fyrir hann að játa það hreinskilnislega nú strax, að það eigi að hækka skattinn, ef meiningin er að gera það. En annars væri hægur leikurinn og hægur vandi fyrir hann að neita því, að þetta stæði til. Þögnin verður ekki skilin á annan veg en þann, að hún sé samþykki, að ríkisstj. hafi nú á prjónunum till. um að hækka þennan rangláta og óvinsæla skatt.