12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

1. mál, fjárlög 1956

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þau orð mörg, sem ég segi hér, en ég vil aðeins minnast á brtt. við fjárlögin á þskj. 189, sem ég flyt ásamt hv. samþingismanni mínum og hv. 7. og hv. 5. þm. Reykv. Þessi till. er um nýja fjárveitingu til Austurvegar.

Þetta mál er það kunnugt, að ég þarf ekki að lýsa því neitt sérstaklega við þetta tækifæri, vil þó aðeins fara um það nokkrum orðum.

Til nýrra akvega eru nú veittar 14970000 kr. eftir brtt. hv. fjvn. við fjárlagafrv. það, sem nú er til umr. Af þessari upphæð fara til þriggja sýslna á Suðurlandi, þ. e. Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, 1690000 kr. Á þessu svæði má segja, að afkoma öll og framleiðsla þeirra manna, sem þarna búa, byggist á góðum og öruggum samgöngum, bæði innanhéraðs til þess að flytja alla þá framleiðslu, sem þar er um að ræða, á einn stað, á vinnslustaðinn, mjólkurbú Flóamanna á Selfossi, og síðan þaðan hingað til Reykjavíkur. Þarna mun vera um að ræða, t. d. frá Selfossi til Reykjavíkur, flutning, sem nemur 40–50 tonnum af mjólkurvörum á dag. Í þessum sýslum munu vera nál. 11 þús. íbúar. Þegar tekið er tillit til þess, að bæði þessi mannfjöldi á aðild að þessu máli, sem hér er um að ræða, og einnig allir íbúar Reykjavíkur, þá virðist ekki vera stórkostlega mikið atriði að leggja þennan veg, sem þarna er um að ræða og viðurkennt er að muni veita mikið öryggi um flutningasamgöngurnar á þessari leið.

Ég vænti, að þessari till. verði vel tekið og hv. fjvn. vilji taka til góðfúslegrar athugunar, hvort hún sjái sér ekki fært að taka fjárveitingu þá, sem hér um ræðir, upp í sínar till. til 3. umr.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta meira, en endurtek þá ósk, að tillögu þessari verði vel tekið.