27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

1. mál, fjárlög 1956

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlagafrv. var skýrt frá því af hálfu fjvn., að enn þá lægju óathuguð hjá n. allmörg mál, þ. á m. mál, þar sem um var að ræða mjög há útgjöld úr ríkissjóði, og voru þessi mál af ýmsum atvikum látin bíða 3. umr. fjárlagafrv.

Með hliðsjón af þessu taldi meiri hl. fjvn. eðlilegt, enda þótt hann hefði áður við 2. umr. skilað sérstöku nál., að skila framhaldsnál., þar sem í stórum dráttum væri gerð grein fyrir till. n., eða meiri hl. hennar, og jafnframt brugðið upp nokkurri mynd af því, hvernig fjárlagafrv. liti út með hliðsjón af till. n. Þetta framhaldsnál. hefur verið lagt hér fram á þskj. 288. Sé ég ekki ástæðu til að ræða það sérstaklega, það skýrir sig sjálft, en mun víkja beint að þeim brtt., sem meiri hl. n. ber fram nú við 3. umr.

Eins og brtt. bera með sér, eru þær fluttar af meiri hl. n., en n. hefur þó öll verið samþykk mörgum atriðum, sem þar koma fram, og mun vafalaust frsm. minni hl. gera nánari grein fyrir því.

Ég ætla þá fyrst að fara nokkrum orðum um útgjaldatill., eins og þær liggja fyrir á þskj. 287, en mun að því loknu víkja nokkuð að tekjuhliðinni og að lokum, hvernig horfurnar eru, eins og málið liggur nú fyrir. Vil ég þá leyfa mér að fara yfir brtt. eins og þær liggja fyrir á þskj. 287 og skýra þær till., sem ég tel ástæðu til þess að skýra. Mun ég reyna að vera stuttorður til þess að lengja ekki tímann um of, en mun að sjálfsögðu, ef hv. þm. óska nánari skýringa á einstökum till., reyna að gefa þær skýringar síðar í umr., eftir því sem tilefni verður til.

2. brtt. n. er um að hækka framlög til pósthússins í Reykjavík um 100 þús. kr. Þetta stafar af því, að brýn nauðsyn er að gera við afgreiðslusal pósthússins og pósthólfageymsluna. Það er þegar fyrir hendi nokkur fjárhæð í þessu skyni, en óumflýjanlegt var talið að verja nokkru viðbótarfé til þessara framkvæmda, þar eð ekki er talið gerlegt að láta þessa viðgerð dragast lengur.

Þá er 5. till. n. um sendiráðið í Kaupmannahöfn. Þar er nánast um að ræða tilfærslu, sem kemur fram í því, eins og hv. þm. sjá, að „annar kostnaður“ er lækkaður, en aftur launaliðirnir nokkuð hækkaðir, sem stafar af tilfærslu á starfsfólki þar á milli.

Þá er aðeins smávægileg orðalagsbreyting eða leiðrétting í sambandi við sendiráðið í Vestur-Þýzkalandi. Það hafði fallið niður í prentun, að það var vitanlega ekki átt við, að sendiherra ætti að fá öll þau laun, sem þar voru tilgreind, heldur aðrir starfsmenn einnig.

Utanrrn. hefur tjáð n., að athugun hafi leitt í ljós, að enda þótt sendiráð hafi verið sett á stofn í Bonn, sé óumflýjanlegt, a. m. k. um sinn, að hafa einnig starfandi ræðismannsskrifstofu í Hamborg, og er gert ráð fyrir að verja 80 þús. kr. til þeirrar skrifstofu.

Þá er lagt til að hækka liðinn upplýsinga- og kynningarstarfsemi á vegum utanrrn. um 30 þús. kr., sem stafar af því, að n. vildi verða við óskum, sem fyrir henni lágu frá tveimur aðilum um nokkurn styrk í sambandi við kvikmyndir, sem gerðar hafa verið til landkynningar og taldar eru gefa góða raun. Var talið eðlilegast að fara þessa leið, að hækka þennan lið með það í huga, að varið yrði síðan af liðnum 35 þús. kr. til þess að styrkja þessar kvikmyndir, og mun n. sérstaklega rita utanrrn. í sambandi við það mál.

Þá er lagt til að hækka „annan kostnað“ við borgardómaraembættið um 50 þús. kr., sem stafar af því, að það var talið óumflýjanlegt að kaupa nýja bifreið fyrir embættið, og er þetta mismunur á verði nýrrar bifreiðar og gamallar, sem seld hefur verið í staðinn.

Þá er næst till. um borgarfógetaembættið, sem tekin var aftur við 2. umr., en er hér flutt aftur óbreytt.

Við sakadómaraembættið er lagt til að bæta einum manni. Það er maður, sem á sérstaklega að annast innheimtur á sektarfé, en vegna mannaskorts við embættið hefur ekki verið hægt að fylgja því svo fast fram sem skyldi, og er talið nauðsynlegt, að sérstakur maður verði ráðinn til þeirrar innheimtu.

Þá er lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli, endurflutt till., var tekin aftur við 2. umr. Þá er 13. till., embætti sýslumanna og bæjarfógeta. Þar er um nokkra hækkun að ræða, sem stafar af því, að það er talið nauðsynlegt að bæta við starfsmanni við bæjarfógetaembættið í Kópavogskaupstað með hliðsjón af starfi þess embættis í þágu Tryggingastofnunarinnar.

Þá kemur 14. liðurinn, sem er Kvíabryggjuhælið svokallaða. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að verja 275 þús. kr. til rekstrar þess hælis, en svo sem kunnugt er, var stofukostnaður þess greiddur af Reykjavíkurbæ, en ríkið hefur tekið að sér að greiða rekstur hælisins. Reynsla þessa árs hefur leitt í ljós, að þarna er um allt of lága fjárhæð að ræða, og úr því að ákveðið hefur verið að reka þessa stofnun, þá er auðvitað tilgangslaust annað en að taka inn í fjárlögin sjálf þau útgjöld, sem af þessu leiðir, þar sem ella þyrfti að greiða þau án sérstakrar heimildar. Er því lagt til, að þessi fjárveiting verði hækkuð í 630 þús. kr.

Þá er enn fremur lagt til að verja 200 þús. kr. til þess að kaupa sótthreinsunarofn fyrir landsspítalann. Sótthreinsunarofn sá, sem þar er til á skurðlækningadeild, er mjög orðinn úr sér genginn og talið óumflýjanlegt að kaupa nýjan ofn, og því er tekin upp nú fjárveiting í þessu skyni.

Við 2. umr. fjárlagafrv. var tekið fram, að í athugun væri, hvort auðið yrði að hækka eitthvað fjárframlög til heilbrigðisstofnana, en á því var talin mikil nauðsyn, bæði til ríkisspítalanna og einnig til annarra sjúkrahúsa, þar sem framkvæmdir á þeim sviðum eru mun meiri en fé hefur verið veitt til, en þörfin hins vegar mjög brýn. Það er nú lagt til að hækka liðinn til læknisbústaða og sjúkrahúsa um 300 þús. kr. og hækka hlutfallslega á sama hátt fjárveitingu til fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, og yrði þá sú hækkun 75 þús. kr., og í þriðja lagi er lagt til að hækka framlög til heilbrigðisstofnana í Reykjavík um 500 þús. kr., en þar á ríkið mjög háar upphæðir ógreiddar. Ég mun síðar koma að þeim lið, sem varðar ríkisspítalana.

Þá er 19. till., sem var tekin aftur við 2. umr., en er hér endurflutt.

Í 20. till. er um að ræða, að lagt er til að veita 100 þús. kr. til hafnarbóta í Vogum. Það er eina till., sem tekin hefur verið upp í sambandi við hafnargerðir, og byggist á þeirri sérstöku ástæðu, að það hafði ekki í till. vitamálaskrifstofunnar verið gert ráð fyrir fjárveitingu til þessarar hafnar, og hefur okkur verið tjáð af vitamálaskrifstofunni, að það hafi verið af misgáningi, að það var ekki gert. Var því talið óumflýjanlegt að sinna þessu máli.

Þá er loks lagt til að veita smáfjárveitingar til nokkurra staða, það eru bæði svokallaðar ferjubryggjur og nokkrar smábryggjur. Þetta mál var einnig látíð bíða við 2. umr. og er nú tekið hér upp. Þetta nemur samtals 89 þús. kr., og sé ég ekki ástæðu til þess að skýra það nánar.

Við 2. umr. fjárlagafrv. var lagt til að hækka liðinn „styrkir til námsmanna og áhugamanna í sambandi við flugþjónustuna“. Var liðurinn þá hækkaður um 40 þús. kr. Mjög miklar áskoranir hafa komið til n. frá flugmálastjórninni um að hækka þennan lið enn frekar, og hefur nefndin ekki talið óeðlilegt, að það væri gert, ekki sízt með hliðsjón af því, að þessi mikla atvinnugrein, flugið, er rekin án þess að þar sé haldið uppi af ríkisins hálfu nokkru skólahaldi sérstöku til þess að mennta flugmenn, og hvílir flugið að þessu leyti ekki þungt á herðum ríkisins. Er því naumast með sanngirni hægt að hafa á móti því að verja nokkru fé til þess að styrkja námsmenn og starfsemi áhugamanna í þessu sambandi. Ég skal taka það sérstaklega fram, að það hefur borizt til n. sérstök umsókn frá flugskóla, sem hér starfar, Þyt, um að fá nokkurn styrk, og er gert ráð fyrir, að flugskóli þessi fái 10 þús. kr. af þessari hækkun.

Þá er lagt til að hækka lítillega fjárveitingu til kennaraskólans, annan kostnað, og enn fremur til bændaskólans á Hólum, þar verði tekinn upp nýr liður, til tilrauna 30 þús. kr., sem er í samræmi við það, sem gert var við bændaskólann á Hvanneyri og tekið var upp við 2. umr.

Þá kem ég hér að einu atriði, sem er einn af stærstu liðunum, sem nú eru brtt. gerðar um, en það eru skólamálin. Það var tekið fram af hálfu n. við 2. umr., að það mál væri enn þá óafgreitt. Svo sem hv. þm. er kunnugt, var samþykkt á síðasta þingi sérstök löggjöf um fjármál skóla, og var gert ráð fyrir að taka upp nokkuð nýja skipan, annars vegar að skera alveg í sundur á þann hátt, að þær skuldir, sem safnazt hefðu fyrir, yrðu borgaðar niður með sérstakri fjárveitingu, en allar framkvæmdir, sem unnið yrði að, eftir að lög þessi tækju gildi, skyldu teknar upp í fjárlög og veitt sérstaklega fé til hverrar einstakrar framkvæmdar, en það hefur ekki áður verið gert, heldur veitt fé til skólanýbygginga á einum lið. Þetta er sem sagt í fyrsta sinn, sem þessi sundurliðun er tekin inn í frv., og hefur n. nú sundurliðað þetta sem bezt til leiðbeiningar fyrir hv. þm., þar sem hér er um nýbreytni að ræða, svo að menn gætu sem bezt áttað sig á þessu. Það var þegar ljóst, þegar n. tók að athuga þetta mál, að fjárveiting sú, sem gert var ráð fyrir í frv., var allsendis ónóg, til þess að hægt væri að fylgja þeirri reglu að leyfa ekki skólabyggingar að nokkru ráði umfram það, sem svaraði þeirri fjárveitingu, sem veitt væri á hverjum tíma, þannig að ekki héldu áfram að safnast skuldir. Niðurstaðan hefur orðið sú, að lagt er til, að fjárveiting til nýbyggingar skóla hækki um 3 millj. kr., og er þá talið auðið að verja fé til ýmissa nýrra framkvæmda á þessu sviði, sem óumflýjanlegar eru taldar.

Þá er lagt til að hækka um 800 þús. kr. fjárveitingu til þess að greiða áfallnar skuldir, en þær nema nú um 16.5 millj. kr., sem skiptast þannig, að skuldir vegna barnaskólabygginga eru um 13.6 millj., skuldir vegna gagnfræðaskóla 1.9 millj. kr. og vegna húsmæðraskóla 1 millj. kr. En auk þessarar fjárveitingar hefur verið lagt til af ríkisstj. og till. borin fram um það af hæstv. fjmrh. á sérstöku þskj., að 1.5 millj. kr. verði af greiðsluafgangi ársins 1955 varið í þessu skyni, þannig að fjárveitingin til þess að greiða gamlar skólaskuldir er þannig hækkuð um 2.3 millj. kr. Með þessari fjárveitingu á að vera hægt að greiða um 20% af skuldunum, en að því var einmitt stefnt með frv. um fjármál skóla, að hægt væri að greiða hinar áföllnu skuldir niður á 5 árum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í að skýra einstaka liði, hvernig fjárveitingunni er skipt milli skólanna. Ég skal aðeins geta þess, að það hefur verið reynt að fylgja þar ákveðnum hlutföllum, þannig að sem jafnastur hluti af kostnaði við framkvæmdirnar á þessu ári yrði greiddur, svo að réttlæti væri þar á milli. Þetta virðist eina haldbæra leiðin til skiptingarinnar, úr því að ekki er hægt, því miður, að greiða að fullu þann kostnað, sem talið er að verði hluti ríkissjóðs af þessum framkvæmdum í ár. Ég læt þá útrætt um skólana.

Það er lagt til að verja 200 þús. kr. til byggingar fjóss og hlöðu á Laugarvatni. Gert er ráð fyrir, að þessi framkvæmd kosti um 400 þús. kr., og talið, að þar sem útihús þessi séu orðin óviðunandi, verði því ekki frestað að ráðast í þessar byggingar.

Þá er lagt til að verja 60 þús. kr. til hitaveituframkvæmda við Löngumýrarskóla. Það er kvennaskóli, sem er einkastofnun, ekki rekinn af ríkinu, en hefur hlotið styrk. Þetta er helmingur af kostnaði við hitaveituheimtaugina þangað, og þótti sanngjarnt að hlaupa þarna undir bagga á þennan hátt.

Þá er tekin upp fjárveiting til sundlaugarbyggingar á Akureyri, 45 þús. kr. Það hafði fallið niður af misgáningi. Í fyrra var gert ráð fyrir að verja 90 þús. kr. í þessu skyni, sem byggist á því, að á móti fái ríkisskólar þar ókeypis aðgang að sundlauginni. Var þá tekinn upp helmingur fjárveitingarinnar, en ætlunin að taka helminginn upp á fjárlög ársins 1956, en það hafði láðst.

Þá er lagt til að hækka styrkinn til Íþróttasambands Íslands um 35 þús. kr. Hann var 40 þús. kr. Styrkurinn til Ungmennafélags Íslands var hækkaður allmikið við 2. umr., eða upp í 75 þús. kr., og sótti Íþróttasambandið mjög á að fá hækkun á sínum styrk, og þótti sanngjarnt, að styrkurinn yrði jafn hjá þessum tveimur samtökum.

Þá er smávægileg fjárveiting til íþróttakennara eins, sem er að hætta störfum.

Þá er lagt til að verja 50 þús. kr. til þess að lækka byggingarskuldir stúdentagarðanna. Í fjárlögum yfirstandandi árs eru veittar 100 þús. kr. í þessu skyni. Skuldirnar voru þá um 300 þús. kr., og er Görðunum algerlega um megn að standa undir þessum skuldum eða greiða þær niður, þeir gera ekki betur en standa undir sínum rekstrarkostnaði, þannig að sanngjarnt þótti að reyna að létta þessum skuldum af þeim, ekki sízt vegna þess, að þessar byggingar báðar hafa verið byggðar án þess, að um miklar fjárveitingar úr ríkissjóði væri að ræða til þeirra.

Þá er lagt til að veita stúdentaráði háskólans 20 þús. kr. styrk vegna fyrirhugaðra stúdentaskipta við Bandaríkin, sem er áformað að verði á þessu ári.

Enn fremur er lagt til að hækka nokkuð fjárveitingu til landsbókasafnsins til bókakaupa, eða um 35 þús. kr., og að taka upp sérstakan lið til landsbókasafnsins í því skyni að gera mikrófilmur af handritum, sem er talin mjög góð leið til þess að varðveita handrit, og auk þess fer miklu minna fyrir slíkum filmum. Hefur slíkt verið víða tekið upp, og er lögð á það mikil áherzla af landsbókasafninu, að æskilegt væri að geta hafizt handa um slíka framkvæmd hér. Er lagt til, að 25 þús. kr. verði í þetta sínu varið til slíkrar filmunar.

Óskir höfðu borizt til nefndarinnar um fjárveitingu til þess að styrkja byggingu bókasafns. Á fjárlagafrv. var 50 þús. kr. fjárveiting til þess að styrkja bókasöfn og lesstofur eða stofnkostnað þeirra. N. taldi ekki fært að fara að taka upp fjárveitingu til einstakra bygginga, en leggur til, að liðurinn verði hækkaður um helming, eða um 50 þús. kr.

Þá er lagt til, að fjárveiting til skálda, rithöfunda og listamanna hækki sem svari 10%, eða úr 902 þús. upp í 992 þús. kr., og að sama hækkun verði gerð á fjárveitingu til vísinda- og fræðimanna. Gunnar Gunnarsson hefur að undanförnu hlotið sérstök heiðursverðlaun af þessu fé og verið ákveðið, hvað þau laun skyldu vera há. Nefndin leggur nú til, að Halldór Kiljan Laxness fái sams konar heiðurslaun og verði laun hvors um sig 33220 krónur. Hefur það verið hækkað einnig hlutfallslega um 10% eins og heildarfjárveitingu.

Það hefur verið mjög mikið sótt á um það að fá hækkaðan styrkinn til leiklistar, og það hefur jafnframt verið á það bent af Bandalagi íslenzkra leikfélaga, að eðlilegast væri e. t. v. að taka upp einn lið, sem bandalaginu yrði síðan ætlað að ráðstafa milli félaganna. Þetta getur mjög vel komið til athugunar, því að það er vitanlega ekki öllu réttlæti fullnægt, þó að nokkur leikfélög séu tekin hér inn í fjárlögin, og alls ekki athugað neitt til hlítar, hvað mikil starfsemi þessara félaga er. Vafalaust er hún mjög misjöfn, þannig að mjög gæti verið æskilegt að endurskoða þetta mál og reyna að finna nýja tilhögun á þessum styrkjum. Hitt er augljóst, að það er brýn nauðsyn að reyna að styrkja þessi leikfélög úti á landi, sem víðast hvar eiga við mikla örðugleika að stríða. N. leggur nú til, að styrkir til þessara leikfélaga verði almennt 5 þús. kr., sem er vissulega ekki mikil upphæð, en hækkunin aðeins til þess að sýna nokkra viðurkenningu á þessu starfi, og að nokkur hækkun verði einnig til Bandalags íslenzkra leikfélaga, um 15 þús. kr., og er þá gert ráð fyrir, að það verði fyrst og fremst lögð áherzla á að reyna að styðja leikfélögin úti á landi og þá ekki hvað sízt að leiðbeina þeim félögum, sem ekki njóta neins styrks af ríkisfé. Hins vegar væri mjög æskilegt, að þetta mál allt yrði tekið til nánari athugunar, áður en næstu fjárlög verða afgreidd.

Þá er lagt til að veita lúðrasveit Siglufjarðar 8 þús. kr. til hljóðfærakaupa, sem er í samræmi við það, sem aðrar lúðrasveltir hafa fengið.

Loks eru nokkrir námsstyrkir, sem ég sé enga ástæðu til þess að vera að eyða orðum að, smávægilegur styrkur til félagsins Germaníu vegna sýningar á íslenzkum málverkum í Þýzkalandi, sem er hluti af halla, sem varð af þeirri sýningu, og smáfjárveitingar til tveggja minningarlunda, sem ákveðið hefur verið að koma á fót.

Þá er nokkur hækkun til iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans, þ. e. laun skrifstofustúlku eða vélritunarstúlku, sem óumflýjanlegt er talið að bæta þar við.

Loks er lagt til að hækka um 60 þús. kr. fjárveitingu til sjómælinga, og er sú viðbótarfjárveiting sérstaklega við það miðuð, að nú hefur öll gerð sjókorta verið flutt inn í landið og það er mikil vinna, sem fram undan liggur við prentun og útgáfu þessara korta, og óumflýjanlegt þess vegna að auka nokkuð fjárveitingu í þessu skyni. Hins vegar er það ekkert áhorfsmál, að hér sé um mjög þýðingarmikið verk að ræða, sem ég hygg, að allir hv. þm. séu sammála um, að mjög hafi vel farið á, að var auðið að flytja inn í landið, enda hefur að undanförnu orðið að greiða allverulegar fjárhæðir út úr landinu í gjaldeyri til þess að fá gerð þau kort, sem gera hefur þurft.

Þá er nokkur hækkun á fjárveitingu til Búnaðarfélags Íslands, og nokkru síðar er hækkun til Fiskifélags Íslands. Hvor tveggja þessi hækkun stafar af því, að hækkun launalaga leiðir vitanlega af sér, að starfsmenn þessara stofnana hækki einnig, enda þótt þeir séu ekki í launalögum, en fyrir þeirri hækkun var ekki gert ráð í fjárhagsáætlun þessara stofnana, sem fjárlagatillögurnar eru miðaðar við, og því talið óumflýjanlegt að gera hér nokkra hækkun.

Þá er lagt til að hækka nokkuð liðinn til varahlutakaupa í sambandi við rekstur landbúnaðarvéla ríkisins, og er sú hækkun aðallega gerð vegna þess, að það er mjög mikil nauðsyn að koma upp verkstæði yfir varahluti og vélar. Það er algerlega óviðunandi húsakostur, sem þessi stofnun hefur nú, og verður auk þess að flytja þaðan, þannig að óumflýjanlegt er að gera einhverjar ráðstafanir til þess að skapa henni viðunandi aðstöðu. Er lagt til, að 200 þús. kr. verði veittar í því skyni.

Þá hefur það komið í ljós, að fjárveiting sú, sem ætluð er til kaupa á jarðræktarvélum, er algerlega ófullnægjandi, og ef ekki á að verða allverulegur samdráttur í þeim framkvæmdum, þá er ekki um annað að ræða en að verja allmiklu auknu fé til þeirra. Jarðræktarvélarnar hafa hækkað í verði, og það verða ekki margar vélar keyptar fyrir eina milljón, en lagt er til, að þessi liður verði nú hækkaður um helming, eða úr 1 millj. upp í 2 millj., til þess að ekki þurfi að verða um samdrátt að ræða í þessum mikilvægu framkvæmdum.

Þá er lagt til, að framlag til ræktunarsjóðs hækki um 1.1 millj., sem byggist á því, að það hafði ekki verið athugað, að samþykkt voru á Alþ. í fyrra lög, sem kváðu svo á, að framlagið skyldi verða þetta hátt, og auðvitað ekki um annað að ræða en að taka inn fjárveitingu í fjárlagafrv. í samræmi við það.

Þá er lagt til, að fjárveiting til sandgræðslustöðva hækki um 200 þús. kr. vegna aukinna framkvæmda, sem talin er þar mikil nauðsyn á, og að fjárveiting til skógræktarfélaga hækki um 75 þús. kr., þ. e. sá liður fjárveitingar til skógræktarinnar, sem gefur mest af sér, vegna þess að aðstoð við skógræktarfélögin er mjög mikils virði og skilar margföldu því fé, sem til þeirra er lagt, í því starfi, sem lagt er fram ókeypis af félögunum, og því sjálfsagt að reyna að stuðla að því að efla þau.

Þá er smávegis hækkun á „öðrum kostnaði“ veiðimálaskrifstofunnar, smáfjárveiting til Landssambands íslenzkra hestamannafélaga og 10 þús. kr. fjárveiting í því skyni að veita einum bændahöfðingja, Birni Hallssyni á Rangá, nokkra viðurkenningu. Er gert ráð fyrir, að það sé veitt í eitt skipti.

Þá er lagt til að hækka fjárveitingu til fiskimiðaleitar um helming, eða um 250 þús. kr. Þessi leit er mjög mikilvæg og hefur þegar skilað góðum árangri og nauðsynlegt að efla hana sem mest, og því er lagt til, að þessi aukning verði á fjárveitingu til hennar.

Þá er nýr liður, sem snertir nánast kjarnorkumál. Það er lagt til að veita 250 þús. kr. til undirbúningsrannsókna í sambandi við möguleika á framleiðslu á þungu vatni hér á Íslandi, og er gert ráð fyrir, að þetta verði á vegum jarðboranadeildar raforkumálaskrifstofunnar og rannsóknaráðs ríkisins. Það hafa þegar verið gerðar nokkrar athuganir í þessu sambandi og hafa þær leitt í ljós, að sérfræðingar þessara stofnana telja rétt að halda rannsóknum áfram og koma upp smátilraunaverksmiðjum í þessu skyni til þess að sannprófa það, hversu hagkvæmt þetta geti orðið. Það er augljóst mál, að ef þetta gefur góða raun, gæti hér orðið um mjög mikilvæga framleiðslu að ræða, því að 1 kg af þungu vatni kostar nú 1000 kr. Ég ætla ekki að fara út í tæknilegar hliðar þessa máls, en ætlunin er aðallega að gera nú tilraunir með framleiðslu á þessu í sambandi við jarðhita, og einnig kemur auðvitað til athugunar framleiðsla í sambandi við raforku. En n. taldi sjálfsagt að reyna að stuðla að því, að kannað yrði til hlítar, hvaða möguleikar væru á þessu, þar sem svo mikið væri í aðra hönd, ef þetta reyndist vel.

Þá kem ég að einum liðnum, sem sérstaklega var tekið fram við 2. umr. að þyrfti nánari athugun eða mætti gera ráð fyrir að þyrfti að verja mjög auknu fé til, en það eru almannatryggingarnar. Á fjárlögum þessa árs voru veittar 6 millj. kr. til þess að greiða rekstrarhalla trygginganna. Sú fjárhæð var felld niður í fjárlagafrv. nú, en athugun á þessu máli hefur leitt í ljós, að það er síður en svo, að afkoma trygginganna hafi batnað það, að auðið sé að fella þetta niður, heldur þvert á móti er gert ráð fyrir, að rekstrarhallinn verði á árinu 1956 yfir 11 millj. kr. Og enda þótt gert sé ráð fyrir að mæta þessum halla að nokkru með framlagi frá tryggingunum sjálfum úr þeirra varasjóðum, þá er ekki talið mögulegt að leggja það á tryggingarnar allt og verði því að taka upp viðbótarframlag einnig nú. Er lagt til, að það verði 6.2 millj. kr.

Þá liggur ljóst fyrir, að hinar föstu fjárveitingar, sem veittar eru til trygginganna, eru einnig of lágar, með hliðsjón af þeim breytingum, sem þegar hafa verið gerðar á tryggingalögunum. Það liggur víst ekki ljóst fyrir, að hve miklu leyti breytingar kunna að verða frekar í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Það er nokkur missögn í grg. n., því að þessi hækkun mun ekki stafa af væntanlegri hækkun vegna þeirra laga, ef sett verða, heldur vegna breytinga, sem gerðar voru á tryggingalögunum nú fyrir áramótin, þannig að það liggur þegar fyrir, að þessi hækkun hlýtur að verða. Og það er talið óumflýjanlegt í sambandi við þetta að hækka fyrri liðinn til trygginganna um 2.1 millj. kr. og auk þess að hækka áætlað framlag til sjúkrasamlaganna um 1.3 millj. Er því lagt til af n., að þessi hækkun verði gerð, og nemur þetta því samtals 9.6 millj. kr., sem hækka verður samkv. þessu fjárveitingar til Tryggingastofnunarinnar.

Þá er lagt til að gera smávægilega hækkun á fjárveitingum til elliheimilanna, þ. e. að hvert þeirra um sig hækki um 10 þús. kr.

Þá er lagt til að styrkja með 50 þús. kr. heimtaug til barnaheimilisins Sólheima í Grímsnesi. Það er einkastofnun, og var fylgt sömu reglu þar hjá n. og við fjárveitingu til Löngumýrarskóla að taka upp helming af þessum kostnaði.

Þá er þriðji stórliðurinn. Það er framlagið til atvinnuleysistrygginga. Þau lög hafa enn ekki verið sett og því ekki nákvæmlega hægt að sjá fyrir, hvað há útgjöld það verða, en eftir því sem næst verður komizt, er talið óumflýjanlegt að taka upp 7 millj. kr. í þessu skyni. Er það þó ekki nema hluti af þeim útgjöldum, sem verða munu útgjöld ríkissjóðs til trygginganna, sem stafar af því, að fyrir hendi munu vera nokkrar milljónir króna til þess að greiða upp í þetta framlag. Er því talið, að verða muni nægilegt að taka upp þessar 7 millj. nú.

Þá koma loks allmargir liðir varðandi 18. gr., þ. e. a. s. eftirlaunagreinina. 18. gr. er, eins og oft hefur verið áður bent á af fjvn., hálfgert vandræðafyrirbrigði og auðvitað æskilegast að reyna að koma nýrri skipan á það mál. Hins vegar er það miklu víðtækara mál en svo, að fjvn. geti út af fyrir sig gert það, heldur verður hún nokkuð að þræða farnar slóðir með það, þar til heildarskipun kynni að verða á því gerð í sambandi við tryggingarnar, og hefur því sú leið einnig verið farin nú að taka upp þá embættismenn, sem hætt hafa störfum, og ekkjur embættismanna og áætla þeim nokkur eftirlaun og reynt eftir föngum að hafa hliðsjón af þeim eftirlaunum, sem fyrir eru í fjárlögunum til annarra hliðstæðra fyrrverandi embættismanna. Það er ákaflega erfitt fyrir hv. þm. að gera sér grein fyrir þessu máli með því að athuga þær tölur, sem þarna eru. Þær eru ákaflega misjafnar, og virðist eftir þeim, að mikið misræmi sé á milli manna. En sú er nú ekki reyndin á, vegna þess að hér verður að taka til greina, hvað embættismennirnir hafa úr eftirlaunasjóði og eftir öðrum leiðum, lögboðin eftirlaun, til þess að mynda sér skoðun um það, hvert samræmi er þarna á milli. Það, sem hér er tekið upp, er því aðeins mismunur, sem lagt er til að veita þessum mönnum til viðbótar hinum lögboðnu eftirlaunum. Nokkrir liðir falla niður, vegna þess að nokkrir þessara manna hafa látizt á árinu. Sé ég ekki þörf á að fara nánar út í þá sálma, nema sérstakt tilefni gefist til.

Þá er 72. brtt., sem er um að hækka um 400 þús. kr. grunnlaun og vísitöluuppbætur á lífeyri, sem leiðir einnig af þeim breytingum öðrum, sem gerðar hafa verið, og er óumflýjanlegt að taka upp vegna launalagabreytinga og breytinga, sem í samræmi við það verða einnig á lífeyri.

Þá er loks lagt til að taka upp 1.5 millj. kr. vegna afnáms vísitöluskerðingarinnar. Hún hafði gilt um nokkra hæstu launaflokkana, en hefur nú verið felld niður, og leiðir það af sér þennan útgjaldaauka.

Og þá kemur stærsta útgjaldatillaga nefndarinnar nú, sem er 23.5 millj. kr. og er afleiðing hinna nýju launalaga. Sé ég enga ástæðu til þess að ræða það mál nánar. Það hefur verið rætt allt í sambandi við launalögin, sem hafa verið endanlega afgreidd, og þá gerð grein fyrir því, hvaða áhrif þau mundu hafa, og auðvitað ekki annað fyrir hendi en að taka þeim afleiðingum og verja fé sem því nemur.

Þá er lagt til að hækka fjárveitingu til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana um 1 millj. kr. Þar er mikil bygging í smiðum, sem brýn nauðsyn er að koma áleiðis og a. m. k. koma undir þak, og er talið óumflýjanlegt að hækka fjárveitinguna sem þessu nemur, til þess að það verði auðið. Einkum er mjög mikilvægt að koma áleiðis hjúkrunarkvennaskólanum, sem á að hafa aðsetur í þeirri byggingu.

Við 2. umr. fjárlagafrv. gat ég þess, að það horfði mjög illa varðandi flugmálin, að það mundi verða mun minna á þessu ári, sem hægt væri að framkvæma, heldur en undanfarin ár, vegna þess að nú er gerð sú breyting á, að heimildin á 22. gr. er miðuð við það, að afgangsfé sé notað árið eftir að það fellur til, sem veldur því, að flugmálin hafa ekki á þessu ári neinu slíku fé yfir að ráða. Fjárveitingin í frv. er 2.5 millj., en af því mun þegar vera ráðstafað um 1 millj. kr., þannig að eftir var ekki nema um 1½ millj. Vissulega væri mikil þörf á að auka verulega fjárveitingu til flugmálanna og flugvallagerðar, þar sem síaukin eftirsókn er eftir því að koma upp flugvöllum og þetta eru dýrar framkvæmdir og flugið hins vegar að verða æ stærri þáttur í samgöngum landsmanna. Meiri hl. n. leggur til, að þessi fjárveiting verði hækkuð um 1 millj. kr., eða upp í 3.5 millj. Flugið hefur ekki verið mikill baggi á ríkissjóði, og skal ég aðeins til gamans geta þess, að samkvæmt skýrslu, sem flugmálastjóri hefur látið fjvn. í té, hefur fjárfesting í fluginu síðustu 10 árin, sem veitt hefur verið fé til, numið rúmum 26 millj. kr., en á sama tíma er talið, að gjaldeyristekjur vegna flugsins hafi orðið 76 millj. Þannig fer því fjarri, að hér sé um bagga að ræða á ríkinu, nema síður sé, auk þeirrar mikilvægu þjónustu, sem hér er veitt við alla þjóðina. Það er íhugunarefni, sem verður að taka til nánari athugunar, hvernig leyst varði betur fjárþörf flugsins, því að eftir áætlun, sem gerð hefur verið af flugmálastjórninni, er gert ráð fyrir, að á næstu 10 árum þurfi að veita til brýnnar fjárfestingar í sambandi við flugið um 250 millj. kr., eða um 25 millj. kr. á ári.

Til viðbótar þessari 1 millj., sem lagt er til að hækka fjárveitingu til flugvallagerða, er lagt til að taka upp nýja fjárveitingu til sjúkraflugvalla og verði varið 500 þús. kr. í því skyni, þannig að raunverulega hækkar fjárveitingin til flugmálanna um 1½ millj.

Þá er lagt til að hækka fjárveitingu til bygginga á prestssetrum um 200 þús. kr. Þar er fjárveitingin alltaf á eftir, og er mikið þar á sótt og sífelld vandræði með að verða við þeim óskum, sem þar berast um framkvæmdir.

Þá er lagt til, að fjárveiting til lögreglustöðvar í Reykjavík hækki um 150 þús. kr. Þar er um mjög brýna framkvæmd að ræða, sem þörf er á að ýta sem fyrst áleiðis, og yrði þá sú fjárveiting 1 millj. í ár. Þá er lagt til að veita 250 þús. kr. til útihúsabygginga við vinnuhælið á Litla-Hrauni. Þessar byggingar munu þegar hafa verið reistar, en fé vantar til þess að greiða kostnaðinn.

Þá er lagt til að heimila ríkisstj. að verja afgjöldum af löndum ríkisins í Hveragerði til hitaveituframkvæmda þar í hreppnum. Það er nú unnið að því að koma upp mikilli hitaveitu fyrir hreppinn og skipuleggja það betur en verið hefur. Það er fordæmi fyrir því, að heimilað hafi verið að verja afgjöldum ríkislanda til mikilvægra framkvæmda í viðkomandi byggðarlagi, og þykir því sanngjarnt að verða við þessari ósk.

Felld var niður við 2. umr. fjárveiting til tóvinnuskólans á Svalbarði, þar sem sú starfsemi væri hætt. Hins vegar er n. tjáð, að ætlunin sé að taka upp hliðstæða kennslu við kvennaskólann á Blönduósi, og er lagt til, að heimilað verði að verja 15 þús. kr. til þeirrar starfsemi, ef hún kemst af stað.

Til fjvn. bárust mjög eindregin tilmæli frá stjórn kirkjubyggingasjóðs um að auka fjárveitingu til sjóðsins. N. taldi ekki auðið að hækka þessa fjárveitingu, enda eru nýsett lög um sjóðinn og þar ákveðið, hve hátt framlag ríkisins skuli vera árlega. Hins vegar var n. fullkomlega ljóst, að hér væri um allsendis ófullnægjandi fjárupphæð að ræða, og til þess að veita nokkra úrbót og greiða fyrir því, að hægt væri að koma þessum málum betur áleiðis, er lagt til að veita ríkisstj. heimild til að ábyrgjast lán fyrir kirkjubyggingasjóð, allt að 500 þús. kr., í trausti þess, að kirkjumálastjórnin eigi það góða vini í lánsstofnunum, að hún geti fengið þetta fé að láni.

Þá er 83. till. n. um það að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir Siglufjarðarkaupstað allt að 1 millj. kr. rekstrarlán vegna síldarverksmiðjunnar Rauðku. Þessi heimild mun raunar þegar hafa verið notuð, en að sjálfsögðu nauðsynlegt að fá heimild til staðfestingar slíku, og er því lagt til, að þessi heimild verði veitt.

Þá er enn fremur lagt til að veita ríkisstj. heimild til að ábyrgjast lán til útvegsmanna vegna tjóna, sem verði af svokölluðum þurrafúa í fiskiskipum, allt að 1.3 millj. kr. Í fjárl. yfirstandandi árs er heimild um 2 millj. kr. í þessu sama skyni. Sú fjárhæð mun ekki öll hafa verið notuð, en talið þó nauðsynlegt að bæta nokkru við, þar sem skemmdir hafa komið fram í fleiri skipum og hér um tjón að ræða, sem er mjög óvænt og ekki líklegt að útvegsmenn geti staðið undir án sérstakrar aðstoðar, ef það kemur fyrir, og er því lagt til, að heimildin sé miðuð við 1.3 millj. kr. á þessu ári.

Þá er lagt til enn fremur að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 1 millj. kr. lán fyrir h/f Kol í sambandi við kolavinnslu á Skarðsströnd. Að þessu hefur verið unnið undanfarin ár og nokkrar fjárveitingar veittar í þessu sambandi. Áformar nú hlutafélagið að gera stórvirkari framkvæmdir þar og framleiðslu, og er lagt til að veita því aðstoð á þennan hátt.

Þá kemur loks sérstök heimild vegna ráðstafana ríkisstj. í sambandi við óþurrkana á Suður- og Suðvesturlandi á s. l. sumri, og er sú heimild í þrennu lagi: Í fyrsta lagi að heimila ríkisstj. eða ríkissjóði verði heimilað að lána bjargráðasjóði allt að 10.5 millj. kr. til þess að veita bændum á þessu svæði lán til fóðurbætiskaupa aðallega. Í öðru lagi að verja allt að 700 þús. kr. til þess að styrkja heyflutninga inn á þessi svæði, sem fram fóru í haust. Og í þriðja lagi að greiða Sláturfélagi Suðurlands 250 þús. kr. vegna sérstaks vaxtakostnaðar félagsins í sambandi við hin óvenjulegu kaup á sláturpeningi s. l. haust. Ég sé, ekki ástæðu til þess að rekja þetta nánar. Sé óskað nánari upplýsinga um, hvernig þessu er fyrir komið, þá munu þær að sjálfsögðu verða veittar.

Þá er nýr liður um að lána h/f Baldri í Stykkishólmi allt að 200 þús. kr. vegna stofnkostnaðar flóabáts. Þessi beiðni lá fyrir samvinnunefnd samgöngumála einnig, en var ekki talið mögulegt að sinna henni þar. Síðari athugun hefur leitt í ljós, að það muni leiða til mikilla vandræða, ef ekki sé hægt að útvega þetta fé. Það var veitt heimild í fjárl. þessa árs til að ábyrgjast lán, en það mun ekki hafa verið auðið að fá slíkt lán og því talið óumflýjanlegt að fara þessa leið til að koma í veg fyrir, að þessi bátur þurfi að hætta störfum.

Þá er enn fremur lagt til að heimila ríkisútvarpinu að verja allt að 1.1 millj. kr. af tekjuafgangi sínum til að bæta hlustunarskilyrði á Austfjörðum. Það hefur verið mjög miklum erfiðleikum bundið að undanförnu og er enn að hlusta á útvarp á Austfjörðum vegna mikilla truflana frá erlendri útvarpsstöð, og hefur að undanförnu verið unnið að því af hálfu útvarpsins að kanna, hvaða leiðir væru tiltækilegastar til að bæta hér úr, og telja sérfræðingar þess, að fundnar séu leiðir, sem líklegar séu til úrbóta, og að það muni kosta rúma 1 millj. kr. að koma þeim úrbótum á. Hér er ekki um neina beina fjárveitingu að ræða úr ríkissjóði, heldur aðeins um það að ræða að heimila útvarpinu að nota af sínu framkvæmdafé 1.1 millj. kr. í þessu skyni.

Starfsemi tilraunastöðvar háskólans í meinafræði að Keldum hefur farið vaxandi að undanförnu, og framleiðsla þýðingarmikilla bóluefna hjá stöðinni hefur aukizt mjög. Þetta hefur leitt af sér það, að þörf er á því að hafa þar mun meira af búpeningi en hefur verið að undanförnu, og eru orðin þar alger vandræði vegna skorts á landrými. Hefur verið athugað með möguleika á að fá keypta jörð þar í nágrenninu, og mun vera auðið að fá keypta jörðina Grafarholt, ef saman gengur með verð á þeirri jörð, og er nú lagt til að veita ríkisstj. heimild til að kaupa þessa jörð handa tilraunastöð háskólans, þar sem n. hefur sannfærzt um það, að hér sé um mikilvæga og raunar óumflýjanlega ráðstöfun að ræða til þess að tryggja viðunandi starfsskilyrði fyrir þessa mikilvægu stofnun.

Þá er loks lagt til, að breytt verði 23. gr. frv. á þann hátt, að hækkuð verði uppbótin á lífeyri og eftirlaun úr 20% í 30%, og er það gert með hliðsjón af þeim hækkunum, sem orðið hafa í sambandi við launalögin, en meðalhækkun þar var talin um 10%. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því, að skerðingarmarkið hækki og að í staðinn fyrir 20 þús. komi 30 þús. kr., sem þetta skuli greitt á.

Ég hef þá lokið að gera grein fyrir útgjaldatill. n., en skal aðeins geta þess, að ekki er óhugsandi, að nokkrar till. kunni enn að koma frá n., áður en þessari umr. lýkur, og verður þá sérstaklega gerð grein fyrir þeim.

Samkvæmt þessum gjaldatill. n. hækka gjöldin við þessa umr., ef þessar till. verða samþ., um 53 millj. kr. Hér kemur þó nokkur frádráttur, sem er aðallega á einum lið. Það eru smálækkanir á 18. gr., vegna þess að niður falla þar eftirlaun til fólks, sem látizt hefur, en lækkunartill. n. eru samtals rúmar 6.3 millj. kr., svo sem sést á yfirlitinu í framhaldsnál., og er aðallækkunin, eða 6.3 millj. kr., komin til af því, að í frv. er gert ráð fyrir, að 6.3 millj. kr. verði notaðar af tekjuafgangi tóbakseinkasölu ríkisins til þess að greiða uppbætur á Faxasíld. Nú er gert ráð fyrir, að stofnaður verði sérstakur sjóður til þess að standa undir aðstoð við útflutningsframleiðsluna og þá ætlazt til þess, að úr þeim sjóði verði einnig greiddar þessar uppbætur. Framlagið til útflutningsuppbótasjóðs eða hvaða nafn hann nú kann að hljóta er því fellt niður, og veldur þetta því, að útgjöldin lækka að þessu leyti um 6.3 millj. kr. Verður því gjaldahækkunin á frv., miðað við tillögur nefndarinnar, samtals 46.8 millj. kr. rúmar.

Þá kem ég aftur að tekjuhliðinni.

Það var tekið fram við 2. umr., að n. mundi endurskoða tekjuáætlunina, þegar fyrir lægi endanlega afkoma ársins, ef fjárl. yrðu ekki afgr. fyrr. Endanleg afkoma ársins liggur nú fyrir, og kemur í ljós, að hún er sízt betri en gert var ráð fyrir við 2. umr. frv. Var þá miðað við útkomuna eins og hún var 1. nóv. Áætlað var, að tekjur ríkissjóðs í ár kynnu að verða um 633 millj. kr., og samkvæmt yfirlitinu, sem nú liggur fyrir, eru tekjurnar nokkuð innan við þessa upphæð, eða um 626 millj. kr. En það má gera ráð fyrir því, eftir því sem varð á s. l. ári, að nokkrar milljónir kunni að falla til, þannig að tekjurnar verði svipaðar og meiri hl. n. áætlaði, að þær mundu verða, eða um 633 millj. kr.

Það mun vera flestum ljóst, að eins og ástatt er með gjaldeyrismál þjóðarinnar, séu litlar líkur til þess, að hægt verði að flytja sama vörumagn inn á komandi ári og nú hefur verið gert í ár, og þessar miklu tekjur nú stafa fyrst og fremst af því, vegna þess að gjaldeyrisforði þjóðarinnar hefur verið skertur allmjög, þannig að frá því að var allmikil gjaldeyriseign, eða um 100 millj. kr., um næstsíðustu áramót, þá er nú komin gjaldeyrisskuld, þannig að hagur bankanna að þessu leyti mun hafa versnað um 130 millj. kr. eða meir. Að vísu hefur verið nokkru meira af vörubirgðum eftir í landinu um síðustu áramót, en ekki sem þessu næmi, þannig að augljóst er, að ef ekki kæmu til einhverjar óvæntar gjaldeyristekjur á árinu, þá er óumflýjanlegt, að innflutningur muni dragast saman eitthvað, og þess er enn fremur að gæta, að verulegur búhnykkur hefur orðið fyrir ríkissjóðinn hinn mikli innflutningur bifreiða, sem var á s. l. ári og hefur skilað um 40 millj. kr. í tekjur í ríkissjóð, og engar líkur til, að sami innflutningur verði á næsta ári, og koma þá a. m. k. í staðinn vörur, sem munu gefa ólíkt minni tekjur en bílarnir gera, þar sem auk tollanna af þeim er sérstakt leyfisgjald, sem rennur í ríkissjóð.

Með hliðsjón af öllum aðstæðum verður því að teljast mjög ólíklegt, að tekjurnar geti orðið meiri á þessu ári en þær voru í ár. Að vísu er hægt að gera ráð fyrir því og nokkurn veginn víst, að beinir skattar hljóta að gefa meira af sér en í ár. Það sýnir þróunin undanfarin ár. Þetta ár hefur verið mjög mikið tekjuár og því líklegt, að tekjurnar verði nú mun meiri en á s. l. ári. En með hliðsjón af því, að horfur eru á, að innflutningurinn hljóti að dragast allmikið saman, þá verður þó naumast með nokkurri skynsemi gert ráð fyrir því, að þessar auknu tekjur af beinum sköttum geri meira en að vega þar upp á móti, þannig að tekjuhorfurnar verði ekki meiri á næsta ári en þær eru í ár. Það hefur verið vakin athygli á því, og öllum hv. þm. er það kunnugt, að umframgreiðslur hafa alltaf verið töluverðar og svo að segja ætíð verið 7% eða meira, þó að við 2. umr. mundi hafa orðið tæplega 40 millj. kr. afgangur, ef gert væri ráð fyrir sömu tekjum ríkissjóðs á næsta ári og þær eru í ár og miðað við þau útgjöld, sem gert var ráð fyrir. Nú hefur þessi útgjaldaauki orðið nokkru meiri og horfurnar auk þess ekki þær, sem ég gat um, að líkur séu til, að þar verði um mikla aukningu að ræða. Engu að síður hefur verið við þessa umr. lagt til af meiri hl. n. að hækka enn tekjuáætlunina um 8 millj. kr., og hefur öll sú hækkun verið tekin af þeim liðnum, sem líklegast er að gefi einhverja hækkun á árinu, en það er tekju- og eignarskattur. Telur n. þá, að með tekjuáætlunina sé farið á yztu nöf, ef ekki kemur, eins og ég sagði, eitthvað alveg óvænt fyrir, sem verði sérstakur búhnykkur fyrir ríkissjóðinn á þessu ári, því að ef tekjurnar fara ekki allverulega fram úr áætlun, þá er augljóst, að greiðsluhalli hlýtur að verða hjá ríkissjóði, miðað við þær umframgreiðslur, sem jafnan hafa orðið.

Þá hefur enn fremur til tekjuöflunar verið ákveðið að gera tvær ráðstafanir. Önnur er sú að hækka burðargjöld póstsins. Það var bent á það af meiri hl. n. við 2. umr., að það væri óviðunandi, að þessi stofnun gæti ekki að verulegu leyti og helzt öllu leyti staðið undir útgjöldum sínum. Hefur nú verið ákveðið að gera breytingu á gjaldskrá póstsins, og er áætlað, að það muni gefa 1.4 millj. kr. í auknum tekjum hjá póstsjóði. Þá hefur jafnframt verið ákveðið að hækka símagjöld með hliðsjón af því, að þó að rekstrarafkoma símans sé að vísu góð, þá hefur hún versnað allverulega á s. l. ári og hlýtur að versna að miklum mun á þessu ári vegna launahækkananna, þannig að það hlýtur að leiða af sér stóraukin framlög úr ríkissjóði til fjárfestingarinnar, sem síminn hefur hingað til að töluvert miklu leyti staðið undir, ef ekki verður hækkun á tekjum símans, og er gert ráð fyrir, að áformaðar tekjuhækkanir hjá símanum af gjaldskrárhækkun muni skila á þessu ári um 3.6 millj. kr.

Samkvæmt þessu verða till. meiri hl. n. um tekjuhækkun samtals 13 millj. kr. Ef frv. verður afgr. í samræmi við þetta, þá mundi hér verða um allverulegan mismun að ræða, þ. e. a. s., að gjaldahækkunin við þessa umr. yrði þá um 3.1 millj. umfram tekjur, greiðsluhallinn eftir 2. umr. frv. var rúmar 11.7 millj. kr., og það vantar því rúmar 45.5 millj. til þess, að hægt verði að afgr. greiðsluhallalaus fjárlög. Því hefur hins vegar verið lýst yfir af ríkisstj., og það er eindregin skoðun meiri hl. fjvn., að ekki komi til neinna mála að afgr. fjárlagafrv. án þess, að það verði greiðsluhallalaust, og stendur því þingið andspænis þeim vanda, að nú verði að útvega eftir einhverjum leiðum nýjar tekjur í ríkissjóð, sem nemi þessari upphæð. Þetta mál er nú í athugun hjá hæstv. ríkisstj. og eru nú væntanlegar alveg á næstunni till. hennar um fjáröflun til þess að mæta þessum greiðsluhalla. Þær till. liggja enn ekki endanlega fyrir, þ. e. a. s., þeim hefur ekki verið útbýtt hér í Alþ., og af þeim sökum er ekki heldur af fjvn. gerð till. um það, hvernig eigi að mæta þessum greiðsluhalla, en eins og tekið er fram í framhaldsnál., áskilur n. sér rétt til þess, áður en þessari umr. lýkur, að bera fram brtt. við tekjubálk frv., sem muni mæta þessum greiðsluhalla, í samræmi við þær ráðstafanir, sem áformað verður að gera og mun verða gert með sérstökum lögum. Fyrr en þau lög hafa verið lögð hér fram og séð fyrir um það, hvaða afgreiðslu þau muni fá, er að sjálfsögðu ekki hægt fyrir n. að gera sér grein fyrir, hvaða tekjuauka megi vænta úr þeirri átt.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir till. meiri hl. fjvn. við þessa umr., að svo miklu leyti sem þær liggja nú fyrir. Ég mun síðar gera aths. við till. minni hl. n., sem þegar hefur verið útbýtt, og aðrar till., sem fram kunna að koma.

En ég vil nú leyfa mér, herra forseti, að venda mínu kvæði í kross og gerast talsmaður fyrir aðra n., þ. e. fyrir samvinnunefnd samgöngumála. Þannig vill til, að frsm. þeirrar n., hv. þm. N-Ísf. (SB) er staddur við skyldustörf í Norðurlandaráði, og bað hann mig að tala hér nokkur orð fyrir þeim till., en það hefur verið venja að undanförnu, að sú n. hefur skilað till. um fjárveitingar til flóabáta og vöruflutninga og fjvn. ekki haft sérstök afskipti af því máli.

Ég skal ekki eyða mörgum orðum um það mál. Það liggur fyrir frá n. mjög ýtarlegt nál. á þskj. 251, og er niðurstaðan af því áliti sú, að lagt er til að verja til flóabátanna og til vöruflutninga samtals 2 millj. 168 þús. kr., og er það 276500 kr. hærra en var í fjárl. þessa árs, en 468 þús. kr. hærra en er í fjárlagafrv., því að fjárhæðin hefur þar verið nokkuð lækkuð frá því, sem var í fjárlögum síðasta árs.

Það leiðir auðvitað af sjálfu sér og þarf ekki mikilla útskýringa við, að kostnaður flóabátanna hafi aukizt vegna vaxandi tilkostnaðar, og hefur n. því ekki talið auðið annað en að mæta þessum óskum um hækkun á styrk að nokkru leyti, en reynt þó að spyrna þar við fótum á öllum sviðum svo sem frekast hefur verið unnt, án þess að eiga á hættu, að þessi mikilvæga þjónusta legðist niður.

Hitt er vandamál, sem n. gerir sér mjög vel ljóst og auðvitað hlýtur að koma að fyrr en seinna, að þurfi að taka til rækilegrar athugunar, og það er, hvernig eigi að skipa þessum málum. Reyndin er nefnilega sú, að hagur flóabátanna fer sífellt versnandi, meira en nemur auknum tilkostnaði, vegna þess að notkun þeirra minnkar, sem stafar af því, að samgöngur eftir öðrum leiðum, bæði í lofti og á landi, hafa batnað, og það er því eiginlega nokkur kaldhæðni, að hinar bættu samgöngur skuli þannig verða til þess að auka þörfina fyrir útgjöld ríkissjóðs til samgöngubóta á öðrum sviðum. Hins vegar hefur samvinnunefndin talið, að málið væri þó ekki komið það langt áleiðis með hinar bættu samgöngur á öðrum sviðum, að hægt væri að leggja þessa báta niður, og hefur það verið nokkurn veginn samdóma álit allra og enda mjög harðvítug mótmæli jafnan borizt úr þeim héruðum, þar sem bátarnir hafa átt að veita þjónustu, ef till. hafa komið fram um að leggja báta niður. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum var sett n. til að rannsaka þetta mál. Hún lagði til, að tveir bátar hættu störfum, en það varð að gefast upp við þá sparnaðartilraun, vegna þess að það var svo mjög á það sótt og raunar með rökum á það bent frá viðkomandi aðilum, að það væru ekki komnar í það lag samgöngur í þeim héruðum, að það væri auðið að leggja slíka báta niður. Þess vegna hefur þessu verið haldið áfram með sívaxandi útgjöldum úr ríkissjóði vegna aukins rekstrarhalla bátanna, og eins og ég áðan sagði, þá er mikil nauðsyn orðin á því, að það verði tekið til athugunar með þessi samgöngumál yfirleitt, hvort ekki megi finna á þessu einhverja betri og hagkvæmari skipan og að fá þarna meiri samræmingu á milli einstakra þátta samgangnanna.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess, held ég, að vera að rekja þessar einstöku till., vegna þess að það er gerð grein fyrir þeim mjög ýtarlega í nál. og tekið fram, hvar um hækkun sé að ræða, og um lækkun er því miður hvergi að ræða.

Ég skal taka það fram sérstaklega varðandi tvö atriði í þessum till., að þar er um að ræða allverulega aukningu til útgerðarinnar. Þar er annars vegar um að ræða hinn svokallaða Vestmannaeyjabát, sem einu sinni var lagt til að leggja niður, en nú blómgast mjög, sem stafar af því, að áður var þarna um að ræða strjálar ferðir upp til meginlandsins, til Stokkseyrar, að mig minnir. En nú hefur verið gerð sú bragarbót á þessu, að ákveðið er, að báturinn annist daglegar ferðir til Þorlákshafnar til þess að sækja mjólk og ýmsar aðrar nauðsynjar handa Eyjabúum, en þessi endurbót hefur hins vegar leitt það af sér, því miður, að hallinn á bátnum hefur stórkostlega hækkað, þannig að óskir hafa verið uppi um að fá sem svaraði 1000 kr. rekstrarstyrk á dag, ef ég man rétt, til þess að talið verði auðið, að báturinn gæti gengið. Samvn. samgm. hefur nú, þrátt fyrir það að henni sé fullkomlega ljós nauðsynin á því að halda þessum samgöngum uppi, ekki treyst sér til að leggja til að taka svo hátt stökk í sambandi við styrk til þessa báts, en þó hefur þar verið um allverulega hækkun að ræða í fyrra, og enn fremur nú í ár er lagt til að hækka styrkinn til bátsins um 50 þús. kr. Nú skilst mér á hv. þm. Vestm. (JJós), að það verði mjög erfitt um vik, að þetta geti ef til vill nægt, en við verðum að vona það bezta og sjá hvað setur, áður en talið verði auðið að fara að hækka þetta enn meir.

Hinn aðilinn, sem hér er nú heldur þungur á fóðrunum, er Borgarnesbáturinn. Þar á nú senn að koma mikið og veglegt skip til flutninga, og er n. tjáð, að allar sorgir muni vera úr sögunni, þegar það skip kemur, því að það muni verða hallalaust rekið, og er gott til þess að vita, þó að menn séu ekki allt of bjartsýnir á það. Félag það, sem gerir út skipið, sem er í þessum samgöngum, hefur farið fram á að fá hálfa milljón í styrk. N. hefur ekki talið sér fært að leggja til, að styrkurinn verði svo hár, en leggur til, að styrkupphæðin verði 250 þús. eða hin sama og á s. l. ári, en jafnframt verði heimilað að greiða 200 þús. kr. rekstrarstyrk í viðbót, ef það sýnir sig, að það verði óumflýjanlegt. Allt liggur mjög óljóst fyrir enn um rekstrarafkomu þessa báts, þannig að það þótti nokkuð viðurhlutamikið að vera að greiða þetta af hendi alveg án alls fyrirvara, og hefur þá greiðsluheimildin að þessu leyti verið hækkuð þarna um 100 þús. kr.

Til annarra báta hefur verið hækkað nokkuð. Til Norðurlandsbáts hefur verið hækkað um 40 þús. kr., og enn fremur hefur verið lagt til, að hann fái 50 þús. kr. í vélarstyrk. Sama er um nokkra aðra báta, lagt er til að þeir fái vélarstyrki. Enn fremur leggur n. til, að nokkur hækkun verði gerð á hinu fræga Suðurlandsskipi, sem mun vera frægasta skip, sem hér er í förum á landi voru, því að það gengur á landi og veitir samt allgóða þjónustu, en hér er um að ræða styrk til vöruflutninga í Vestur-Skaftafellssýslu og til Öræfa. Er lagt til, að styrkur þessi hækki um 25 þús. kr. Það er mjög mikill aukakostnaður, sem fellur á flutninga til þessara svæða, sem verða að flytja allt til sín á bílum, og því þykir sjálfsagt að mæta úr almenningssjóði nokkuð þeim mikla kostnaði og erfiðleikum, sem þarna er við að stríða.

Þetta eru þá till. samvinnunefndar samgöngumála, sem ég hef hér mælt lítillega fyrir, en vænti þó, að þær liggi nógu skýrt fyrir, svo glöggt sem nái. er, og læt ég því þetta nægja að sinni um það mál.