27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

1. mál, fjárlög 1956

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég á hér á þskj. 295 brtt. undir II um, að við 13. gr. C. VIII. 61. tölul. komi nýr liður: Til ferjubryggju á Brjánslæk 235 þús. kr.

Ég hef ritað fjvn. erindi um þetta mál, en hún hefur ekki séð sér fært að taka till. upp, og því leyfi ég mér að bera hana hér fram. Þannig stendur á þessu, að fyrir allmörgum árum voru veittar 235 þús. kr. til ferjuhafnar á Brjánslæk, og hafði þá áður verið veitt allnokkurt fé og unnið fyrir það, en bryggjunni ekki lokið. En vegna mjög aðkallandi þarfa um að koma veginum frá austursýslunni til vestursýslunnar í samband, svo að hægt væri að hefja sérleyfisferðir til Patreksfjarðar og Bíldudals, voru með samþykki allra aðila, þ. á m. ráðuneytisins, lánaðar til Barðastrandarvegar 100 þús. kr. Einnig voru lánaðar frá ferjubryggjunni 135 þús. kr. m. a. til þess að koma á sambandi við vistheimili drengja, sem komið var upp í Breiðavík, þar sem sýnilegt var, að útilokað var að reka heimilið, nema unnt væri að ná vegasambandi. Nú óskaði ég eftir því við hæstv. vegamrh. og við vegamálastjóra, að framlög til þessara tveggja vega, bæði til Barðastrandarvegar og til Örlygshafnarvegar, eins og vegurinn heitir, sem liggur að Breiðavík, yrðu ákveðin svo há á þessu ári, að hægt væri að endurgreiða þessar upphæðir, og óskaði því eftir, að teknar væru 400 þús. kr. til Barðastrandarvegarins og 300 þús. kr. til Örlygshafnarvegarins. Nú gat hvorki vegamálastjóri né hæstv. ráðh. fallizt á þetta, og fjvn. hafði ekki heldur viljað taka þær óskir til greina í till. sínum um framlag til nýrra vega, og var því aðeins tekið upp 200 þús. kr. í Örlygshafnarveg, en hann skuldar nú alla þá upphæð og meira til, svo að ef greiða ætti af þeim 200 þús. kr. 135 þús. kr. til bryggjunnar, þá mundu ekki einasta falla niður allar framkvæmdir í þeim vegi á þessu yfirstandandi ári, heldur væri og ekki hægt að greiða samningsbundnar skuldir í sambandi við framkvæmdir, sem þar hafa verið gerðar áður og standa í beinu sambandi við drengjaheimilið. Það er því sýnilegt, að bryggjan getur ekki fengið þetta fé frá þeim vegi af þeirri upphæð, sem honum er ætluð á þessu ári. Nákvæmlega sama gildir um Barðastrandarveginn, en sá vegur liggur alla leið frá Patreksfirði suður í Kollafjörð, líklega á annað hundrað km á lengd. Það eru margir kaflar ógerðir þar og illfærir, og hefur verið kvartað mjög undan því, hversu seint gengur að laga þá, og ef þessar 100 þús. kr., sem veittar eru til vegarins í ár, væru notaðar til þess að endurgreiða skuldina til bryggjunnar, þá mundu falla gersamlega niður allar endurbætur á þeim vegi á þessu ári, og mundi það verða illþolað af þeim aðilum, sem hafa tekið að sér sérleyfisferðirnar, hvað sem öðrum líður.

Það er því sýnilegt, að þetta fé getur ekki orðið endurgreitt á næstu árum, og þess vegna hef ég farið fram á, að nú verði lögð til ferjubryggjunnar þessi upphæð, 235 þús. kr., til vara 100 þús. kr., sem þá yrðu fyrst notaðar til þess að endurgreiða féð, sem Barðastrandarvegur skuldar, og yrði þá að endurgreiða hitt síðar. Mér er ljóst, að fjvn. á hér erfiða aðstöðu, og ég áfellist hana ekkert fyrir að hafa ekki getað tekið þessa till. upp, en vilji heldur láta þingið um það, hvort farið skuli inn á þá braut að veita fé til þessara framkvæmda, þar sem féð hefur verið lánað fyrir löngu í aðrar framkvæmdir. En það er þá Alþingis að dæma um það, hvort það vill bjarga þessu máli þannig og láta upphæðirnar ná fram, til þess að hægt sé að ljúka ferjubryggjunni. En það er mjög mikil nauðsyn að ljúka þessu mannvirki, sumpart vegna flóabátsins og sumpart vegna sívaxandi umferðar, síðan vegirnir komu frá Barðaströndinni yfir á Patreksfjörð, og ekki hvað sízt vegna þess, að sá kafli bryggjunnar, sem þegar hefur verið gerður, er ekki einasta lítt nothæfur, heldur stendur og undir skemmdum ef ekki er hægt að halda áfram verkinu.

Ég skal svo láta þetta nægja í sambandi við þessa till. og vænti þess, að hv. Alþingi sjái sér fært að samþykkja hana, enda er mér ljóst, að hæstv. samgmrh. hefur mjög mikinn áhuga á því, að hægt sé að koma þessu verki áfram.

En úr því að ég stóð hér upp til þess að segja nokkur orð, þykir mér rétt að minnast ofur lítið á fjárlögin í heild, skal þó ekki fara langt út í það mál, og einnig nokkuð á eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. 3. landsk. (HV), þegar hann talaði hér áðan. Hann sá ástæðu til þess að halda hér uppi áróðri fyrir Skipaútgerð ríkisins í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna og hélt því mjög fram, að hér mundu stangast á rök mín og hv. þm. Snæf. (SÁ) við þau rök, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. flutti hér í sambandi við flóabátana. Ég vil nú benda hv. þm. á, að þessi ummæli hans fá engan veginn staðizt. M. a. eru flóabátarnir eingöngu við þau störf og ekki við neitt annað en samgöngur á flóum og fjörðum inni, en Skipaútgerð ríkisins hefur tekið að sér allt annað og óskylt starf, sem henni var aldrei ætlað, þ. e. millilandasiglingar, og hefur aldrei verið ætlazt til þess, að ríkissjóður þyrfti að standa undir tuga eða hundraða þúsunda rekstrartapi í millilandasiglingum, en það hefur hann gert mörg undanfarin ár, auk þess sem vitað er, að sá spádómur minn er að rætast, að því lengur sem haldið er áfram á þeirri braut um rekstur skipaútgerðarinnar, sem hefur verið gert nú undanfarin ár, fer að reka að því, að það verði að leggja hana niður eða breyta um, því að ríkissjóður mun ekki halda áfram að greiða vaxandi milljónaupphæðir á hverju ári, án þess að eitthvað sé að gert. Ég bíð því alveg rólegur eftir því, að það verði einhvern tíma hlustað á mínar till. í því máli. Það er raunverulega alveg óverjandi, að meiri hl. hv. Alþingis skuli ekki geta fengizt til þess að sinna því máli á þeim grundvelli, sem ég hef lagt til, að láta rannsaka, hvaða leiðir séu til þess að draga úr þeim kostnaði, sem þetta hefur í för með sér, þegar það hefur verið látið fylgja alveg ótvírætt, að það skyldi ekki gert með því að draga úr þjónustu við fólkið, heldur til þess að finna aðrar betri og heppilegri leiðir. — Ég skal svo láta útrætt um það atriði.

Í sambandi við sjálf fjárlögin og þær upphæðir, sem nú koma í ljós um aukinn kostnað á ýmsum sviðum, samanborið við till. hv. meiri hl., þykir mér rétt aðeins hér við þessa umr. að benda á, að hér hefur komið fram allt það, sem bæði ég og hv. þm. A-Húnv. sögðu um þessi mál í sambandi við afgreiðslu launalaganna. Mér þykir rétt, að það komi fram hér við þessar umræður, að öll þau rök, sem við færðum fram, hvor í sinni deild, um þau mál, eru nú skjalfest í till. hv. meiri hl. fjvn. Því var haldið mjög fast fram og það af hæstv. fjmrh. við umr. í Ed., að það væri rangt hjá mér, að þetta kostaði ríkissjóð nokkuð fram yfir þær 23.5 millj., sem var áætlað þá af mþn. En ég sannaði þá ótvírætt, að þar hefði ekki verið reiknað með mörgum öðrum liðum, m. a. til Búnaðarfélagsins, Fiskifélagsins, auk margra annarra liða á fjárlagafrv., svo sem útgjalda 18. gr. o. fl., sem ég taldi þá upp og var harðlega mótmælt þá af hæstv. ráðh. En nú verður hann þó að beygja sig undir það að samþykkja öll þessi aukaútgjöld, sem beinlínis stafa af því, að samþykkt voru launalögin eins og þau lágu fyrir. Og það mun eiga eftir að sýna sig enn betur en við umr. þá, sem hér er hafin um fjárlögin, hversu mjög þau spor, sem voru misstigin hér á Alþingi með samþykkt launalaganna, eiga eftir að íþyngja ríkissjóði. En einmitt hv. 3. landsk. var einnig með í þeim leik, að ég ekki segi í þeim ljóta leik, og ber þá eins ábyrgð á því og hinir, sem þar voru að verki, en við, ég og hv. þm. A-Húnv., erum þá, sem betur fer, alveg lausir við að hafa tekið þátt í þeim aðgerðum.