27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

1. mál, fjárlög 1956

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Við hv. 4. landsk. þm. flytjum á þskj. 295 brtt. við fjárlagafrv. þess efnis, að framlag til Siglufjarðarhafnar verði hækkað úr 200 þús. kr., eins og hv. fjvn. hefur lagt til, í aðallega 300 þús. kr. og til vara 250 þús. kr.

Til þess að skýra aðeins fyrir hv. þingmönnum, hvers vegna þessi till. er borin fram, þykir mér rétt að lýsa í nokkrum orðum ástandinu í hafnarmálum Siglufjarðarkaupstaðar, eins og það er nú, og hver hætta er þar á ferðum, ef ekki verður hafizt handa þegar í stað um að bægja þeirri hættu frá.

Þannig er mál með vexti, að í Siglufjarðarhöfn eru tvær stórar bryggjur, sem stærri skip geta lagzt við og athafnað sig við. Önnur þeirra, sú ytri, sem venjulega er kölluð öldubrjótur, er þannig staðsett, að ef nokkuð er að veðri, a. m. k. ef eitthvert norðankul er á, geta ekki stærri skip legið við bryggjuna né athafnað sig þar vegna kviku og öldugangs. Hin bryggjan, sem nefnd er hafnarbryggja, er hins vegar staðsett á ágætum stað á suðausturodda Siglufjarðareyrar, og er þar jafnan lygn sjór og skilyrði að öðru leyti hin ákjósanlegustu fyrir skip, smá og stór, til þess að athafna sig þar. En sá er galli á þessari bryggju, að hún er nú um þessar mundir að hrynja, og má segja, að með hverjum degi, sem líður, sígi hún æ meira og meira í sjó. Það er ekki vegna þess, að bryggja þessi sé svo ýkja gömul, — ég held, að hún sé byggð á tímabilinu 1925–30, — en í ljós hefur komið, að smíðagallar eru á stálþilinu, sem heldur bryggjuhausnum uppi, og verkfræðingar vitamálastjóra hafa ekki farið í neinar grafgötur með það, að verði ekki neitt að gert, muni bryggja þessi hrynja eftir nokkra mánuði. Þeir segja, að það geti hugsazt, að hún hangi uppi í nokkra mánuði enn, en eftir það muni hún hljóta að hrynja í rúst, og verður þá að sjálfsögðu ekki hægt fyrir nein skip, hvorki stór né smá, að koma nálægt henni.

Ég vil skjóta því hér inn í, að Siglufjarðarhöfn hefur til skamms tíma verið og er enn þá einhver mesta útflutningshöfn á landinu, og segir það þess vegna sig sjálft, hve mikil hætta væri á ferðum og voði fyrir dyrum, ef þessi staður yrði sama sem hafnarlaus, og ég tala nú ekki um, ef svo vel færi, að síldveiði glæddist eitthvað á næstunni og útflutningur ykist þá um leið frá þessum stað.

Ætlunin er að hefja smíði nýrrar hafnarbryggju í stað þeirrar, sem er að hrynja, nú á komandi vori, og eru nú allar áætlanir og teikningar viðkomandi þeirri bryggjugerð tilbúnar hjá vitamálaskrifstofunni. Samkv. áætlun vitamálastjóra mun bryggja þessi kosta 3–4 millj. kr., en af því fé hefur aðeins tekizt að afla enn sem komið er um 1½ millj. kr. Enn vantar því rúmlega helming þess fjár, sem þarf til þess að byggja þessa bryggju, og er með öllu óvíst, hvernig til tekst um þá fjáröflun.

Framlag til Siglufjarðarhafnar var á fjárlögum í fyrra ákveðið 250 þús. kr., og held ég, að flestum hafi fundizt, að vel mæt.ti við það una. En samkv. till. hv. fjvn. nú á framlagið að vera 200 þús. kr., eins og ég áður gat um, eða m. ö. o. á það að lækka um 50 þús. kr.

Ég verð að segja það, að mér er með öllu óskiljanlegt, hvers vegna hv. n. leggur nú til, að framlagið til hafnarinnar skuli lækka einmitt um það leyti, sem verið er að hefja smíði hafnarmannvirkis, sem ekki er til nema helmingur af nauðsynlegu fé til þess að reisa það fyrir. Ég viðurkenni að vísu, að aðstaða Siglufjarðarhafnar gagnvart ríkissjóði er ekki góð, vegna þess að höfnin skuldar ríkissjóði allháa fjárfúlgu vegna fyrri framlaga ríkissjóðs, sem Siglufjarðarhöfn hefur ekki getað greitt sitt mótframlag gegn, en ég veit ekki betur en að aðstaða hafnarinnar gagnvart ríkissjóði hafi verið nákvæmlega sú sama í fyrra, og endurtek ég það því, að ég get ekki skilið, vegna hvers hv. n. einmitt nú leggur til, að framlagið sé lækkað.

Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þessa till. okkar hv. 4. landsk., en vona, að þessi fáu orð mín hafi sýnt hv. þm., að hér er mikið nauðsynjamál á ferðinni, og vonast ég til, að þeir sjái sér fært að ljá till. lið.