30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

1. mál, fjárlög 1956

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar maður kemur hér inn í eldhús hæstv. ríkisstj. til að gera þar dálitla hreingerningu, liggur við, að manni fallist hendur. Svo mikið er verkefnið, að þess er enginn kostur að gera því viðhlítandi og verðug skil á stuttri stundu. Þó skal þess freistað að drepa niður hér og þar.

Verður þá fyrst fyrir að renna augunum á það góðgæti, sem stjórnin hefur verið að matreiða síðustu víkurnar og loks var á borð borið nú á laugardaginn var. Eru það tveir réttir, og hefur yfirbrytinn, hæstv. forsrh., haft veg og vanda af öðrum, en fyrsti matsveinn, hæstv. fjmrh., einkum séð um hinn. Gefst nú landslýð á að bragða, hversu gómsætir eru réttirnir. Hér er um að ræða lagafrv. tvö, og er annað þeirra, hið minna, raunar þegar orðið að lögum, en hitt er enn til meðferðar í Nd. Hér er í stuttu máli um það að ræða, samkvæmt áætlunum ríkisstj. sjálfrar, að leggja um 200 millj. kr. nýja skatta á þjóðina. Skal fjórðungur þess fjár renna í ríkissjóð, en um 3/4 í svonefndan framleiðslusjóð, sem einkum er það hlutverk ætlað að greiða sönnuð og ósönnuð töp togara, vélbáta og hraðfrystihúsa. En eins og færðar hafa verið sönnur á í umr. á Alþingi síðustu daga, er hér ekki aðeins um 200 millj. kr. álögur að ræða, heldur eru áætlanir stjórnarinnar auðsjáanlega allt of lágar, og verða þessir nýju skattar naumast lægri en 240–250 millj. Hér er því um að ræða skatt, sem nemur um 1500 kr. á hvert mannsbarn í landinu, eða nær 7500 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu.

En leggst þetta ekki einkum á þá ríku og tekjuháu, á auðfélög og aðra þá aðila, sem beinlínis hafa grætt stórfé á verðbólgunni? Eru peningarnir ekki teknir þaðan, sem þeir eru mestir fyrir? Nei, svo vísdómslega er öllu ráðstafað, að allt eru þetta neyzluskattar og beinar hækkanir á vörum, sem allur almenningur er neyddur til að kaupa eða verður að borga að langmestu leyti í einni eða annarri mynd.

Stórkostlegastur er 9% skattur, sem lagður er á nær allar innfluttar vörur í viðbót við söluskatt og alla aðra tolla og skatta, sem fyrir eru. Þá er tekið nýtt aukagjald (3%) af innlendri framleiðslu og þjónustu. Þetta hvort tveggja jafngildir því, að söluskatturinn hafi verið um það bil tvöfaldaður, enda á þetta gjald samkvæmt áætlunum ríkisstj. að nema 150 millj. til ársloka, en verður vafalaust allmiklu hærra. Þá er álag á vörumagnstoll hækkað nokkuð og álag á verðtoll nær tvöfaldað. Hækkaður er tollur á innlendum iðnaðarvörum með 40% álagi á gjald það, sem áður var innheimt. Innflutningsgjald af benzíni hækkar um 20 aura á lítra, skattur af bifreiðum og bifhjólum er tvöfaldaður og innflutningsgjald af hjólbörðum og gúmmíslöngum tvöfaldað. Loks fá húsmæður alveg sérstakar vinarkveðjur frá ríkisstj., því að auk þeirra stórfelldu verðhækkana, sem koma á allan innflutning, skal leggja 30% aukagjald á flestar tegundir búsáhalda og nýja og þurrkaða ávexti. Sama gjald kemur einnig á smíðatól og verkfæri.

Eins og hverjum manni má verða ljóst af þessum tölum, þótt mjög sé hér stiklað á stóru, hlýtur af þessum gífurlegu álögum að leiða óstöðvandi verðbólgu með áframhaldandi víxlverkunum á kaupgjald og verðlag. Er og auðsætt, að þessar ráðstafanir reynast framleiðslunni skammgóður vermir og innan fárra mánaða verður allt efnahagskerfið hálfu meira úr skorðum gengið en þegar er orðið. Traustið á gjaldmiðlinum var veikt áður, nú mun það með öllu hverfa.

Við stjórnarandstæðingar höfum sýnt fram á það í umræðum um þessi mál undanfarna daga, að ekki sé þörf þeirrar auknu skattheimtu ríkissjóði til handa, sem nú er knúin í gegn. Eins og mörg undanfarin ár eru flestir helztu tekjuliðir á fjárlagafrv. tvímælalaust of lágt áætlaðir, beinlínis í því skyni, að ríkisstj. hafi sem allra mestar umframgreiðslur til ráðstöfunar að eigin geðþótta. Það teljum við þarflaust og raunar ósið. Við höfum því lagt til, að tekjuáætlunin verði leiðrétt, og lítum svo á, að ríkissjóður hefði ekki þurft auknar tekjur, til þess að hægt væri að afgreiða hallalaus fjárlög.

Því verður ekki neitað, að sjávarútvegurinn býr nú við þröngan hag og óhjákvæmilegt er að gera ráðstafanir til að rétta hlut hans, Hallarekstur báta- og togaraflotans stafar af tvennu: hinni almennu verðbólgu, sem stjórnarstefna undanfarinna ára á meginsök á, og þó ekki síður hinu, hve margar afætur raka til sín gróða á kostnað framleiðslunnar. Hitt er fásinna, sem málpípur Sjálfstfl. og sumir útvegsmenn halda fram, að orsökin sé sú, að sjómenn beri of mikið úr býtum, en þá kenningu las ég m. a. í Morgunblaðinu s. l. föstudag. Hversu þetta er mikil blekking, sést bezt á því, að togaraeigendur töldu sig þurfa 6500 kr. á úthaldsdag hvers togara, til þess að reksturinn bæri sig. Mun láta nærri, að það samsvari kaupi allrar áhafnar skipsins. M. ö. o.: Þá fyrst, ef allir skipverjar ynnu algerlega kauplaust allan ársins hring, mundi útgerðin nálgast það að bera sig. Væri kaup sjómanna lækkað um helming, hrykki það engan veginn til. Það væri stórtap á togurunum samt. Nei, það er einhvers staðar annars staðar en í of háu kaupi sjómanna, sem orsaka hallarekstrarins er að leita.

Við þjóðvarnarmenn viðurkennum, að útflutningsframleiðslan á við erfiðleika að etja og skylt er að rétta hlut hennar. En það verður ekki gert á varanlegan hátt með beinum styrkjum, jafnvel þótt peningarnir væru fengnir á annan og skaplegri hátt en þann, sem stjórnarflokkarnir leggja nú til, en þar er sannarlega valin versta og vitlausasta leiðin. Hér þarf að leita dýpra og grafa fyrir rætur meinsins.

Hv. 8. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, sem talar hér á eftir, mun gera grein fyrir stefnu okkar þjóðvarnarmanna í þessum málum, og bið ég hlustendur að bera þær till. saman við skattpíningar- og styrkjavitleysu hæstv. ríkisstj.

Sá maður mun nú vandfundinn, hvort sem leitað er meðal stjórnarandstæðinga eða stjórnarsinna, að hann viðurkenni ekki, hátt eða í hljóði, að efnahagslíf okkar Íslendinga er sjúkt. Sóttin elnar stöðugt, og hinar svokölluðu lækningatilraunir hafa allt til þessa ýmist reynzt kák eitt eða verra en það. Sumar þeirra hafa verkað sem olía á eld. Sjúkdómseinkennin eru glögg og hverju mannsbarni kunn. Hagkerfið er að sporðreisast og allt að steypast á kaf í svelg verðbólgu og dýrtíðar. Allir þykjast vera andvígir þessari þróun og leggja réttilega á það áherzlu, að hún hljóti að leiða yfir þjóðina algert fjárhagshrun. Síðan skilur leiðir. Menn deila hart um það, hverjum þetta ástand sé að kenna, hverjir beri meginábyrgðina. Þá eru ekki síður skiptar skoðanir um hitt, hvernig eigi að mæta þessum vanda, hvaða ráðstafanir beri að gera til að komast upp úr feninu.

Ég vík fyrst að fyrra atriðinu, hverjar séu meginorsakir ófarnaðarins og hverjir beri höfuðábyrgð á verðbólgustefnunni.

Hæstv. ríkisstj. og málpípur hennar á fundum og í blöðum eru ekki í vandræðum með að finna sökudólginn. Einkum hafa talsmenn Sjálfstfl. sig þar mjög í frammi og láta ekkert tækifæri ónotað til að fræða landslýðinn á því, að öllu böli valdi heimtufrekja og óbilgirni verkamanna, sjómanna og annarra launastétta, sem séu að sliga atvinnuvegina með kröfum sínum um allt of hátt kaup. Hinir æðstu valdamenn hafa dyggilega stundað þá iðju að ausa sér yfir hið vinnandi fólk og kenna því um vöxt verðbólgu og dýrtíðar og flest annað, sem aflaga fer í þjóðlífinu. Þykir einkar vel við eiga að boða þessa kenningu við hátíðleg tækifæri, þegar enginn er til andsvara, svo sem í landsföðurlegum útvarpsboðskap á þjóðhátíðardaginn og um áramót. Og gjarnan er klykkt út með beinum hótunum um, að allt skuli aftur tekið af hinu vinnandi fólki, ef það skyldi freista þess að rétta hlut sinn í flóði dýrtíðarinnar, og jafnvel meira til, hagur þess skuli gerður enn verri en hann áður var. Þarna er sökudólgurinn fundinn samkvæmt gamalkunnri forskrift frá Adolf sáluga Hitler, sem kenndi Gyðingum um allt hið illa, sem þýzku þjóðina hrjáði. Það eru alþýðustéttirnar, segja þessir menn, fólkið, sem með vinnu sinni ber uppi þjóðfélagið og framleiðir verðmætin, — það er þetta fólk og heimtufrekja þess, sem veldur dýrtíðinni og sligar atvinnuvegina. Þá gegnir víst eitthvað öðru máli um blessaða milliliðina, þessa fórnfúsu og göfuglyndu þjóðfélagsþegna, sem miða allt starf sitt við þjóðarhag og dettur aldrei í hug að taka eyrisvirði af neinum umfram það, sem brýnasta nauðsyn krefur. Þar eru nú ekki maðkarnir í mysunni. Eða hefur ekki sjálfur dómsmrh. landsins, annar aðalforingi Sjálfstfl., sannað það í snjallri ræðu á Varðarfundi, síðan birtri með breyttu letri í Morgunblaðinu, að framfarir á Íslandi hafi vaxið í réttu hlutfalli við fjölgun og bætta aðstöðu milliliðanna? Rökrétt ályktun þessarar sagnfræðikenningar hlýtur að vera sú, að því fleiri sem milliliðirnir séu og því betri aðstöðu sem þeir hafi, því meiri verði velmegun þjóðarinnar.

Við skulum nú athuga lítillega þessar kenningar íhaldsforkólfanna. Þess er ærin þörf, ef gera á sér grein fyrir eðli núverandi stjórnarstefnu, þar sem ekki verður annað séð en hún byggist í megindráttum á fyrrgreindu viðhorfi til milliliða og auðstétta annars vegar og alþýðustétta hins vegar.

Í nær 17 ár samfellt hefur Sjálfstfl. verið aðili að stjórn landsins og jafnan haft sterka aðstöðu til áhrifa á efnahagsþróunina. Mikinn hluta þess tíma hefur Framsfl. einnig átt fulltrúa í ríkisstj. Þessir tveir flokkar hafa öll þessi ár haft yfirgnæfandi meiri hluta þm. að baki sér, enda þótt þeir hafi báðir verið að tapa fylgi með þjóðinni. Stefna þessara tveggja flokka hefur því mótað efnahagsþróunina nú um langt skeið, og þeir bera höfuðábyrgð á henni, hvernig sem þeir reyna að skella skuldinni á aðra, þegar afleiðingarnar af óstjórn þeirra eru orðnar lýðum ljósar í öllum sínum nöturleik.

Stjórnarflokkarnir og þeir einir höfðu í höndum sér að gera í tíma þær ráðstafanir, sem komið gátu í veg fyrir verðþenslu, en þeir létu það ógert. Þeir gerðu hins vegar aðrar ráðstafanir, sem hver viti borinn maður hlaut að sjá að leiða mundu til stóraukinnar verðbólgu og stuðluðu beinlínis að hruni íslenzks gjaldmiðils.

Ég mun ekki að þessu sinni rekja þá sögu langt aftur í tímann, enda hefur það oft verið gert áður, bæði af mér og öðrum, en læt nægja að stikla á stóru um afrekaskrá núverandi ríkisstj., þeirrar er mynduð var sumarið 1953 undir forsæti Ólafs Thors.

Eitt af því, sem ríkisstj. og þá einkum ráðh. Sjálfstfl. lögðu ríka áherzlu á í árdaga þessarar stjórnar, var aukið frelsi í verzlun og framkvæmdum. Og svo ljómaði dagur þess frelsis, sem íhaldið hafði heitið þjóðinni. Leystar voru nálega allar þær hömlur, sem nokkuð höfðu haldið niðri hóflausri álagningu. Alls konar varningur var gegndarlaust keyptur fyrir dýrmætan gjaldeyri þjóðarinnar, þarflaus jafnt sem þarfur. Og þar sem gróði innflytjenda og milliliða var einatt mestur á margvíslegu fánýtu dóti og glingri, var innflutningur hvers kyns óþarfa gegndarlaus. Brátt kom í ljós, hvers konar frelsi það var, sem íhaldið barðist fyrir. Það var frelsi milliliða og annarra gróðamanna til að leggja skatta á almenning, frelsi þeirra til að hagnýta gjaldeyri landsmanna til aukinna fríðinda og forréttinda sér til handa. Það var frelsi auðsins á kostnað vinnunnar, frelsi afætunnar á kostnað hins starfandi manns. Að sjálfsögðu sýndi það sig áður en langt leið, sem allir máttu raunar vita fyrir, að hér var ekki um neitt varanlegt viðskiptafrelsi að ræða. Útflutningnum var haldið í viðjum eins og áður, og þegar gjaldeyririnn var upp étinn, tóku við raunverulegar gjaldeyrishömlur á ný, að þessu sinni í höndum bankanna, þar sem Sjálfstfl. ræður lögum og lofum. En miklum dýrmætum gjaldeyri hafði verið sóað í hvers kyns óþarfa. Í stað þess að beina fjármagninu til framleiðslunnar hafði því í vaxandi mæli verið beint í verzlun og brask. Enda þótt kaupa þurfi árlega 2–3 togara til landsins til þess eins að viðhalda flotanum, hefur enginn nýr togari verið keyptur í 7 ár. Svo fast er að þessum atvinnutækjum sorfið, að togari er nú ekki talinn bera sig, nema hann fái allt kaup áhafnarinnar greitt úr ríkissjóði. Aflar þó hver togari gjaldeyris, sem nemur árlega 11–12 millj. kr. að útflutningsverðmæti. En þeir, sem verzla með þann gjaldeyri, sem fyrir aflann fæst, og þeir, sem selja togurunum nauðsynjavörur til rekstrarins, virðast ekki vera á nástrái. Þar sést frelsi íhaldsins í sinni réttu mynd.

Sjávarútvegurinn, stærsti burðarás atvinnulífsins, er mergsoginn, unz hann er að sligast, og þá er fleygt í hann ölmusum, eins og hann væri ómagi á þjóðarheimilinu. En stjórnarherrarnir þykjast eiga svör við þessu. „Ekki er þetta mér að kenna,“ segir í kvæðinu. Það er nú síður en svo að dómi sjálfstæðisforkólfanna og fylgifiska þeirra, að einokunarpostular útflutningsins, verðbólgubraskarar og hermangarar eigi hér á nokkra sök, þaðan af síður stefna ríkisstj. í efnahagsmálum. Allt á þetta að vera hóflausum kröfum sjómanna og verkamanna að kenna. Ég veit, að sá söngur verður sunginn af stjórnarliðum hér í þessum umræðum. Þeir munu segja, eins og þeir hafa gert hér á Alþ. undanfarna daga, að þessar 250 millj., sem nú á að taka af þjóðinni í nýjum sköttum og tollum ofan á alla súpuna, sem fyrir er, séu óhjákvæmileg skattheimta vegna þeirrar kauphækkunar, sem varð eftir verkfallið á liðnu vori, og þar með þykjast þeir hafa gert hreint fyrir sínum dyrum. Hvað er nú satt í þessu? Furðulítið, þegar nánar er að gáð. Málsvarar ríkisstj. halda því fram, að fyrir verkfallið í vor sem leið hafi verið komið á eitthvert jafnvægi í verðlagsmálum, sem síðan hafi verið rofið að tilefnislausu af verkalýðssamtökunum. Sannleikurinn er sá, að dýrtíðin hélt áfram að vaxa bæði 1953 og 1954 og kaupmáttur launa rýrnaði að sama skapi. Ríkisstj. gerði harla lítið til að hafa hemil á verðlaginu, og sumar ráðstafanir hennar höfðu beinlínis áhrif í þá átt að auka dýrtíðina. Jafnvægið fólst einungis í því, að kaupgjald hélzt að mestu óbreytt þrátt fyrir rýrnandi kaupmátt krónunnar. Rannsóknir sýndu, að á s. l. vetri hafði kaupmáttur launa verkamanns minnkað um 17% frá því, sem hann var fyrir 8 árum, og var þá ekki reiknað með húsaleigukostnaði, en allir vita, að hann hefur aukizt gífurlega og vafalaust miklu meira en nokkur annar hinna stærri kostnaðarliða.

Það hlaut að vera hverjum manni ljóst, nema þá ríkisstj., að verkamenn og aðrir launþegar gætu ekki horft á það endalaust án þess að hafast eitthvað að, að kaupmáttur launa þeirra minnkaði, á sama tíma og þjóðartekjurnar fóru þó vaxandi. Allir heilskyggnir menn hlutu að sjá, að ekki yrði spyrnt við því til lengdar, að launastéttirnar reyndu að velta dýrtíðaröldunni af herðum sér með einhverju móti. Eina skynsamlega úrræðið var að sjálfsögðu að þrýsta niður dýrtíðinni og auka þar með kaupmátt launanna. Við þjóðvarnarmenn börðumst af alefli fyrir því, að sú leið yrði farin, álagning yrði minnkuð og komið á öflugu verðlagseftirliti, söluskattur lækkaður og aðrar ráðstafanir gerðar til að lækka verðlag og klifra niður dýrtíðarstigann.

Slíkar ráðstafanir hefðu ekki aðeins orðið launþegum varanleg kjarabót, heldur einnig reynzt stuðningur við framleiðsluna. Við lögðum áherzlu á það, að eins og nú væri háttað stjórnarfari í þessu landi, mundu allar kauphækkanir hverfa á skammri stundu í gin verðbólgunnar og reynast engin varanleg bót launþegum, stjórnarherrarnir hefðu hótað því, að allt skyldi aftur tekið, sem áynnist í verkfalli alþýðustéttunum til handa, og þeir mundu vissulega standa við þau orð.

Þessi stefna, niðurfærslustefnan, sem flestir munu sjá nú að var hin eina rétta, fékk næsta daufar undirtektir. Frv. okkar þjóðvarnarmanna um lækkun verðlags og verðlagseftirlit fékkst ekki tekið á dagskrá hér á Alþingi. Ríkisstj. sinnti engu öllum aðvörunum okkar og ábendingum. Af fyllsta ábyrgðarleysi lét hún skeika að sköpuðu og hafðist ekki að. Tillögur okkar fengu ekki heldur þann stuðning úr öðrum áttum, sem hefði mátt vænta.

Nú eru afleiðingarnar komnar í ljós og mjög í samræmi við það, sem við var að búast í landi, þar sem stjórnarfarið mótast af fulltrúum auðhyggjumanna og verðbólgubraskara.

Það var vitanlegt, að sú almenna kauphækkun í krónutölu, sem varð á síðasta ári, hlaut að leiða af sér nokkra hækkun, bæði á vöruverði og ýmiss konar þjónustu. En sú gífurlega verðþensla, sem síðan hefur orðið á flestum sviðum og tekur nú stórfellt stökk fyrir atbeina stjórnarinnar, er miklu meiri en svo, að hún verði með nokkru móti réttlætt á þann hátt. Kauphækkunin í fyrra hefur beinlínis verið notuð sem skálkaskjól til hvers konar verðhækkunar, sem á sér litla stoð í kaupi verkamanna eða annarra launþega. Jafnframt hefur það gerzt, að sömu mennirnir sem áttu engin orð nógu sterk til að fordæma og bannfæra tilraunir almennings til að rétta hlut sinn í dýrtíðarflóðinu hafa ekki einungis setið auðum höndum án þess að sporna við þessari þróun, heldur beint og óbeint hvatt til verðhækkana á fjölmörgum sviðum og átt að þeim frumkvæði. Svo koma málsvarar þess flokksins, sem þyngsta ábyrgð ber á verðbólgunni, flokksins, sem óvirðir heiti sjálfstæðisins með því að bendla það við pólitískt hlutafélag braskara og fjármálaspekúlanta, og bera það blákalt fram, að alþýðusamtökin og launastéttirnar eigi sök á þeirri verðbólguöldu, sem nú skellur á þjóðinni. Vita það þó bæði sjálfir þeir og allir aðrir, að öfugþróun efnahagsmálanna er fyrst og fremst sök þeirrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið á undanförnum árum og Sjálfstfl. hefur fyrst og fremst mótað, að vísu með leiðtoga Framsfl. á eftir sér í bandi, en áreiðanlega gegn vilja mikils meiri hluta kjósenda þess flokks.

Öll reynsla síðustu mánaða sannar ljóslega, að kjarabarátta almennings, sú er beinist að hækkun kaups, er engan veginn einhlít og veitir lítinn varanlegan ávinning, þegar þau öfl ráða mestu um stjórn landsins, sem berjast fyrir hagsmunum allt annarra aðila. Alþýðustéttirnar hljóta því að draga af atburðum síðustu missira þann dýrkeypta, en dýrmæta lærdóm, að enda þótt hin beina kjarabarátta sé nauðsynleg, verður hlutur hins vinnandi manns því aðeins tryggður til nokkurrar hlítar, að fulltrúar alþýðustéttanna fari með stjórn landsins og stjórni með almannahag fyrir augum. Dýrtíðarholskeflan, sem nú rís, er ótvíræð sönnun þess, að breytt stjórnarstefna er höfuðnauðsyn.

Íslenzka þjóðin stendur nú á örlagaríkum tímamótum. Um tvær leiðir er að velja annars vegar leið íhaldsins, leið verðbólgubraskara og hermangara. Vörðurnar við þann veg eru óhemjulegar nýjar álögur, fyrst og fremst neyzluskattar á almenning, jafnhliða því sem allir milliliðir fá kærkomið tækifæri til að auka álagningu, hremma til sín æ stærri hlut af þeim verðmætum, sem vinnandi fólk aflar. Og ef draumur forustumanna Sjálfstfl. rætist, þá á að viðhalda völdum og aðstöðu auðstéttarinnar með ríkisher, sem barið gæti niður allar tilraunir alþýðu til að heimta úr höndum braskaranna sinn deilda verð. Ég hef ekki tíma til þess nú að bregða upp mynd af þeirri nýju Sturlungaöld, sem við gætum átt í vændum, eftir að svo væri komið. En er ekki mál til þess komið, að allir þeir, sem horfa með ugg til slíkra tíma, freisti þess í fullri alvöru að bægja þeirri hættu frá dyrum? Hin leiðin er sú, að nú þegar verði mörkuð ný stjórnarstefna, stefna viðnáms og viðreisnar, hætt að stýra eftir áttavita auðhyggjunnar, en leitazt við í samstarfi allra vinnandi stétta og fulltrúa þeirra að hefja björgunarstarf. Hv. 8. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, mun hér á eftir gera grein fyrir því, hvernig við þjóðvarnarmenn teljum að eigi að bregðast við þeim vanda, sem nú steðjar að þjóðinni, hverra úrræða beri að leita til að reisa það við, sem ríkjandi stjórnarstefna er að leggja í rúst.

Ég hef deilt hér allhart á Sjálfstfl. og forustumenn hans, og er þó fleira ósagt en skyldi um þann flokk. En þegar tekið er tillit til þess, að kjarna flokksins mynda og stefnu hans ráða fyrirferðarmestu auðmenn og forréttindamenn þjóðfélagsins, þá þarf engan að undra, þótt þaðan komi þær till. fyrst og fremst, sem miðast við hagsmuni verðbólgubraskara og kaupahéðna. Með óstjórnlegu lýðskrumi og þeirri lævíslegu baráttuaðferð að bregða sér í hin margvíslegustu gervi hefur flokki þessum að vísu tekizt um skeið að villa á sér heimildir og lokka til sín fjölda kjósenda, jafnvel úr alþýðustéttum, sem hvergi eiga síður heima. Sem betur fer, eru augu þessa fólks óðum að opnast fyrir hinu rétta eðli Sjálfstfl., og það snýr sér í aðrar áttir reynslunni ríkara. Eins og kosningaúrslit sýna, hefur flokkurinn verið að tapa fylgi frá þjóðinni hlutfallslega nú um alllangt skeið, en nú er hrunið að hefjast. Hópar manna, sem um skeið festu trúnað á slagorð sjálfstæðisforkólfanna, axla nú sín skinn og snúa við flokknum bakinu. Sannfærður er ég um, að atburðir síðustu daga munu opna augu margra fyrir því, hvaða þjóðfélagsöflum flokkur þessi þjónar.

Blómaskeið Sjálfstfl. er nú liðið, enda hefur það staðið lengur en skyldi og lengur en vera þurfti, því að vist er það, að verulegur meiri hluti íslenzkra kjósenda hefur lengi verið andvígur stefnu íhaldsins og kosið fulltrúa annarra flokka á þing í þeim tilgangi og í þeirri trú, að þeir framkvæmdu allt aðra stefnu. En hver hefur reynslan orðið? Hátt á annan áratug hafa íhaldsráðh. nú setið samfellt í ríkisstj. og oftast verið þar áhrifaríkastir, þótt út yfir taki í þeirri ríkisstj., sem nú fer með völd, þar sem íhaldssjónarmiðin ráða lögum og lofum. Ævinlega hefur Sjálfstfl. fram að þessu átt einhvern hauk í horni, sem bjargaði fulltrúum auðstéttarinnar upp í valdastólana og afhenti þeim stýri þjóðarskútunnar. Liðtækastur í því efni hefur Framsfl. verið, og er sú raunasaga alkunn. Allra flokka róttækastur og mestur íhaldsandstæðingur fyrir kosningar, fóstbróðir og hjálparhella íhaldsins eftir kosningar, — þann leik hafa forustumenn Framsóknar leikið hvað eftir annað. Með tilstyrk vinstri sinnaðra kjósenda hafa þeir flotið inn á þing í hverjum kosningum, og síðan hefur fyrsta verkið jafnan verið það að mynda hægristjórn með íhaldinu þvert gegn vilja mikils meiri hluta umbjóðenda sinna. Árangurinn hefur orðið það stjórnarfar, sem ég hef hér á undan leitazt við að lýsa, stjórnarfar, sem einkennist af eyðslu, verðbólgu, margvíslegu siðleysi í opinberu lífi og nær loks hámarki með þeim 250 millj. króna nýju álögum, sem nú á í formi neyzluskatta að demba á þjóðina, fátækan jafnt sem ríkan.

Ég spyr kjósendur Framsfl. um land allt: Var það til að framkvæma þessa stefnu, sem þið studduð frambjóðendur Framsóknar í síðustu kosningum? Og fulltrúa Framsfl. hér á Alþ. vil ég spyrja: Er það ætlunin að láta Sjálfstfl. nota ykkur til hvers konar óþurftarverka, unz yfir lýkur, jafnvel þótt það kosti það, að þið gangið af Framsfl. dauðum? Svarið þarf að koma nú, ekki síðar, ekki þegar einber óttinn við næstu kosningar ræður gerðum ykkar. Það þarf að koma nú, vegna þess að ekki er seinna vænna, ef á að snúa við. Það er ekki seinna vænna, ef sú er ætlunin að hætta að þjóna íhaldinu til borðs og sængur.

Samþykkt þeirra gífurlegu álagna, sem nú eru boðaðar, getur ekki táknað annað en það, að framsóknarforingjarnir hyggist enn halda áfram á sömu braut og áður, og þá blasir það við, sem hæstv. forsrh. orðaði eitthvað á þá leið hér á dögunum, að nú fari að verða mál til komið, að Sjálfstæðið og Framsókn gangi í varanlegt og heilagt hjónaband. Varanlegt kann það hjónaband að verða. Heilagt getur það aldrei orðið.

Það mun flestum kunnugt, að síðustu vikur hafa í ríkara mæli en áður verið uppi raddir um nýja stjórnarstefnu, raddir um vinstri stjórn. Ekki er það neinum vafa bundið, að allir einlægir vinstri menn, allir raunverulegir andstæðingar íhaldsins gera sér það ljóst, að stefnubreytingar er brýn þörf. Þessir menn, hvar í flokki sem þeir standa, gera sér ljóst, að verði framhaldið svo sem nú horfir, steypist hér allt á kaf í botnlaust fen verðbólgu, brasks, hernáms og hvers konar spillingar.

Enn er hægt að snúa við og feta í áttina til skaplegri stjórnarhátta. Sú leið er ekki torfærulaus, en hún er kleif, ef allir þeir, sem nú sjá voðann fram undan, geta sameinazt um föst tök á þeim vandamálum, sem við er að etja. Nýir menn í ráðherraembættum duga lítt, ef ekki fylgir það, sem mestu varðar, breytt stefna, bæði í utanríkis- og innanlandsmálum. Meðal fylgismanna Framsfl. hefur þess mjög gætt að undanförnu, að mörgum þeirra eru þessi sannindi fullkomlega ljós. Í röðum þeirra verður krafan um vinstri stjórn æ háværari. Nú þessa dagana er komið að foringjum flokksins og þm. að velja. Valið stendur á milli áframhaldandi íhaldsþjónustu annars vegar og þjónustu við hag almennings og vilja alls þorra framsóknarkjósenda hins vegar. Velti þeir nú 250 millj. kr. nýrri skattabyrði á herðar almennings og margfaldi þar með hraða dýrtíðarskrúfunnar, hafa þeir valið þjónustuna við íhaldið. Kjósi þeir hinn kostinn, ber þeim að láta núverandi stjórn falla þegar á verkum sínum og hefja viðreisnarstarfið undir merki vinstri stefnu, vinstri stefnu, sem er annað og meira en nafnið tómt. — Góða nótt.