30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

1. mál, fjárlög 1956

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Heiðruðu áheyrendur. Hv. 8, þm. Reykv., Gils Guðmundsson, hefur með ræðu þeirri, sem hann var að ljúka, afhjúpað stjórnvizku ríkisstj. þeirra flokka, sem á undanförnum árum hefur valdið alþýðu landsins þyngri búsifjum en dæmi eru til í sögu landsins, og var þó ekki allt gott, sem gengið var í þeim efnum.

Hann hefur lýst hinni geigvænlegu verðbólguþróun, þar sem ráðum, sem enginn lét sig dreyma um að nokkur ríkisstj. mundi dirfast að grípa til, er purkunarlaust beitt til að flýta þeirri þróun, að allar eignir, sem máli skipta, færist á hendur fárra auðkýfinga, sem síðan geta féflett alþýðustéttirnar með milliliðastarfsemi og með því að beita ríkisvaldinu í sína þágu til að leggja óbærilegar skattaálögur á almenning.

Það gæti því engan veginn talizt undarlegt, þó að þeir, sem leggja þá ekki algerlega árar í bát, þegar þeir kynnast nýjustu fjörráðum ríkisstj. við efnahagsöryggi almennings og fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar nú og framvegis, legðu í fyllstu alvöru fyrir sig spurninguna: Er nokkuð hinum megin? Er nokkur leið til að bjarga íslenzkri þjóð úr þeim feigðarósi, sem núverandi valdhafar hafa hrundið henni út í? Er sú órökstudda fullyrðing ríkisstj. rétt, að það sé eitthvert náttúrulögmál, að ekkert sé hægt að gera til að leysa það öngþveiti, sem ríkisstj. sjálf ásamt hinni lofsungnu fjármálastjórn Eysteins Jónssonar hefur komið efnahagslífi þjóðarinnar í, annað en leggja um 250 millj. kr. nýjar álögur á almenning, sem allir vita og viðurkenna að getur ekki innt þessar álögur af hendi af þeim tekjum, sem hann fær nú í sinn hlut úr þjóðarbúinu? Er hugsanlegt, að þessi fullyrðing ríkisstj. sé rétt, ef það er athugað, að þessar nýju álögur leysa engan vanda, heldur hafa þau ein áhrif að fresta um örfáa mánuði öðrum og enn geigvænlegri aðgerðum, aðgerðum, sem verða þeim mun víðtækari og óbætanlegri sem lengra er haldið á þeirri verðbólgu-, hermangs- og öfugþróunarbraut, sem ríkisstj. siglir nú hraðbyri? Ég get veitt mönnum þá takmörkuðu huggun að segja: Víst eru þessar fullyrðingar ríkisstj. allar rangar og í öllum atriðum. Það er ekkert óbreytanlegt náttúrulögmál, að það þurfi að nota ríkisvaldið og Alþ. til að féfletta fátækustu stéttir þjóðfélagsins og troða arðinum af striti þeirra í vasa einokunarhringa og milliliða. Víst er til önnur leið, en ég geri ráð fyrir, að mönnum verði takmörkuð huggun að því að vita það, þegar ég er jafnframt neyddur til að segja, að það sé nánast borin von, að gæfa íslenzkrar þjóðar dugi til, að sú leið verði farin.

Eins og nú háttar í efnahagsmálum, fjármálum og sjálfstæðismálum þjóðarinnar, er um tvær leiðir að velja og aðeins tvær, og munu örlög og líf komandi kynslóða mótast af því um langan aldur, hvor leiðin verður farin.

Önnur er leið núverandi ríkisstj. með íhaldið sem aðalaflgjafa, leið sívaxandi erlendrar íhlutunar á öllum sviðum, leið vísvitandi verðbólgu- og gengisfellingarstefnu, sem auðkóngar afturhaldsaflanna nota til að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar milli gengisfellinganna og borga skuldir sínar með einskis verðum pappírskrónum að gengisfellingu lokinni. Þessi leið, ef farin verður, mun fullkomnast í einræði sekra manna, sem ekki þora að eiga völd sín og áhrif undir lýðræðislegum stjórnarháttum.

Hin leiðin er sú leið, sem Þjóðvfl. Íslands hefur markað, frá því að hann var stofnaður, og sífellt hefur fengið aukinn hljómgrunn, bæði hjá einstaklingum og innan annarra flokka og félagasamtaka. Sú leið krefst þess manndóms, sem til þess þarf að leggja tafarlaust til fangbragða við þá erfiðleika, sem núverandi valdhafar hafa búið þjóðinni, þess manndóms, sem til þess þarf að leggja á sig og aðra erfiðleika um stundarsakir til að byggja upp heilbrigt efnahagslíf og arðbæra atvinnuvegi, er séu þess megnugir að veita vaxandi þjóð þá lífsbjargarmöguleika og lífsskilyrði, er menningarþjóð verður að gera kröfu til. Leið þjóðvarnarstefnunnar krefst heiðarleika, ráðdeildar og sparsemi í viðskiptum hins opinbera við borgarana og borgaranna við hið opinbera og sín í milli, gagnstætt þeirri spillingu, ráðdeildarleysi og óhófseyðslu, sem núverandi hæstráðendur hafa ýtt undir og beitt sér fyrir um langa hríð. Og síðast, en ekki sízt krefst leið þjóðvarnarstefnunnar þess manndóms, sem til þess þarf að horfast í augu við þá augljósu staðreynd, að það verður tafarlaust að ganga til verks og nema burt þær meinsemdir, sem náð hafa að grafa um sig í þjóðfélaginu, hætta að sóa dýrmætustu eign þjóðfélagsins, vinnuaflinu, í lífshættuleg og skaðleg fjárfestingarstörf í þágu hersins, íslenzkri framleiðslu til tjóns, brjóta einokunarhringa á bak aftur, fækka milliliðum og búa svo um hnútana, að þeir hrifsi ekki meira til sín en nauðsynlegt er, og lækka þær opinberu álögur, sem skaðlegust áhrif hafa í þá átt að auka framleiðslukostnað og verðbólgu.

Það ætti því að vera auðskilið hverju mannsbarni, að leið þjóðvarnarmanna liggur í öfuga átt við leið núverandi valdhafa. Það ætti einnig öllum að vera auðskilið, að takmark þjóðvarnarstefnunnar er að afnema það hagkerfi, sem enga hliðstæðu á í veröldinni, það hagkerfi, sem þjóðnýtir sannað og ósannað tap einstakra manna og atvinnugreina, en afhendir einstaklingum og fyrirtækjum þeirra gróðann eftirlitslaust, þegar græðist. Takmark þjóðvarnarstefnunnar er að lækka verðbólguna með ákveðnum ráðstöfunum og lækka þar með framleiðslukostnaðinn þannig, að heilbrigð framleiðsla beri sig styrkjalaust í okkar þjóðfélagi eins og öðrum heilbrigðum þjóðfélögum, og afhenda síðan hinum starfandi stéttum framleiðslutækin sjálf og allan þann arð, er þau geta gefið, enda beri þessar stéttir jafnframt ábyrgð á framleiðslunni.

Þessu takmarki ætla þjóðvarnarmenn að ná með þessum ráðstöfunum:

1) Með því að nýta allt íslenzkt vinnuafl í þágu íslenzkra atvinnuvega og girða fyrir þau verðbólguáhrif og önnur skaðleg áhrif, sem herliðið hefur á þjóðfélagið, með því að vísa hernum úr landi.

2) Með því að taka nú þegar allar fiskvinnslustöðvar, sem máli skipta fyrir nýtingu sjávarafla, og fiskflutningaskip eignar- eða leigunámi og reka á ábyrgð ríkissjóðs, unz löggjöf hefur verið sett um framleiðslusamvinnufélög sjómanna og annarra, er lífsframfæri hafa af sjávarútvegi, en þá taki slík félög þessar eignir í sínar hendur.

3) Með því að taka nú þegar allan útflutning á fiski og fiskafurðum í hendur ríkisins, unz framleiðslusamvinnufélögin hafa verið stofnuð, en þá verði þeim einnig afhent þessi réttindi. Höfum við þm. Þjóðvfl. fyrir nokkru lagt fram á Alþ. frv. um þessi mál öll.

4) Með því að taka olíuinnflutning og olíuverzlun í hendur ríkisins og lækka á þann hátt olíuverðið og þar með framleiðslukostnað sjávarútvegsins, enda selji olíuverzlun ríkisins að sjálfsögðu olíusamlögum sjómanna olíuvörur á kostnaðarverði. Við höfum fyrir nokkru lagt hér fram á Alþ. frv. um þetta mál einnig.

5) Með því að fækka milliliðum, draga úr milliliðagróða og taka upp verðlagseftirlit, meðan verið er að ná jafnvægi og búa framleiðslugreinunum heilbrigð framleiðsluskilyrði og afhenda samtökum alþýðunnar verðlagseftirlit og lækka á þann hátt framleiðslukostnaðinn stórlega, bæði með verðlækkunum á rekstrarvörum framleiðslunnar og vísitölulækkunum, jafnframt því sem raunveruleg kaupgeta launa yxi. Frv. um þetta bárum við fram á Alþ. í fyrra og aftur nú.

6) Með því að fella niður söluskatt af rekstrarvörum framleiðslugreinanna, vörum í smásölu, innlendum iðnaði og þjónustu og lækka með því framleiðslukostnaðinn og draga úr verðbólgunni. Þetta mál höfum við einnig lagt fyrir þingið.

7) Með því að lækka vexti að minnsta kosti af lánum til framleiðslugreinanna gegn því, að sparifé yrði vísitölutryggt með framfærsluvísitölu, og er þessi ráðstöfun að sjálfsögðu einnig ætluð til að draga úr framleiðslukostnaði og búa atvinnugreinunum heilbrigð starfsskilyrði.

8) Með uppbyggingu nýrra, arðbærra atvinnugreina, en höfuðskilyrði þess, að það sé unnt, er, að dregið sé úr verðbólgunni. Er sú staðreynd augljós, að jafngífurleg aukning verðbólgunnar og ríkisstj. ætlar nú að framkvæma ásamt því gengishruni, sem óumflýjanlega fylgir í kjölfarið, mundi leiða til þess, að þær nýjar framleiðslugreinar, sem vaxandi þjóð eru lífsnauðsyn og mundu verða mjög arðbærar, ef framleiðslukostnaður lækkaði frá því, sem nú er, mundu hins vegar verða algerlega óviðráðanlegar og óarðbærar vegna aukins stofnkostnaðar og framleiðslukostnaðar, ef stefnu ríkisstj. yrði framfylgt.

Af því, sem ég hef nú sagt, má öllum ljóst vera, að þær tvær leiðir, sem nú er um að velja í efnahagsmálum Íslendinga, tortímingarleið núverandi ríkisstj. og viðreisnarleið þjóðvarnarmanna, eru að sjálfsögðu algerar andstæður í eðli sínu og í framkvæmd.

Mun ég nú leitast við að skýra nokkuð þau atriði í stefnu okkar þjóðvarnarmanna, sem til þessa hafa minnst verið rædd opinberlega.

Ríkisstj. og málpípur hennar munu reyna að telja ykkur trú um, að þær ofsalegu skattahækkanir, sem hún ætlar nú að láta Alþ. samþykkja, hafi reynzt óhjákvæmileg bráðabirgðaráðstöfun til að koma í veg fyrir, að öll útgerð stöðvaðist í bili. En ég get fullvissað ykkur um og veit raunar, að þið hafið þegar skilið, að þær ráðstafanir, sem við þjóðvarnarmenn leggjum til að gerðar verði, mundu ekki aðeins duga til að koma í veg fyrir það, að fiskveiðar landsmanna stöðvuðust í bili, heldur og tryggja það, að unnt væri að reka þessi og önnur framleiðslutæki þjóðarinnar um langa framtíð á heilbrigðum grundvelli. Slíkt regindjúp er milli þessara tveggja leiða.

Það er á allra vitorði, að lítill hópur manna hér í Reykjavík og nágrenni hefur með aðstoð ríkisvaldsins náð einokun á öllum fiskútflutningi landsmanna. Þessir sömu aðilar hafa einnig náð í sínar hendur öllum mikilvægustu fiskvinnslustöðvunum og fiskflutningaskipum. Loks hefur þeim einnig tekizt að hrifsa til sín öll ráð í heildarsamtökum útvegsmanna. Með þessu móti hafa þeir fengið alger yfirráð yfir sjávarútveginum og hafa líf hans og afkomu í hendi sér. Engin tilraun hefur verið gerð til þess að hafa eftirlit með því, hvernig þeir beittu þessu ægivaldi. Þvert á móti hefur ríkisvaldið lagt hundruð millj. kr. álögur á þjóðina og fengið þessum sömu mönnum í hendur algerlega eftirlitslaust. Nú vita allir, að hlutur sjómanna og báta byggist á því, hvert verð fiskvinnslustöðvarnar ákveða sjálfar að greiða fyrir fiskinn þangað kominn. Þetta verð ætti að sjálfsögðu fyrst og fremst að miðast við það verð, sem fæst fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum. Það er þó mjög mörgum ljóst, að fiskeinokunarhringarnir hafa ekki miðað fiskverðið til sjómanna við þetta. Þeir hafa eftirlitslaust ráðstafað því af gjaldeyrinum fyrir fiskinn, sem þeim sjálfum sýndist, til að koma sér upp eigin innflutningsfyrirtækjum í ýmsum löndum, svo að þeir geti sjálfir ráðið því, hvað gefið er upp sem verð á fiskinum á þessum mörkuðum. Þeir hafa einnig ráðstafað ríflegum fúlgum af fiskverðinu í gjaldeyri til að koma sér upp eigin dreifingarkerfi í viðkomandi löndum og eru nú um þessar mundir að stórauka eignir sínar í þessu skyni a. m. k. í Ameríku. Þeir hafa lengi haft hug á að koma sér upp hótelrekstri erlendis, og þætti mér fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvort rétt sé, að sú starfsemi sé nú hafin. Með þessari starfsemi er ekkert eftirlit af hálfu hins opinbera. Engum dettur í hug, að þessir aðilar muni ákveða heildsöluverðið á fiskinum, þ. e. a. s. þann gjaldeyri, sem íslenzkum bönkum er skilað, svo hátt, að þeir hafi ekki sjálfir ríflegan hagnað af smásölunni í hinum erlendu markaðslöndum. Auk þess veit enginn, hvort þeir hafa ekki ráðstafað hluta af fiskverðinu til annarra hluta en eignauppbyggingar erlendis. Með því er heldur ekkert eftirlit. Vitað er a. m. k., að þeir hafa stundum haft gjaldeyri til umráða til að kaupa ýsu af öðrum þjóðum en Íslendingum, þegar þeir töldu sig ekki geta fengið nægilegt magn hér heima.

Það þarf enga spekinga til að sjá og skilja, að með þessu fyrirkomulagi á útflutningsverzluninni sé þess varla að vænta, að hlutur sjómanna og smáútvegsmanna verði mikill, enda þótt íslenzkir sjómenn dragi á land sjö sinnum meira aflamagn á mann en nokkur önnur þjóð, enda hafa þeir aðilar, sem þannig halda á málum útflutningsverzlunarinnar, notfært sér erfiðleika útvegsmanna til þess að knýja handbendi sitt, núverandi valdhafa, til að leggja óbærilegar skattaálögur á almenning með aðferðum, sem hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, hefur neyðzt til að kalla „kommúnistiskt ofbeldi“ á opinberum fundi, og það þótt vitað sé, að hér sé um suma þá aðila að ræða, sem gera út Sjálfstæðisflokkinn. Þó að skattaálögur þessar eigi að heita aðstoð við útgerðina, hirða þó einokunarhringarnir bróðurpartinn af þeim til fiskvinnslustöðvanna, á sama hátt og er um hið svonefnda bátagjaldeyrisálag. Einokunarherrarnir treystu ekki heldur útvegsmönnum til þess að taka af frjálsum vilja þátt í því ofbeldi að stöðva alla útgerð til að beygja Alþ. og skylduðu því útvegsmenn í helztu verstöðvum landsins til að samþykkja að borga háar fjársektir, ef þeir gerðu út eftir 1. jan. s. l., og létu þá samþykkja tryggingarvíxla fyrir þessu sektarfé.

Þessar aðferðir, sem ég hef hér lýst, eru þess eðlis, að ekkert lýðræðisþjóðfélag á eða má þola þær. Þess vegna höfum við þjóðvarnarmenn lagt til, að fiskútflutningur, fiskvinnslustöðvar og fiskflutningaskip verði tekin í hendur ríkisins fyrst um sinn til að rétta hlut sjómanna og útvegsmanna og tryggja það, að öllum þeim gjaldeyri sé skilað, sem fæst fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum, svo að sjómenn og útvegsmenn fái sinn eðlilega hlut af honum og ekki þurfi að grípa til þeirra Lokaráða að auka verðbólguna með nær 250 millj. kr. nýjum álögum, til þess að útgerð geti borið sig í bili hjá einni helztu fiskveiðiþjóð veraldar.

Um frv. okkar þjóðvarnarmanna um olíuverzlun ríkisins vil ég aðeins segja þetta. Það er ljóst, að olíuvörur eru mjög mikill þáttur í framleiðslukostnaði sjávarútvegsins, og mundi þannig verða til verulegra hagsbóta fyrir þessa framleiðslugrein, ef takast mætti að lækka olíuverð að marki. Menn minnast þess, að í aðalmálgagni núverandi ríkisstj., Morgunblaðinu, hefur því tvívegis verið haldið fram og hvergi mótmælt, að eitt olíufélagið hér á landi hafi á einn ári grætt 6–10 millj. kr. á einum þætti starfsemi sinnar. Það er einnig í fersku minni, að eitt olíufélagið var nýlega dæmt í hæstarétti fyrir að hafa tekið á aðra millj. kr. í gróða á einum olíufarmi umfram það, sem leyfilegt var svo og það, að sama olíufélag tók öðru sinni 700 þús. kr. gróða á flutningsgjöldum af einum olíufarmi, en sagðist ætla að skila þeim gróða aftur, þegar upp komst um athæfið. Þetta eru aðeins dæmi um það, sem vitnazt hefur. En hitt er á allra vitorði, að þar muni fleira vera með svipuðu sniði, enda er olía til mikilla muna dýrari hér á landi en annars staðar. Allir skilja líka, hvílík fjarstæða það er að hafa þrefalt olíudreifingarkerfi í okkar litla landi, þrefaldan skrifstofukostnað og mannahald við það, sem nauðsynlegt er, og hver óþarfakostnaður leggst á olíuverðið af þessum sökum.

Það er því ljóst, að ef frv. okkar þjóðvarnarmanna um olíuverzlun ríkisins yrði samþykkt, mundi það draga úr framleiðslukostnaði útgerðarinnar og gera hana ásamt öðrum ráðstöfunum arðbæra án skattgreiðslna frá almenningi.

Um frv. okkar þjóðvarnarmanna um lækkun verðlags og verðlagseftirlit verð ég tímans vegna að vera fáorður, enda var það rætt allýtarlega í útvarpsumr. hér á síðasta þingi og svo hefur hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, getið þess nokkuð í þessum umr.

Ég get þó ekki látið hjá líða að drepa á það, að í því frv. lögðum við til, að hluti af söluskattinum yrði felldur niður til að draga úr verðbólgunni. Það er vitað, að sá hluti söluskattsins, sem við viljum fella niður, rennur ekki allur í ríkissjóð, heldur verður sumum þeim aðilum, sem innheimta hann af almenningi, að verulegri tekjulind. Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hefur fundið það að þessari ráðstöfun, að hún mundi lækka tekjur ríkissjóðs um einar 50 millj. kr. á ári. Víst er það rétt. En á þá staðreynd má benda, að ríkissjóður hefur haft um og yfir 100 millj. kr. tekjur árlega umfram fjárlög, svo að hann væri ekki á flæðiskeri staddur. Þar að auki ætti sjálfur fjmrh. landsins helzt að skilja þá einföldu staðreynd, að með niðurfellingu söluskatts í smásölu mundu útgjöld ríkisins einnig lækka verulega með lækkun á vísitölu og lækkun á kostnaði af alls konar rekstrarvörum, sem nú nema milljónum króna árlega á flestum liðum ríkisútgjalda. En auk þess mundu ríkisútgjöld lækka enn meir, ef allar till. okkar þjóðvarnarmanna til lækkunar á verðbólgunni næðu fram að ganga, þannig að Eysteinn Jónsson þyrfti sannarlega ekki að óttast um sitt eina hjartans mál, þ. e. greiðsluhallalaus fjárlög.

Okkur þjóðvarnarmönnum er ljóst, að það er íslenzkri þjóð lífsnauðsyn, að nú þegar verði staðar numið á þeirri eyðileggingarbraut, sem að undanförnu hefur verið farin í efnahagsmálum og utanríkismálum þjóðarinnar. Þess vegna samþykkti miðstjórn Þjóðvfl. heildartill. um allsherjarviðreisn í þessum málum á fundi sínum hinn 4. okt. s. l. og sendi öllum hinum svonefndu vinstri flokkum, jafnframt því sem miðstjórnin lýsti því yfir, að flokkurinn væri reiðubúinn að eiga samstarf við aðra flokka um að hrinda þessum ráðstöfunum í framkvæmd.

Okkur þjóðvarnarmönnum er það ljóst, að allur þorri þjóðarinnar, að undanskildum gróðaklíkum og hermöngurum, er okkur sammála um, hvaða leið beri nú að fara í efnahagsmálum og atvinnumálum. Það mun vandfundinn sá Íslendingur utan raða verðbólgubraskaranna, sem sér ekki og skilur, að leið núverandi ríkisstj. mun búa þjóðinni meiri ófarnað en menn vildu almennt trúa til þessa. Það er jafnvel svo komið, að hinu handjárnaða liði stjórnarinnar ofbjóða nú þau verk, sem því er ætlað að vinna, og er því þó ekki klígjugjarnt.

Með hliðsjón af því, sem við þm. Þjóðvfl. höfum hér sagt, og til að gera allt, sem okkur sem fulltrúum alþýðustéttanna á Alþ. ber að gera, til að reyna að hindra þá árás á kjör alþýðustéttanna, sem íhaldsöflin ætla nú að gera, höfum við þm. Þjóðvfl. ákveðið í samráði við miðstjórn flokksins að bera fram í Sþ. till. til þál. um vantraust á ríkisstj. Hefur sú till. nú verið lögð fram.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, að hin miklu skrif formanns Framsfl., Hermanns Jónassonar, að undanförnu um það, að vinstri stjórn þyrfti að koma og mundi koma til að bjarga þjóðinni úr þeim voða, sem núverandi ríkisstj. með þátttöku Framsfl. hefur yfir hana leitt, bendir ótvírætt til þess, að innan Framsfl. er nú aukinn skilningur á þessari nauðsyn og háværar kröfur um það, að horfið verði að þessu ráði.

Margra mánaða viðræður Framsfl. við Alþfl. um myndun vinstri stjórnar og kosningasamvinnu benda ótvírætt til þess, að Framsfl. uggir nú mjög um tilveru sína, ef hann heldur áfram að stjórna með hag braskara og hermangara að leiðarljósi. Formaður Framsfl. hefur að vísu sagt, að sér væri ekki ljóst, hvenær né með hvaða hætti vinstri stjórn kæmi. Ég get nú frætt hann um það. Vinstri stjórnin kemur nú eftir samþykkt þessarar vantrauststill., því að það mega þeir framsóknarmenn vita, að ef þeir ætla að taka á sig ábyrgðina af því að samþykkja þær ráðstafanir, sem með kommúnistískum ofbeldisaðferðum á að knýja fram, eins og Bjarni Benediktsson orðaði það, þá negla þeir þar með lokið á sína pólitíska líkkistu og það með þeim hætti, að engan mun fýsa að grennslast í þá hirzlu.

Þjóðvarnarmenn hafa lýst því yfir, að þeir séu reiðubúnir að eiga aðild að myndun vinstri stjórnar með þeim skilyrðum, sem miðstjórnarályktun flokksins frá 4. okt. felur í sér. Þeir munu hins vegar enga aðild vilja eiga að myndun þeirrar vinstri stjórnar, sem væri undirbúin með þeim ráðstöfunum, sem núverandi ríkisstj. ætlar sér að knýja fram, vinstri stjórnar, sem væri ekki annað en nafnið, bundin á höndum og fótum af fjörráðum íhaldsaflanna og gæti ekki annað aðhafzt en að vera eins konar kosningafyrirtæki, meðan þjóðfélagsbyggingin hryndi til grunna í höndum hennar.

Af þessum sökum er það, sem við þm. Þjóðvfl. höfum krafizt þess og fengið framgengt, þrátt fyrir andstöðu annarra flokka, að þessar umr. færu fram í áheyrn þjóðarinnar, áður en fjárlög með hinum nýju skattaálögum yrðu endanlega samþykkt hér á Alþ., og við væntum þess, að ríkisstj. sýni þann sjálfsagða lýðræðisþroska að taka vantraustið til afgreiðslu, áður en lengra er haldið með afgreiðslu þessara mála. — Góða nótt.