30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

1. mál, fjárlög 1956

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Hannibal Valdimarsson, hinn mikli foringi hinnar andvanafæddu vinstri stjórnar, talaði stundarfjórðung umfram það, sem honum var heimilt. Þeim tíma varði hann til þess að lesa upp úr biblíu vinstri villinga, þ. e. a. s. greinum form. Framsfl., Hermanns Jónassonar. Vona ég, að hinn frjálslyndi forseti dragi ekki þennan stundarfjórðung frá ræðutíma þeirra framsóknarmanna, sem tala munu hér á eftir mér.

Ég gæti trúað því, að þegar frá líður, muni margur muna það helzt úr þessum umræðum, hversu mikinn beyg stjórnarandstæðingar hafa af hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssyni. Ég er öfundarlaus maður og mjög gott í vináttu okkar Bjarna Benediktssonar. Þó liggur við, að ég öfundi hann af þessari hræðslu andstæðinganna. En ég viðurkenni, að hún er að því leyti makleg, að hæstv. dómsmrh. er mikill yfirburðamaður og alger ofjarl andstæðinganna.

Án efa eru þeir ekki fáir, sem vænta þess, að ég hirti nú og húðstrýki þessa herra, sem hér hafa talað, svo sem þeir hafa til unnið. En ekkert slíkt er mér í huga. Ég er svo vanur, að á mig séu bornar ósannar sakir, málstaður minn svertur og ófrægður, að mér rennur ekki í skap af slíkum smámunum. Auk þess hef ég heyrt mest úr þessum ræðum hundrað sinnum áður. Enn fremur veit ég, að blessaðir mennirnir meina minnst af því, sem þeir segja. Og loks er ég ekki hingað kominn til að skattyrðast, heldur til að skýra flókin mál fyrir fróðleiksfúsum áheyrendum.

Spekingarnir, sem hér voru að tala, umboðsmenn hinnar sjálfri sér sundurþykku, smávöxnu og stöðugt vesælli og sennilega líka minnkandi stjórnarandstöðu, hafa nú enn einu sinni lýst þeirri ríkisstj. sem athafnasmárri og úrræðalausri, sem í öndverðu naut stuðnings nær 7 af hverjum 10 kjósendum í landinu og vitað er að síðan hefur vaxið fylgi. Ofan á hafa þeir svo bætt því að kalla stjórnina íhaldssama og jafnvel illgjarna, enda þótt hún með stefnu sinni og athöfnum hafi svo rækilega sannað, að ekki verður um villzt, að hún tók á sig vanda valdanna fyrst og fremst í því skyni að bæta kjör almennings í landinn, og það sem þó enn meiru varðar: hefur borið gæfu til að standa við heit sín.

Þegar stjórnin tók við völdum, þorði enginn andstæðinganna að ráðast á stefnu hennar. Þeir neyddust til að viðurkenna, að fyrirheitin væru frjálslynd og fögur og snertu einmitt mestu áhuga- og hagsmunamál landsmanna, jafnt til sjávar sem sveita. Hin veigalitla stjórnarandstaða hélt þá í sér líftórunni eingöngu með þrálátum staðhæfingum um, að stefna stjórnarinnar og fyrirheit væru ekkert annað en loforð ætluð til svika, pólitískar blekkingar og óheilindi, sem sumir stjórnarandstæðinga þekkja betur úr sínum eigin heimkynnum en efndir.

Í ræðu stjórnarandstæðinga hér í kvöld var ekkert merkilegt, nema vera skyldi hvað þær voru ómerkilegar, sem þó er ekki merkilegt, af því að þessu á maður að venjast frá þessum mönnum. En höfuðeinkennið var sameiginlegt: Neikvætt niðurrif og níð. Engar jákvæðar tillögur. Ekkert til úrbóta. Ekkert að gagni.

Ég skal svara þeim með því að láta verk stjórnarinnar tala. Þau blása hjóm, froðu og fleipur stjórnarandstöðunnar út á haf gleymsku og fyrirlitningar.

Margir muna vafalaust, að aðalfyrirheit stjórnarinnar hljóðar þannig:

„Það er höfuðstefna stjórnarinnar að tryggja landsmönnum sem öruggasta og bezta afkomu.“ Sú stjórn, sem slíkt fyrirheit gefur og stendur við það, þarf ekki að láta árásir andstæðinganna á sig fá. Hún er brynjuð verkum sínum.

Hitt vita svo flestir af eigin reynd, að aldrei hefur þjóðin haft meiri og betri atvinnu, aldrei meira að bita og brenna, meira fé handa á milli, getað veitt sér meira og þó eignazt meira en einmitt nú. Okkur amar nú fátt annað en sjálfskaparvitin. Ágæt afkoma ríkissjóðs vegna fastrar og hyggilegrar fjármálastjórnar, lækkun á beinum sköttum, verndun sparifjár, aukið athafnafrelsi, sem allir þrá, þótt við höfum kannske ekki farið nægilega varlega með það hnoss, allt eru þetta fyrirheit, sem búið er að efna. Er það allt mikils virði og góðra gjalda vert. Mun þó margur fagna því meir, að hið nýja veðlánakerfi er tekið til starfa og hefur nú þegar greitt götu margra til að eignast þak yfir höfuðið. Er hér um að ræða stórmerka framtíðarstofnun, sem að sönnu er enn ekki nægilega öflug til að geta í einni svipan bætt þá miklu þörf, sem áratuga vanræksla hefur safnað saman, en þó nú þegar hefur leyst vandræði margra og er ætluð til að veita öllum, sem til hennar leita, aðstoð, þegar frá liða stundir og henni vex fiskur um hrygg. Hygg ég, að sú stjórn, sem slíka löggjöf hefur sett, muni af því einu fá nokkurn orðstír í framtíðinni, verði vel og viturlega byggt ofan á þann grunn, sem nú er lagður.

Þá er og rafvæðing landsins mikið og merkt mál. Hefur stjórnin ekki heldur í því látið standa við orðin ein, heldur hafizt öfluglega handa með stórvirkjunum bæði á Vestur- og Austurlandi auk margs annars og þegar tryggt að mestu fé til allra þeirra framkvæmda, er fyrirheitin voru gefin um, jafnt með nær fjórföldun á árlegu framlagi ríkissjóðs sem erlendum og innlendum lánum og lánafyrirheitum. Er það efni í miklu lengri ræðu en mér vinnst tími til að flytja hér, ef skýra á þessar stórhuga framkvæmdir, sem ætlaðar eru til að efla hag dreifbýlisins og þar með þjóðarinnar allrar. Er vissulega tímabært, að við, sem lengi höfum notið yls og birtu með því að virkja aflið í elfum landsins og iðrum jarðar, sýnum í verkinu, að við viljum aðstoða bræður og systur, sem allt of lengi hafa farið á mis við þessi lífsgæði, til þess eftir föngum að brjóta á bak aftur ofurvald íslenzks vetrarmyrkurs og frosthörku.

Til þess að menn átti sig á því risaátaki, sem hér ræðir um, skal ég tilfæra örfá orð úr langri og mjög skilmerkilegri skýrslu Eiríks Briems rafmagnsveitustjóra, sem nýverið birtist í Morgunblaðinu. Þar segir:

,.Í 10 ára áætlun ríkisstjórnarinnar felst, að allir kaupstaðir, öll kauptún og yfirleitt allt, sem þorp getur kallazt, fá vatnsaflsrafmagn frá samveitum. Enn fremur verða lagðar héraðsveitur til um það bil 2600 sveitabýla til viðbótar þeim, sem tengd voru í ársbyrjun 1954, og munu þá alls um 3500 býli hafa fengið rafmagn frá samveitunum.“

Og enn fremur segir rafmagnsveitustjóri:

„Auk þess má gera ráð fyrir, að einkarafstöðvunum fjölgi, þannig að fast að 100% landsmanna muni hafa rafmagn til afnota í lok 10 ára áætlunarinnar.“

Hér þarf ég engu við að bæta. En ég get sagt svipað og um veðlánastofnunina, að ég hygg, að sú stjórn, sem slíkt fyrirheit gaf og efndi það, muni hljóta nægan sóma til þess að kæfa hrópyrði og kveinstafi vesællar stjórnarandstöðu, sem undan engu þarf að emja öðru en því, að ríkisstjórnin sé of frjálslynd, stórhuga og úrræðagóð, til þess að svo aum stjórnarandstaða megni að rispa hana, hvað þá blóðga.

Nei, núverandi ríkisstj. verður aldrei með rökum sökuð um brigðmælgi. Henni verður ekki heldur brugðið um úrræðaleysi. Að þjóðinni hafa steðjað margvísleg vandræði síðustu 5–6 árin. Samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur, dyggilega studd af stjórnliði sinu, gjarnan brugðizt fljótt og vel við þörfum manna, hvort sem glíma varð við aflabrest, verðfall, mæðiveiki, harðindi eða annað. Og jafnframt öllu þessu hefur stjórnin og flokkar hennar beitt sér fyrir margvíslegri merkri löggjöf, sem engin fyrirheit höfðu verið gefin um. Fjallar lagasetning þessi um hin óskyldustu efni, jafnt á sviði menningar- og menntamála sem hinna ýmsu atvinnumála. En e. t. v. hefur þó stjórnin aldrei sýnt betur en nú, að hún er sterk stjórn, sem þorir að horfast í augu við örðugleikana, er hún leggur nú fram frv. um milli 150 og 200 millj. kr. nýja skatta vegna aukinna þarfa ríkissjóðs og framleiðsluatvinnuveganna út af kauphækkunum þeim, sem urðu á síðasta vori. Slík stjórn verðskuldar traust, en ekki vantraust.

Og skal þá víkja að dægurmálunum.

Eins og menn muna, var sjávarútvegurinn kominn í greiðsluþrot, þegar stjórn undir forustu Alþfl. lét af völdum í árslok 1949. Átti sú stjórn á því enga sök. Til úrbóta var talið að þurfa mundi um 150 millj. kr. nýja skatta. Var þá í marzmánuði 1950 gripið til gengislækkunarinnar. Enginn, sem þá ráðstöfun gagnrýndi, þorði að bera fram till. um nýja skatta á þjóðina, og var því sú gagnrýni aðeins máttvana nöldur. Af versnandi verzlunarárferði á Íslandi o. fl. leiddi þörf fyrir ný bjargráð í ársbyrjun 1951. Þá voru veitt bátagjaldeyrisfríðindin svonefndu. Án þeirra og án gengisfellingar hefðu skattar, er námu a. m. k. 250–300 millj. kr., nægt þar til nú að ný þörf kallar á ný úrræði vegna kauphækkananna miklu á síðasta ári. Hefði þá vart nú verið um annað að ræða en gengislækkun, jafnmikið vandaverk sem það hefur reynzt að benda á gjaldstofna nú, og hafa þó skattar verið lækkaðir, en ekki hækkaðir um 250–300 millj. síðustu 5–6 árin.

Hin nýja tekjuþörf ríkisins stafar að mestu leyti beint og óbeint af auknum útgjöldum vegna kauphækkananna á s. l. vori. Mun hæstv. fjmrh. gera nánari grein fyrir því. Líkt er um þörf framleiðsluatvinnuveganna fyrir framleiðslubætur. Sú þörf stafar mest af kauphækkunum.

Kem ég þá að till. ríkisstj. til að ráða fram úr þeim vanda, sem kauphækkanirnar í vor færðu yfir framleiðsluna. Umræddar kauphækkanir námu í öndverðu 13.6% fyrir atvinnurekendur.

Af þessu leiddi, svo sem fyrr var sagt, hækkun á allri þjónustu og síðar samkvæmt gildandi lagafyrirmælum hækkun á verðlagi landbúnaðarafurðanna. Af því leiddi aftur hækkun vísitölunnar. Er nú svo komið, að þessar kauphækkanir nema tæpum 22%. Snemma á þessu hausti voru þessar hækkanir ýmist komnar í ljós eða fyrirsjáanlegar. Gaf þá ríkisstjórnin bændum fyrirheit um að beita sér fyrir uppbótum á útfluttar framleiðsluvörur þeirra til samræmis við svonefndan bátagjaldeyri. Kaus ríkisstj. þann kost fremur en þá hækkun á verðlagi landbúnaðarafurða, sem ella hefði riðið yfir til fullnægingar gildandi lagaákvæðum, enda hefði þá af hlotizt mikil hækkun á vísitölunni öllum til tjóns. Er rétt, að þeir, sem oft eru að telja eftir þetta fyrirheit stjórnarinnar, hafi það hugfast, að fleiri en bændur njóta góðs af.

Eftir var nú hlutur útgerðarinnar, og kom engum á óvart, að sá vandi yrði ekki auðleystur. Undanfarin ár hefur Landssamband íslenzkra útvegsmanna átt viðræður í árslok við ríkisstj. um svokallaðan starfsgrundvöll fyrir útgerðina. Hefur þá ekki alltaf gengið greiðlega að sameina sjónarmiðin og fyrir komið, að róðrar hafa ekki hafizt rétttímis af þeim ástæðum. Undir þann leka vildi ríkisstj. nú reyna að setja. Skipaði hún því á öndverðu hausti fjóra hagfræðinga til að athuga þetta mál svo og ástandið í fjármála- og atvinnulífi þjóðarinnar. Jafnframt störfuðu þeir hinir sömu embættismenn stjórnarinnar að málinu sem með það hafa farið undanfarin ár, undir forustu Gunnlaugs E. Briems ráðuneytisstjóra. Eru það allt hinir mætustu menn, sem lagt hafa mjög mikla vinnu í rannsókn og lausn þessa máls og oft orðið að fella nótt við dag í því skyni. Skal ég ekki rekja þá sögu lengra, aðeins get ég þess, að enda þótt að lokum tækist að ná samkomulagi, þar í öndverðu og raunar fram á síðustu stund mjög mikið á milli, svo að milljónatugum skipti. Má raunar segja, að svo sé enn, þótt L. Í. Ú. kysi frekar þann kost að una því, sem ríkisstj. treysti sér lengst að ganga, en að bera ábyrgð á róðrarbanni.

Menn hafa lesið í blöðum og heyrt í útvarpi höfuðefni frv. ríkisstj. um framleiðslusjóð, og enn fremur hafa menn fengið um það upplýsingar, að vísu verulega rangar hjá hv. ræðumönnum hér í kvöld. Útgjöld sjóðsins eru áætluð 152 millj. kr. Af þeirri upphæð var til um áramótin handbært fé í togarasjóðnum 15 millj. kr. Þá þarf að afla nýrra tekna að upphæð 137 millj. kr. Er lagt til, að það sé gert með því að leggja svonefnt framleiðslugjald á innfluttar vörur að upphæð 9%. Leggst gjaldið á cif-verð vörunnar að viðbættri áætlaðri álagningu 10%. Ýmsar vörur eru þó undanþegnar þessu gjaldi, þótt stjórnarandstæðingar hafi neitað því hér í kvöld, svo sem salt, kol, veiðarfæri, olía benzín, fóðurbætir, áburður o. fl. Nefni ég þetta sem dæmi um óvandaðan málflutning þeirra.

Þá er ætlað að leggja 3% framleiðslugjald á sölu og veltu á iðnaðarvörum, með undantekningum þó, allt eftir því, sem nánar greinir í 13. gr. frv. stjórnarinnar um framleiðslusjóð. Tekjur af þessum gjöldum eru áætlaðar 115 millj. kr., en aðrar tekjur framleiðslusjóði til handa alls 22 millj. Ræðir þar einkum um 30% innflutningsgjald af ávöxtum, búsáhöldum, smíðatólum o. fl., alls um 10 millj. kr., 40% gjald af innfluttum tollvörutegundum, alls um 4 millj. kr., og 100% gjald af fob-verði vissra tegunda bifreiða, áætlað um 8 millj. kr.

Rétt er að geta þess, að á s. l. ári voru leyfagjöld af innfluttum bifreiðum 38 millj. kr. Um útgjöld sjóðsins verð ég að láta nægja að taka þetta fram:

Varðandi togarana er byggt á skýrslu og till. milliþn., sem Alþ. kaus 1954. Áttu sæti í henni fulltrúar allra þingflokka nema Þjóðvfl. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að taprekstur meðaltogara væri þá 950 þús. kr. á ári. Athuganir byggðar á sama grundvelli sýna, að nú er tapreksturinn orðinn 1980 þús. kr., eða tæpar 2 millj. Ekki sá ríkisstj. sér þó fært að miða till. sínar við þá upphæð, heldur við 5000 kr. á úthaldsdag, eða rúml. 3/4 hluta þess, sem talið var þurfa. Er áætlað, að kostnaður af þessu framlagi muni nema um 60 millj. kr. Er þá ekki gert ráð fyrir væntanlegri kauphækkun sjómanna, sem þó er fyrirsjáanleg og sanngjörn, miðað við það, sem á undan er gengið.

Þá er ætlað til vinnslubóta á fiski, jafnt togara- sem bátafiski, 5 aurar á kg af slægðum fisk með haus, eða alls um 18 millj. kr. Er tilskilið, að vinnslustöðvarnar greiði þá sama verð og greitt var í des. s. l. fyrir fiskinn. Var lægsta krafa frystihúsanna miklu hærri og mörg rök færð fyrir, sem hér vinnst ekki tími til að skýra. En játað er af umboðsmönnum ríkisstjórnarinnar, að kauphækkanirnar, sem urðu s. l. vor, kosti frystihúsin ekki aðeins þessa 5 aura á kg, heldur 12 aura, en upp í mismuninn hafa frystihúsin 6 aura vegna hækkaðs álags á bátagjaldeyrinn. Sjálf nefndu frystihúsin 14–16 aura, en vildu auk þess m. a. fá greiddan kostnað við svonefnda neytendapakkningu, bæði til Bandaríkjanna og Rússlands. Er með því ætlað að vinna og festa markaði. Það skal vissulega játað, að slíkt er æskilegt, þótt nú skorti fjárhagslegt bolmagn til þess, enda hefði til þess þurft tugi millj. kr., sem ríkisstj. treysti sér ekki til að bæta ofan á nauðsynlegustu skattana.

Til framdráttar bátaflotanum er auk óbeinnar aðstoðar, sem felst í vinnslugjaldinu og núgildandi bátagjaldeyrisfríðindum, ætlað að greiða niður hálft vátryggingariðgjaldið. Hefur þá báturinn heldur skárri fjárhagsgrundvöll en í fyrra, sé miðað við sama aflamagn og verðlag og tillit tekið til hækkaðs álags á bátagjaldeyrinn annars vegar og hins vegar aukins kostnaðar vegna kaupgjaldshækkananna frá í vor. Er þetta gert til þess að mæta hækkuðu kaupi til sjómanna.

Kostnaður af þessu nemur um 8 millj. kr. Þá er lagt til að greiða sérstakar vinnslubætur á smáfisk, sem byggt er á því, að mörg undanfarin ár hefur verið greitt sama verð fyrir smáan fisk og stóran. Vegna sjómanna og útgerðarmanna þykir ekki kleift að breyta því. En játað er, að smáfiskurinn er verðminni vara. Gætir þess þó mest til frystingar, því að bæði eru vinnulaun hlutfallslega því meiri sem fiskurinn er smærri og einnig fást mun minni flök úr smáfiski en stórfiski, miðað við hráefnisþunga.

Kostnaður af þessu er áætlaður 6–7 millj. kr. Enn fremur á að verja úr sjóðnum 26 millj. kr. til að kaupa inn svonefnd B-skírteini. Er hér um skynsamlega ráðstöfun að ræða, sem mér vinnst ekki tími til að skýra, enda er það mjög flókið mál.

Hafa ræðumenn hér í kvöld talið þessa ráðstöfun alveg óþarfa, stjórnin vilji aðeins kvelja fólkið sem mest. — Þetta hirði ég ekki að rökræða, þótt ekki væri af öðru en því, að þjóðin veit, að enga stjórn langar að gera sig óvinsæla með óþörfum sköttum.

Varðandi bætur á útfluttum landbúnaðarafurðum, að upphæð um 15 millj. kr., vísa ég til framangreinds og þess, sem hæstv. landbrh. mun um það segja.

Nokkur fleiri ákvæði eru í frv., sem mér þykir þó ekki sérstök ástæða að víkja að.

Ef til vill spyr nú einhver, hvort þörf sé þessara framleiðslubóta. Um það vísa ég til grg. um framleiðslusjóð. Sjálfur bæti ég því við, að sérfræðingar ríkisstj., sem mjög vandlega hafa rannsakað öll gögn málsins, telja, að hvergi megi af klípa, en útvegsmenn og vinnslustöðvar telja þörf miklu hærra framlags. En þeir, sem þessum málum eru ekki nægjanlega kunnugir, aðgæti, að kaupgjaldið er langstærsti liður framleiðslu- og vinnslukostnaðar. Hækkun um 22% á þeim kostnaði, eins og nú er orðið, hlýtur því að kippa fótunum undan framleiðslunni, en stöðvun hennar er banabiti þjóðfélagsins. Mín skoðun er sú, að ríkisstj. hafi ekki gengið feti lengra en nauðsynlegt var. Hitt er tvísýnna, hvort það nægir, sem nú hefur verið lagt til og væntanlega verður samþ. á morgun á Alþingi.

Ég viðurkenni, að skattarnir, bæði til ríkis og framleiðslusjóðs, eru háir og þungbærir, en vart meiri en 5–6% af þjóðartekjunum. Ættu þeir ekki að vera drápsklyfjar, þegar kaupgjaldið er hækkað um 22%. Miðað við útsvarshækkanir, sem víða eru um og yfir 30% af heildarupphæðinni, eru þessir skattar ekki einstakir.

Mér er vel ljóst, að frv. stjórnarinnar um framleiðslusjóð verður ekki skýrt viðhlítandi í svo stuttu máli. En skýringar og einkum þó frumvörpin sjálf eru lifandi sönnun þess, að aðvaranir mínar og annarra um hættulegar afleiðingar kaupgjaldshækkananna, þegar framleiðslan er rekin með halla, voru sannar. Þessar aðvaranir voru að engu hafðar. Sú synd fær nú sína refsingu, sem með engu móti verður umflúin, enda skilst væntanlega öllum, að engin ríkisstj. gerir að gamni sínu að leggja þungar álögur á þjóðina, þótt hins vegar stjórn, sem á sér manndóm og þingfylgi, kjósi þann kost fremur en að horfa aðgerðalaus á stöðvun framleiðslunnar.

Og hvernig er svo þessum bjargráðum tekið? Umboðsmaður Alþfl., prófessor Gylfi Þ. Gíslason, sagði í umr. um málið á laugardag: „Þetta er gjaldþrot stjórnarstefnunnar.“ Og hann rökstuddi þann sleggjudóm með því, að fyrir 6 árum hefðu tveir merkir hagfræðingar heldur kosið gengisfall en háa skatta og tolla. Mér varð allt að því orðfall, og á ég þó ekki vanda til þess. Átti ég að trúa því, að hagfræðiprófessor viti ekki, að enda þótt gengisfall sé betra en skattar og tollar við vissar aðstæður, getur það við breyttar aðstæður verið glapræði og orðið heilræði á ný við enn breyttar aðstæður? Nei, það er ekki stefna ríkisstj., sem nú er gjaldþrota, heldur hefur fróðleiks- eða vitsmunalind prófessorsins þornað upp í bili. Í dag læzt svo þessi sami hv. þm. vera að benda á úrræði og flytur um þau till. Alþfl. Sjálfum dettur honum ekki í hug, að þær till. séu frambærilegar, hvað þá framkvæmanlegar. Hann játar, að búið sé að íþyngja útgerðinni svo mikið, að nú beri að styðja hana, ella stöðvist hún og þar með komist hann sjálfur og við hinir á kaldan klaka. En, segir þm., enginn skal þó njóta neins stuðnings, nema hann gerist meðlimur í allsherjarfélagi allra vinnslustöðva og útvegsmanna og taki á sig þá smávægilegu kvöð, að komi fyrir, að hann hagnist, skuli gróði hans ganga til að greiða halla annarra útgerðarmanna eða vinnslustöðva, enda þótt hann geti engin áhrif haft á þann rekstur. Ef einhver útgerðarmaður einhvers staðar á landinu einhvern tíma hagnast, skal þeim hagnaði varið til að greiða halla, sem einhver annar útgerðarmaður einhvern tíma kann að bíða.

Hér gætir svo grómtæks grundvallarmisskilnings á eðli og þörfum þessa áhættusama atvinnurekstrar, sem á allt undir atorku, framtaki og dug þeirra, sem þar eru að verki, og sjálfu Íslendingseðlinu, að ekki er orðum að eyðandi.

Litlu betri er till. Alþfl. um tekjuöflunina. Þeir leggja til, að fram fari allsherjar eignakönnun og að allir, sem efnazt hafa um meira en 300 þús. kr. allt frá 1940 og fram á þennan dag, skuli greiða til samans í eignaraukaskatt 85 millj. kr. Undir þennan skatt skal falla verðhækkun íbúða og annarra eigna og allt miðast við söluverð í dag. Sennilega hefur svonefnd eignakönnun, sem hér fór fram fyrir tæpum áratug, skaðað og spillt heilbrigðri efnahagsþróun meir en flest annað. Sú reynsla ætti að nægja. Auk þess er vandséð, hvernig leysa á árlega þörf útvegsins með þeim hætti að gera upptækar eignir manna í eitt skipti fyrir öll. Þessar till. eru svo fráleitar, að í þeim felst ekkert nema hrein uppgjöf Alþfl.

Þá kunna kommúnistar betur áralagið. Þeir eru ísmeygilegri. Þeir segja, eins og þeir eru vanir: Sækið þið gróðann þangað sem hann er. Ríkið græðir, bankarnir græða, olíufélögin græða og heildsalarnir græða o. s. frv. Látið þið þessa aðila greiða hallann á útgerðinni. — Þetta er þeirra gamla, slitna og falska plata. Hún er vinsæl, þótt hún sé vitlaus, því að auðvitað vill fólkið, ég og aðrir, losna við skattana. En þetta er ekki eins auðvelt og út kann að líta. Eða þora kommúnistar að neita því, að það er grundvöllur undir fjármálaöryggi sérhverrar þjóðar, að ríkissjóður búi vel? Dirfast þeir kannske að neita því, að ríkisstj. hefur vel og viturlega ráðstafað greiðsluafganginum? Eða þora e. t. v. kommúnistar að ganga fyrir sjómenn og útgerðarmenn og segja, að óþarfi sé að veita lán til bátakaupa? Þora þeir að segja bændum, að þeir skuli áfram búa við fjársvelti jafnt til ræktunar sem bygginga? Dirfast þeir að segja við alla þá, sem húsnæðisvandræðin þjaka og þjá, líka þá, sem búa í heilsuspillandi íbúðum, að það sé hreinasti glæpur, að ríkið skuli vera þess megnugt að rétta þeim hjálparhönd?

Nei, ekkert af þessu þora kommúnistar að segja. En þá er þeim líka sæmst að segja, því að til þessa hafa stjórnarflokkarnir ákveðið að verja bróðurpartinum af þeim greiðsluafgangi, sem ríkissjóði hefur óvænt áskotnazt. Og með því móti er einmitt þeim liðsinnt, sem mesta hafa þörfina, og að þeim ráðum horfið, sem flestum eru til blessunar.

Árásir á bankana falla dauðar um þá staðreynd, að það er þjóðarböl, að íslenzkir bankar eru of fátækir, en ekki of ríkir. En um olíuokrið er það að segja, að það eru útgerðarmenn og samvinnumenn, sem eiga stærsta olíufélagið og bróðurpartinn í hinum og okra þá mest á sjálfum sér. Auk þess minni ég á, að hið sæla verðlagseftirlit, sem stjórnarandstæðingar telja allra meina bót, nær til olíunnar. Geti verðlagseftirlitið tryggt sannvirði annarrar vöru, hvernig stendur þá á því, að það er gagnslaust gagnvart olíuokri? Ætli svarið standi ekki í kommúnistunum?

Um milliliðagróðann er svo rétt að upplýsa, að fyrir Alþ. liggur nú till. um rannsókn á honum. Kommúnistar sýnast lítinn áhuga hafa fyrir henni. Hvers vegna? Það er vegna þess, að þeir eiga að fá fulltrúa í þessari nefnd, sem allt getur rannsakað og ofan af öllu flett. Það er vegna þess, að þeir óttast, að sú rannsókn leiði ekki í ljós nægilega mikinn gróða og sé þá erfiðara að blekkja eftir en áður.

En annars er aumt að þurfa að hlusta á þetta raus nær daglega. Hér tala menn í kvöld rétt eins og engin skattalög giltu á Íslandi. En hér gilda ein þyngstu skattalög, sem þekkjast. Þau áskilja ríkinu og bæjar- og sveitarsjóðum bróðurpart alls hagnaðar. Efalaust reyna margir að beita undanbrögðum og tekst það sumum. En vilja þá ekki kommúnistar kenna ríkinu ráðin til að stöðva þá starfsemi? Þá fær ríkið gróðann. En þá er líka bezta blaðra kommúnista sprungin.

Ef menn fletta staðhæfingar stjórnarandstæðinga klæðum, séu umbúðirnar teknar af orðaflaumnum, kemur þetta í ljós:

1) Útgerðin þarf og hefur í nær áratug þurft aðstoðar, vegna þess að á hana hafa verið lagðar þyngri byrðar en hún fær undir risið, einkum kaupgjaldið.

2) Þjóðin lifir á útgerðinni og verður þess vegna að halda lífinu í henni.

3) Sé krónan felld útgerðinni til framdráttar, er fyrst skammazt út af því, en aðstoðin síðan að engu gerð með kauphækkunum.

4) Þegar svo er gripið til bátagjaldeyris, er skammazt út af því.

5) Þegar þau fríðindi eru minnkuð, er skammazt út af því.

6) Þegar þau eru stækkuð, er skammazt út af því.

7) Þegar hætt er við að stækka bátagjaldeyrinn, en í þess stað gripið til skatta og tolla, er skammazt út af því.

8) Og sé svo ekkert af þessu aðhafzt, svo að útgerðin stöðvast, ætlar vitaskuld allt af göfiunum að ganga.

Þetta er sannleikurinn. Og þegar búið er að tína þessar spjarir af stjórnarandstæðingum, standa þeir frammi fyrir alþjóð berstrípaðir, rýrir, raunalegir, fálmandi og úrræðalausir og sannir að sök um fláttskap og óheilindi í mestu velferðar- og alvörumálum þjóðarinnar. Slíkt athæfi ber í skauti sínu refsinguna, þegar að skuldadögunum kemur.

Ég spyr enn: Hver eru úrræði þessara manna? Kunna þeir engin ráð önnur en þau að ræna ríki, banka, opinbera sjóði og stofnanir eignum? Og ætla þeir að gera það á hverju ári, svo lengi sem þörf útvegsins varir? Eru þeir kannske að heimta gengisfall með kaupbindingu? Það mundi duga. Eða vilja þeir e. t. v. verðhjöðnunina? Hún bitnar fyrst og langþyngst á launþegum. Þá yrði sá, sem nú fær 5 þús. á mánuði, kannske að sætta sig við 2–3 þús. Honum er hentara að hafa ekki byggt yfir höfuð sér eða yfirleitt stofnað til skulda. Þær mundu reynast nokkuð þungbærar. Er það kannske þetta, sem verið er að heimta? Eða heimta menn, að ekkert sé gert, svo að framleiðslan stöðvist og við getum allir og öll soltið í takt? Hvað er það yfirleitt, sem menn heimta? Veit kannske enginn, hvað hann vill? Eða verða stjórnarandstæðingar að bera fram þessar sýndartillögur, sem hver stangast við aðra og ekkert eiga sameiginlegt annað en það að vera allar jafnfráleitar, eingöngu til þess að ljóstra því ekki upp, að þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð, standa úrræðalausir eins og þvörur, getulausir og gagnslausir til alls annars en þess að ráðast á allt, sem gert er, eitt í dag, annað á morgun, allt til að þvælast fyrir þörfum málum og reyna að ófrægja stjórn landsins og spilla málefnum þjóðarinnar?

Svari menn þessu, ef þeir geta. Hér þýðir enginn vaðall um milliliðagróða, sem kommúnistar fást ekki einu sinni til þess að rannsaka, eða gróða útgerðarmanna á olíusölu til sín sjálfra, svo að ekki sé rætt um árásir út af sómasamlegri afkomu ríkissjóðs og banka. Svari menn, segi ég, svari menn með rökum eða þegi og þoli sinn dóm.

Ég skal svara fyrir stjórnarandstæðinga og segja sannleikann, þótt þeir fáist ekki til þess. Stjórnin hefur hvorki gefizt upp né guggnað. Á henni er enginn bilbugur. Hún veit, að við vissar aðstæður er gengisfall skásta úrræðið. Við aðrar aðstæður eru tollar og skattar skárri. Hún og hennar samherjar hafa haft vit til að velja og dug til að standa við skoðanir sínar. Hún hefur haft kjark til að ganga framan að þjóðinni og segja: Úr því að menn fást ekki til að sætta sig við það kaup og þau kjör, sem framleiðslan fær undir risið, er í bili ekkert úrræði fyrir hendi annað en að taka það, sem umfram gjaldþol framleiðslunnar hefur verið tekið af þjóðinni, og skila framleiðslunni því aftur, ella stöðvast framleiðslan, en þá sveltur þjóðin.

Því fer víðs fjarri, að ríkisstj. þurfi að bera kinnroða fyrir þessi frv. sín, enda gerir hún það ekki. Það eru hinir, sem teymt hafa þjóðina út í kapphlaupið milli kaupgjalds og afurðaverðs, sem sökina eiga bæði á nýjum álögum og því, að krónan riðar. Þessir menn hafa undanfarna mánuði hamazt á stjórninni fyrir aðgerðaleysi. Sjálfir hafa þeir ekkert haft fram að bera nema óhróður og persónulegan skæting í blöðum sínum. Ég á þar ekki sérstaklega við Alþýðublaðið. Ég á yfirleitt minnst við Alþfl. Hann er nú orðinn helzt enginn flokkur, miklu frekar búsáhald á heimili kommúnista, eða þá heldur smíðatól, kúbein hét það í gamla daga, sem kommúnistar nota til niðurrifs í þjóðfélaginu. Þjóðvörn veit ég of lítið um, því að þótt ég lesi sjaldan Alþýðublaðið, veit ég þó enn minna um boðskap blaðs Þjóðvarnar. En eigi að dæma flokkinn af ræðum þjóðvarnarmanna hér í kvöld, verður hann varla langlífur. En um kommúnista vil ég segja það, að það eru þeir, sem valda. Með æsingum og kaupgjaldskröfum, sem verkalýðurinn hefur þann eina hagnað af að fella krónuna, hefur þeim tekizt að kalla fram þörfina fyrir alla þá skatta, sem nú er verið að leggja á þjóðina. Þeir sáu þetta fyrir alveg eins og ég, enda þótt þeir þegðu, þegar ég aðvaraði. En nú, þegar komið er að skuldadögunum, ætlar sökudólgurinn að smeygja sér undan og koma sökinni á okkur hina, sem sáum hættuna fyrir og vöruðum við henni. Ég held, að kommúnistar hafi hér reist sér hurðarás um öxl. Fólkið er farið að skilja aðferðir þeirra og atferli. Fyrst kveikja þeir í húsinu, síðan kenna þeir stjórninni um brunann. Hvorugt er gott, en hvort tveggja við hæfi einræðisaflanna.

Spaugilegast er, þegar stjórnarandstaðan er að fjargviðrast yfir því, að ráðstafanir ríkisstj. séu engin endanleg lausn á vandamálum útvegsins. Þessu er daglega haldið fram í blöðum þeirra, og þessu hafa þeir haldið fram í kvöld. Manni verður á að spyrja: Hvaða fávitum er slíkt hjal ætlað? Allir hugsandi menn vita fyrir löngu, að í þessum efnum er aðeins ein varanleg lausn til. Hún er sú, að þjóðin sætti sig við það kaupgjald, sem framleiðsla hennar þolir. En einnig í þeim efnum vinna kommúnistar með kúbeinum sínum gegn hagsmunum þjóðarinnar. Einnig í því húsi kveikja þeir og kenna svo öðrum um brunann.

Ég lýk þessum hugleiðingum með því enn að spyrja um úrræði stjórnarandstæðinganna, ekki málamyndatill., bornar fram til blekkingar, svo sem gert hefur verið í kvöld, heldur eitthvað, sem er framkvæmanlegt.

Ég verð nú að fara að stytta mál mitt. Ég hef reynt að forðast að troða illsakir við samstarfsflokkinn, og hafa þó blöð hans gefið ærið tilefni til. Ég hef ýmislegt um Framsfl. að segja, margt gott og annað, sem mér fellur miður. Og innan stjórnarinnar hefur samvinnan gengið furðuvel. En því verr fellur mér, að sumir framsóknarmenn og blöð flokksins vilja eiga í stöðugum illdeilum við Sjálfstfl., rétt eins og miklu meira varðaði að gera okkur að glæpalýð og óbótahyski en hitt, að hrinda í framkvæmd þeim miklu hugsjóna- og hagsbótamálum þjóðarinnar, sem fyrirheit voru um gefin og nú eru vei á veg komin. Þetta athæfi er skaðlegt og spillir andlegum og veraldlegum velfarnaði þjóðarinnar. Fólk missir trúna á einlægni okkar allra og löngun okkar til að leysa farsællega vanda þjóðarinnar, og allt, sem er stærst í fari okkar, dregst ofan í svaðið. Þetta er illa farið. Menn eiga að vinna saman af bróðurhug, meðan það stendur. Síðar er tími til að berjast og bítast, því að þá er minna mark tekið á stóryrðunum, enda stendur oftast lítil alvara að baki þeirra.

Ég vil svo að lokum segja þetta við landsmenn alla, en einkum þó sjálfstæðisfólkið:

Ég veit ekki enn þá, hvort kosningar verða í vor eða dragast til loka kjörtímabilsins. Hvort tveggja er til. En á hinni svokölluðu vinstri stjórn hef ég aldrei haft mikla trú, tæplega, að hún komist á laggirnar, og þaðan af síður, að hún yrði nokkurs megnug. Hjörðin er ólík og sundurleit.

Alþfl., sem ekki er stór flokkur, einn þjóðkjörinn og 5 til að bæta hann upp, er sagður í fernu lagi. Flestir afneita kommúnistum, en þó ekki allir. Einhverjir vilja vinna með sjálfstæðismönnum, en aðrir með Framsókn og Þjóðvörn, og loks eru svo þeir, sem vilja fyrst um sinn með engum vinna í stjórn, en freista þess að efla flokkinn í stjórnarandstöðu.

Þjóðvörn dettur ekki í hug þátttaka í stjórn með Framsókn. Hún situr og ætlar að fita sig eins og púkinn á bitanum forðum á örðugleikum Framsóknar og yfirsjónum, þar til tekizt hefur að ná af Framsfl. þeim kjósendum, sem hálfvelgja sumra foringja flokksins, bæði í utan- og innanríkismálum, hefur matreitt handa þjóðvarnarhugsjóninni. Hafi menn ekki vitað þetta fyrr, þá vita þeir það eftir illkvittnar og ómerkilegar ræður þeirra hér í kvöld.

Kommúnistar vilja auðvitað enn sem fyrr ólmir í stjórn með hverjum sem er. Það eru þeirra fyrirmæli frá hærri stöðum. En af þeim leggur nú daun, sem endist þeim til einangrunar, jafnvel svo, að þeir, sem þó ágirnast þá í hjarta sínu, segjast ekki taka í mál að leggja sér þá til munns, a. m. k. ekki nema betri tegundina, í hæsta lagi svo sem helming þeirra.

Og svo er það sjálfur máttarstólpinn, Framsfl. Að sönnu er eitthvað af bæjarradikölum, sem ólmir vilja út í vinstra ævintýrið. En kjarni flokksins, bændur og umboðsmenn þeirra, neita. Þeim skilst, að rétt er, sem einn mætasti og merkasti Framsóknarleiðtoginn sagði nýlega, en hann mælti eitthvað á þessa leið: „Fyrir bændurna hefur aldrei verið á Íslandi svipað því jafngóð stjórn sem síðustu 5–6 árin.“ Og þeim skilst, að leggi Framsókn út í vinstra ævintýrið, þá munu miklu fleiri bændur kjósa Sjálfstfl. en gert hafa.

Nei, vinstristjórnarhjalið er tæplega annað en markleysa, enginn efniviður, engin hugsjón, engin stefna og allt of fámennt lið. Úr slíkum brotum verður varla ríkisstj. á Íslandi, a. m. k. hvorki til frægðar né langlífis. Það er líka aðeins spaugsyrði að tala um vinstri öfl. Hér er ekkert afl að verki, heldur aðeins máttleysi. Hér er heldur engin vinstri samvinna á ferð, heldur aðeins vinstri samkeppni, þar sem í hinni sundurleitu hjörð hver ætlar að auðgast á annars kostnað.

En hvað um það, fyrr eða síðar kemur að kosningum. Verum því, góðir sjálfstæðismenn, minnugir þess, að hvort sem okkur auðnast að ná því meirihlutavaldi á Íslandi, sem þjóðin þarfnast, eða ekki, verður þó vald okkar og áhrif því meira og blessunarríkara sem við verðum fleiri á þingi og sá hópur fjölmennari, sem á bak við okkur stendur. Við sjálfstæðismenn vitum vel, að án okkar er ekki hægt að stjórna Íslandi. Sú staðreynd leggur okkur á herðar þungar, miklar og margvíslegar skyldur, en þó fyrst og fremst skyldur til frjálslyndis, víðsýnis, sáttfýsi og skilnings á þörfum og óskum annarra og þá fyrst og fremst allra, sem bera hag þeirra fyrir brjósti, sem verst eru settir í baráttunni fyrir daglegu brauði. Við skulum, sjálfstæðismenn, reyna að sanna, að við séum maklegir hins mikla trausts, sem okkur er sýnt. Þá mun það og enn aukast. — Góða nótt.