01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

1. mál, fjárlög 1956

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Við hæstv. viðskmrh. vil ég segja út af ræðu hans áðan: Hver hefur hindrað byggingu fiskiðjuvera, eins og á Akureyri og víðar? Hver hefur í 7 ár hindrað, að nokkur nýr togari væri keyptur til landsins, nema Sjálfstfl.? Hæstv. viðskmrh. er bezt að tala minna. — Um verzlunina vil ég spyrja hann: Vill hann upplýsa, hve há lán heildsalarnir í Reykjavík hafa nú hjá bönkunum? Ég skal upplýsa hann um, að lánin til sérréttindamannanna í verzluninni jukust um 74 millj. kr. árið 1953, en KRON fékk ekki einn einasta eyri af því.

Við hæstv. viðskmrh. vil ég segja út af því, sem hann sagði um kaupgjaldið: Kaupmáttur tímakaups verkamanna er lægri en hann var fyrir 8 árum. Húsaleigan hefur fyrir aðgerðir íhaldsins tífaldazt á áratug, en kaupið aðeins tvöfaldazt. Og svo dirfist þessi hæstv. ráðh. að halda því fram, að kaupið sé orsök dýrtíðarinnar, kaupið, sem ekki hefur fylgzt með dýrtíðinni, sem stjórnarvöldin hafa skipulagt.

Um ræðu Ólafs Thors, hæstv. forsrh., í fyrrakvöld er aðeins eitt að segja. Yfirleitt er Ólafur Thors ágætur leikari. Hann umhverfir venjulega hugtökunum og sannleikanum í ræðum sínum með sömu leikni og Kveldúlfur lætur milljónirnar hverfa úr Landsbankanum. En í fyrrakvöld brást honum bogalistin. Hann ætlaði að sanna, að þegar stjórn hans rændi 7000 kr. af árstekjum hverrar fjölskyldu í landinu, væri hann bara að gera þetta af einskærri umhyggju fyrir fátæka fólkinu. Þar skaut hann yfir markið. Sjálfstfl. ætlar að gera það fyrir fátæklingana, fyrir alþýðufjölskyldurnar, að ræna fimmtungnum af kaupi þeirra fyrir 8 stunda vinnu árlangt. En Sjálfstfl. ætlar að sjá um að hlífa vesalings fátæku olíufélögunum, aumingja hertogunum, sem búa líklega í bröggunum, og bláfátæku bönkunum, sem af engu mega sjá.

Ólafur Thors afhjúpaði innsta eðli Sjálfstfl. áþreifanlega í fyrrakvöld. Hann varð ókvæða við, þegar komið var við kviku flokksins, þegar Sósfl. lagði til að taka hluta af gróða einokunarauðvaldsins, láta hina auðugu borga. Ólafur fann það sjálfur, að hann skaut yfir markið. Hann fann, að hann var að sparka þeim, sem hingað til hafa fylgt Sjálfstfl., frá honum, opna augu þeirra fyrir spillingu hans og hræsni. Þess vegna ætlaði hann að reyna að tengja sér kjósendurna aftur með öðru en rökunum. Hann lauk ræðu sinni með því að fullvissa þá um, að Sjálfstfl. verði alltaf við völd, það sé ekki hægt að stjórna án hans. M. ö. o.: Þrautalending Ólafs Thors var að segja við landslýðinn eins og viss burgeis á stríðsárunum: Ég hef völdin og peningana, fylgið þið mér. — Og þetta er þá allt, sem Sjálfstfl. nú byggir vonir sínar um völdin á: Undirgefni, auðmýkt Íslendinga undir þann, sem hefur völd, undir þann, sem hefur auð. En hvað þessir menn þekkja Íslendinga lítið, þó að þeir hafi lifað á þeim og arðrænt þá í áratugi!

Um þetta vil ég aðeins segja eitt: Það er ekkert auðveldara en að stjórna landinu án þess einokunarauðvalds, sem kallar sig Sjálfstfl. Verkalýður og framleiðslustéttir geta tekið höndum saman og losað atvinnulífið og alþýðuna við þann afætulýð, sem er að éta Ísland út á húsganginn, þá eyðslustétt, sem tortímir því, sem hin vinnandi stétt skapar, þann ameríska undirlægjulýð, sem er að glata íslenzku sjálfstæði og stolti. Það er ekki hægt að stjórna Íslandi án verkalýðsins. Það sannar óstjórn og hjaðningavíg undanfarinna ára. En það er ekki aðeins hægt að stjórna landinu án einokunarauðvalds Sjálfstfl., heldur er hitt sannleikurinn, að þá verður Íslandi bezt stjórnað, ef því er stjórnað án einokunarauðvaldsins og gegn vilja þess.

Hvað er það, sem gerzt hefur hér á Alþ. nú þessa dagana? Það, sem hefur gerzt, er, að einokunarauðvald Reykjavíkur hefur sagt alþýðu Íslands, verkalýð og millistéttum, stríð á hendur, að afætuvaldið hefur sagt atvinnulífinu stríð á hendur, fjármálavaldið framleiðslustarfinu. Hvernig stendur á því, að hæstv. ráðh. Ólafi Thors og Eysteini Jónssyni er svona umhugað um einokunarauðvaldið, sem græðir hundruð milljóna króna, að það sé ekkert látið borga, en alþýðan, sem skapar öll verðmætin og býr við skuldirnar og dýrtíð stjórnarvaldanna, sé látin borga allt?

Það stendur þannig á því, að gróðafyrirtæki einokunarauðvaldsins eru orðin raunveruleg einkafyrirtæki stjórnarflokkanna. Landsbankinn og Útvegsbankinn eru orðnir fjölskyldufyrirtæki Sjálfstfl. Og olíuhringarnir, hermangarafyrirtækin, skipafélögin, allt eru þetta helmingaskiptafélög íhalds og Framsóknar, sem mjólka gæðingum þeirra milljónir, kosningasjóðum þeirra hundruð þúsunda króna, en safna í hít einokunarauðvaldsins hundruðum milljóna króna, sem alþýðu Íslands, verkamenn, bændur, sjómenn og millistéttarfólk, vantar til að lifa sómasamlegu lífi og vera bjargálna.

Þeir hæstv. ráðherrar, Ólafur Thors og Eysteinn Jónsson, sögðu í fyrrakvöld, að þau græddu ekki mikið þessi félög, t. d. olíuhringarnir. Það söng öðruvísi í þessum herrum, þessum ráðleysisherrum, fyrir síðustu kosningar. Það syngur yfirleitt öðruvísi í þeim fyrir kosningar, en þegar þeir eru að níðast á alþýðu hér á Alþingi. Fyrir síðustu kosningar afhjúpuðu þeir í blöðum sínum, hvílíkan fantaskap þessir olíuhringar sýndu, hvernig þeir féflettu fólkið, það næmi milljónum króna, sem þeir ætluðu að græða jafnvel stundum á einum farmi, sögðu þeir þá. En eftir kosningar féll allt í ljúfa löð. Íhald og Framsókn komu sér saman um að arðræna fólkið til helminga og láta blöðin þegja um fantaskap hvor annars.

Eða ætla þeir, hæstv. ráðherrar, Eysteinn Jónsson og Ólafur Thors, að reyna að telja landslýðnum trú um, að hermangarafélögin þeirra geti ekki borgað? Nei, góðir hálsar. Hæstv. ráðherrar, farið þið sjálfir suður á Keflavíkurflugvöll, spyrjið þið Ameríkanana ykkar, hvort hertogarnir ykkar græði ekki. Amerísku hershöfðingjarnir, verndarar ykkar, geta ekki opnað sinn munn við blöðin án þess að reyna að kitla lægstu hvatir Íslendinga með því að tala um, að a. m. k. vissir Íslendingar græði og græði vel á hersetunni. Og eru þeir máske ekki skattfrjálsir núna, verktakarnir ykkar, eins og flestöll önnur fyrirtæki einokunarauðvaldsins?

Nei, spurningin, sem liggur fyrir hverjum einasta vinnandi manni verkamanni, sjómanni, bónda og búalýð, starfsmönnum og millistéttafólki, hvar sem er, er þessi: Vilt þú, alþýðumaður, með 30–50 þús. kr. árstekjur til að framfleyta 5 manna fjölskyldu, láta taka af þér 7000 kr. á ári í nýjum nefsköttum til viðbótar öllum þeim sköttum, útsvörum og álögum, sem þú verður að greiða nú? Það er þetta, sem Sjálfstfl. og Framsfl. skammta þér. Eða viltu láta einokunarauðvald Reykjavíkur, sem hefur sölsað undir sig afrakstur vinnu þinnar á undanförnum árum, borga þetta fyrir þig? Það er það, sem Sósfl. lagði til. Svaraðu því helzt strax, en ekki síðar en í næstu kosningum, og mundu það þá. Orð og gerðir Sjálfstfl. þessa dagana á Alþ. ættu að nægja honum til dómsáfellis, jafnvel hjá þeim sem ekki myndu lengra aftur.

Það er þó rétt út af lofsorðum hæstv. ráðh. Ingólfs Jónssonar um Sjálfstfl. hérna áðan að rifja upp, hvernig hann hefur hugsað og hugsar um, að lífskjör verkamanna eigi að vera. Það er sérstaklega þrennt í fari þess flokks, sem vert er að festist í huga íslenzkrar alþýðu.

Í fyrsta lagi: Sjálfstfl. álítur það réttlátt og mátulegt, að verkamaður með 800 kr. vikukaupi bæti á sig 7 þús. kr. drápsklyfjum, nýjum álögum, samþykktum þessa dagana. Áður er Sjálfstfl. búinn að koma húsaleigu þessa verkamanns upp í 1500–2000 kr. með sínu frjálsa framtaki. Og að áliti Sjálfstfl. á öll ógæfa þjóðfélagsins að vera því að kenna, að þessi verkamaður skuli hafa 800 kr. vikukaup. Ólafur Thors sagði í gær, að þjóðin yrði að sætta sig við það kaup, sem atvinnuvegirnir þola. Hæstv. forsrh. veit, að togarar og bátar þola ekkert kaup. Sjálfstfl. álítur þess vegna, að sjómenn eigi ekkert kaup að hafa, þræla kauplaust og sætta sig við það, meðan einokunarauðvaldið sópar til sín öllum þeim verðmætum, sem sjómennirnir draga úr sjónum, og safnar hundruðum milljóna króna gróða innanlands og utan. Þessa kveðju til sjómanna mun hæstv. forsrh. ekki senda á sjómannadaginn, en það má minnast hennar samt. Að áliti Sjálfstfl. er allt í lagi með óhófslíf hinnar nýríku burgeisastéttar í Reykjavík. Það eru hátt á annað hundrað milljónamæringar í Reykjavík, og það eru ekki verkamenn. Lúxushallir, lúxusbílar, einn til tveir á fjölskyldu, það er allt í lagi að áliti Sjálfstfl. Þó að þessir menn lifi eins og þeir viti ekki aura sinna ráð, hefur Sjálfstfl. ekkert við það að athuga. Þetta eru hans útvöldu. Fyrir þeim og þeirra eyðslu á verkalýðurinn að þræla, og vei honum, ef hann heimtar sómasamlegt kaup, þá er gengislækkunarsvipa Ólafs Thors á lofti.

Í öðru lagi: Hvaða lífskjör eru það þá, sem Sjálfstfl. álítur verkalýðnum mátuleg og réttlát? Við skulum rifja það upp. Ólafur Thors sagði í umr. um bjargráðin í Nd., að togararnir þyrftu ekki að veiða karfa, það yrði bara að ná samkomulagi við Breta um að aflétta löndunarbanninu. Það veit hver maður, hvað þessi yfirlýsing þýðir, enda er hún þegar staðfest í þskj. af stjórnarflokkunum. Það á að svíkja í landhelgismálunum. Það á að falla frá þeirri lífsnauðsyn þjóðar vorrar að stækka landhelgina nú þegar. Það er eins og það sé aðaláhugamál Sjálfstfl. að svíkja einmitt í sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Áður var hann búinn að afhenda Ísland Bandaríkjunum sem herstöð þvert ofan í öll heit. Nú á að gefast upp fyrir Bretum og falla frá stækkun landhelginnar. Þeir segja auðvitað: til bráðabirgða. En hvenær hafa ekki allar bráðabirgðaaðgerðir þessara herra verið framlengdar endalaust? Þjóðin þarf að rísa upp til baráttu fyrir stækkun landhelginnar og það þýðir: fyrir minnkun Sjálfstfl. og Framsóknar. En Sjálfstfl. ætlar sér að slá tvær flugur í einu höggi með því að svíkja í landhelgismálinu. Það á þar með ekki aðeins að svíkja í einu stærsta sjálfstæðimáli þjóðarinnar, sem er grundvöllur efnahagslífs hennar, það á líka að reka togarana á ísfisk og þar með líka skapa atvinnuleysi um allt land. Og hvað álítur Sjálfstfl. mátuleg kjör handa verkalýðnum þegar atvinnuleysi er? Árið 1932 var atvinnuleysi hér í Reykjavík. Þá höfðu verkamenn kr. 1.36 um tímann, og þorri þeirra hafði aðeins vinnu fjórðu hverja viku, atvinnubótavinnu. Og það var hungur á heimilum verkamanna þá. Fannst Sjálfstfl. þetta slæm kjör? Nei, honum fannst kaupið of hátt. Miðstjórn Sjálfstfl. ákvað, að það skyldi lækka kaupið um þriðjung.

Þetta er það, sem Sjálfstfl. skammtar verkalýðnum, þegar hann heldur sig hafa völdin til þess. Þetta var það, sem leiddi til átakanna 9. nóv. 1932. En það er vert fyrir alla alþýðu að muna þetta. Þá sýndi réttlæti Sjálfstfl. sig í allri sinni dýrð. Þá vísuðu verkamenn því réttlæti frá sér.

Í þriðja lagi: Sjálfstfl. heimtar, að til þess að viðhalda þeirri kaupkúgun og því atvinnuleysi, sem hann telur mátulegt handa verkalýðnum, sé komið upp hervaldi, Heimdellingaher. Reykvísk alþýða hefur séð framan í slíkt hvítlið íhaldsins fyrr, og dómur hennar er eins og dómur allrar íslenzku þjóðarinnar verður. Alþýðan skal sjá um, að íslenzku þjóðfélagi verði stjórnað með því réttlæti og þeirri mannúð, að úr engum deilum verði skorið með hervaldi og ofbeldi. Allar vonir íhaldsins um alræði braskaranna, stutt hervaldi Heimdellinga, skulu brotna á þeirri einingu, er íslenzk alþýðusamtök skapa, á því friðsamlega samstarfi, er þau munu koma á við allar framleiðslustéttir Íslands.

Reykvísk alþýða þekkir því af dýrkeyptri reynslu innræti íhaldsins. En hvað ætlast það nú fyrir? Það er einokunarauðvaldið í Reykjavík, sem fremur það rán á almenningi, sem nú var rætt í þinginu. Þetta einokunarvald notar ríkisvaldið sem ránstæki sitt, banka þjóðarinnar sem fjölskyldufyrirtæki, sparifé barnanna sem eyðslueyri sinn, Sjálfstfl. sem ræningjaflokk sinn og Framsókn sem fótþurrku sína, náttúrlega hálýðræðislega fótþurrku sína. Þetta einokunarauðvald krefst nú æ háværar þess, sem Framsókn á augnablikum iðrunar og ótta kallar alræði braskaranna. Og ofstækisfyllstu fulltrúar þess með nazistaklíkuna í fararbroddi heimta nú æ harðvítugar yfirstéttarher, vígbúinn gegn alþýðu landsins, að suður-amerískum hætti. En einokunarauðvaldið veit, að ránslögin, sem það lét samþykkja á Alþingi í gær, eru aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Það veit, að verkalýðssamtökin hafa vald til þess að hrinda þessum álögum af alþýðu, og þau hafa sýnt, að þau hafa íslenzkt hugrekki til að beita þeim samtakamætti sínum. Auðvaldið hefur því þegar undirbúið hernaðaráætlun sína gegn alþýðunni og það er lífsnauðsyn, að öll íslenzk verkalýðssamtök og allar alþýðustéttir landsins geri sér alveg ljósar þær fyrirætlanir þess. Á því veltur velferð íslenzkrar alþýðu næstu ár og áratugi.

Einokunarauðvaldið hefur þegar ákveðið gengislækkun og kaupbindingu, lögskipun á kaupi verkalýðs og annarra launþega. Þessar fyrirætlanir er þegar að finna í leyniplöggum hagfræðinganefndarinnar, eins og hæstv. forsrh. óvart varð að viðurkenna á fundi Nd. á laugardag. En svo ægilegar ráðstafanir þora flokkar einokunarauðvaldsins ekki að gera fyrir kosningar. Þegar slík níðingsverk á að vinna, finnst þeim vissara að hafa kosningar að baki, og í kosningum verða flokkar einokunarauðvaldsins að vera í hárinu hvor við annan, lofa alþýðu öllu fögru og svíkja það ekki fyrr en eftir kosningar.

Hæstv. forsrh. sagði í gær: Við vissar aðstæður er gengislækkun bezta úrræðið. — Og hverjar eru þessar vissu aðstæður? Reynslan sýnir okkur það. Við hvaða aðstæður var gengið fellt síðast, árið 1950? Eftir kosningarnar 1949. Ólafur Thors sýnir okkur því sjálfur, hvað í vændum er. Þess vegna veltur nú framtíð verkalýðshreyfingarinnar á því, að hún haldi vöku sinni í gerningahríð þeirra blekkinga, er í hönd fara, og sé minnug biturrar reynslu úr baráttu síðustu 20 ára.

Ég hef nú setið hér á Alþingi í 19 ár sem fulltrúi reykvískrar alþýðu og haft tækifæri til þess að fylgjast með þeim gráa leik, sem flokkar auðvaldsins hafa leikið gagnvart alþýðu, þegar þeir þóttust óhultir fyrir dómi hennar, m. ö. o. höfðu kosningar að baki. Ég skal nú, ekki sízt með tilliti til ræðu hv. 1. landsk., próf. Gylfa Þ. Gíslasonar, reyna að rifja upp nokkuð af reynslunni frá undanförnum árum, sýna nokkur dæmi um, hve róttækt var lofað fyrir kosningar og hve hörmulega er farið að á eftir um gengislækkun og kaupbindingu.

Í kosningunum 1937 lofuðu Framsókn og Alþfl. öllu fögru um baráttu fyrir vinnandi stéttir landsins gegn breiðfylkingu íhaldsins. Eftir kosningarnar 1939 mynduðu Framsókn og Alþfl. þjóðstjórnina alræmdu með íhaldinu til þess að framkvæma gengislækkun og kaupbindingu.

Í kosningum ársins 1942 var Sósfl. svo sterkur, er hann þrefaldaði þingmannatölu sína, að enginn hinna flokkanna þorði að mynda stjórn gegn alþýðunni eftir þær kosningar, heldur var þvert á móti. 1944 var mynduð nýsköpunarstjórnin, er setti flest af þeim mestu umbótalögum, sem sett hafa verið á síðasta áratug.

Í kosningunum 1946 var lofað róttæku að vanda, en nú stóð Sósfl. í stað, og eftir kosningarnar, á árinu 1947, þorðu Framsókn og Alþfl. að mynda stjórn með íhaldinu, stjórn, er batt vísitöluna, lögbauð kauplækkun og ýmist afnam eða rýrði stórum umbótalöggjöf nýsköpunartímans.

Í kosningunum 1949 var enn lofað vinstri stjórn eftir kosningar. En eftir kosningarnar myndaði Framsókn stjórn með íhaldinu, stjórnina, sem felldi gengið 1950 og skipulagði í þjónustu braskaranna alla þá herferð gegn hagsmunum almennings, sem síðan hefur látlaust dunið yfir.

Í öllum þessum kosningum hafa vinstri menn Alþfl. og Framsóknar, allt það heiðarlega og góða fólk, sem þessum flokkum fylgir, fengið að vinna og hamast í kosningunum í krafti eldmóðs síns og trúar á kosningaloforðin, en eftir kosningarnar hefur svo þessum vinstri mönnum verið vikið til hliðar, jafnvel reknir úr flokkunum, og hægri mennirnir hafa tekið við stýrinu og stjórninni. Öll alþýða, allir vinstri menn, hvar í flokki sem þeir standa, þurfa að vera minnugir þessarar reynslu. Nú verður að gera ráðstafanir, sem komi í veg fyrir, að nokkuð slíkt geti endurtekið sig sem gerzt hefur eftir kosningar í síðustu 20 ár, með einni undantekningu.

Eftir þennan ljóta leik, sem einokunarauðvaldið lék hér á Alþingi í gær, er það lagði 230 millj. kr. skatt á þjóðina, 7000 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu, á nú alþýðan næsta leikinn. Og þótt auðvald Reykjavíkur sé sterkt og illvígt, þá er íslenzk alþýða margfalt sterkari. Það sýndi hún í verkföllunum í vor. Alþýðan á næsta leikinn, og hún á góðan leik. Verkföllin eru ekki einhlít, þótt þau séu oft eina úrræðið, sem alþýðunni stendur til boða. Verkföllin eru góð til að skáka einokunarauðvaldinu með, en það getur orðið þráskák úr því. En alþýðan á leik til að máta einokunarauðvaldið, svipta braskara Sjálfstfl. og ránstæki þeirra ríkisvaldinu, og sá leikur er pólitísk eining alþýðunnar á Alþingi og í kosningum. Það er næsti leikur íslenzkrar alþýðu. Alþýðusamband Íslands, voldugasta samtakaheild, sem íslenzk alþýða hefur nokkru sinni átt, hefur krafizt einingar allra andstæðinga íhaldsins. Og verkalýðssamtökin um gervallt landið hafa tekið undir. Stjórn Alþýðusambands Íslands hefur í tillögum sínum boðið bændum og öllum millistéttum, öllu vinnandi fólki, sætt og samlyndi í stað sundurlyndisins, öllum atvinnurekendum í íslenzku framleiðslulífi vinnufrið á grundvelli réttlætis og samstarf á grundvelli stórhuga framfara atvinnulífsins í stað eyðandi hjaðningavíga.

Stjórn Alþýðusambands Íslands hefur boðið öllum andstöðuflokkum íhaldsins samstarf um myndun vinstri ríkisstj. Alþýðusamband Íslands hefur, í nafni þeirra 28 þúsund verkamanna og verkakvenna, sem skapa auð þessa lands, sagt við þessa flokka: Sameinizt. Leggið til hliðar allt, sem ykkur skilur, og takið höndum saman, þegar þjóðarheill krefst þess.

Það er oft talað nú um hættuna á Sturlungaöld, á hjaðningavígum, sem eyða þjóð vorri og tortíma þjóðfélagi voru, sjálfstæði þess og lýðræði. En við eigum eitt, sem þjóð vora vantaði á Sturlungaöld. Það vantaði ekki, að almúginn vildi frelsa Ísland 1262, þegar hann bauðst til þess að leggja fram fé í eitt skipti fyrir öll til að kaupa af sér Hákon konung. En alþýðuna vantaði samtök, forustu, myndugleik til þess að breyta sem sá, er valdið hafði. Hún hafði glatað því í hendur stórhöfðingja, er settu sína hagsmuni ofar almenningshag og þjóðarheill. En nú á íslenzk alþýða sín samtök, sitt volduga samband, sína flokka, sem hún hefur skapað til að þjóna sínum málstað, en ekki til að drottna yfir sér, því siður til að sundra sér á úrslitastund. Þess vegna hefur einingarorð Alþýðusambands Íslands nú orðið boðorð íslenzkrar alþýðu til sjávar og sveita. Ef einhver er sá, fylgismaður eða foringi, sem ekki hlýðir þessu einingarboðorði, þessu neyðarkalli aðþrengds almúga á örlagastund, þá dæmir hann sjálfan sig úr leik. Ef einhverjir eru þeir foringjar, viðutan eins og prófessorar stundum, sem halda, að þeir geti reiknað með fólkinu eins og peðum, sem hægt sé að tefla fram og fórna á víxl, þá vita þeir ekki, hvað er að gerast í hugum og hjörtum alþýðunnar um allt land. Slíkir reikningsmeistarar verða því utan við lífið, verða skildir eftir í sínum fílabeinsturni fávizkunnar, þegar vinnandi fólkið hönd í hönd ryður brautina fram til sigurs eftir boðorði Stephans G.:

„Lýður, bið ei lausnarans,

leys þig sjálfur. Þínu eirðu.

Oft voru fjötrar foringjans,

fastast sem að að þér reyrðu.“

En eining alþýðunnar verður sköpuð. Hún er að skapast. Engar kreddur né hleypidómar, engir sérhagsmunir né flokksofríki munu megna að hindra slíkt.

Sósfl. hefur þegar samþykkt tillögur Alþýðusambandsstjórnarinnar. Sósfl. hefur enga sérhagsmuni, er skilja hann frá íslenzkri alþýðu. Þjóðvarnarflokkurinn mun þegar hafa lýst samþykki sínu í aðalatriðum við sömu tillögur. Alþýðuflokkurinn mun á endanum koma með. Vinstri menn Alþfl., þeir sem hafa verkalýðsfjöldann að bakhjarli, hafa þegar viturlega og drengilega tekið forustuna ásamt félögum þeirra úr Sósfl. um að skapa pólitíska einingu íslenzkrar alþýðu og hlotið ofsóknir og brottrekstra fyrir. Og þessum vinstri mönnum Alþfl. vex nú ásmegin um allt land við þau svipuhögg, sem Sjálfstfl. og Framsókn láta dynja á herðum alþýðu þessa dagana. Og í Framsfl. er þegar hafin uppreisn. Vinstri menn flokksins, sem vilja samstarf allra vinstri afla, eru þegar ráðandi í veigamiklum félögum flokksins, og eftir hin síðustu og verstu tíðindi mun ólgan í Framsókn vaxa um allan helming. Þeir bændur og búalið, sem fyrir 30 árum hófu flokk sinn til framsóknar undir einkunnarorðinu: Allt er betra en íhaldið — munu ekki láta neinar grýlur fæla sig frá því að taka höndum saman við aðra vinnandi menn til sjávar og sveita gegn því vellauðuga, valdagíruga einokunarauðvaldi Reykjavíkur, sem er margfalt hættulegra en hinn gamaldags Íhaldsflokkur Jóns Þorlákssonar var. Og í Sjálfstfl. brakar nú og brestur. Jafnvel hér inni í þingsölum flokkseinræðis og handjárna rís einn heiðarlegasti þm. Sjálfstfl. upp og segir um bjargráðin, að hann muni neyðast til að greiða atkv. með þeim, hann muni dragnast til að fylgja stjórninni. Og þegar sálarástandið er slíkt hér, þá geta menn gert sér í hugarlund, hvernig það muni vera hjá fólkinu.

Verkamenn, bændur, smáatvinnurekendur, sem fylgt hafa Sjálfstfl. fram til þessa, mennirnir, sem þrælað hafa baki brotnu fyrir húsi sínu, fyrir einhverju fyrirtæki sínu, fyrir lífsafkomu sinni, hvað munu þeir segja um Ólafsgjöldin? Þetta fólk segir: Nú er komið nóg — Þetta fólk, mun ekki dragnast með. Það mun rísa upp. Það mun segja við auðjarla Reykjavíkur um manaskæða ógæfubyrði þá, sem einokunarauðvald Sjálfstfl. nú vill láta alþýðuna bera, líkt og Íslendingurinn í Brjánsbardaga sagði við jarlinn forðum: „Ber þú sjálfur fjanda þinn.“ Og þegar það hefur verið sagt, er þess ekki langt að bíða, að auðjarlinn falli.