01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

1. mál, fjárlög 1956

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var svolítið úrillur hérna áðan, og ég lái honum það ekki. Það hlýtur að vera erfitt að strita ár eftir ár fyrir vagni braskaranna og vita þó, að mikill meiri hluti flokksbræðranna er því striti algerlega andvígur. Ég hef að vísu nokkra samúð með hæstv. ráðh., því að hann var einu sinni efnismaður, en þetta eru sjálfskaparvíti hjá honum.

Hæstv. fjmrh. var hér með svo gífurlegar falsanir á efnahagsmálatillögum okkar þjóðvarnarmanna, að ég hef sjaldan heyrt annað eins. Hann reif örfá atriði úr samhengi og lagði síðan út af þeim. Ég hef ekki tíma til að tæta þennan blekkingavef í sundur nú, en ég skora á hlustendur að kynna sér efnahagsmálatillögur okkar í heild og bera þær saman við hin aumlegu úrræði stjórnarinnar, þau úrræði, sem nú hefur verið rækilega lýst í þessum umræðum.

Í útvarpsræðu sinni í fyrrakvöld hafði hæstv. forsrh. mörg orð og stór um ágæti stjórnarstefnunnar og Sjálfstfl. Þótti mér ræða ráðh. því líkust, sem væri hann í skemmtiþætti hjá Sveini Ásgeirssyni og skyldi leysa þá þraut að segja sem flest öfugmæli á sem allra skemmstum tíma.

Hæstv. ráðh. komst m. a. svo að orði: Við sjálfstæðismenn vitum vel, að án okkar er ekki hægt að stjórna landinu. — Í öfugmælaþætti með fyrrgreindu sniði hefði ráðh. átt að fá mörg stig fyrir þessa setningu. Sannleikurinn er þessi: Sá meiri hluti þjóðarinnar er sívaxandi, sem gerir sér ljóst, að með Sjálfstfl. er ekki hægt að stjórna landinu. Fái sá flokkur að koma nálægt stýri þjóðarskútunnar og hafa áhrif á það, eftir hvaða striki er stýrt, þá endurtekur sig alltaf sama sagan. Brátt liggur skútan undir áföllum, boðar risa á báðar hendur, og fyrr en varir er allt komið í strand.

Þetta sjá nú flestir, nema vera skyldi fáeinir íhaldssamir framámenn Framsóknar, hæstv. fjmrh. og félagar hans, og þó mun þeim ekki vera siglingin með öllu óttalaus. En þeir láta hafa sig til þess samt að halda áfram í sömu stefnu. Allir með tölu vottuðu þm. Framsóknar núverandi ríkisstj. traust sitt í gær, þegar atkvæði voru greidd um vantrauststillögu okkar þjóðvarnarmanna. Mörg dæmi mætti nefna, sem benda í þá átt, að þessum blessuðum mönnum sé naumlega sjálfrátt í þjónustu sinni við íhaldið.

Hæstv. landbrh. Steingrímur Steinþórsson var einu sinni með réttu talinn góður og gildur íhaldsandstæðingur; nú er honum brugðið. Á þinginu í fyrra sótti hann eitt mál með ofurkappi, í innilegu fóstbræðralagi við hæstv. forsætisráðherra. Það var Kópavogskaupstaðarævintýrið landsfræga, það mál, sem hefur orðið ríkisstjórninni til einna mestrar skammar, og er þá mikið sagt.

Á þessu þingi hefur hæstv. landbrh. barizt harðri baráttu fyrir öðru máli, að koma fyrir kattarnef grænmetisverzlun ríkisins, ríkisfyrirtæki, sem Framsfl. stofnaði og byggði upp. Hæstv. fjmrh. sagði áðan, að þetta væri ekki rétt, það ætti ekki að leggja þetta fyrirtæki niður. Ég er steinhissa á þessari fullyrðingu ráðherrans. Það stendur skýrum stöfum, að grænmetisverzlun ríkisins skuli lögð niður. Hitt er annað mál, að stofna á aðra grænmetisverzlun, ekki eign ríkisins, heldur einkafyrirtæki. Og þetta á að gera, enda þótt hæstv. landbrh. segði réttilega við umræður um málið, að þessari stofnun hafi verið og sé vel stjórnað, og hann tók það beinlínis fram, að hún hafi gert mjög mikið gagn. En samt virðist hann ekki vera í rónni fyrr en þessu ríkisfyrirtæki hefur verið komið fyrir kattarnef og eigur þess og verksvið afhent einkaaðila. Þetta kostar hörð átök innan Framsfl., en íhaldið stendur álengdar, blæs að kolunum og ræður sér ekki fyrir kæti.

Við afgreiðslu launalaganna, er hlutu samþykki skömmu fyrir áramót, var það athyglisvert, hve fús ríkisstj. var að verða við óskum sumra þeirra, er voru í hinum hærri launaflokkum, um tilfærslur upp í enn hærri launaflokk.

Það er engum vafa bundið, að opinberir starfsmenn urðu óhjákvæmilega að fá kjarabót, og þrátt fyrir nýju launalögin búa margir þeirra við rýran hlut. Á undanförnum árum, meðan laun ríkisstarfsmanna voru tvímælalaust lág, tók það að tíðkast allmikið, að hæstv. ríkisstj. veitti einstökum embættismönnum veruleg fríðindi, alveg upp á sitt eindæmi, svo sem bílastyrk, húsaleigustyrk og jafnvel risnu. Voru það einkum menn í hinum efstu launaflokkum, sem þessa nutu, og kom það þó mjög misjafnt niður. Einum var veittur styrkur, annar í hliðstæðri stöðu og sama launaflokki hlaut engan. Þess eru jafnvel dæmi, að menn, sem engan bílinn eiga, hafa fengið bílastyrk. Svo var ástatt um embættismann einn, að til hans kom valdamaður mikill og sagði: Nú hafa starfsbræður þínir fengið bílastyrk. Þú átt að fá hann líka. — Embættismaðurinn færðist heldur undan, kvaðst engan bílinn eiga og ekki ætla sér að eignast bíl. Sagði hann sem satt var, að mörg undanfarin ár hefði hann gengið þá 4–5 mínútna leið, sem væri milli heimilis síns og vinnustaðar, og hann ætlaði að halda því áfram. En þessar röksemdir dugðu lítt. Bílastyrk skyldi maðurinn fá, þótt engan ætti hann bílinn. Slík kaupuppbót hlýtur þá að réttu lagi að heita skóhlífastyrkur.

Ég hef spurt hæstv. ríkisstj., hvort ætlunin sé að halda þessum og þvílíkum greiðslum áfram eftir gildistöku hinna nýju launalaga. Þeim fyrirspurnum er ósvarað enn.

Afgreiðslu fjárlaga er nú að ljúka. Niðurstöðutölur þeirra eru milli 640 og 650 millj. kr. Eins og áður hefur verið getið, lét hæstv. ríkisstj. samþykkja löggjöf um fjölda nýrra tekjustofna ríkissjóði til handa. Nú mætti ætla, að áður en til þessa ráðs væri gripið, hefði verið reynt að stilla ríkisútgjöldunum í hóf og draga úr þarflítilli eyðslu. En þar var öðru nær. Aldrei hefur bruðlið verið eins gegndarlaust og nú. Meiri hl. hv. fjvn. flutti samtals um 340 hækkunartillögur við fjárlagafrv., ýmsar að vísu um framlög til mjög þarflegra hluta, aðrar vægast sagt í hæpnara lagi.

Eitt smádæmi um ráðslagið er það, að verja skal nokkrum tugum þúsunda til að láta amerískan mann mála svokölluð söguleg málverk fyrir íslenzka ríkið. Hvort það eiga að vera málverk úr síðari ára sögu Reykjanesskaga, veit ég ekki. En svo brá við, í hvert sinn sem fjvn. lagði fram hækkunartillögur sínar, að hæstv. fjmrh. stóð upp og flutti nefndinni kærar þakkir, ekki aðeins fyrir röskleg störf, heldur fyrir hækkunartillögurnar eins og þær lögðu sig. Og síðan voru þær allar samþykktar, allar með tölu.

Ekki minnist ég þess, að við þjóðvarnarmenn fengjum nú fremur en áður neinar sérstakar þakkir frá hæstv. fjmrh. fyrir lækkunartillögur okkar við útgjaldaliði fjárlaga, sem að vísu voru færri en skyldi, en nokkrar þó. Allar voru þær felldar af stjórnarliðinu sameinuðu. Með einni þeirra a. m. k. gáfum við þó framsóknarmönnum tækifæri til að fylgja fram gömlu og góðu stefnumáli þess flokks, að hafa sem mestan hemil á kostnaði við utanríkisþjónustu með því að fækka sendiráðum á Norðurlöndum. En við það var ekki komandi. Hins vegar virðast forkólfar Framsfl. hafa öðlazt nýtt áhugamál varðandi utanríkisþjónustuna. Sendiherrar þykja nú alls ekki nógu fínir lengur. Ambassadorar skulu þeir heita. Það kvað vera ákaflega fínt. Nafnið er líka útlent, og auk þess ern ambassadorar í tízku hjá stórþjóðunum. Skyldi það nú ekki vera munur fyrir íslenzka lýðveldið að hafa eignazt gullbrydda ambassadora í stað réttra og sléttra sendiherra. Það þykir þá e. t. v. gera svolítið minna til, þótt varðstaðan slævist á öðrum sviðum utanríkismála, svo sem í landhelgismálinu, en að því stórmáli vil ég nú víkja með örfáum orðum.

Hvað eftir annað undanfarnar vikur og mánuði hafa borizt um það fréttir með erlendum blöðum, að verið sé að semja um landhelgismál Íslands með hliðsjón af fiskveiðideilunni við Breta. Við stjórnarandstæðingar höfum þrásinnis krafið ríkisstj. sagna um þessi mál, en ýmist fengið loðin svör eða engin. Hér er þó um stórmál að ræða, sem snertir þjóðina alla, hag hennar og afkomumöguleika um alla framtíð. Vonir fjölda fólks í sjóþorpum og kauptúnum víðs vegar um land um bætt lífskjör eru við það tengdar, að friðunarlínan verði færð út, svo að fiskstofninum, mestu auðsuppsprettu þjóðarinnar, verði hlíft við gegndarlausri ránveiði og íslenzkir sjómenn geti sótt á miðin án þess að eiga björg sína, líf og limi í stórhættu fyrir ágangi erlendra togara. Hversu nauðsyn þessi er brýn, sést m. a. á því, að úr flestum eða öllum landshlutum hafa komið eindregnar samþykktir og hiklausar kröfur um stærri friðunarsvæði. Þingmenn, jafnt úr flokki stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, hafa einnig tekið undir þessar kröfur með frumvörpum og þáltill., bæði um leiðréttingu núverandi friðunarlínu á grundvelli reglunnar um 4 mílna friðunarsvæði utan við annes og eyjar, svo og með tillögum um stærri friðunarsvæði, þar sem sérstök nauðsyn krefur, t. d. út af Vestfjörðum og Austfjörðum.

Nú er sýnt orðið, hvað þögn hæstv. ríkisstj. um þetta stórmál hefur táknað. Ótti okkar stjórnarandstæðinga við það, að þar væri í vændum undanhald, hefur því miður verið á rökum reistur. Fimm stjórnarþingmenn hafa nú nýlega skilað nál. um tillöguna um stækkun friðunarsvæðis fyrir Vestfjörðum og leggja til, að henni verði vísað frá á þeim forsendum, að alþjóðalaganefnd Sameinuðu þjóðanna sé að semja drög að allsherjarreglum um landhelgi og bíða verði eftir afgreiðslu næsta þings Sameinuðu þjóðanna á því máli. Jafnframt hafa fyrir örfáum dögum borizt um það fréttir frá Lundúnum, að bráðlega verði undirritaður samningur um lausn fiskveiði- og fisklöndunardeilu Breta og Íslendinga. Segir í þeirri frétt, að ríkisstjórnir beggja landanna hafi fallizt á tillögur efnahagssamvinnustofnunar Evrópu til lausnar deilunni. Þær tillögur munu í megindráttum vera á þá leið, að Íslendingar skuldbindi sig til að færa ekki út fiskveiðitakmörkin frá því, sem nú er, en brezka stjórnin skuldbindi sig til að koma því til leiðar, að brezkir togaraeigendur afnemi löndunarbannið á íslenzkum fiski í Bretlandi.

Hér virðist á ferðinni hin síendurtekna saga, sem oft hefur áður gerzt, þegar um helgustu réttindi og dýrmætustu hagsmuni landsins er að tefla. Stjórnin þegir þunnu hljóði, hunzar Alþingi og þjóðina, en vinnur óhappaverk sín á bak við tjöldin, hulin feldi þagnarinnar, unz allt er fullkomnað, undanhaldið orðið staðreynd í formi milliríkjasamninga.

Hvað hefur það í för með sér, ef ríkisstj. Íslands gerir samning slíkan sem þennan? Þar með eru Íslendingar að láta hrekja sig af þeim grundvelli, sem þeir urðu að standa á, af þeim grundvelli, sem ríkisstj. hefur einnig viðurkennt í orði kveðnu að væri hinn rétti, að um fiskveiðitakmörk og landhelgi giltu engar alþjóðareglur og Íslendingum væri heimilt án nokkurra samninga að setja þau ákvæði um verndun fiskstofnsins innan takmarka landgrunnsins, sem eðlileg væru, nauðsynleg og hagkvæm hverju sinni. Í samræmi við þetta sjónarmið voru árið 1948 sett lögin um vísindalega verndun landgrunnsins. Þar var hin íslenzka stefna réttilega mörkuð, og það getur ekki heitið öðru og öllu mildara nafni en svik, ef frá henni verður hvikað. Við viðurkennum ekki, að neinar alþjóðareglur gildi um viðáttu landhelgi. Við hljótum að líta svo á, að hvert ríki hafi algeran sjálfsákvörðunarrétt um friðunarráðstafanir innan endimarka landgrunnsins, slíkar ráðstafanir séu ekkert samningsatriði við aðrar þjóðir og megi ekki vera það.

Ríkisstj. og stuðningsmenn hennar láta í veðri vaka, að hér sé aðeins um það að ræða að fresta frekari friðunaraðgerðum um stundarsakir, rétt á meðan alþjóðalaganefnd Sameinuðu þjóðanna og allsherjarþing þeirra fjalla um landhelgismálin í heild. Látið er í veðri vaka, að þar muni skammt að bíða endanlegra úrslita. Þetta er annað tveggja vottur vanþekkingar eða vísvitandi blekkingartilraun. Það er hin mesta fjarstæða að láta sér detta í hug, að þetta viðkvæma og vandasama mál, sem skoðanir eru mjög skiptar um, verði leitt til úrslita á næstu missirum eða árum á þann hátt, að samþykktar verði alþjóðareglur um fasta skipan landhelgi, sem allir teldu sig geta unað við. Og ef málið liggur fyrir Sameinuðu þjóðunum á næsta þingi og þar næsta þingi, verður þá ekki talin sama ástæða til þess þá og nú að fresta því á Alþingi Íslendinga að taka ákvarðanir um friðunarmálin?

Hér er um stórmál að ræða og okkur Íslendingum lífsnauðsyn að halda fast á rétti okkar og sæmd. Það væri hörmulegt glapræði, ef nú yrði verzlað með landhelgismálið fyrir þá náð að mega fleygja nokkrum togaraförmum af ísuðum fiski á óstöðugan markað í Bretlandi. Sú ríkisstj., sem brygðist í landhelgismálinu, mundi hljóta þungan dóm þjóðarinnar og hún ætti hann skilið, jafnvel þótt hún hefði ekkert annað af sér gert. En ef ríkisstj., sem áður hefur unnið sér margt til óhelgi, kórónar vesaldóm sinn með undanhaldi í því máli, þá ætti hún og flokkar hennar skilið þá hirtingu, sem eftir væri munað og undan sviði.

Góðir hlustendur, allir þið, sem nú eruð furðu lostnir yfir framferði núverandi ríkisstj. og uppgjöf í dýrtíðarmálunum og öðrum málum, kynnið ykkur rækilega stefnu og málflutning Þjóðvarnarflokks Íslands. Gerizt áskrifendur að blaði hans, Frjálsri þjóð. Þið, sem þegar hafið kynnt ykkur stefnu flokksins og aðhyllizt hana, gangið í Þjóðvarnarflokkinn og vinnið að eflingu hans, hver á sínum stað og eftir sinni getu. Þjóðvarnarmenn um land allt, verum minnugir þess, að alþingiskosningar verða að öllum líkindum á vori komanda. Þá fáum við tækifæri til að skírskota vantrauststill. okkar á þessa ríkisstj. til þjóðarinnar. Því vantrausti fylgjum við eftir með því að gera sigur Þjóðvfl. sem allra stærstan. Góða nótt.