14.11.1955
Efri deild: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

17. mál, tilkynningar aðsetursskipta

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég bjóst við, að þessu máli yrði fylgt eitthvað úr hlaði, en vildi með örfáum orðum beina nokkrum athugasemdum til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar.

Ég hygg, að það sé að komast hinn mesti glundroði á í öllu manntali á landinu, síðan þessar nýju reglur voru teknar upp. Almenningur á erfitt með að átta sig á þessum reglum, þær eru nokkuð flóknar og algert nýmæli. Ég hef ekki trú á því, að þetta batni að neinu leyti, þó að nú eigi að fara að kæra menn í stórhópum og sekta, svo sem boðað var á s. l. sumri. Sýslumenn fengu bréf um þetta, nú yrði farið að kæra, og lagt ríkt á við þá að sekta menn fyrir vanrækslu við tilkynningar. Öll þessi nýmæli eru almenningi algerlega ókunn. Almenningur var vanur við hið árlega manntal, sem prestar tóku, þeir komu í árslok og skráðu heimilisfólkið. Þetta er það, sem fólkið átti að venjast. Nú er þessu algerlega hætt, manntal prestanna lagt niður, en í stað þess eiga prestar að yfirfara manntal hagstofunnar og gera sínar athugasemdir og leiðréttingar. En þeir hafa enga tryggingu fyrir því, að þessar leiðréttingar séu teknar til greina. Mér er kunnugt um marga menn, sem hafa árum saman verið taldir heimilisfastir á vissum stað, en hafa unnið nokkurn tíma ýmist í útveri eða á Keflavíkurflugvelli, og þá eru þeir fluttir búferlum af hagstofunni.

Þetta er eins konar valdboð við sveitarflutningum, að vísu nokkuð öðruvísi en áður var, þegar menn voru fluttir sveitarflutningi af því, að þeir voru fátækir, og látnir fara til framfærslusveitar sinnar. En þetta verkar illa á fólk.

Ég vildi þess vegna beina því til n., sem fær þetta mál til athugunar, hvort ekki er möguleiki að halda áfram um skeið hinu árlega manntali prestanna. Það væri miklu öruggara og hægara fyrir hagstofuna að vinna úr þessu í stað þess að fara að knýja þetta fram með valdboði, sektum og málshöfðunum. Ég hef ekki trú á því. Ég vildi beina því til n., hvort það er ekki hægt að koma því þannig fyrir, að það yrði tekið upp árlegt manntal prestanna, á meðan verið er að koma á laggirnar þessu nýja fyrirkomulagi. Það var aðeins þessi athugasemd, sem ég vildi gera, ef n. sæi sér fært að koma einhvern veginn þessari skipan á.