14.10.1955
Efri deild: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

14. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er farið fram á heimild til að fella niður aðflutningsgjöld af fræðslukvikmyndum og fræðandi skuggamyndum, sem fræðslumálastjórnin flytur inn og fær frá viðurkenndum erlendum vísinda- og menntastofnunum. Var frv. um þetta efni borið fram á þinginu í fyrra, en varð þá ekki útrætt. Tildrögin eru þau, að á öðru þingi Norðurlandaráðsins, í ágúst 1954, var því beint til ríkisstjórna Norðurlandanna að koma á hjá sér tollfrjálsum innflutningi þeirra tækja, sem hér um ræðir.

Fjhn. hefur athugað frv. og fellst á, að það sé rétt að setja slíka löggjöf, og mælir því með, að það verði samþ. óbreytt. Þetta er frv. nokkuð sérstaks eðlis, og eins og stendur í athugasemdum við frv., er það borið fram vegna þess, að fulltrúar Íslands hafa fallizt á það við fulltrúa annarra Norðurlandaþjóða að mæla með slíkri löggjöf. Þess vegna er það, að a. m. k. meiri hluti n. lítur svo á, að jafnvel þó að svo kunni að fara, að tollskránni verði breytt eitthvað frekar á þessu þingi, þá sé rétt að blanda ekki þeim atriðum saman við þetta mál og láta þetta frv. ganga fram óbreytt, hvað sem líður öðrum breytingum, sem menn kynnu að vilja gera á tollskránni, því að slíkar breytingar, sem menn kynnu að vilja gera, orka ef til vill tvímælis og gætu orðið til þess að torvelda framgang þess atriðis málsins, sem þetta frv. fjallar um.