13.02.1956
Neðri deild: 67. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1956

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er auðvitað nauðsynlegt að samþykkja frv. í þessa áttina, en ég vildi leyfa mér að benda á, að af því að það er nú orðinn alveg fastur siður hjá okkur þvert ofan í stjórnarskrána að láta þing koma saman að haustinu til, þá væri það miklu viðkunnanlegra, að það væri alltaf sami dagurinn sem ákveðinn væri fyrir þingsetningu að haustinu. Það var í stjskr. gengið út frá 15. febr., meðan gengið var út frá, að þingið byrjaði á þeim tíma. Nú hefur þetta á undanförnum árum verið á nokkrum ruglingi. Lengi vel var það 1. okt., stundum hefur það verið 8., stundum 10., og það hafa jafnvel stundum verið átök um þetta. En mér finnst endilega, að það ætti að reyna að koma þeirri venju á að hafa þetta einhvern fastan dag. Það er ákaflega óviðkunnanlegt, að alltaf sé verið að hringla með þetta. Ég fyrir mitt leyti mundi vilja gera það að minni till., að menn kæmu sér helzt saman um 1. október til þess. Það var þó nokkurn tíma svo. Og ég vildi fyrir mitt leyti leggja til, að sú n., sem fengi þetta til meðferðar, athugaði, hvort ekki væri hægt að koma sér saman um ákveðinn dag. Mér finnst óviðkunnanlegt að vera að hringla með samkomudag Alþingis. Það er ekki of mikil festa í vinnubrögðunum samt. Það er náttúrlega vitanlegt, að þegar slíkan dag bæri upp á sunnudag, mundi vera breytt til, alveg eins og hefði verið gert með 15. febrúar. Ég vildi óska eftir, að sú n., sem fengi þetta til meðferðar, sem væri þá líklega allshn., athugaði þetta. Það væri æskilegt, að menn gætu komið sér saman um ákveðinn dag þannig og haldið við það framvegis. Það ætti ekki að geta verið neitt ágreiningsmál. Það er ekki neitt hagsmunaatriði fyrir neina. Hvað snertir afgreiðslu fjárlaga og annað slíkt, er það miklu frekar þó, að hægt sé að tryggja þá afgreiðslu sæmilega, ef þingið byrjar strax 1. október.