09.02.1956
Efri deild: 63. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

140. mál, hegningarlög

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það er ein af grundvallarreglum íslenzks hegningarréttar, að ef framinn hefur verið verknaður, sem refsiverður er samkvæmt hegningarlögunum, skuli skilyrðislaust hefja opinbert mál gegn þeim, sem brotlegur hefur gerzt. Frá þessari meginreglu finnast nokkrar undantekningar. Ein þessara undantekninga er, að þannig getur á staðið, að því aðeins skuli opinbert mál höfða fyrir refsiverðan verknað, að sá, sem brotið hefur beinzt gegn, krefjist málshöfðunar. Þetta hefur gilt, ef einhver tekur ófrjálsri hendi hlut, sem aðrir eiga, og notar hlutinn, en ætlar sér ekki að slá eign sinni á hann, heldur skila honum aftur. Fyrir slíkan verknað ber ekki að höfða mál, nema því aðeins að sá, sem hlutinn átti, krefjist málshöfðunar. Þetta er út af fyrir sig eðlileg og sjálfsögð regla. En reynsla síðari ára hefur þó sýnt, að þannig getur á staðið í vissum samböndum um slíkan nytjastuld, að ekki sé eðlilegt að láta vera komið undir geðþótta eiganda hlutarins, hvort opinhert mál er höfðað fyrir töku hans eða ekki.

Á síðari árum hefur það farið mjög í vöxt, að menn tækju í heimildarleysi bifreiðar og vélknúin farartæki, sem aðrir eiga, nota þau, leggja þeim á sinn stað aftur eða hlaupa frá þeim, en ætla sér ekki að slá eign sinni á þær. Slíkur verknaður hefur farið mjög í vöxt á hinum síðari árum, og kveður nú svo mjög að þessu, sérstaklega með bifreiðarnar, að til hreinna vandræða horfir. En mál út af slíkum afbrotum sem þessum er því aðeins höfðað, að eigandi bifreiðanna eða farartækjanna krefjist þess, enda komi ekki neitt annað sérstakt til.

Það liggur í augum uppi, að þó að brot sem þetta beinist að vísu í meginatriðunum gegn þeim, sem farartækið átti eða á, þá er líka hér um mjög alvarlegan verknað að ræða gegn öllum almenningi. Þeir, sem leggja það í vana sinn að taka slík farartæki og nota þau, eru yfirleitt kærulausir, hirðulausir menn, sem láta sér nokkuð standa á sama, á hverju veltur og hvernig þeir hegða sér við akstur þessara farartækja, og gjarnan er hér um ölvaða menn að ræða. Liggur í augum uppi, að af notkun slíkra manna á þessum farartækjum stafar hætta fyrir allan almenning, sem á vegi þeirra kann að verða. Það hefur því þótt eðlilegt, að gerðar væru einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að reyna að koma í veg fyrir það ástand, sem í þessum efnum hefur ríkt, og nefnd sú, sem haft hefur með höndum endurskoðun hegningarlaganna, hefur tekið til athugunar, með hverjum hætti væri hægt að koma á breytingu á hegningarlögunum, sem leiddi til þess, að úr þessum afbrotum mætti draga svo mjög sem frekast væri hægt. Hefur n. komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun að breyta því ákvæði hegningarlaganna, að málshöfðun fyrir þessi brot skuli háð kröfu eiganda farartækjanna. Hefur mþn. samið frv., sem hér liggur fyrir og beinist í þá átt, að þetta skilyrði er niður fellt, og á nú skilyrðislaust að höfða mál út af þessum brotum, eins og um önnur almenn brot á hegningarlögunum væri að ræða. Auk þess er lagt hér til, að refsing fyrir þessi brot sé þyngd nokkuð frá því, sem nú er.

Allshn. þessarar hv. d. hefur fengið þetta frv. til athugunar og borið það saman við hegningarlögin. Getur n. fyrir sitt leyti fallizt á, að hér sé um svo alvarlega verknaði að ræða, að brýna nauðsyn beri til, að reynt sé að draga úr þeim eins og hægt er, og telur n., að þær till., sem hér eru fram bornar, miði að því að draga úr slíkum brotum sem hér er um að ræða.

Það er því till. allshn., að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir.