16.02.1956
Neðri deild: 71. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

140. mál, hegningarlög

Fram. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 frá 12. febr. 1940, og leggur nefndin til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Í frv. þessu, sem er stjfrv., komið frá Ed., er lagt til, að sú breyting verði gerð á 259. gr. hegningarlaganna, að það varði skilyrðislaust refsingu að taka farartæki annars manns í heimildarleysi og nota það, alveg án tillits til þess, hvort eigandi farartækisins kann að óska eftir því, að þeim, sem sekur gerist um stuldinn, verði refsað eða ekki. Samkvæmt gildandi ákvæðum hegningarlaganna um þetta atriði verður þeim, sem sekur gerist um slíkan stuld, aðeins refsað, ef eigandi farartækisins óskar eftir, að svo verði gert.

Eins og kunnugt er, hefur bifreiðastuldum mjög fjölgað nú upp á síðkastið, og verður að telja eðlilegt og sjálfsagt, að löggjafinn geri það, sem í hans valdi stendur, til þess að reyna að stemma stigu við þessum ófögnuði með því að leggja þungar refsingar við því, að slíkir stuldir séu framdir, og með það í huga hefur allshn. orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.