06.12.1955
Neðri deild: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur út af fyrir sig ekki andmælt því, að þær kröfur, sem ég fer fram á með brtt. á þskj. 162, væru réttmætar. Það má náttúrlega á það benda, að það má mæta þessu máli á ýmsan veg, og það kann að vera, að það sé ekki rétt að vera að ræða þau mál hér. En við vitum allir, að það stendur yfir fjárlagaafgreiðsla, og ég hygg, að það sé þannig gengið frá þeim málum, að það sé tæplega hægt að benda á, að Dalamenn á næsta ári hafi neitt aukna atvinnu frá því opinbera, svo að þeir fara ekki á feitum fáki í þeim efnum. Ef á að hugsa sér, að menn komist nokkurn veginn af, þá verður að reyna aðrar leiðir, og ég er farinn að kynnast fjárlagaafgreiðslunni það vel, að ég veit, að þó að eitthvað líkt standi á og þarna er í Dalasýslu nú, þá er ekki harla mikið tillit tekið til þess. Það voru fjárskipti í Dalasýslu 1950, og mér var kunnugt um það þá, að það var ekki tekið tillit til þeirra við afgreiðslu fjárlaga í það skipti, og ég hygg, að það verði þannig nú. Mér er vel ljóst, að ef brtt. mín verður ekki samþ., þá verða það margir bændur, sem heltast úr lestinni. Og eitt af mestu vandamálum landbúnaðarins í dag er það, hversu fámenn bændastéttin er, og í öðru lagi það, hversu misjöfn afkoma bændanna er. Ég veit vel, að í þessu landi eru bændur, sem vel geta kallazt stórbændur, og í öðru lagi bændur, sem kannske eru í meðallagi, og þeir eru því miður of fáir, og í þriðja lagi bændur, sem eru nokkuð fyrir neðan meðallag, þannig að þeirra afkoma hlýtur undir öllum kringumstæðum að verða þeim mun lakari sem afkoma hinna bændanna verður betri. Og þegar lög hafa verið afgreidd hér frá Alþingi, hefur ekki ávallt verið tekið tillit til þessa, þótt að nokkru væri það gert í fyrra við afgreiðslu jarðræktarlaganna, því að maður veit, að sá bóndi, sem hefur bú nokkuð langt fyrir ofan meðalbúið, hefur raunverulega alltaf meira fyrir sínar afurðir en honum í raun og veru ber, en hinn, sem hefur bú fyrir neðan meðalbúið, þeim mun minna, svo að það verður að fara aðrar leiðir til þess að bæta honum afkomuna og reyna að ná þeim bændum eitthvað fjárhagslega upp. Fari svo, að þessi till. mín, sem ég hef hér borið fram, verði felld við þessa umr., þá mun ég við 3. umr. koma með aðra brtt. til þess að þrautreyna vilja Alþ. í þessu máli.