30.01.1956
Efri deild: 55. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal fyrst snúa mér að brtt. hv. þm. Str. Nefndin hefur ekki haldið um hana fund, en við erum hins vegar búnir að rabba okkar á milli um hana. Hún kom fram í Nd. og hafði þar engan byr. (Gripið fram í.) Það er nú ekki hálft lambsverð, sem ætlazt er til að sé greitt, heldur 3/4, eins og lögin eru núna, og leiðrétti ég það þá svona í framhjáhlaupi í ræðu hv. þm. Str.

Það skal viðurkennt og fúslega viðurkennt, að þegar um þessar bætur er að ræða, þá verða aldrei fundnar neinar reglur, sem ganga jafnt yfir alla. Hv. þm. Str. hélt, að betri jöfnuður næðist með því að samþykkja till. hans, en það held ég að sé misskilningur, því að þegar menn í heilli sýslu hafa búið frá síðustu fjárskiptum venjulegum búskap, þá er hlutfallið milli fjár á ýmsum aldri orðið nokkurn veginn svipað á búunum öllum. Það getur munað einhverju svolitlu, en það munar ekki neinu verulegu, svo að að því leyti verða fjárbætur veittar eftir 38. gr. nokkurn veginn réttlátar milli manna. En það er annað, sem þarna kemur til. Þarna kemur til, að sumir menn á þessu svæði eiga kannske um 45% af ánum tvílembdar, og þeir, sem eiga minnst, eiga ekki lamb á á. Þegar þeir eiga svo að fá fjárbætur sem svarar 3/4 af meðallambsverði á viðkomandi sláturstað, sem er slátrað í, eins og það hefur verið hjá þeim undanfarandi ár, þá náttúrlega fá þeir ekki hlutfallslega jafnt, miðað við það, sem þeir missa, og vantar mikið á. Þarna kemur það líka til, að féð er ákaflega misvænt á þessu svæði. Meðallambsverðið á þessum svæðum er svo misjafnt, að ef við förum norður í Klofningshrepp og Skarðshrepp, þá erum við komnir niður í lambaþunga, sem liggur í kringum tæp 13 kg, en ef við förum í 2–3 jarðir á þessu svæði, sem nú stendur til að gera fjárskipti á, sem tilheyra Óspakseyrarhrepp, og það var slátrað þar áður, þá erum við með meðallambaþunga, sem er upp í 17 og 18 kg, svo að líka þar kemur misjafnt fram, þegar á að miða við lambaþungann eins og hann er á svæðinu öllu.

Þess vegna held ég, að hvernig sem að verði farið, verði aldrei fundin nein aðferð, sem gangi jafnt yfir alla hlutfallslega. Það yrði þá kannske helzt með því að setja í staðinn fyrir 3/4 lambsverðs á bótaskylda kind í byrjun 38. gr. 3/4 ærafurða á bótaskylda kind. Það væri kannske helzt með því að setja það inn. En þó næst það ekki heldur nema að nokkru leyti með því, nema bætur verði misjafnar frá bæ til bæjar eftir vænleika fjárins, en þá yrði nú vinnan ekkert smáræði.

Ég held, að a. m. k. allir þeir nefndarmenn, sem ég hef talað um þetta við, sjái ekki ástæðu til þess að fara að samþ. þessa till. Ég skal ekki segja neitt um það, hvort þessar bætur eru nægjanlegar eða ekki, en benda vil ég þó á það, að bændur í Hegranesi vildu heldur vera fjárlausir og fá bæturnar en taka lömb strax og þeir áttu kost á því, og það voru þeir í þrjú ár, þangað til búið var að skera niður líka vestan vatna og lömb sett á allt svæðið og þeir urðu að taka lömb. Vitanlega gátu þeir ekki, ef þeir hefðu fengið fé strax, rekið það til afréttar. Þeir hefðu orðið að hafa það heima, en ég hugsa nú samt, að ef þeir hefðu talið það miklu arðvænlegra að hafa féð en fá bæturnar, þá hefðu þeir tekið það. Þess vegna held ég um bæturnar, sem þá voru ekki nema 1/2 lambsverð á bótaskylda kind, en núna eiga að vera 3/4, og það stafar af breyttu verðlagi, að þær hafa verið hækkaðar, að það sé vel í lagt, þegar annars vegar er miðað við heildina, sem þarf að greiða það, og hins vegar mennina, sem eiga að þiggja það, og því sé stillt sæmilega vel í hóf.

Þá hefur forseti deildarinnar talað um það við nefndarmennina, að það hafi verið samkomulag milli þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa, að inn í frv. yrðu sett einhver ákvæði, sem tryggðu frekar en nú er, að lögin yrðu ekki brotin. Hann hefur bent á það réttilega, að útbreiðsla fjárpestanna um landið hafi ákaflega víða og kannske hér um bil alls staðar stafað af meiri og minni óaðgæzlu fjáreigenda og meiri og minni trassaskap við að hlíta þeim reglum og fyrirmælum, sem lögin hafa sett og sauðfjársjúkdómanefndirnar hafa reynt að láta menn fylgja til þess að fyrirbyggja útbreiðslu fjárpestanna. Ég hef talað um þetta við landbrh., sem viðurkennir, að það hafi verið umtal um það og hann hafi tekið því líklega að setja inn í lögin ákvæði um, að þeir menn, sem með vítaverðu hirðuleysi eða af ásettu ráði brytu lögin og yrðu þess valdandi, að fjárpestirnar útbreiddust, misstu rétt til allra krafna um bætur, þegar fjárskipti færu fram eða niðurskurður eða til annars slíks þyrfti að taka.

Ráðh. óskar beinlínis eftir því í samráði við forseta þessarar d., þeir eru saman um það og sjálfsagt fleiri, að inn í lögin komist einhver slík ákvæði. Nú er það á móti þessu, að brot við lögum eru venjulega ákveðin af dómurum, og ég hygg, að það sé almennt viðtekin regla, að sama brot sé dæmt eins. En ef sett væru inn í lögin skilyrðislaus ákvæði um það, að hver sá maður, sem yrði brotlegur við þau, missti allan rétt til bóta, þá er það í raun og veru sekt, sem hann er látinn borga fyrir brot á lögunum og gæti komið óskaplega misjafnlega út. Ef einhver maður hérna t. d. í Reykjavík, þar sem margir eiga svona 10 kindur og jafnvel þar fyrir innan, bryti ákvæðin og yrði þess valdandi, að fjárpestirnar breiddust út, þá missti hann rétt til bóta fyrir þessar 10 kindur, þegar fjárskipti færu fram, og hann yrði kannske sauðlaus eitt ár og kannske ekki. Hann missti rétt til þessara 2/3 bóta, sem við þm. Str. vorum áðan að tala um, og það væri fyrir 10 ær. En þar sem féð er flest á bæ á landinu, er nokkuð á sjötta hundrað á sama bænum, og ef sá maður bryti, þá missti hann bótarétt á allan hópinn. Tvö brot þess vegna, alveg nákvæmlega eins, ef báðir væru sviptir rétti til bóta fyrir brotið, yrðu þarna dæmd geysilega misjafnt, ef þetta væri sett inn í lögin skilyrðislaust, og mér segja lögfræðingar, að það geti eiginlega varla gengið, það brjóti í bága við allar réttarvenjur í landinu.

Við höfum svo verið að reyna að finna eitthvað, sem gæti komið í þessa átt og verið aðhald að mönnum um að brjóta ekki lögin, því að sannarlega hefur það verið allt of litið. Það var t. d. gersamlega ástæðulaust, þegar bóndi hér í nágrenni Reykjavíkur fór í vor austur í Landeyjar og keypti þar 12 kýr, seldi þær, þegar hann kom með þær hingað. suður, á ýmsa bæi í sveitinni hér í kring, og nú eru 3 af þeim dauðar úr garnaveiki og garnaveiki komin á þá bæi, sem kýrnar voru seldar á. Hann flutti þær yfir varðlínuna án leyfis, og það var algert brot. Svoleiðis hirðuleysi á að refsa. Það eru heimildir til að refsa þeim núna fyrir brot á lögunum eða reglugerðum og fyrirmælum, sem sett verða samkvæmt þeim. Það varðar nú sektum allt að 50 þús. kr. En þeim sektum hefur ekki verið beitt, og þær voru í eldri lögunum miklu lægri, en eru hækkaðar núna í þessum. Það mætti nefna fjöldamörg dæmi um svipað hirðuleysi eða óaðgæzlu eða hvað við eigum að kalla það hjá mönnum við að brjóta reglur og lög. Þess vegna höfum við soðið hérna saman till., sem gæti kannske eitthvað hert á þessu og ég held þó að brjóti ekki í bága við þessa almennu reglu, sem ég áðan nefndi og ég héldi að skilyrðislaus ákvæði mundu brjóta í gegn. Hún er um viðbót við 46. gr., en hún hljóðar svona: „Brot gegn lögum þessum svo og reglugerðum og fyrirmælum, er sett verða samkvæmt þeim, varðar sektum allt að 50 þús. kr. eða fangelsi, og skal með mál út af slíkum brotum farið sem almenn lögreglumál.“ Aftan við þessa grein bættist þá, ef menn vildu reyna að taka upp þetta sjónarmið, sem mér skilst að þeir menn, sem um það hafa rætt í stjórnarflokkunum, hafi verið sammála um: Sauðfjársjúkdómanefnd hefur heimild til að lækka bótagreiðslur eftir lögum þessum eða fella þær alveg niður, ef réttarrannsókn sannar, að bótaþegi hafi af ásettu ráði eða vísvitandi hirðuleysi brotið fyrirmæli laganna eða fyrirmæli sauðfjársjúkdómanefndar. — Þarna er heimild, og að einhverju leyti eða öllu gæti orðið samræmi í því, hvernig því væri framfylgt, að hve miklu leyti þær væru látnar falla niður, hvort það væri gert að öllu leyti eða einhverju leyti, og í framkvæmdinni gæti skapazt um það regla. En þetta ákvæði mundi að líkindum geta stutt eitthvað að því, að menn legðu meiri alúð við að hlýða lögunum og fyrirbyggja útbreiðslu pestanna en gert hefur verið. Þessi till. er skrifleg. Ég get ekki sagt, að hún sé frá allri nefndinni, en ég býst við, að meiri hluti nm. standi samt að henni. Ég skal afhenda forseta hana, og þá kemur hún til með að liggja fyrir til umr.