28.02.1956
Efri deild: 77. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

134. mál, skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það voru tvö atriði, sem mig langaði til að taka fram. Fyrra atriðið er það, að ég vil þakka n. fyrir, að hún bar þetta saman við þá samninga um tvísköttun, sem við höfum bæði við Svíþjóð og Danmörku. Ég sætti mig við það, sem frsm. sagði um það, enda þótt ég sjái, að þarna geta orðið árekstrar.

Svo var annað atriði, sem mig langaði til að fá vitneskju um og kannske að það þurfi að setja eitthvað um inn í lögin.

Þessir útlendingar, sem hingað koma í atvinnuskyni og eru nokkuð margir, eins og atvinnuháttum okkar er háttað núna og eftirspurn er eftir fólkinu, borga allflestir farið upp. Eftir íslenzkum lögum má draga frá ferðir á milli vinnustaða, ef þær eru dálítið langar og kosta dálitla peninga. Á að gera það með þessa menn? Það hefur aldrei verið gert. Þeir hafa aldrei fengið frádrátt fyrir fari hingað upp hingað til. Nú eru rýmkuð þeirra réttindi, og þeir eru að ýmsu leyti settir jafnfætis Íslendingum, sem fá frádrátt fyrir kostnaði við að ferðast á milli vinnustaða. Það getur vel verið, að það þurfi ekkert um þetta að setja í lögin. Þó verður það deiluatriði milli skattyfirvaldanna í náinni framtíð, ef þeir fara fram á það, og þá er ég helzt á því, án þess að hafa rannsakað það nákvæmlega, að þeir verði að fá það til frádráttar eftir þessum lögum. (Fjmrh.: Þeir verða vafalaust að fá það.) Mér skilst það. (Fjmrh.: Það er líka eðlilegt.) En þeir hafa ekki fengið það. — Ja, eðlilegt, ég veit það nú ekki. Sumir af þessum mönnum koma til að vera hér tvo mánuði meira sér til skemmtunar og fá meiri frádrátt en þeir vinna sér inn fyrir með því móti, séu þeir mjög stutt. Ég veit ekki, hvað eðlilegt það er, en mér skilst, að eftir þessum lögum fái þeir rétt til þess að fá frádrátt vegna ferðakostnaðar. Mér skilst það. Maður, sem fer héðan til Danmerkur og vinnur þar, fær það ekki. Það er ekki litið á að láta hann hafa það, hann hefur aldrei fengið það, og enn er ekki talað um að láta hann hafa það. Hann borgar bara af kaupinu sínu, meðan hann er þar, og fær engan frádrátt fyrir ferðakostnaði. Því er Íslendingurinn, sem vinnur í Danmörku, t. d. verr settur en Daninn, sem vinnur hér. Ég er nú ekki viss um, hve sanngjarnt þetta er, það má sjálfsagt deila um það, en um það skal ég ekki ræða frekar.