14.10.1955
Efri deild: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

13. mál, innheimta ýmis gjöld 1956 með viðauka

Fram. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld 1956 með viðauka er ekki neitt nýmæli, því að lög sama efnis hafa verið framlengd ár frá ári á undanförnum þingum. Fjhn. hefur athugað frv., og er hún sammála um, að ekki veiti af því að framlengja þennan tekjuauka enn á næsta ári. Ég fyrir mitt leyti vildi gjarnan óska þess, að það þyrfti ekki meira til en að framlengja þá tekjustofna, sem gilt hafa undanfarin ár, en mér sýnast öll sólarmerki þannig, að ekki muni nú veita af að bæta við tekjur ríkissjóðs í stað þess að draga úr þeim. Ef á að leggja fram fé til atvinnuleysistrygginganna samkv. því, sem ríkisstj. hefur gefið fyrirheit um, ef á að bæta að einhverju leyti það tjón, sem leitt hefur af ótíðinni hér á Suður- og Vesturlandi, og ef á svo þar að auki að bæta upp verð á síld, sem veidd er hér við Suðurland í haust, ofan á allt annað, sem áður hefur verið og er, þá vil ég sízt af öllu ábyrgjast, að þeir tekjustofnar, sem nú eru fyrir hendi og framlengdir verða sjálfsagt, nægi í allt þetta, þannig að það er sízt af öllu ástæða til að efast um, að ríkið þurfi að hafa þá tekjustofna, sem það hefur haft undanfarin ár. Þess vegna er það líka, að fjhn. er sammála um að mæla með samþykkt þessa frumvarps.