28.02.1956
Efri deild: 77. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

163. mál, þjóðskrá og almannaskráning

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. felur í sér alveg nýtt fyrirkomulag almannaskráningar í landinu. Nýrri skipan hefur að vísu verið nú þegar komið í framkvæmd um þetta efni, án þess að löggjöf hafi verið sett um það, en réttara þykir að setja um þetta löggjöf, og er því flutt hér nú frv. að nýrri löggjöf. En það, sem framkvæmt hefur verið fram að þessu, hefur verið gert m. a. með hliðsjón af ákvæðum í skattalögunum frá 1954 um, að gjaldendur skuli skattlagðir þar, sem þeir eru taldir heimilisfastir samkvæmt allsherjarspjaldskrá hagstofunnar, miðað við 1. des. á viðkomandi skattaári. Samkvæmt þessu hefur allsherjarspjaldskráin undanfarið látið sveitarstjórnum og skattanefndum í té íbúaskrár, sem álagning opinberra gjalda hefur verið byggð á. Þá hefur allsherjarspjaldskráin einnig byggt starfsemi sína á þeirri ákvörðun dómsmrn. frá 1954, að hún láti sveitarstjórnum í té stofn að kjörskrá, sem verður fullgild kjörskrá, þegar sveitarstjórn hefur leiðrétt stofninn og áritað á lögboðinn hátt.

Þó að allsherjarspjaldskráin gæti enn um sinn starfað á grundvelli gildandi löggjafar, er mjög æskilegt, að horfið verði að lagasetningu eins og ég sagði áðan, m. a. vegna þess, að það þarf að ákveða henni fjárhagsgrundvöll til frambúðar. Stofnaðilar þessarar skrár, þ. e. a. s. berklavarnir ríkisins, bæjarsjóður Reykjavíkur, fjármálaráðuneytið, hagstofan og Tryggingastofnun ríkisins, hafa greitt stofnkostnað hennar, en nú er talið, að tími sé kominn til að ákveða, hvernig rekstrarkostnaður verði borinn framvegis.

Ég skal í örfáum orðum gera grein fyrir, í hverju þessi nýja skipun er frábrugðin eldra fyrirkomulagi. Með stofnun þjóðskrárinnar, eins og hún er kölluð í frv., er einum aðila falin yfirstjórn allrar almennrar skráningar í landinu, en aðalgalli tilhögunar þessara mála hingað til hefur einmitt verið sá, að ekki hefur verið um að ræða neitt eftirlit með framkvæmd manntalsskráningar í landinu í heild sinni. Í annan stað hefur skráning manna ekki verið samræmd milli umdæma innbyrðis nema að mjög litlu leyti. Þannig hefur það verið undir hælinn lagt, hvort þeir, sem horfið hafa af skrá einhvers umdæmis, hafa raunverulega verið teknir á skrá í öðru umdæmi eða ekki. Hefur því kveðið talsvert að því, að menn hafi fallið undan skráningu og sloppið þannig jafnvel við opinber gjöld.

Það er meginatriði í þessari nýju skipun, að landið í heild er eitt skráningarsvæði og ein skrá gerð fyrir það allt. Menn eru því ætíð einhvers staðar skrásettir innan þjóðskrárinnar, og þjóðskráin vinnur stöðugt að því að samræma skráningu milli umdæmanna innbyrðis, en áður var, eins og ég sagði áðan, hvert umdæmi út af fyrir sig og einangrað nokkuð frá öðrum umdæmum. Sá meginmunur er og á eldri tilhögun þessara mála og hinni nýju, að í stað þess að taka manntal árlega og skrá alla með fullum upplýsingum árlega, hvort sem breytingar hafa orðið frá fyrra ári eða ekki, er nú gert ráð fyrir niðurfellingu árlegra manntala, en breytingar frá ári til árs eru framkvæmdar í skránni eftir sérstökum gögnum, þ. e. tilkynningum um aðsetursskipti manna, skýrslum presta um fæðingar, skírnir, hjónavígslur og mannslát, auk ýmissa annarra gagna, sem aflað er til skráningar árlega. Hér er um að ræða mikla breytingu frá því, sem verið hefur, og felur hún í sér margt til bóta, en á hinn bóginn fylgja henni mikil vandkvæði í sambandi við öflun gagnanna, sem um er að ræða og ég nefndi hér áðan. Er það einkum skyldan til að tilkynna aðsetursskipti manna, sem erfitt hefur verið að fá almenning til að hlíta, en á árinu sem leið hafa orðið mikil umskipti til hins betra í þessu efni, og ástæða er til að ætla, eftir því sem kunnugir fullyrða, að gagnasöfnunin komist alveg í lag, áður en langt líður, og að full not verði þá af þessari spjaldskrá.

Eitt helzta verkefnið, sem á að leysa með þessu, er að láta hverjum sem er í té upplýsingar um aðsetur manna, hvar sem er á landinu, og margt annað, sem hér til heyrir. En áður var ekki til nein slík allsherjar upplýsingastöð, þar sem innheimtustofnanir, fyrirtæki og einstaklingar gátu fengið upplýsingar um menn.

Það, sem öllu öðru fremur greinir hina nýju skipan þessara mála frá eldra fyrirkomulaginu, er hin víðtæka notkun véla til vinnunnar við að gera spjaldskrána. Notkun þessara véla felur í sér gerbreytt vinnubrögð og stóraukin afköst frá því, sem áður var, og mikinn sparnað. Vélarnar hafa ekki aðeins þýðingu fyrir starfrækslu skrárinnar fyrir alla landsmenn, heldur fela þær í sér möguleika á endurskipulagningu vinnubragða á mörgum öðrum sviðum í opinberum rekstri. Þannig hefur skattstofa Reykjavíkur hagnýtt vélaspjaldskrána til að reikna út í vélum opinber gjöld, gera skatt- og útsvarsskrár og margt annað, sem hér til heyrir, og það ekki aðeins fyrir Reykjavík, heldur líka fyrir kaupstaði í námunda við Reykjavík, og á þessu ári verða þessi verk unnin í vélum fyrir allt svæðið frá Rangárvallasýslu að Mýrasýslu, að báðum sýslum meðtöldum. Þegar allt er saman lagt, þá er ástæða til að vænta góðs árangurs af þessu nýmæli, þótt ýmsir byrjunarörðugleikar hafi gert vart við sig, en það vottar óðfluga fyrir því, að þeir verði yfirunnir.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að ríkið borgi 90% af kostnaðinum við skrána, — en það hefur ekki verið svo í stofnkostnaðinum, þá hafa aðrir aðilar greitt meira, — en Tryggingastofnun ríkisins borgi 10%. Það er sem sé gert ráð fyrir því, að bæjar- og sveitarfélögin fái ókeypis upplýsingar frá þessari skrá framvegis.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að þessu máli verði vísað til allshn., hygg ég, frekar en fjhn. Annars get ég lagt það á vald forseta, upp á hvoru hann stingur í því. Ég held, að það sé kannske frekar allshn., sem ætti að fá svona málefni, heldur en fjhn. að lokinni þessari umr.