24.11.1955
Efri deild: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

109. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og rakið er í grg. frv. þess, er hér er til umr., stefnir það að því að gera nokkrar nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum. Inn í frv. hafa að sjálfsögðu verið felldar þær tvær breytingar, sem gerðar hafa verið á gildandi lögum um þessi efni, lög nr. 22 frá 30. jan. 1945, um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum, en breytingarnar eru lög nr. 12 frá 28. febr. 1947 og lög nr. 3 frá 18. jan. 1952. Í gildandi lögum er svo ákveðið, að sérstakt leyfi þurfi að hafa til að mega annast gegn borgun fólksflutninga í bifreiðum, sem stærri eru en svo, að þar rúmist 6 farþegar.

Þegar gildandi lög voru sett, voru yfirleitt ekki stærri leigubifreiðar til á bifreiðastöðvum en fyrir 5–6 farþega. Nú er þetta breytt þannig, að á ýmsum bifreiðastöðvum eru nú til bifreiðar, sem rúma 7–8 farþega. Að lögunum óbreyttum mundi óheimilt að annast akstur til fólksflutninga á slíkum bifreiðum án sérstaks leyfis.

Það verður að telja, að ekki sé rétt að leggjast gegn þessari þróun, sem orðið hefur í samgöngutækninni. Þess vegna er lagt til, að takmarkið, sem í l. er miðað við 6 farþega bifreiðar, verði 8 farþega bifreiðar. Þannig mundi, ef frv. verður að lögum, hinum stóru nýju stöðvarbifreiðum heimilt að aka eins og 6 manna bifreiðum eftir gildandi lögum án sérleyfis, þótt það væri ekki fremur en nú heimilt að halda uppi föstum ferðum án sérleyfis.

Þá er einnig felld niður 3. mgr. 1. gr. gildandi laga, sem kveður svo á, að sérleyfi þurfi ekki til fólksflutninga endrum og sinnum með bifreiðum, sem skráðar eru til vöruflutninga. Hér er átt við vörubifreiðar með farþegaskýli á palli. Slíkir flutningar hafa nú lagzt niður, og þykir því ekki ástæða til að hafa þetta ákvæði í lögum áfram.

Loks er í 1. gr. frv. skilgreint nokkru nánar, hvað teljist áætlunarbifreiðar í skilningi laganna. — Að öðru leyti álít ég, að frv. þarfnist vart skýringa, enda flestar þær breytingar, sem það felur í sér, skýrðar í greinargerð.

Ég óska svo eftir, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.