23.01.1956
Efri deild: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

109. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 130, eru dregin saman í eina heild gildandi lög um skipulag fólksflutninga með bifreiðum. Það eru lög nr. 22 30. jan. 1945, lög nr. 12 1947 og lög nr. 3 1952. Tvenn þau síðarnefndu eru breytingar á fyrstnefndu lögunum, nr. 22 1945.

Þá eru nokkrar nýjar breytingar á l. í frv., og er þær að finna í 1. gr. frv. á þskj. 130. Skal ég nú gera nokkra grein fyrir þeim.

Í lögum nr. 22 30. jan. 1945, um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum, er ákveðið í 1. gr., að sérstakt sérleyfi þurfi til þess að hafa með höndum fólksflutninga með bifreiðum, sem stærri séu en svo, að þær rúmi 6 farþega. Þegar lög þessi voru sett, voru yfirleitt ekki notaðar stærri bifreiðar til leiguaksturs á bifreiðastöðvum en svo, að þær tækju 5–6 farþega. Nú hefur sú breyting orðið á að nokkuð af 7–8 farþega bifreiðum hefur verið flutt til landsins og er á bifreiðastöðvunum til notkunar, en eins og áður segir, er ekki heimilt að óbreyttum lögum að nota þær til fólksflutninga á sérleyfisleiðum án sérleyfis. Til að gera þessar bifreiðar löglegar að þessu leyti, er gert ráð fyrir í frv. að breyta lögunum á þann veg að færa stærðartakmörkun úr 6 farþega í 8 farþega bifreiðar. Ég hef lítils háttar orðið var við það álit, að ákvæði þetta, ef að lögum yrði, mundi rýra hag sérleyfishafa, og væri því ekki óeðlilegt, að spurt væri, hvort þeir væru ekki mótfallnir þessum breytingum. En því er til að svara, að n. hefur kynnt sér það, að frv. er samið í samráði við stjórn Félags sérleyfishafa, og er það því með vitund þeirra og samþykki, að lagt er til, að þessi breyting verði gerð á lögunum.

1. málsl. 1. gr. frv. er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Engum er heimilt að hafa með höndum fólksflutninga með bifreiðum, sem stærri séu en svo, að þær rúmi 8 farþega“ — þarna voru í lögunum 6 — „nema hann hafi til þess sérleyfi frá ríkisstjórninni.“ Breytingin er sem sagt, að stærðarhlutfallið er fært í 8 farþega úr 6, og er þetta fyrsta breytingin.

Þá segir í 2. málsl. 1. gr.: „Slíkt sérleyfi þarf og til þess að hafa á hendi fastar ferðir eða áætlunarferðir til fólksflutninga með bifreiðum, sem rúma 3–8 farþega .“ Þarna er um að ræða breytingu, því að í núgildandi lögum segir: „Slíkt sérleyfi þarf og til þess að hafa á hendi fastar ferðir eða áætlunarferðir til fólksflutninga með bifreiðum, er rúma 6 farþega eða færri.“ Samkvæmt þessu ákvæði er vörubifreiðum, sem rúma einn farþega eða tvo, óheimilt að taka farþega á sérleyfisleiðum. Þessu ákvæði sérleyfislaganna mun aldrei hafa verið framfylgt eða sama og ekki, og virðist vera rétt að nema það ákvæði úr lögunum.

Við framkvæmd sérleyfislaganna hefur gætt nokkurs misskilnings eða ágreinings um ákvæðin, hvað skuli teljast fastar ferðir eða áætlunarferðir. Til að koma í veg fyrir ágreining eða misskilning og gera þetta ákvæði skýrara og ákveðnara er þessi málsl. tekinn upp í 1. gr. frv.: „Til áætlunarferða teljast í lögum þessum allar auglýstar ferðir og allar ferðir, þar sem farþegum eru seld einstök sæti í bifreiðum á ákveðinni leið.“ Þetta er sem sagt nýr málsl., sem settur er þarna inn til þess að gera þetta ákvæði skýrara og ákveðnara.

Í núgildandi lögum er svo hljóðandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta: „Sérleyfi þarf ekki til fólksflutninga endrum og sinnum með bifreiðum, sem skráðar eru til vöruflutninga, enda sé umbúnaður þeirra til öryggis og þæginda farþeganna samkvæmt reglum, er ráðherra setur, og hafi bifreiðarstjóri þeirra rétt til að stýra leigubifreið til fólksflutninga.“ Ákvæði þetta var sett í lögin vegna hinna svokölluðu „bodybíla“, en það voru, sem kunnugt er, vörubifreiðar með lausu farþegaskýli á vörupalli. Ákvæði þetta er ekki tekið upp í frv. nú, enda notkun þessara bifreiða til fólksflutninga að mestu fallin niður, a. m. k. á langleiðum, og er ekki eftir því að sjá, m. a. af öryggisástæðum, enda eru heimilaðir án sérleyfis fólksflutningar með stórum bílum innan lögsagnarumdæma eða hvers lögsagnarumdæmis, ef um hópferðir er að ræða á héraðsmót eða almennar skemmtanir.

Allar þessar breytingar, sem ég nú hef minnzt á, er að finna í 1. gr. frv.

2.–9. gr. frv. eru sem sagt alveg samhljóða gildandi lögum um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þær.

10. gr. er um það, hvenær lögin taki gildi, og jafnframt um það, að numin skuli úr gildi þau lög, sem gilda nú um þetta efni og ég hef minnzt á áður.

Í frv. segir, eins og það liggur nú fyrir: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1956.“ Þar sem nú er komið fram í janúarmánuð, hefur n. verið sammála um að flytja brtt. við þetta; hún er prentuð á þskj. 268 og er svo: „Fyrri málsl. 10. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Samgmn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og lítur svo á, að breytingar þær, sem það felur í sér, séu yfirleitt til bóta. Leggja 4 nm. til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 130. En einn nm., hv. þm. V-Sk. (JK), skrifar undir nál. með fyrirvara og hefur nú borið fram tvær brtt. við frv., og eru þær prentaðar á þskj. 257. Ég ætla ekki að ræða þessar brtt. neitt, en vil aðeins geta þess, að hv. fhn. þeirra minntist á þessi atriði undir meðferð málsins í n., en nm. gátu ekki fallizt á að gerast flm. að þeim eða taka þau upp sem sérstakar brtt. við frv. Og eins og segir í nál. frá n., leggja 4 nm. til, að frv. sé samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 130.

Að öðru leyti hafa nm. auðvitað óbundnar hendur um till. þessar, þegar að Alþingi. kemur.