09.03.1956
Neðri deild: 84. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

158. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það fór nú á sömu leið og í fyrra skiptið hjá hv. þm. V- Húnv., að hann færði ekki nein rök fyrir sinni athugasemd á þá leið, að það væri um tiltölulega miklu meiri eftirstöðvar að ræða í öðrum lögsagnarumdæmum en þeim, sem hér eru nefnd. Hins vegar hef ég rekið mig á það eða athugað það, að það eru tvö umdæmi sérstaklega, sem við nefnum ekki þarna, sem hafa hlutfallslega hærri eftirstöðvar en sum hinna. Þessi umdæmi eru Siglufjarðarkaupstaður og Strandasýsla. En þannig stendur á í báðum þessum umdæmum, að þar hefur verið á undanförnum árum að vissu leyti hálfgert neyðarástand og ekki sambærilegt við beztu héruð landsins. Þar að auki er það svo, að í báðum þessum umdæmum höfðu eftirstöðvarnar lækkað til stórra muna frá árinu áður, og það er atriði, sem við yfirskoðunarmenn tökum mjög mikið tillit til, hvort eftirstöðvarnar hafa lækkað eða hækkað frá næsta ári áður. Það er t. d. að segja um Strandasýslu, að þar voru eftirstöðvar 248 þús. árið 1952, en fara ofan í 116 þús. árið 1953. Þær eru að vísu hlutfallslega hærri en t. d. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, en þar höfðu eftirstöðvarnar hækkað úr 159 þús. í 296 þús., og ég verð að segja það, að ég held, að það trúi því enginn maður, sem um það hugsar, að í slíku héraði sem Mýra- og Borgarfjarðarsýslu þurfi að vera eftirstöðvar eftir árið 1953 upp undir 300 þús. kr. af tekjum ríkisins, en mér skildist á hv. þm. V-Húnv. í gær, að það væri sérstaklega sú sýsla, sem hann gerði sína aths. út af. Varðandi Siglufjarðarkaupstað fóru eftirstöðvar þar úr 760 þús. árið 1952 ofan í 561 þús., og það er sannleikur, að á þeim stað hefur verið slíkt ástand, að það er meiri vorkunn þar en viðast annars staðar á landinu, þó að illa gangi innheimta.

Nú er það svo, að aðalatriðið í okkar aðfinnslu er eftirstöðvarnar í heild sinni, að okkur þykir þær óeðlilega miklar, og við fáum loforð frá ráðherra um, að nú skuli gengið fastar að þessu. Það loforð hefur sjálfsagt verið efnt með því að senda bréf til innheimtumannanna eða tala við þá um að herða betur á innheimtunni, en mér er ekki kunnugt um, að sú aðferð hafi verið höfð í því efni, eins og oft var hér áður, að senda menn til að athuga hjá þeim mönnum, sem innheimtan er óeðlilega slöpp hjá. Nú höfum við fengið hér í hendur prentaðan ríkisreikninginn 1954, þó að við yfirskoðunarmenn séum ekki búnir að ljúka við yfirskoðun hans, og þar kemur í ljós, að eftirstöðvar hafa aukizt um meira en sjö milljónir frá árinu 1953, og þar að auki hefur verið fellt úr eftirstöðvum á því 1812000 kr. Útistandandi óinnheimtar tekjur hafa því aukizt á því ári um hátt á níundu milljón. Ég held þess vegna, að það sé síður en svo nokkur ástæða fyrir einn eða neinn að vera með athugasemdir út af því, þó að við, sem til þess erum settir af hálfu Alþingis að athuga fjárreiður ríkisins, finnum að því, að óinnheimtar eftirstöðvar af ríkistekjum séu meiri en við teljum að góðu hófi gegni.