09.03.1956
Neðri deild: 84. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

158. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því, að ég hafi ekki nema athugasemdatíma. (Forseti: Hv. þm. hefur þegar talað tvisvar. Ég bendi hv. þm. á það.) Hæstv. forseti veit, að ég hef í þessu máli framsögumannsrétt. (Forseti: Ekki við þessa umr.) Jú, báðar umræðurnar. (Forseti: Ég vil taka það skýrt fram, að hv. þm. hefur aðeins athugasemdarrétt.) Nú, en annars skal ég ekki fara langt út í þetta meira, því að það hafa ekki komið fram neinar upplýsingar um það frá hv. þm. V-Húnv., að við höfum í þessu efni sýnt nokkra hlutdrægni. Það mátti kannske skilja það svo, að það væri helzt hlutdrægni að nefna ekki Reykjavík í þessu sambandi, af því að þar er hæsta upphæðin, en annars höfum við nefnt þau héruð, þar sem hæstar óinnheimtar tekjur eru, og hv. þm. hefur ekki nefnt nein dæmi um, að það væri verra ástand annars staðar. Hitt er það, að hann getur ósköp vel nefnt, ef farið er út í allra nákvæmasta prósentureikning, þau tvö lögsagnarumdæmi, sem ég nefndi, og ég færði rök að því, af hvaða orsökum það er, að við teljum þau ekki með. Ef hann hefur eitthvað fleira í pokahorninu, sem hann vill tilnefna í þessu sambandi, þá er að svara því.